Sýnir færslur með efnisorðinu skólinn. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu skólinn. Sýna allar færslur

þriðjudagur, apríl 21, 2020

Til hamingju með daginn Róm

2773 ára í dag elsku Róm.
Það rignir í dag, aftur.
Himininn grætur af gleði vonandi vegna þess að
Róm hefur aldrei verið eins falleg og þessa dagana.
Engir túristar, engir betlarar, ekkert kraðark.
Fuglarnir syngja af gleði og mengunin í sögulegu lágmarki!




Þetta lag var sungið í brúðkaupinu okkar Ingó þann 29. september 2001
Elsku Margrét Eir okkar flutti af einstakri list!


Verst að geta ekki notið borgarinnar eins og hún er í dag.

Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir því ástandi sem er hér á Ítalíu.
Við sem erum alin upp á gamla góða Fróni þekkjum ekki lögregluríki...
ekki heldur strákarnir mínir sem eru búnir að alast upp hér í Róm sl 9 ár.

En við erum núna háð duttlungum lögreglumanna.
Ef við viljum fara út að versla, í apótekið eða með hundinn
(annað er ekki leyfilegt)
þá þurfum við að skrifa undir yfirlýsingu um hvað við séum að fara að gera.
Ef lögreglumaðurinn sem spyr okkur um skilríki og yfirlýsingu ákveður að 
hann telji okkur ekki eiga erindi... 
eða að við séum að ganga of langa leið í búðina eða...
 eða...
þá getur hann sektað okkur um 300 til 4000 evrur.

Við höfum séð fullt af sögum af fólki sem sektað hefur verið fyrir fáránlegar sakir...
eins og Hjúkrunarfræðingurinn sem kom með ferjunni eftir langa vakt í eyjunni Capri, 
hún beið og beið eftir eiginmanni sínum 
sem ætlaði að sækja hana þar sem strætó var hættur að ganga...
hann hafði verið stoppaður á leiðinni af lögreglunni og fékk ekki að sækja hana.
Sem betur fer komu aðrir lögreglumenn að henni þar sem hún beið og þeir skutluðu henni heim.

Það er alveg ljóst að þó að gert sé ráð fyrir að Fasi 2 byrji 4 maí þá verður ekki farið hratt af stað og mjög líklega verðum við enn nokkuð heft kannski sem betur fer.
Við erum á góðum stað. Okkur líður ágætlega. 
Strákarnir standa sig einstaklega vel í skólanum.
Ég er hins vegar enn nokkuð lasin og veit svo sannarlega ekki hvar ég væri 
andlega og líkamlega ef ég hefði ekki þakið.

Talandi um þakið, hér er Sítrónutrésuppdate


Svona er trjábolurinn svartur núna


en hér að ofan sést að hægt og rólega er myglan að fara af

Hér að neðan eru svo nærmyndir af laufblöðum, sum hreinsuð en önnur enn með helv.. pöddunum enn á blöðunum.



Damatískur himinn á afmælisdaginn!!!

miðvikudagur, apríl 15, 2020

Taxi, snákur og sumarið

Jæja fór á spítalann í gær og náði ekki að taka neinar myndir.
Andrúmsloftið var rafmagnað og ég þurfti ekkert að bíða eða hangsa eins og
 venjulega þegar ég á tíma hjá sérfræðingi.
Ingó fékk auðvitað ekki að koma með mér inn.
Það voru fáir sjúklingar og ég fann mikla spennu í læknum og hjúkrunarfólki.
Hér eru myndir af leigubílnum sem keyrði okkur á San Camillo.


Það er búið að setja þykkt plast á milli bílstjóra og farþega.
Aðeins má flytja tvo farþega í einu.
Allir með grímu og hanska.


Bíllinn er sótthreinsaður tvisvar á dag.
Sama verð og venjulega sem er mjög ódýrt eins og allar samgöngur í Róm.

Í dag mega bóka og ritfangaverslanir, tölvubúðir, barnafataverslanir ofl opna,
en ég veit að litlu búðirnar munu sennilega ekki opna.
Vinkona mín á Antíkbúð og hún selur mikið af bókum og mætti þar af 
leiðandi opna sína búð núna en hún mun ekki gera það.
Í reglunum segir að sótthreinsa þurfi búðina tvisvar á dag.
Fyrir hana væru það 300 evrur á dag eða 47.000 krónur á gengi dagsins í dag.
Það bara borgar sig ekki.

Eins og við höfum verið að sjá síðustu vikur þá hefur þetta lockdown áhrif á dýraríkið okkar.

Jákvæðar fréttir af höfrungum í höfninni í Cagliari (Sardiníu)
Fiskum í canalnum í Feneyjum
Himalayafjöllum sem loksins sjást vegna minni mengunnar osfrv

Í Róm eru fréttirnar þessar;

Risa snákur fannst inní miðri borg, Við Via delle Milizie sem er rétt hjá Vatíkaninu.
Það tók lögregluna 3 klukkutíma að ná honum 
Rotturnar eru líka farnar að færa sig uppá skaptið!!

En snúum okkur nú aftur að innilokuninni.

Dagur 38 í dag!!!

Það er orðið nokkuð ljóst (þó ekki staðfest enn) að skólarnir munu ekki opna aftur fyrr en í haust
og þá er líklegt að það verði með breyttu sniði.
Gera má ráð fyrir að drengirnir mínir muni mæta hálfa vikuna í skólann og hin helminginn í online tíma heima... eða CyberSchool eins og það er kallað á okkar heimili.

Ítalir eru uggandi yfir sumrinu.

Hugmyndin er að við förum af stigi 1 (lockdown) niður í stig 2 þann 4 maí,
hægt og rólega mun lífið færast á rétt ról en gert er ráð fyrir 6 til 8 mánuðum á stigi 2.

Hvað gerist þá í sumar??

Hér eru nokkrar hugmyndir sem birtast nú í fjölmiðlum.




Hvað finnst ykkur??



mánudagur, apríl 13, 2020

Pasquetta

Ég eldaði magnaðan páskamat í gær.
En ég byrjaði á að sjóða kartöflur og uppúr kartöflupokanum kom þetta fallega hjarta 


Sumir sjá kannski rass????


Ég eldaði páskalamb úr Panella súpermarkaðnum okkar.
Þetta er læri sem búið er að skera til hálfs...
ég stakk rósmaríngreinum af þakinu inn í kjötið, með smá dass af ólivuolíu og salti og pipar.



 Lambakjöt, brúnaðar kartöflur, svepparjómasósa, rósakál í laktósafríum rjóma og baunir.


Ég gerði líka pólska páskaskinku og svona leit minn diskur út


Logi fékk svo beinin og svona kúrði hann hjá mér í gær
algerlega rotaður!


Annars er lítið að frétta úr quarantenunni okkar.
Dagur 36 í dag.
Það er hálfskýjað og ég er byrjuð að sinna húsverkum hér í Circolo.
Ætla að þvo og sótthreinsa allar sængur og kodda og setja svo í vakúmpakkningu.

Á morgun á ég tíma á spítalanum hjá Gigtarsérfræðingi. 
Ég er með miklar aukaverkanir af lyfjunum mínum og þá sérstaklega í liðunum á fingrunum.
Þessi tími átti að vera 10 mars en var auðvitað frestað.
Þeir hringdu svo í mig í síðustu viku og klukkan 8.30 í fyrramálið mæti ég á spítalann.
Er nokkuð spennt að sjá hvernig umhverfið verður mun gera mitt besta til að laumast til að taka myndir fyrir ykkur.
Hinrik byrjar aftur í skólanum í fyrramálið... í tölvunni auðvitað en Felix ekki fyrr en á miðvikudaginn.

Nóg í bili.

fimmtudagur, apríl 09, 2020

Skírdagur

Eins og ég er búin að sýna hér þá hef ég verið að sauma grímur vegna þess að grímur eru algerlega ófáanlegar hér í Róm.  Ég er búin að lesa mig mikið til og skoða snið og efni 
og er núna farin að nota ryksugupoka sem filter í bómullargrímurnar.  
Ég hins vegar datt í lukkupottinn í fyrradag þegar ég þurfti að hlaupa í Apótekið mitt á 
Piazza della Scala og Fabio og Alice lyfjafræðingar og vinir mínir stungu að mér grímu sem þau 
voru að fá senda frá Kína

...
og nú geng ég undir nafninu 
"Öndin"

Annars er fimmtudagur, Skírdagur í dag.
En það ótrúlega við Ítalíu, það rammkaþólska land.. 
er að Skírdagur og Föstudagurinn langi eru ekki helgidagar!

Ég skrapp út í Conad áðan og beið í röð til að komast inn:



Allir virða hér fjarlægðir og bíða þolinmóðir.
Fékk svo plashanska þegar ég fór inn, en ég var bara með hanska á hægri þar sem ég átti bara einn áður en ég fór út... 
en ég keypti nýja í Conad.


Þegar ég labbaði svo heim sá ég lögregluna með einn af sínum öryggistálmum við Viale Trastevere.
Stjórnvöld hafa miklar áhyggjur af Páskadegi og sérstaklega Öðrum í Páskum vegna þess að hér er hefð að fara í Lautarferð á Annan í Páskum.
Nú er það auðvitað bannað og verða þyrlur á sveimi yfir okkur til að skoða hvort nokkur sé að brjóta bannið með því að vera með Picknic í þakgörðum fjölbýlishúsa.
Við erum í lagi þar sem við erum hér ein í húsinu... engi hætta á að samkomubannið verði rofið þó við förum öll uppá þak!


Þessa tók ég útum gluggann minn í gær, þar sem garðyrkumennirnir voru að dytta að trjánum og slá.


og svo smá fynd í lokin.


mánudagur, apríl 06, 2020

Dagur 29



Föstudagur, Páfinn hughreysti okkur í fréttatímanum.
Haldið ykkur heima...


Föstudagskvöld,
Ingólfur ræðir við Loga um almenna kurteisi.


 Laugardagur á þakinu, kindill og útsaumsmynd
og....
Felix minn

Hundur og köttur á laugardegi


Morgunverður á sunnudegi
og hundur í skugga


Svart og sykurlaust... við Logi bæði ómáluð


Ég á sunnudegi að reyna að lesa....


Það gekk ekki vel.


Mánudagur, heitt...hundur.


og nú er komin dagur 29.
Verkefni dagsins er að finna út hvernig í ósköpunum við getum pantað áfyllingu á Sódastrímið.


þriðjudagur, mars 24, 2020

Þriðjudagur 24. mars. Dagur 15 í lockdown

Þessar myndir eru teknar fyrir tveimur vikum síðan
Þegar ég var á göngu um hverfið mitt Trastevere


Nærmynd


 Allt mun fara vel
Tutto andrá bene

Þetta er hins vegar morgunmaturinn minn sem ég borða á hverjum degi uppá þaki.
Jafnvel í gær og í morgun þótt hitinn hafi fallið um 8 gráður og er bara 13 stig núna.
Á föstudaginn á hitinn að koma aftur.

Það er svo margt sem mig langar að segja ykkur frá, lífið hér í Róm er svo innilega ólíkt lífinu heima.  Ítalska þjóðin er ólík okkur íslendingum.  Mikið hefur verið rætt um af hverju það eru svona margir látnir hér og ég tel nokkuð rétt það sem komið hefur fram um aldur ítala, hér er mikið af fólki yfir sjötugt, það er mjög mikill samgangur á milli fjölskyldna.  Ömmur og Afar sinna mikilvægu hlutverki í uppeldi barnabarna sinna og oft búa allir saman.
Ítalska þjóðin er ekki mjög tæknivædd, hér eru mörg heimili án internet tengingar og tölvu.
Sem dæmi um ítalskan raunveruleika þá er Faxið mun mikilvægara en Emailinn.  Þó sem betur fer sé hægt að segja að hægt og rólega sé verið að tæknivæða allt.
Þessu finnum við fyrir hjá strákunum okkar sem báðir tveir stunda núna námið á netinu.  
Öllum skólum var lokað í Róm þann 4 mars.  
Það hefur ekki verið auðvelt fyrir kennarana og nemendurna að byrja námið á netinu.
Heilmikið hefur gengið á bæði innan skólanna, inná heimilum og í símanum okkar!!!
Við erum í "tjatt" hóp í appi sem heitir WhatsApp sem er mikið notað hér á Ítalíu.
Þar eru bæði notuð skrifuð skilaboð og talskilaboð.
Hægt væri að semja margar leiksýningar um það sem gengið hefur á í talskilaboðum.  
Nú síðast í morgun varð heilmikið rifrildi á einu þeirra og sagði þá ein móðir sem ég þekki vel... 
"Ég er til í að aðstoða ykkur með allar upplýsingar og allt sem þarf af kurteisi og virðingu, en ef þið farið yfir strikið þá birtist í mér hinn versti Trukkabílstjóri sem blótar í öðru hvoru orði"

Nóg í bili... ég er uppfull af upplýsingum og sögum sem mig langar að skrifa hér niður því ég sé að þetta blogg mitt er ómetanleg heimild um líf okkar síðan 2004 og svo ég vitni í Möggu frænku mína "Ef einhverntíma á að halda dagbók þá er það núna"





föstudagur, janúar 24, 2014

Vikulok

Ég er búin að vera dugleg að sauma síðustu vikur,
hér eru myndir af leggings og fleiri bíða eftir myndatöku
vonandi gerist það um helgina






ég er líka búin að vera dugleg að gera við föt fyrir vini og listamennina hér í Circolo.
Þrengja pils og stytta kápu, skipta um rennilása og festa tölur.

 Þessi vika er búin að vera annasöm fyrir okkur öll.
Hinrik er á kafi í prófum,
hann er í 6. bekk og heimalærdómurinn aldrei verið meiri.
Felix var lasin í byrjun vikunnar er fór svo hress og kátur í skólann og lærir og lærir... kom svo heim með töskuna sína í dag og tilkynnti mér að það væri fullt af heimalærdómi og að hann hlakkaði svo til að byrja að læra!
Ingó er á kafi í undirbúningi fyrir aðalfund Circolo sem verður í byrjun febrúar.
Veturinn kom í dag og í fyrsta skipti þennan vetur fór hitinn niður fyrir 10 gráður.
Nóg að gera...

 ...en í kvöld verður bara kúr..
Við Hinni ætlum að njóta þess að horfa á sjónvarpið
og knúsast!

fimmtudagur, janúar 23, 2014

Grein á Gaflari.is með fleiri myndum


Í gær birtist grein á nýja vefmiðlinu, gaflari.is um 
daglegt líf okkar hér í Róm.
Ég birti hana hér aftur með fleiri myndum.

Lífið í Róm

Ólíkt því daglega lífi sem við fjölskyldan áttum að venjast í Hafnarfirði
Við búum í hjarta Rómar, í Trastevere hverfinu sem einkennist af þröngum götum, litlum verslunum, ótal veitingastöðum, börum og kaffihúsum og endalausu lífi frá morgni til kvölds. Við ferðumst mest fótgangandi eða á hjóli. Ingó,maðurinn minn, keyrir um með strákana okkar á dönsku Kristjaníuhjóli með stóru boxi framan á sem þeir geta setið í og öðru hvoru hef ég fengið far með honum.

Við vöknum klukkan sjö á morgnana og þá er sólin að koma upp. Strákarnir eru í sitt hvorum skólanum, Hinrik sem er á 12. ári er í 1. bekk í miðskóla (6. bekkur á Íslandi) og Felix sem er 6 ára er í 1. bekk. Hinrik er í skólanum frá 8.00 – 14.00, þá kemur hann heim og lærir það sem eftir er dagsins. Felix er hins vegar allan daginn í skólanum kemur heim rúmlega 16.00 og þarf ekkert að læra heima nema um helgar. Það er allt annar taktur í ítölskum skólum en þeim íslensku. Mikil áhersla er lögð á stærðfræði og ítölsku (málfræði, bókmenntir, osfrv.) Hinrik er í tækniteiknun, listasögu og íþróttirnar eru einu sinni í viku. Frímínútur eru fáar og allar inni í kennslustofunni. Stærðfræðin sem Hinrik er að læra núna er kennd heima í 10. bekk og fyrstu áföngum framhaldsskólanna.

Í ítölskum skólum er mikil virðing borin fyrir kennurunum, Felix er með “Maestrur” en þegar komið er í miðskóla byrja krakkarnir að þéra kennarana og kalla þá “Professori”. Munnleg próf eru vikulega í skólunum og krakkarnir læra strax að standa upp og svara spurningum fyrir framan alla.

Skólarnir eru algerlega lokaðir, það getur enginn valsað um gangana nema með leyfi og við foreldrarnir komum aldrei inn fyrir skólahliðið nema þegar það er opið hús. Það er alltaf viss athöfn þegar Felix er sóttur í skólann. Kennarinn hleypir honum ekki út nema hann sjái foreldrið sem er að sækja. Íslensk vinkona okkar hafði á orði að það væri eins og hún væri stödd í réttunum þegar við vorum að ná í Felix! Hinrik má koma og fara sjálfur í skólann, en enginn má koma inn í bygginguna á skólatíma. Það er hins vegar alveg ógerlegt fyrir hann að labba einn heim með töskuna sína, því hún er svo þung. Allir krakkarnir eru með bakpoka á hjólum sem hægt er að draga á eftir sér, bækurnar eru ótalmargar og þungar.

Sumarfríð er langt og gott í ítölskum skólum. Frá annarri vikunni í júní til annarrar viku í september. Fullir þrír mánuðir. Leikskólar loka á sama tíma og spila ömmur og afar stórt hlutverk í uppeldi barnanna ef báðir foreldrar vinna úti. Við njótum þess á sumrin að skella okkur á ströndina en það tekur okkur aðeins hálftíma að komast í sjóinn með lest.

Í Róm búa u.þ.b. 25 Íslendingar. Við reynum að hittast eins og við getum og við erum um átta konur sem hittumst einu sinni í mánuði í íslenskum saumaklúbbi.

Við erum svo heppin að búa í sama húsi og við vinnum. Ég sauma og hanna á daginn á meðan strákarnir eru í skólanum, prjóna svo og hekla á kvöldin. Ingó er framkvæmdastjóri Norræna menningarsetursins í Róm (Circolo scandinavo). Hingað koma 50 listamenn á ári hverju og dvelja við listsköpun sína. Í hverjum mánuði er kynning á þeim listamönnum sem koma og eru strákarnir okkar mjög virkir í að sækja þær kynningar. Hinrik er duglegur að spyrja spurninga og ótrúleg forréttindi að kynnast þverskurði norrænna listamanna í dag. Rithöfundar, sjónlistamenn, kvikmyndagerðarmenn, myndlistarmenn, ljóðskáld, tónskáld o.s.frv.
Við kunnum vel að meta líf okkar hér í vöggu menningarinnar og svo er ótrúlega gaman að fara út, Piazza Navona, Campo dei Fiori, Pantheon, Colosseo, Péturskirkjan og svo margt fleira er í göngufæri við okkur og við notum oft helgarnar til að fara og anda að okkur menningunni.

Hafnarfjörður er samt alltaf í hjarta okkar og við söknum Suðubæjarlaugarinnar, bókasafnsins, Jólaþorpsins, Súfistans og Fjarðarkaupa heilmikið.

Bestu kveðjur frá Róm,
Hildur Hinriksdóttir



Strákarnir í Kristjaníuhjólinu fyrir framan Colosseo

Strákarnir fyrir framan Rúdólf Mini á aðventunni.

Flottir strákar í hjóli

Fyrir framan Trevi gosbrunninn


Á eftir mömmu.. í Trastevere.

Kvöldganga í Trastevere

Hildur

Hildur Hinriksdóttir býr ásamt eiginmanni og tveimur sonum í Trastevere hverfinu í hjarta Rómar, þangað fluttu þau í september sl. eftir að hafa búið í eitt og hálft ár í 900 ára kastala í fjallaþorpi 40 km frá Róm. Hún vinnur sem hönnuður og framleiðir undir merki sínu HiN design en Hildur lærði tísku- og textílhönnun í Toríno og Róm. Hún sinnir drengjunum sínum í fullu starfi en það er tveggja manna tak að sinna tveimur drengjum á grunnskólaaldri í stórborg eins og Róm. Hildur er Gaflari í húð og hár, fædd á Sólvangi og bjó síðast á Völlunum þangað til 2011 þegar fjölskyldan henti því litla veraldlega sem skipti máli út í bíl og keyrði til Rómar.