þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Ótitluð skáldsaga 2. kafli.

Kafli 2.

Mars leið áfram í rólegheitum og alltaf hitnaði í veðri. Kirsuberjatrén voru farin að blómsta og fallegi bleiki liturinn skreytti garða borgarinnar. Torino hafði aldrei verið nein draumaborg í mínum huga en eftir tveggja ára dvöl vann hún á. Torino var fyrsta höfuðborg Ítalíu og var sú skipulagðasta sem ég hafði komið í. Hún var kassalaga og auðvelt að rata í henni. Hún var falleg og blómleg á sumrin en afskaplega svört á veturnar, enda talið að ein af sjö hurðum helvítis væri undir borginni. Torino er í Piemonte héraði, málískan sem töluð er þar var blönduð frönsku enda stutt yfir til Frakklands. Vinir mínir voru flestir “innflytjendur” frá öðrum borgum Ítalíu. Flestir fyrrverandi eyjarskeggjar, eða önnur kynslóð eyjarskeggja frá Sikiley eða Sardiníu. Mauri var frá Sardiníu, sem útskýrði hæðina á honum, sardiníubúar voru flestir stuttir í annan endann. Berti Skerti var innfæddur piemontese, “falso cortese” eða falsk kurteis. Máltæki sem ég var farin að trúa. Amma hans bjó á heimilinu, komin yfir nírætt og ótrúlega tvöföld. Hún gekk um götur bæjarins og úthúðaði dóttur sinni, móður Berta, og allri fjölskyldunni. Hún gekk um betlandi því dóttir hennar tók af henni allan ellilífeyrinn, gaf henni aldrei að borða og beitti hana líkamlegu ofbeldi! Ég heyrði einu sinni til hennar á markaðnum og ég trúði ekki eigin eyrum. Auðvitað var allt þetta lygi. Föðurbróðir Berta bjó líka hjá fjölskyldunni, hann var tannlaus alkóhólisti! Alveg satt, hann fékk skammtað einni fernu af rauðvíni á dag og réð hvenær hann drakk það. Náði að dreyfa þessum lítra yfir daginn. Hann betlaði líka og ræddi um ofbeldið sem hann varð fyrir heima á götum bæjarins, þar til honum var bannað að fara út. Enda átti hann erfitt með gang eftir óteljandi beinbrot sem hann hafði hlotið á fylleríum sínum. SÁÁ þekktist ekki í Piemonte og alkóhólisti eins og föðurbróðir Berta var bara kross sem fjölskyldan þurfti að bera.
Þessar minningar flugu um huga minn því nú var þessum kafla lífs míns lokið, vonandi allavegana. Berti hafði alveg látið mig vera eftir email gíslinguna en ég beið samt. Vissi að auðvitað myndi hann hafa aftur samband, væri sennilega að hugsa hvernig hann gæti náð sér niður á mér.
Skólinn gekk vel, en eftir tvö ár í Torínó var Róm farin að kalla í mig. Skólinn var með útibú í Róm og þangað hafði ég hugsað mér að fara og klára þriðja og síðasta árið. Ég myndi flyja í júlí þegar skólaárið var búið.
Nýji kærastinn Demetrio var farin að standa svolítið í mér. Hafði þjónað ágætlega sínum tilgangi meðan ég var að koma mér út úr Berta ruglinu. En ég var bara alls ekki nógu hrifin af honum. Hann var típískur choco gæi, grannur með sítt hár og grannar mjaðmir. Hann var tveimur árum yngri en ég en tíu árum óþroskaðri! Hann bjó hjá mömmu og pabba, hvað annað, í Róm. 700 km fjarlægð hentaði vel því þá þurfti ég ekkert að hitta hann of mikið. Hann átti það samt til að birtast hjá mér eldsnemma á morgnanna. Dingla á bjöllunni klukkan sjö ferskur úr næturlestinni. Detta dauðþreyttur niður þegar hann kom inn og sofa meðan ég var í skólanum, hitta mig svo í nokkra klukkutíma og taka svo næturlestina heim. Nennti þessu ekki alveg lengur!
Síðast þegar ég hafði farið til Rómar hafði ég hitt fjölskylduna hans. Mamma hans var hnellinn rauðhærð kella frá Sikiley. Hann og bróðir hans deildu herbergi sem var í raun og veru stofan í íbúðinni sem foreldrar hans höfðu fengið í brúðargjöf. Amman bjó í sjónvarpsherberginu og stóra systir hans gift og flutt að heiman til að þurfa ekki að deila herbergi með bræðrum sínum eða ömmunni. Demertrio hafði boðist gott starf í súpermarkaði í Milanó. Hann íhugaði lengi að taka því starfi en hætti svo við. Þar sem mamma hans var ekki til í að flytja með honum! Ég meina hver átti eiginlega að hugsa um greyið drenginn þegar hann kæmi heim úr vinnunni. Elda ofan í hann og þvo af honum! Þegar mamma hans sagði mér þessa sögu vissi ég ekki hvort ég ætti að hlægja eða gráta. Og nú var ég búin að ákveða það. Spennan var búin og nú fór hann bara í taugarnar á mér. Ég myndi hringja í hann í kvöld og segja honum upp.
Pressan var orðin mikil í skólanum. Við vorum bara 6. í bekknum og ég hafði komist inn sem ítali, talaði ítölskuna það vel að ég hafði flogið í gegnum stöðuprófið. Munaði heilmiklu í skólagjöldum en var erfiðara vegna krafanna sem voru gerðar í hinum ýmsu bóklegu fögum. Ég var að læra fatahönnun, hafði komið inn í skólann án þess að kunna að teikna. Var orðin helvíti fær eftir tvö ár. En bóklegu fögin voru sum svo leiðinleg. Torino er iðnaðarborg og því áhersla lögð á verksmiðjuframleiðslu í skólanum. Ekki mín sterkasta hlið að læra um framleiðslu efna á tæknimáli. Auðvitað mjög skemmtilegt en hönnun bílaáklæða var ekki á mínu áhugasviði. Torino er heimaborg Fiat og því mikil áhersla lögð á þá iðn. Mauri var einmitt bílahönnuður hjá Fiat. Hafði útskrifast úr skólanum mínum ári áður. Var strax komin í góða stöðu og farinn að hala inn pening. Skólinn í Róm var eitthvað sem mér fannst meira spennandi en minn. Þar var áherslan lögð á hátísku, og hátíska var svo mikil listrgrein engin fjöldaframleiðsla þar!

Þegar ég kom heim ákvað ég að elda mér eitthvað og hringja svo í Demetrio. Pasta með ragú varð fyrir valinu þar sem auðvelt var að sjóða pasta og opna ragú dósina. Eftir matinn settist ég niður með símann.
“Demetrio...”
“Halló ástin mín ein... ég er að koma til þín á morgun..”
“Ekki koma...” svaraði ég...
“Hvað viltu ekki hitta mig?”
“ Það er ekki það,”
“Nú hvað?” Tónninn í röddinni hans var búin að breytast...
“Ég held að þetta sé búið hjá okkur Demetrio! Búið að vera fínt hjá okkur en núna held ég að það sé bara best að við hættum þessu..”
“Ég vil ekkert hætta þessu, láttu ekki svona við ræðum þetta á morgun.” Mér leið eins og óþekkum krakka sem vildi ekki fara að sofa!
“Nei, Demi þetta er búið ég er ekki skotin í þér lengur”
“Hættu þessu Hanna mín, þú ert bara stressuð út af skólanum, við ræðum þetta á morgun ég er að fara í lestina klukkan 12.”
“Vertu ekki að eyða peningum í lestarferðina, ég vil ekki vera kærastan þín lengur og...” hann greip framm í fyrir mér;
“Hanna mín þú ert svo stressuð útaf prófunum, þú ert ekki með sjálfri þér ég er að koma.”
“Ekki koma....”
“Hættu þessu stressi Hanna þú elskar mig”
“Ekki koma!”
“Bless hjartað mitt sjáumst í fyrramálið”
“Ég verð ekki heima...”
Du du du du

Shitt, þetta ætlaði ekki að verða auðvelt! Hafði aldrei lent í þessu áður, maðurinn neitaði að hætta með mér! Ég þurfti ekki að fara í skólann á morgun, en ég vildi alls ekki vera eitthvað að taka á móti honum klukkan sjö í fyrramálið! Díses, prófin voru ekki fyrr en eftir tvo mánuði og hann talandi um stress.
Bjallan hringdi og ég hrökk við. Ekki alveg með taugarnar í lagi eftir þetta símtal. Flaug í hug að Demetrio væri komin, en hló með sjálfri mér því auðvitað var ekki möguleiki að hann gæti verið komin 700 kílómetra leið!
“Halló...?!”
“Hanna..” ég fraus, röddinn í Berta skar inní heilann á mér.
“Hún er ekki heima..”
“Ég veit þetta ert þú, ég sakna þín svo mikið, ég kom með peningana til að láta þig fá þá aftur, Hanna ég elska þig og veit þú elskar mig, sofðu hjá mér og allt verður gott aftur. Hanna...Hanna...?”
Ég skellti dyrasímanum niður og pakkaði mér inn í lakið mitt. Hvað í andskotanum var að þessum helvítis ítölum? Ég hafði bara átt tvo kærasta og þeir neituðu báðir að hætta með mér!

Í þetta skiptið var Berti niðri á bjöllunni í 50. mínútur, Mauri var í viðskiptaferð og ég ein heima. Sem betur fer hleypti enginn honum inn í bygginguna. Ég sofnaði óróleg. HVAÐ Í ÓSKÖPUNUM MYNDI GERAST Á MORGUN?

Engin ummæli: