laugardagur, júlí 08, 2006

Músarunginn

Sjáið þið litla músarungann á myndinni? Við fórum í góðan rúnt um Reykjanesið í dag og enduðum með nesti í skógi hér við Grindavíkurafleggjarann. Meðan feðgarnir fóru í feluleik kom þessi fallegi ungi til mín og byrjaði að naga strá og éta lúpínublöð.




fimmtudagur, júlí 06, 2006

Mín undurfagra vinkona...


... Margrét Eir og nýja lookið! Hún er bara æðisleg!

Ítölsk dramatík eða hvað

Ég hef svo margt að segja núna að ég veit ekki hvar skal byrja... kannski á fótboltaleiknum á þriðjudaginn!!
Ég er búin að þurfa að verja elsku ítalina mína opinberlega og óopinberlega síðustu vikurnar. Það hafa margir verið með miklar yfirlýsingar um það hvað ítalirnir séu miklir leikarar og ömurlegt að horfa á boltann. Ég hef alltaf viðurkennt að þeir eru oft dramatískir en að fótboltinn sem þeir spila sé eitthvað annars flokks kaupi ég alls ekki, enda þekkt fyrir að fara á fótboltaleiki í Róm og Torinó og dyggur stuðningsmaður Lazio. En þjóðverjarnir á þriðjudaginn... guð minn góður!! Þvílíkur leikaraskapur, þeir féllu við ekki neitt og var alveg ótrúlegt að horfa á. Ítalirnir voru dramatískir og vildu breskir kynnar oft meina að þeir væru að leika en í endursýningu kom alltaf fram að brot hefði átt sér stað.
Þetta var stórkostlegur leikur og var ég í beinu sambandi við Helga bróður þar sem hann var á vellinum með Breka syni sínum. Spenna út í eitt og áttu ítalirnir virkilega skilið að vinna.. ætla núna að fara að klára að elda kjúklinginn og skrifa meira á eftir!

Búin að borða dásamlegan kjúkling og ganga frá. Eiginmaðurinn farin að leggja sig og sonurinn að horfa á sjónvarpið. Er mikið að hugsa um framtíð mína og fortíð þessa dagana, aðallega í sambandi við mína fyrrverandi vinnu og verð ég að segja að með hverjum deginum sem líður verð ég glaðari og glaðari með mína ákvörðun. Einnig er ég að rekast á kunningja af og til og það kemur engum á óvart að ég hafi hætt. Ég finn mikinn stuðning og gott að finna það! Best að hafa sem fæst orð um það hér á opinberum stað!!

mánudagur, júlí 03, 2006

Húsfreyja

Mér hefur verið bent á það á síðustu vikum að ég sé orðin svo mikil húsfreyja. Ég er alltaf að taka til og skúra og þvo þvott og þurrka af borðum og elda.
Mér finnst það góður titill! Og ég finn mikla gleði í því að þvo og elda þó ég láti Ingólf algerlega sjá um grillmennskuna.
Það er nefninlega til stórgott grill á heimilinu og hefur það verið mikið notað í sumar. Ingólfur hefur fundið grillgenið og heldur því reyndar fram að Pabbi sé að grilla í gegnum sig! Ég trúi því alveg því pabbi minn grillaði meira að segja á jólunum!

Nú fer fjölskyldan að detta inn í sumarfrí, okkur langar mikið að halda af stað með tjaldið í vikunni og förum þangað sem veðrið verður best.

fimmtudagur, júní 29, 2006

Margrét Eir, Elínbjört og Ármann


Fór á tónleika í gær með MoR á Yello í keflavík! Það var algerlega magnað. Margrét var í ótrúlegu formi og söng stanslaust í 2 klukkutíma! Ég hef alltaf verið hennar helsti aðdáandi og ég treysti mér til að segja að hún hafi aldrei verið betri enn einmitt núna og þá er nú mikið sagt. Hér er heimasíðan hennar http://www.margreteir.com/ .

Félagslífið hjá mér er í miklum blóma eftir að ég flutti "út á land" !!
Fór með Elínbjörtu frænku minni í bíó á mánudaginn að sjá Keeping Mum, skemmtileg mynd og nú bíð ég eftir að myndin The Lake house komi til keflavíkur þá verður nú gaman hjá okkur frænkunum.

Er líka að reyna að framleiða eitthvað af húfum, hekluðum og langar til að fara að sauma svolítið af pilsum þar sem ég er í launuðu sumarfríi þessa mánuðina!

Fór á kyrrðarstund í gær í Neskirkju með Ármanni, Mömmu, Auði og svo bauð ég Villa með. Það var yndislegt. Kyrrðarstundin var fyrir krabbameinssjúka og aðstandendur þeirra og á eftir var svakaleg grillveisla sem Ármann bauð mér í. Gott að eyða tíma með þeim sem maður elskar. Það er ekki spurning!

mánudagur, júní 26, 2006

Totti klikkar ekki



Helvítis ítalirnir eru komnir áfram eftir fáránlegt brot hjá Áströlum í vítateig.. þessar elskur þeir eru svo miklir leikarar og ég elska að horfa á ítalskan fótbolta. Totti skoraði vítið og hér eru góðar myndir af honum.... hehehehe Viva Italia....!!!






laugardagur, júní 24, 2006

Lykt


Ég á lítin prins, sem virðist vera að uppgötva lyktarskinið, hann liggur núna uppí rúmi og kallar í mig sem sit hér frammi á tveggja mínutna fresti til að tilkynna mér að það sé vond lykt af einhverju, fyrst voru það tærnar á honum svo ég náði í þvottapoka og þvoði þær með bros á vör, svo var það duddan hans sem var með hræðilega duddulykt. Ég bauð honum að henda bara öllum duddunum hans en hann var ekki ánægður með það. Svo var komin svo hrikaleg hrossaflugu lykt inn til hans, svo móðirinn hugrakka fangaði hrossafluguna og sleppti út í garð. Nú bíð ég með öndina í hálsinum.. hvað skildi það vera næst... sængurlykt? eða hrikaleg koddafýla.. veit ekki en það er gaman að þessum ungum!

þriðjudagur, júní 20, 2006

Brúðkaup á 17. júní


Hermann og Birna 17. júní 2006

Hermann "bróðir minn" og Birna giftu sig á 17. júní, Ingólfur stillti upp þessari skreytingu sem lýsir tilfinningunni í brúðkaupinu sem var yndislegt í alla staði.



Gísli Pétur bróðir var auðvitað glerfínn með fallega
hattinn sinn sem hann var með í sínu brúðkaupi um áramótin....














.... Helgi og mamma voru glerfín líka sem sést á þessari listrænu mynd.








Ingólfur tók þessa mynd af mér og nokkrum glösum en vel var veitt í þessu brúðkaupi og þar sem Hemmi er kokkur var maturinn auðvitað ótrúlegur, skelfiskur og innbakaðar nautalundir og ég fæ vatn í munninn bara á því að hugsa um hann.





Mikið var um frábær skemmtiatriði og þarna er ég að fagna einu þeirra!

Jón Gestur og Steina systir voru frábærir veislustjórar og við skemmtum okkur konunglega! Uppúr stendur frábær flutningur þeirra á Bubbalaginu Svartur Afgan þar sem Steina sló í gegn með munnhörpuna!

mánudagur, júní 19, 2006

19. júní 2006

Fyrir 5. árum dó pabbi minn. Á þessum degi, alltof snemma hann var bara fimmtugur. Ég held maður geri sér ekki alveg grein fyrir hvað fráfall föður hefur mikil áhrif á mann þó tímin líði þá læknar hann ekki heldur hjálpar manni að lifa með. Auður móðursystir mín sagði mér góða sögu einu sinni. Hún sagði að lífið og fólkið í kringum mann væri einn órói, þegar einhver deyr þá skekkist óróinn og það tekur hann tíma til að ná aftur jafnvægi, það sama gerist þegar barn fæðist þá skekkist hann aftur og tekur tíma að jafna sig. Ég hugsa að það sama hafi gerst hjá mér á föstudaginn, þegar ég sagði upp í vinnunni og hætti samdægurs. Ég tók ákvörðun um að hætta þegar ég fékk ekki að stjórna saumastofunni eins og ég vildi. Ég er mjög sátt við þessa ákvörðun en held samt að það sé viss sorg í hjarta mínu eins og ég hafi misst vin. Það er samt mikilvægt til þess að hugsa að ég fór ekki í neinu fússi heldur stóð við það sem mitt hjarta sagði mér og núna er ég laus. Er komin í sumarfrí og er að byrja að hugsa um framtíðina mína, sem mér finnst svo björt. Góð vinkona mín hafði orð á því áðan að ég væri allt öðruvísi í framan. Það væri svo létt yfir mér og ég liti svo vel út. Held að það sé af því að ég er svo sátt við mína ákvörðun og hlakka svo til komandi verkefna.

Fleira er svo að frétta. Ég komst í gegnum hann Ármann minn í magaspeglun á fimmtudaginn og er búin að fá greiningu og lyf við flestum mínum kvillum. Ég er með vélindabakflæði, þindarslit og magabólgur og eftir að ég byrjaði á lyfjunum hef ég ekki fengið brjóstsviða en hann hefur fylgt mér síðan ég var unglingur. Þvílíkt frelsi!! Mig dreymir nú um að borða pizzu með pepperóní og lauk en svoleiðis hef ég aldrei getað látið inn fyrir mínar varir vegna brjóstsviða. Ég er líka farin að hvílast betur á nóttinni og sé bara fram á dásamlegar stundir!!

Við Ingólfur fórum á Grímuna á föstudaginn og áttum góða kvöldstund. Ingólfur fékk ekki verðlaunin í þetta skiptið en fær hana bara næst. Ég saumaði pils á Hrund Ólafsdóttur sem var tilnefnd sem leikskáld ársins og var hún stórglæsileg á hátíðinni, hún fékk ekki heldur verðlaunin en fær hana bara næst!

sunnudagur, júní 11, 2006

Gríman



Ingólfur minn er tilnefndur til Grímunnar í ár!!

Fyrir útvarpsleikritið Ómerktur ópus í c-molleftir Karl Ágúst Úlfsson í leikstjórn Ingólfs N. Árnasonar. Hljóðsetningu annaðist Björn Eysteinsson.

Ég fór í Borgarleikhúsið á miðvikudaginn til að taka við viðurkenningarskjali úr höndum Forsetans! Það var f....ing erfitt að fara uppá svið og er ég frekar ánægð með að vera að vinna baksviðs í leikhúsinu!!

Við hjónin förum svo þann 16. júní á afmælisdeginum hennar mömmu á hátíðina.. vona að Ingó fái þetta!

mánudagur, júní 05, 2006

Veikindi og Lost

Ég verð að fara að athuga hvað upphæðin er á fjölskyldu til að fá afsláttarkort frá Tryggingarstofnun! Það er ekki heilbrigt hvað fjölskyldan hefur verið veik síðan við fluttum í Njarðvík! Ég er náttúrulega löngu komin með svoleiðis kort en núna eru Ingólfur og Hinrik báðir búnir að heimsækja Heilbrigðisstofun Suðurnesja, síðast í morgun. Hinrik vaknaði öskrandi klukkan 5. með svívirðilega eyrnarbólgu og Ingólfur fór með hann á vaktina strax klukkan 10. (ég svaf var að horfa á Lost í nótt.. meira um það á eftir) Þegar þeir komu heim lagðist Hinrik í rúmið okkar með Ingólfi og við horfðum á hitann hækka, eftir að hafa tekið inn Pensillín og hálfsofnað kastaði hann öllu upp, yfir sig, pabba sinn og rúmið.. Síðan hafa þeir feðgar sofið!

Ég var semsagt að horfa á Lost í nótt.. á núna tvo þætti eftir af seríu 2 og ohmygod!! Sem betur fer hefur serían aldeilis tekið á sig sína fyrri mynd, spenna og óvæntir atburðir eru að ganga frá mér og ég hlakka svoooo til í kvöld að horfa á síðustu tvo þættina.

sunnudagur, maí 28, 2006

Þetta er skemmtilegt!!







What Kind of Coffee are You?

Sem betur fer er ég espresso... gæti aldrei staðið undir nafni sem espressofíkill ef ég hefði verið Latte eða eitthvað þeim mun verra!!

fimmtudagur, maí 25, 2006

Uppstigningardagur

jesú labbaði upp til himna í dag segir Hinrik minn. Hann liggur fyrir aftan mig í rúminu, ég er ekki enn búin að koma honum niður en eyddi með honum klukkutíma í rúminu í kvöld... hann er svo mikið næturdýr þessi elska eins og foreldrarnir. Svo er hann farin að sofa alltaf á milli Reykjavíkur og Njarðvíkur þannig að hann fer seinna að sofa. Depressionin er öll að víkja, komst að því að best er að hugsa jákvæðar hugsanir þá líður manni ekki eins illa, annars var þetta nú ekkert alvarlegt, heldur bara venjuleg niðursveifla enda ekki lítið búið að vera í gangi í lífi litlu fjölskyldunnar síðustu vikurnar og mánuði. Annars er lungnakvefið að lagast þó að hóstinn verði eflaust eitthvað áfram. Ég byrjaði aftur að vinna í gær og nóg að gera í vinnunni eins og venjulega.. næsti vetur verður mjög erfiður og vonandi verðum við komin með íbúð fljótlega í Hafnarfirði.. látið mig vita ef þið vitið um íbúð í Hfj.

þriðjudagur, maí 23, 2006

Skemmtilegt..depressed





What type of Fae are you?


Fallegt.. ekki satt? Depressed.. mér líður mjög svoleiðis núna búin að vera lokuð hér inni í eina og hálfa viku og sé ekki fram á að komast í vinnuna heldur á morgun þar sem ég er enn með hita.. held að það hafi skinið í gegn þegar ég var að svara þessu quizzi... ég er depressuð þessa dagana.. meira en lítið..púffffff

sunnudagur, maí 21, 2006

Lordi bestir


Þvílíkt kvöld loksins loksins var gaman að horfa á Júróvisjón og mínir menn unni hefur ekki gerst síðan einhverntíma fyrir tugum ára!



Við fjölskyldan fórum til Elínbjartar frænku í matarboð og Júróvisjónpartí og það var svo rosalega gaman!! Ég er samt enn að drepast og er flensan ekki alveg farin úr kroppnum....

miðvikudagur, maí 17, 2006

Tuborg

Áríðandi tilkynning frá Sjálfstæðismönnum í Tuborg (áður Árborg)



Eins og flestir ef ekki allir íbúar Tuborgar vita þá hefur eitt af stóru

baráttumálum Sjálfstæðisflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í

ár verið áhersla á að Hellisheiðin verði full-upplýst á næsta

kjörtímabili... Þetta baráttumál er ekki lengur á stefnuskrá flokksins þar

sem komið hefur í ljós að ljósastaurar geta hreinlega bara verið fyrir!!



Ennfremur skal það tilkynnt að helsta baráttumál flokksins er nú hjólreiðastígur milli Eyrarbakka og Selfoss.

Ég er búin að fá þetta sent frá nokkrum vinum og kunningjum í dag.. ógeðslega fyndið!

sunnudagur, maí 14, 2006

Lungnasýking og Silvía Nótt

Var búin að skrifa rosapóst um veikindin mín núna þessa dagana og hvursu erfitt er að hanga inni í góðu veðri en svo strokaði ég hann út. Ég er semsagt með lungnasýkingu, bronkítis ofl og ekki orð um það meir.

Ég ligg uppí rúmi og er búin að vera að hlæja að Eyþóri Arnalds og hans hrakförum.. greyið sjálfstæðistappinn!!

Svo fór ég að hlæja að Silvíu Nótt og hennar frægðarför.. ég er alveg að fíla hana en er viss um að hún kemst ekki áfram.. vildi samt óska þess aðallega útaf honum Gísla Magna vini mínum sem er í bakröddum hjá henni.

Ætla að leggjast í vídeógláp í kvöld og gleyma mér í einhverri ástarvellu. Mæli með myndinni Just like Heaven
yndisleg mynd fyrir konur og kalla....

Hinrik gaf mér loðin púða í mæðradagsgjöf ætla að kúra á honum og glápa á imbann.

mánudagur, maí 08, 2006

Andvaka...

og flutt. Það er yndislegt að vera flutt í Njarðvík! Hinrik er svo glaður því hann hefur stóran garð til að leika sér í og fullt af frændsystkynum sem koma að heimsækja hann á hverjum degi.

Flutningarnir tóku 5 daga. Ohh hvað það var gott að henda enda búin að búa í 5 ár og erfa 2 einstaklinga á þessum árum. Það er alveg merkilegt hvað maður getur verið mikill safnari.. þvílíkt drasl og þvílík hreinsun andlega og veraldlega. Hnéð var auðvitað til trafala þessa daga og vona ég bara að ég hafi ekki unnið varanlegan skaða á því.. annars er það frekar vinnan sem er að gera útaf við hnéð þessa dagana vegna þess að ég hef tendensa til að sitja á gólfinu þegar ég er að föndra eitthvað, stórar rætur þessa dagana, svo gleymi ég mér og krosslegg fætur og þá byrjar mér að vera illt.

Svo er ekkert mál að ferðast á milli, reykjanesbrautin orðin tvöföld mestalla leiðina og ekki mikil umferð, eini tappinn er þegar maður er á leiðinni heim frá Arnarnesi að gatnamótunum í Garðabæ en það tekur bara 7. mínútur svo að maður er ekkert að kvarta, mér finnst voðagaman að keyra og það finnst Ingó líka (að mér finnist það gaman) það er líka gott að búa svona langt í burtu frá vinnunni þar sem ég er búin að vera í vinnunni síðastliðin tvö ár þá er nauðsynlegt að geta algerlega tekið úr sambandi og þá verður maður líka að skipuleggja sig betur og það hentar mér vel.

Nú er klukkan orðin rúmlega hálf þrjú og eins gott að ég nái að sofna þar sem við vöknum kl. 7 og leggjum af stað klukkan 8 og komin til vinnu búin að fara með Hinrik á leikskólann klukkan 9.

Góða nótt

þriðjudagur, apríl 25, 2006

Hnéaðgerð...flutningar

Oh hvað það er hundleiðinlegt að hanga svona á sófanum!! Mig langar svo í sturtu en get ekkert gert fyrr en í fyrsta lagi á fimmtudaginn... grrrr. Sem betur fer er ég nú með tölvuna og get sörfað allann daginn.... maður verður nú líka leiður á netinu verð ég að segja.

Aðgerðin gekk mjög vel. Þetta hné var ekki eins slæmt og það fyrra. Hann tók ekkert af liðþófanum í þetta skiptið skrapaði bara aðeins og setti svo einhverja stera í það. Ég finn mikin mun á því að núna má ég strax tilla í fótinn og er þá ekki eins föst á sófanum.

Búin að vera í símanum í allan dag og í tölvunni, vildi að ég gæti pakkað svolítið en það gengur víst ekki alveg upp. Ætla að reyna að fara að hekla svolítið í kvöld geri ég ráð fyrir ég er enn með svolítið af pöntunum sem ég þarf að ganga frá.

Ég er með lista sem ég þarf að ganga frá:



Geymsla, er komin með 2. geymslupláss sem ég þarf að velja úr á morgun,


Pósturinn þarf að ganga frá því að fá pósthólf á föstudaginn,



orkuveitan þarf að fá þá til að lesa af mælinum eftir helgina.


Ogvodafone, þarf að segja upp símanum og adslinu.



Digital Ísland, þarf að segja upp öllu draslinu þar.

Ekki hægt að segja annað en að ég hafi nóg að gera! Þrátt fyrir að vera farlama.

Hinrik Leonard páskaungi




Hinrik í góðravina hóp í pottinum að Flúðum um páskana



Sem endaði svona á sófanum!

mánudagur, apríl 24, 2006

Hryllingurinn


Var að koma að norðan, alltaf gaman að koma til Akureyrar. Sýningin er stórskemmtileg og alls ekki eins flókin og ég átti von á. Þarf að föndra svolítið fyrir hana, búa til tugi metra af rótum úr rörum, svampi, grisju, tvisti og málningu og sauma og lita stóra grisju sem fer fyrir allt sviðsopið en það gerist ekki fyrr en eftir hnéaðgerð og flutninga. Ingó er að vinna að því að pakka meðan ég sit í tölvunni, aðgerðin fer fram í fyrramálið og ég verð komin aftur heim seinnipartinn, ég verð svæfð en hingað til hefur hún ekki farið illa í mig. Þetta verður svakaleg vika því í lok hennar verðum við flutt og ég get ekkert tekið þátt í því að pakka. Ég kvíði því svo að þurfa að liggja hérna og fylgjast með... ég vitna á uppáhalds setningu mína þessa dagana ÞETTA ER ALLT Í GUÐS HÖNDUM

Á leið í ferðalag


Smá prufa Hinrik Leonard á leið á Flúðir fyrir páska.

fimmtudagur, apríl 20, 2006

Upplýsingar

Loksins ætla ég að gefa mér tíma til að skrifa eina færslu, kannski vegna þess að það er sumardagurinn fyrsti, Ingó og Hinrik í bíó í Njarðvík með frændfólki og ég á að vera að pakka niður úr vinnustofunni... nenni samt ekki að byrja þar sem nýja fartalvan okkar kallar frekar á mig, urðum að fjárfesta í svoleiðis tæki þar sem við erum að fara að flytja eftir 10 daga! Og til að gera hlutina flóknari þá verð að skreppa til Akureyrar á morgun í 3 daga til að vinna og fer svo ég í hnéaðgerð númer 2 á mánudaginn og þarf þá að liggja í eina viku með löppina upp í loft! Þetta þýðir að ég hef bara daginn í dag til að setja draslið mitt í kassa!

Nú; við flytjum sem sagt síðustu helgina í Apríl til Tengdó í Njarðvík og verðum svo að keyra á milli, Hinrik verður áfram í leikskólanum sínum Lindarborg og við bæði að vinna í Óperunni.
Planið er svo að flytja í Hafnarfjörð um leið og við finnum eitthvað þar.

Næsta frumsýning er 13. maí, Litla Hryllingsbúðin (ég er að fara norður til að taka út sýninguna til að geta skipulagt dressermálin þegar hún kemur hingað)

Hnéaðgerðin fer fram á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði á mánudaginn 24. apríl sem þýðir að ég verð frá vinnu, liggjandi uppí rúmi í 7 daga.

Ég er hætt að vera yfirmaður framleiðslusviðs íslensku óperunnar og ætla að vera "bara" Forstöðumaður saumastofu og búningasafns, sem er náttúrulega ekkert bara, álagið í vinnunni síðustu 2 ár hefur verið of mikið og ég nenni ekki að eyða tímanum í vinnunni. Mig langar líka að vera með fjölskyldunni og það hefur ekki verið auðvelt þegar ég er að vinna frá 9. á morgnanna til 23 á kvöldin. Eina leiðin til að sjá son minn eitthvað er að sækja hann í leikskólann kl 17 og fara með hann í óperuna í klukkutíma og hafa hann með mér þar!!

Oh og já var ekki búin að segja ykkur að ég hætti í búðinni minni í janúar, þar sem eins og skilst á fyrri skrifum, ég hafði engan tíma til að sinna hvorki framleiðslu né vinnu þar.

nú eins og sést er mikið í gangi hjá mér núna og held ég að ég verði að fara að dýfa mér í draslið á vinnustofunni svo að Ingólfur þurfi ekki að pakka öllu draslinu fyrir mig.

mánudagur, apríl 03, 2006

Nótt í Feneyjum

Nýjasta verkefnið mitt sem búningahönnuður

Enn á lífi...

en rétt svo... þetta eru búnir að vera erfiðir 3 mánuðir og mikið hefur gerst í mínu lífi, 2 frumsýningar 2 einstakir leikstjórar.. jákvætt neikvætt þú ræður.. og mikið líka að gera í mínu persónulega lífi. Annað hnéð komið í lag. Fjölskyldan að fara að flytja breytingar í vinnunni hjá mér og mínum manni osfrv.. læt þetta duga í bili, verð með nánari upplýsingar á næstu dögum... túrílúuuu

mánudagur, janúar 09, 2006

2006 komið á fullan sving..

Rúmlega vika liðin af nýja árinu og ég er enn og aftur komin á kaf í vinnu. Er mikið að hugsa um það þessa dagana hvernig ég næ því að taka hlutum með stóískri ró og reyna að greiða úr flækjum í pródúksjóninni sem ég er að vinna að núna. Næsta pródúksjón bíður svo handan við hornið, ég verð að finna tíma í næstu viku til að teikna búninga því ég er líka búningahönnuður þar. Það er skelfilega mikið starf og ég verð að byrja að vinna að þeim.

Upplifði skrítin hlut í kvöld.. var að horfa á heimildarmyndina um málverkafölsunnarmálið og einn sakborninganna sagði að besti tími hans í öllu þessu ferli hefði verið 6. mánuðir á Kvíabryggju, þar sem enginn erill hafi verið engir símar og ekkert fjölmiðlavesen.. guð ég hugsaði "Ójá ég væri til í þetta... kannski ekki í 6 mánuði en 1. vika einhversstaðar þar sem engin getur truflað mig, bara ég Ingó og Hinrik Leonard.. það er rosalega spennandi tilhugsun.. aldrei að vita nema ég reyni að skreppa burtu eftir 5. febrúar í einhvern bústað þar sem ekki næst í gsm.

Við Ingó verðum svo 70 ára í febrúar og okkur langar svo til að halda kaffiboð.. veit bara ekki alveg hvar við ættum að halda það.. einhverjar hugmyndir?

sunnudagur, desember 25, 2005

Gleðileg jól Buon natale

Gleðileg Jól allir vinir og kunningjar.
Það fóru engin kort út í ár. Það var svo mikið að gera í búðinni og óperunni að þó ég hefði náð að skrifa nokkur (meðal annars til þín Kata frænka) þá náðist ekki að senda þau.. er að hugsa um að breyta þeim í nýárskveðju en sé til hvernig gengur með það. Jólin voru yndisleg, svo gott að vera hér fjölskyldan á aðfangadagskvöld heima og Hinrik Leonard var svo duglegur að bíða og bíða eftir pökkunum, byrjaði reyndar klukkan 10 um morgunin að spyrja hvort klukkan væri ekki að verða 6.. fengum fullt af fallegum gjöfum og erum í sjöunda himni í dag!

Un saluto ai miei amici italiani, mi mancate tanto e vorrei tanto venire in Italia nel 2006, vedremo se riusciremo a venire ai Olimpiadi hehehe
bacioni cari amici

mánudagur, desember 19, 2005

Tölvumál

Það sló út rafmagninu hjá mér á föstudaginn, tölvan dó! Erum búin að vera tölvulaus alla helgina, það er hræðilegt, þurftum að fara í bankann til að millifæra og hringja í 118 til að fá símanúmer. Vonandi nær Ingó að laga þetta í dag því líf á tölvu er frekar flókið! Annars er ég að tapa mér þessa dagana, er svo mikið að vinna í búðinni og í Óperunni og reyna að búa til jólagjafir og sauma pantanir! Hlakka svo til á miðvikudaginn og fimmtudaginn því þá daga á ég frí í búðinni!

Annars tókst okkur að kaupa allt sem þurfti að kaupa í Smáralindinni í gær, af tvennum illum kostum (Kringlan og Smáralind) var Smáralindin betri. Annars er alltaf best að versla á Laugarveginum, það var bara svo helvíti kalt í gær.

Ég er búin að kaupa í jólamatinn svo að jólin geta komið!

þriðjudagur, desember 13, 2005

Vinna í aðventu

Svona verð ég í búðinni minni fram að jólum.
Þriðjudagur 13. des 12 - 16
Fimmtudagur 15. des 17 - 22
Föstudagur 16.des 12 - 18
Laugardagur 17. des 12 - 18
Mánudagur 19. des 12 - 18
Þriðjudagur 20. des 12 - 16
Þorláksmessa 23. des 12 - 18

Vonandi komið þið og kaupið fallegar jólagjafir af mér...
koss og knús

þriðjudagur, desember 06, 2005

Kósý Jól í Pjúru og Frú Fiðrildi

Fimmtudaginn 8. desember milli kl. 19-21 ætlum við að bjóða ykkur að koma til okkar og þiggja léttar veitingar á meðan þið veljið jólagjafir og jóladressin í góðu tómi og nú megiði endilega taka mennina með

Hlökkum til að eiga enn eina skemmtilega kvöldstund með ykkur.

Kveðja Pjúrur


Það vantar ekki alltaf nóg að gera í búðinni endilega komið nú og sjáið allt það nýja og kaupið svona ca 1 húfu eða hálsmen frá mér í leiðinni....

föstudagur, desember 02, 2005

007, Madonna og ónýt hné.

Ég sat við vinnu mína í eftirmiðdaginn í gær og naut útsýnis yfir í aðalsvítu Hótels 101, þá birtist James Bond í glugganum og fór að taka myndir af sólarlaginu, Lady Bond stóð við hlið hans í náttslopp og horfði dolfallin á roðan í loftinu.. ég segi ekki að ég hafi tapað mér en þetta var rosagaman að fylgjast með svona frægu fólki! Sá Roger svo aftur í dag að stíga inn í bílinn sinn, bílstjóri hélt hurðinni opinni fyrir hann, verð að segja að maðurinn er "fjarska" fallegur!! Fannst hann gamall í sjónvarpinu en sá ekki hrukku á honum í fjarlægð!

Þegar ég var 14. ára sá ég Madonnu að taka upp myndband í einu sýkinu í Feneyjum, ég var á Gondóla og ekki með myndavél og þá tapaði ég mér!! Hún horfði á mig og brosti, var ekki orðin rosafræg þá ég þekkti hana úr Bravo og Pop Rocky blöðunum.

Annars er það að frétta að úrskurðað hefur verið að ég 34. ára konan er með ónýt hné, arfgengur andskoti, verið er að reyna að troða mér fram fyrir biðlista í speglun, liðþófarnir eru rifnir báðum megin og komin skemmd í brjóskið vinstra megin, get ekki annað en bara beðið eftir þeirri aðgerð og svo verður séð til hvað verður meira gert!

mánudagur, nóvember 28, 2005

Kata frænka mín

Bloggið mitt einkennist þessa dagana af því að kópera það sem Katrín frænka mín fyrir norðan gerir!! Skammast mín ekkert fyrir það hún er kona sem ég lít upp til og finnst stórkostleg.. skoðið bloggið hennar http://katrinulfars.blogspot.com/
Segi ykkur kannski fréttir á næstunni...
kossar og knús
freyr
You are Freyr! The elves are your special race and
their lightness and laughter is a reflection of
you. You gave up the sword that would save the
mortal races to win your love, but that hasn't
destroyed your sunny outlook yet!


Which Norse God are You?
brought to you by Quizilla

mánudagur, nóvember 21, 2005



Skáldajötunn


Þú ert nýjungagjarn, tilfinningaríkur innipúki.

Skáldajötunninn er svo opinn fyrir nýjungum á sviði lista og menningar að honum tekst að sjá list út úr óbreyttri skranhrúgu eða einmana slettu á striga. Skáldajötunninn tekur til í herberginu sínu og kallar það listrænan gjörning. Hann er mjög líklega með óskrifaða skáldsögu í hausnum eða óútgefna bók í skrifborðsskúffunni, þ.e. ef hann hefur ekki þegar fengið bók sína útgefna.



Skáldajötunninn lifir fyrir listina og myndi frekar kaupa blek fyrir fjaðurstafinn sinn heldur en brauðhleif þótt hann hefði farið án matar svo dögum skipti. Hann unir sér vel einn með eigin hyldjúpu hugsunum.



Hvaða tröll ert þú?

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Þæfing og þjófar

Ég var í Óperunni í gærkveldi með 2. samstarfskonum og vinkonum, um 11.leytið fylltist allt af lögreglumönnum og konum hjá okkur. Brotist hafði verið inn í Lífeyrisjóðinn hér við hliðina og þegar þjófavarnarkerfi fór í gang höfðu þjófarnir flúið upp á svalir Óperunnar. Þeir brutu sér leið gegnum glugga hér á efri hæðinni og hlupu niður starfsmannastigann okkar með fangið fullt af þýfi, ég heyrði í þeim niðri í kjallara en þar sem maður er vanur umgangi kippti ég mér ekki upp við hurðaskell og athugaði ekki hver var á ferð. Sem betur fer því lögreglan líkti þjófunum við villidýr sem hefðu ekki hikað við að ráðast á þann sem á vegi þeirra yrði á flóttanum... við enduðum á Sólon í áfallahjálp..(bjór) engu var stolið úr Óperunni þetta kvöld nema kannski ró minni og samstarfskvenna minna.

föstudagur, október 14, 2005

Gaman að þessum gömlu myndum.. margir halda að um Hinrik son minn sé að ræða á fyrstu myndinni í þessari seríu.. gaman að því!


Ég og Gísli Pétur litli bróðir, hann 1. árs og ég 9. ára.

Ég og pabbi, ég 2. ára

miðvikudagur, október 12, 2005

MINNINGAR

Smá nostalgíukast hjá mér elska þessar gömlu myndir af mér og pabba!

Nostalgia

ROMA TI AMO

Róm var stofnuð fyrir 2700 árum síðan og í dag er hægt að skoða minjar frá þeim tíma. Á laugardaginn gekk ég um stræti Rómar, gömul og ný og baðaði mig í minningum tímana og þéttri rigningu. Ég elska Róm, ég er rómverji í mér. Ég elska söguna og ég elska að segja fólki söguna.. mér finnst gaman að vera leiðsögumaður og veit að það á vel við mig. Ég vona að ég fari í næstu ferð Heimsferða og vona að þú komir með mér!

NÆSTA DÖMUKVÖLD

Þá er loksins komið að því. Næsta dömukvöld Pjúru verður haldið laugardaginn 15. október klukkan 19 - 21. Frú Fiðrildi verður einnig á sínum stað og nú er að opna ný verslun í litla kjarnanum okkar. Það eru verslun með skó sem heitir French Sole. Það eru sko ekki flottari konur en Cameron Diaz, Kate Moss, Scarlett Johansen, Kirsten Dunst og fleiri og fleiri frægar og minni frægar konur sem elska þessa skó. Við Pjúrur elskum þá líka

Á dömukvöldinu verða í boði léttar veitingar, veglegur happdrættisvinningur og frábær tilboð að hætti okkar súperkvenna. Þess vegna ætti engin dama að láta þetta happ úr hendi sleppa, enda tilvalið að klæða sig uppá, skilja karlana og börnin eftir heima og njóta þess að skoða, máta, versla, hlæja og hafa það huggulegt í góðra kvenna hópi. Hvernig væri að mæta með eitthvað bleikt, eða vera í einhverju bleiku í tilefni "brjóstakrabbameinsmánaðar"

Hlökkum til að sjá ykkur allar

Pjúrur = Elín, Hildur, Íris og Kolbrún

fimmtudagur, september 22, 2005

Klukk....

Kata frænka klukkaði mig...
http://katrinulfars.blogspot.com/
Ég á að gefa 5 gagnslausar upplýsingar um sjálfa mig.

1. Ég er 34. ára gift kona og á 1 son sem heitir Hinrik Leonard og verður 3. ára 3. október, ég er mikil fjölskyldukona og elska að vera heima hjá mér, stundum of mikið fer sjaldan út að skemmta mér.

2. Ég vinn í Íslensku óperunni sem framleiðslustjóri og yfirmaður búninga og elska að lita efni fyrir óperusýningar. Ég er mikil leikhúsrotta og þarf að passa mig að gleyma mér ekki í vinnunni.

3. Ég á búð í Ingólfsstrætinu og elska að lita efni og sauma flott pils, gæti kallast hobby og vinna.

4. Ég hef átt heima samtals í ca 6 ár á Ítalíu, ég elska Ítalíu og þegar ég fer þangað finnst mér eins og ég sé að fara heim.

5. Ég er lestrarhestur, elska chick lit og á gott safn af bókum.. uppáhaldshöfundir eru Jane Green og Lisa Jewel.. og og og...

Veit alls ekki hvern ég á að klukka... má klukka karlmenn? Dettur bara í hug Gísli Pétur bróðir og Steina sös....

http://gphinriks.blogspot.com/
http://steineir.blogspot.com/

BRANDUR og hitt og þetta

Það er svo margt að gerast þessa dagana og lítill tími til að vera í tölvunni. Hinrik er búin að endurskíra Mjása.. hann heitir Brandur núna eins og kisin hans Emils (hver vissi að Emil ætti kisu?!)Hægt að skoða myndir á

http://hinrikleonard.barnaland.is/

Ítalíuferðin nálgast og vill svo skemmtilega til að Ingólfur er að fara til Sikileyjar þann 29. sept og kemur heim með vélinni sem ég fer með svo til Rómar þannig að við munum hittast í mýflugumynd á Keflarvíkurflugvelli. Ingólfur er að vinna í heimasíðunni sinni og svona lítur hún út

http://www.internet.is/ingolfur/

Ingólfur er svo búin að vera að vinna að minni sem er alls ekki tilbúin en þið getið kíkt á hana eins og hún er núna í vinnslu:

http://www.internet.is/hildurina/

Búðin gengur vel. Búið að vera ágætt að gera í húfubransanum enda farið að kólna. Heimasíða búðarinnar er:

http://www.blog.central.is/pjura

Ótrúlega margar heimasíður sem tengjast manni þessa dagana verð að segja það.
vinnan kallar.......

miðvikudagur, september 14, 2005

Róm Róm ROMA

Ég er að fara aftur til Rómar!! Hjarta mitt fyllist af tilhlökkun! Verð fararstjóri fyrir Heimsferðir 6. - 10. október!! Brosi út að eyrum.

mánudagur, september 12, 2005

Mjásalingur

Haustið er búið að gera innrás sína með tilheyrandi roki og rigningu. Ég er búin að vera á haus í litun í Óperunni og er það nú alltaf helvíti gaman.. en nokkuð tímafrekt, sem komið hefur niður á tölvuvinnu og skriffinsku! En nú verður gerð bót á því.

Fjölgun hefur átt sér stað í fjölskyldunni, Mjási litli 11. vikna fress kom í heimsókn og ákveðið hefur verið að ættleiða hann. Hinrik er mjög ábyrgðarfullur faðir/bróðir/stundum amma.... og eiga þeir mjög vel saman vinirnir. Og virkilega gaman að fylgjast með þeim. Mjási fékk nafn sitt úr bókum um Einar Áskel en hann á kött sem heitir Mjási.

sýni ykkur mynd sem fyrst af Mjásaling...

miðvikudagur, ágúst 31, 2005

P.S Messaggio per Leo

Se vedi questo caro Leo mio hai ricevuto il mio email.. nel tuo onore scrivo due righe in italiano.. ci manchiiii vieni via reykjavik quando vai a NY.. Hinrik Leonard ti manda tanti baci.. ha bisogno di vedere il suo padrino sai che ormai parla tanto italiano... dai Leoooo dai dai dai.. ti voglio bene tua Hildurina

Hvað er í gangi...

Það byrjaði með digital myndavélinni.. hún er biluð og enn að bíða þess að komast í viðgerð.. svo var það þvottavélin í fyrradag.. dauð... ónýt.. verð að kaupa nýja og hef ekki efni á því... grrr... svo í dag.. síminn.. en held það sé reyndar línan frá Ogvodafone.. sem by the way endurgreiddu okkur 10.000 kall í gær vegna þess að við erum búin að greiða af aukanúmeri í marga mánuði sem við eigum ekki, höfum aldrei átt og kom aldrei fram á neinum reikningum!!! Það er svo margt í gangi.. hef verið að vinna mikið síðustu vikur.. óperan komin á fullt og ég að lita heilmikið voðagaman og svo búðin alltaf nóg að gera og ég frekar ánægð með það eyði öllum kvöldum í sauma.. hitti Ingó um miðnætti og fer að sofa kl 3.. ekki nógu gott vonandi fer að komast regla á mig og vinnuna mína með skammdeginu.

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

Menningarnótt

Bréf sem fór til þeirra sem eru á póstlista pjúru....


Sælar dömur.

Laugardaginn 20. ágúst er Pjúra menning í Ingólfsstræti 8. Við opnum klukkan 12 og
opið verður eitthvað fram eftir kveldi.

Pjúra og Frú Fiðrildi styðja menninguna í miðbænum og af því tilefni ætlar MoR
(Margrét Eir og Róbert bassaleikari) að syngja nokkur vel valin Duran Duran lög
fyrir framan verslanirnar klukkan 14 og 16 þennan sama dag.

Pjúrur eru nú komnar aftur við sníða og saumaborðið eftir sumarfríið með höfuðin
stútfull af nýjum hugmyndum og eru nýjar og spennandi vörur væntanlegar í búðina á
næstu dögum og vikum. Einnig eru nýjar myndir á blogginu og myndir af nýjum vörum
verða settar á bloggið eftir því sem þær berast.

Við hlökkum til að sjá ykkur í Pjúru


Pjúra íslensk hönnun
Ingólfsstræti 8
101 Reykjavík

http://www.blog.central.is/pjura

Elín A. Gunnarsdóttir - elina
Hildur Hinriksdóttir - HiN
Íris Eggertsdóttir - Krúsilíus
Kolbrún Ýr Gunnarsdóttir - Kow

mánudagur, ágúst 15, 2005

Veislustjórn

Margrét Ben vinkona gifti sig á laugardaginn honum Pétri sínum. Ég var veislustjóri. Í fyrsta skipti sem ég tek svoleiðis að mér og svei mér þá mér gekk barasta rosalega vel! Þetta var flott brúðkaup í fallegum sal og fegurðin skein af brúðurinni! Margrét Eir kom og söng 2 lög fyrir þau að minni ósk og var alveg stórkostleg. Ræður voru fluttar og málverk framið af veislugestum til brúðhjóna, gullkorn skrifuð á blað, ofsagóður matur og svo var stiginn dans fram eftir nóttu. Við hjónin komum heim glöð og þreytt klukkan 2.30.

Nú er Einara systir Ingó farin til Svíþjóðar með börn og buru. Við náðum að hitta hana og dæturnar hjá Tengdó í gær og var það voðagott fyrir Hinrik. Hann er á "besta vinar" tímabilinu, allir eru bestu vinir hans til skiptis, Írena Björt, Breki Þór, Andri Þór á leikskólanum, afi Kiddi, afi Hinrik osfrv.. hann spurði Pabba sinn í gær hvort mamma væri besti vinur hans og auðvitað svaraði Ingó með jái!

Óperan bíður, byrja að vinna í dag og hlakka bara til.

sunnudagur, ágúst 07, 2005

Kabarett, Pjúra og brúðkaup.

Það er sunnudagur og veðrið úti virðist nokkuð haustlegt. Ég neita samt að trúa að sumarið sé búið! Ég er enn í fríi í óperunni. Það er búið að vera mikið að gera í búðinni og ég hef mikið verið að vinna þar þar sem stúlkurnar hafa verið mikið í fríi. Ég er komin með nýja línu af pilsum og er það gaman hvað þau rjúka út. Vonandi gengur mér vel að sauma í vikunni þar sem það er mikil forvinna við pilsin. Ég lita þau og mála og sauma svo. Fór á frumsýningu á Kabarett á fimmtudaginn og mæli óhikað með þeirri sýningu. Mjög proffessional söngleikur, snertir mann djúpt og Felix er yndislegur.. fékk flassbakk í Greyfana svei mér þá þegar hann söng svo fallegt lag. Hef ekki verið mikill aðdáandi Þórunnar en hún var helvíti góð í þessari sýningu. Auðunn Þór litli frændi minn gifti sig í gær og var það yndislegt brúðkaup! Hápunktar veislunnar voru 2. Stebbi Hilmars kom og söng 5 lög og svo slógum við systkynini í gegn með skemmtiatriði sem var improviserað á staðnum og var ég svo glöð að því loknu að við skildum gera þetta fyrir litla frænda!