þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Takk innilega fyrir kommentin á skáldsöguna. Ég mun birta næsta kafla á næstu dögum en verð að segja að þetta var bara fyrsta tilraun og á þetta eflaust eftir að þróast svolítið á næstu vikum, sennilega á ég eftir að skrifa upp fyrsta kaflann og bæta kannski svolítið inn en ég mun birta framhaldið um leið og það verður tilbúið. Það er búið að vera heilmikið að gerast í litla lífinu okkar og vil leggja fram smá myndefni hérna sem tilvísun í breytingarnar sem eru framundan í lífi okkar.


Nú sit ég á Sólon og bíð eftir Margréti sem ætlar að borða með mér.

föstudagur, ágúst 18, 2006

Ótitluð skáldsaga, fyrsti kafli

Ég var búin að búa hérna í 2. ár. Það var svolítið skrítið til þess að hugsa að á þessum tveimur árum var ég aldrei búin að fara heim. Mig langaði oft heim en ekki það mikið að ég hringdi í bankann til að fá hækkaðan yfirdráttinn. Það var svo rosalega dýrt að fljúga til Íslands frá Ítalíu, ekkert beint flug.
Vor í lofti, samt bara byrjun mars. Sumarið yrði komið eftir tvo mánuði með öllum sínum hita.
Á leiðinni í skólann leit ég upp, hafði lært það þegar ég var skiptinemi 10 árum áður, merkilegt hvað maður sá umhverfið í öðru ljósi bara með því að líta upp. Skoða fallegu byggingarnar, sótið, listaverkin utan á húsunum, þvottinn og blómapottana. Ég var á leið í skólann, þar voru vinir mínir. Giada 21. árs unglingur með mikla hæfileika, Chiara fordekruð dýralæknisdóttir, Saleti 30. brasilísk læknisfrú að leika sér með peninga mannsins síns. Og Andrea yndislegur samkynhneigður þræll tískunnar. Stundum fílaði ég mig eins og miðaldra konu í skólanum en það var nú sennilega bara reynslan sem íslenskur raunveruleiki bauð uppá. Ítalir hafa ekki sumarvinnu, ég byrjaði að vinna 10. ára. Á ítalíu er það barnaþrælkun. Ítalir fluttu líka aldrei að heiman. Ekki fyrr en mamma og pabbi voru búnir að kaupa handa þeim íbúð og þeir að gifta sig. Oft fluttu þeir ekki saman fyrr en daginn eftir brúðkaupið.. klikkun fannst mér.

Síminn minn hringdi, nafnið Alberto blikkaði á skjánum, ég fann smá skelfingarhroll hríslast um mig, var enn í viðjum geðveikinnar fann ég. Berti skerti... ætti ég að svara, vissi svo sem hvað hann vildi. Vildi fá mig aftur. Tveimur árum áður hafði ég kynnst Berta skerta á netinu. Sennilega var það ástsýkin í mér sem fékk mig til að lita við honum tvisvar. Hann kom til íslands og ég ákvað að gefa honum séns... hefði betur ekki gert það því eftir eitt ár í sambandi við hann var ég orðin gjörsamlega búin andlega. Hannv ar einkasonur, fordekraður geðsjúklingur, í dag var hann með hálfrakaðann haus og hálft skegg. Alveg satt, vinstra megin var hár og hægra megin var skalli. Hægramegin var skegg og vinstra megin ekkert. Eins og teiknimyndafígúra. Lýsti honum náttúrulega vel. Þegar ég hætti með honum byrjaði ég með öðrum sem var í hæfilegri fjarlægð. Var ekki ástfangin af honum en fann að það var eina leiðin til að slíta mig úr geðveikinni. Ég leigði af foreldrum Berta og hann vildi að ég færi. Ég vildi það og við undirbúninginn kom tilboð frá Berta, ég mætti halda áfram að leigja þessa íbúð, ef að ég myndi bara totta hann einu sinni í viku, á laugardögum! Mætti alveg eiga kærastann áfram ef að ég bara tottaði hann. Og núna var hann að hringja í mig til að rukka mig fyrir gjafirnar sem hann var búin að gefa mér síðusta árið. Hálsmen, eyrnalokkar, gerfipels, úr og farsíma og svo eitthvað fleira smálegt. 50.000.- íslenskar. Ég var að spá í að borga honum, það væri sennilega best til að losna við hann,
“Halló...”
“Hvar eru peningarnir mínir” rödd hans hljómaði eins og í leigumorðingja,
“Ég er með þá, komdu klukkan 19. í kvöld” sagði ég og fann hvernig röddin mín titraði. Ég skellti svo á. Ok, 4 tímar í skólanum, svo heim og undibúa mig fyrir geðsjúklinginn, afhenda peningana og fá hann út úr lífi mínu fyrir fullt og allt.

Salete tók á móti mér þegar ég kom í skólann. Hún var hálfföl, það var ekki fitututla utan á henni en samt var hún með fitukomplexa.
“Er allt í lagi með þig” spurði ég og horfði á hana spurnaraugum.
“Jújú, svaraði hún, ég er bara þreytt eftir nóttina, var á klósettinu í alla nótt.
“Nú spurði ég, ertu lasin?”
“Nei þetta eru nýju megrunarpillurnar, þær skilja fituna frá matnum og nú rennur bara fita úr rassinum á mér..!”
“Ha?”
“Ég er með dömubindi, þarf að skipta á klukkutíma fresti.. þetta er svakaleg vont, hefði ekki átt að taka svona margar!” Maðurinn hennar Salete, Mario, var tannlæknir, hann gat skrifað út reseft og hafði strax skrifað út fyrir þessum nýju pillum frá Ameríku, Saleta hélt áfram “Ég fór á næturklúbb í gær, og þegar ég var að dansa tók fann ég að eitthvað rann niður löppina á mér, ég var ekki í nærbuxum, kjóllinn var svo þröngur, ég hljóp á klósettið og sá þá að þetta var fita og hún var komin í kjólinn minn, rauðleit eins og ég væri með túrblett á rassinum. Ég fór heim”
Þetta kom mér ekkert á óvart, Salete var ótrúleg, og hennar vinkonur. Fyrstu og einu brjóstin sem ég hafði komið við voru bjóst Önu vinkonu hennar, 5 dögum eftir aðgerð. Voða þrýstin og fín en kannski ekki alveg eitthvað sem manni langar til að snerta sem gagnkynhneigð ung kona! Kannski var það af því að hún var frá Brasilíu en fyrir henni var ekkert mál að fara í lýtaaðgerðir og útlitið skipti öllu máli. Salete var smá skökk til augnanna, það var af því að hún hafði farið í aðgerð til að láta lyfta augunum þegar hún var 22. ára. Hún fór til flottasta lýtalæknis í Sao Paolo en þar sem hún var ekki “celebrity” lét hann nema framkvæma aðgerðina. Það mistókst smá. Sást ekkert voðamikið en samt svolítið. Núna var Mario að vinna að skiptivinnudíl við vin sinn lýtalækni, sem samanstóð af því að hann myndi gera við tennurnar í fjölskyldunni meðan lýtalæknirinn lappaði uppá Salete. Nota Bene, Salete var bara 28. ára.

Þegar skóladagurinn var búin flýtti ég mér heim til að taka á móti Berta skerta, ég var með 30.000 íslenskar í vasanum og ætlaði að láta hann fá þá og vonandi yrði málið dautt. Það var nóg fyrir símanum og smá auka, ég ætlaði ekki að borga fyrir afmælis og jólagjöf!
Ég fór í snögga sturtu, varð að flýta mér og nota bara sjampó þvi vatnið dugaði ekki til að nota hárnæringu líka. Ég fékk mér einn bjór og fór að teikna fyrir skólann. Þegar bjallann hringdi hrökk ég við og skemmdi teikninguna. Hvar var Mauri, meðleigjandinn minn? Hann hafði lofað að vera komin heim.
Ég gekk að dyrasímanum og svaraði.
“Hæ þetta er Alberto..”
“Ok ég kem niður” svaraði ég og hlustaði ekki á mótmælin. Ég skellti mér í lyftuna og dró djúpt andann. Fyrir framan blokkina mína stóð Berti, klæddur í hræðilega Hawai skyrtu sem mamma hans hafði örugglega keypt á hann á markaðnum, hann var fáránlegri en nokkurntíma fyrr en hvernig var annað hægt. Mamma hans tók til fötin hans á kvöldin, það sem hann átti að klæða sig í daginn eftir! Mitt hlutverk átti að vera það, og að skræla ofan í hann ávextina við matarborðið!
Ég horfði beint í augun á honum og sagði:
“Hér eru peningarnir og farðu úr mínu lífi að eilífu...”
“Hanna, þú veist að við getum haft þetta öðruvísi..!”
“Hvað meinarðu?” Svaraði ég og fann hvað ég var virkilega búin að fá nóg. Ég sá fyrir mér mömmu hans grátandi að biðja mig um að halda áfram með honum, sá fyrir mér öll þau skipti sem hann hafði reynt að múta mér til að halda áfram að vera með honum, ég meina hann rukkaði mig leigu 3000 kall á mánuði fyrir að nota tölvuna hans sem hann var hættur að nota og hefði annars hent!
“Þú þarft ekki að hitta mig nema einu sinni í viku og sofa hjá mér þá þarftu ekki að borga peningana og við getum verið vinir!”
“Sofa hjá þér, Alberto! Ég þoli þig ekki, þú ert fáránlegur og hér hefurðu peningana og farðu...” Ég fann hvernig ég titraði þegar ég henti seðlunum í hann, og fann hvernig bjórinn fór að virka. Peningarnir féllu ljúflega til jarðar, verst kannski að það var alveg logn, annars hefði ég notið þess að horfa á hann reyna að safna þeim saman.
Ég snéri mér snögglega við og strunsaði að hurðinni, ég fann hvernig hjartað í mér barðist og svitinn spratt fram. Ég var svolítið hrædd um að hann myndi elta mig og jafnvel lemja mig.. ég náði með erfiðleikum að stinga lyklinum í skránna og loka á eftir mér. Ég andaði ekki fyrr en ég kom í lyftuna. Ég fann að tárin voru að spretta fram en náði að halda í mér uppá fimmtu hæð. Þegar ég kom inn brotnaði ég niður, og dyrabjallan byrjaði að hringja.
Og hringja og hringja. Það var hann, brjálaður, ég fór útá svalir og sá hann speglast í glugganum á neðstu hæðinni á byggingunni á móti. Ég heyrði líka í honum öskra að þetta væru ekki allir peningarnir. Eftir 30. minútur hætti hann og fór. Og 10. mínútum seinna kom Mauri glaður heim. Hann kom beint inn í herbergi til mín og ég horfði á hann uppgötva hverju hann hafði gleymt!
“Fyrirgefðu Hanna mín, ég var alveg búin að gleyma Skerta.” Hann tók utanum mig og bauð mér út að borða. Það var gott því ég átti engan pening!
Hann fór með mig á pizzastað þar sem allar pizzur fyrir kvenfólkið voru hjartalaga! Mauri var yndislegur vinur. Hann var 3. árum yngri en ég. Nýbyrjaður með Rosu sem var 1.46 á hæð, sem passaði vel við Mauri því hann var bara 1.53! Ég var risavaxin miðað við hann en samt bara 1.67. Ég klappaði honum stundum á hausinn svona til að stríða honum.

Klukkan var orðin 12. þegar við komum heim. Ég bauð góða nótt og fór til að athuga hvort ég hefði fengið einhvern email. Ég komst ekki í pósthólfið mitt, sem var skrítið, skilaboð birtust á skjánum sem sögðu að ég væri ekki með rétt lykilorð!? ostur, lykilorðið mitt var ostur, allsstaðar, pósturinn minn, spjallforritið, alltaf ostur. Ég svitnaði, Berti vissi lykilorðið mitt, af hverju var ég ekki búin að breyta því! Asni hugsaði ég og þá heyrðist pípið sem sagði mér að ég væri að fá skilaboð í gemsann. Ég skoðaði skilaboðin:
“ÉG HEF TEKIÐ EMAILINN ÞINN Í GÍSLINGU, BORGAÐU 20.000 INNÁ REIKNINGINN MINN, OG ostur VERÐUR AFTUR LYKILORÐIÐ ÞITT!”
Svar: “FARÐU Í RASSGAT OG TAKTU EMAILINN MINN MEÐ ÞÉR”

Skáldsaga

Ég byrjaði að skrifa skáldsögu í gær. Sat á Sólon og skrifaði þar til tölvan varð batteríslaus. Mér finnst það rosalega gaman. Ég hef alltaf verið mikill lestrarhestur og hefur oft langað til að skrifa skáldsögu. Núna hef ég smá tíma. Er að íhuga að setja hana hérna inn svona til að fá smá viðbrögð kannski frá vinum mínum. Hvað segið þið um það?

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Magni og Hálvitarnir

Ég horfði á Rockstar supernova í gærkveldi og sá þegar Magni lenti í neðstu þremur sætunum. Mér finnst Magni vera frábær, fannst hann líka frábær með Á móti sól, hef kannski þurft að skammast mín svolítið fyrir það því það er náttúrulega ekki kúl að vera 35. ára móðir sem finnst gaman að heyra popphljómsveit í útvarpinu en svona er það bara. Ég var svolítið miður mín að hann skildi vera í neðstu sætunum en held að það séu margir íslendingar sem ekki vaka til að kjósa þar sem fólk er byrjað að vinna eftir sumarfrí. Ég kaus hann nokkrum sinnum en ekki eins oft og áður þar sem tengingin var eitthvað að stríða mér. Svo heyrði ég í gær að þátturinn í næstu viku verði klukkutíma seinna... það verður nú sennilega til þess að enn færra fólk vakir til að kjósa. Reyndar veit maður ekki hvað okkar atkvæði hafa mikið vægi.. en samt. Ég hugsa að ég vakni til að kjósa hann næst. Vill endilega að hann komist í úrslitin en ekkert endilega að hann vinni!

Ég er í Reykjavík í dag. Það er aðeins að renna upp fyrir mér að ég er atvinnulaus og ég hef ekki alveg haft kraftinn til að byrja að sauma að einhverju ráði, var heima síðustu 2. daga og þegar ég lít til baka sé ég að þessa 2. daga er ég bara búin að þvo og ganga frá þvotti og hanga í tölvunni. Heklaði reyndar eina og hálfa húfu í gær en það var yfir Rockstar...
Ingólfur fer í óperuna á hverjum degi og ég fæ allar óperufréttir frá honum og vinum mínum og fyrrverandi samstarfsmönnum. Er að reyna að brynja mig því það eru yfirleitt ekki góðar fréttir sem ég er að fá. Mikið Djöfull er ég fegin að vera ekki lengur að vinna þarna! That´s the God Holy truth!

Hinrik er orðin svo stór og nú þurfa foreldrarnir virkilega að passa sig á því hvað þeir segja. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki þolinmóð í umferðinni... keyri alltaf á löglegum hraða og þó það sé gaman að spýta í þá geri ég það ekki! Á leiðinni norður um helgina varð ég frekar pirruð þegar hver bíllinn á fætur öðrum spýttist fram úr mér með tjaldvagna í eftirdragi og meira að segja hjólhýsi, og ég að keyra á 90... ég lét út úr mér ýmis blótsyrði en aðallega hvað þetta væru miklir hálvitar sem voru að taka fram úr mér.
Í Hrútarfirðinum keyrðum við fram á lögreglubíl með blá ljós sem var búin að stoppa einn ökuníðinginn, ég útskýrði þá fyrir syni mínum að nú væri löggan búin að taka mann sem var að keyra of hratt og nú þyrfti hann að borga sekt. Hinrik hugsaði sig um í smá stund og sagði svo; "Mamma, er þá löggann búin að taka alla HÁLFVITANA?" Mér rann kallt vatn milli skinns og hörunds og meðan ég reyndi að fela hláturinn ákvað ég að reyna að passa mig í framtíðinni því ég vil ekki að sonur minn tali um alla FOKKING HÁLFVITANA Í UMFERÐINNI.

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Verslunarmannahelgi og Eyjafjörður

Kjósin um Verslunarmannahelgina







Húsfreyjan að veiða gæludýr handa syninum.

Hinrik Leonard og Jóhann Gylfi í veiðiham

Sveitamarkaður, Ég, Kata frænka og Hildur móðursystir


Sveitamarkaður

Það var rosalega gaman hjá okkur familíunni um helgina, fórum norður til Akureyra og betur því við gistum hjá Kötu frænku og fjölskyldu að Hrafnagili. Notuðum laugardaginn til að skoða handverkssýninguna og svo seldi ég húfur á Sveitamarkaðnum við gömlu gróðrastöðina á Grísará á sunnudeginum. Það var ótrúlega gaman! Hildur móðursystir bakaði vöflur og seldi jafnóðum og Kata frænka bakaði kleinur um morguninn og seldi og seldi, hún var líka með rabbabaramarmelaði með appelsínum og sítrónum sem rann út eins og heitar lummur! Hinrik var í essinu sínu með Jóhanni Gylfa sem er 5. ára sonur Kötu, þeir veiddu fisk um allar sveitir með flotholti og má sjá seríu á heimasíðunni hans Hinriks http://hinrikleonard.barnaland.is/
Mér fannst alveg yndislegt að vera heima hjá Katrínu frænku minni og kynnast henni uppá nýtt, mig dreymir um að flytja í Hrafnagilið og kenna í skólanum sem er fallegur draumur! Það var líka svo rosalega gott veður og alltaf gaman að vera í heimsókn hjá góðu fólki. Ég er samt alveg örmagna eftir keyrsluna og vorum við ekki komin heim fyrr en korter í eitt aðfararnótt mánudags og auðvitað vöknuð klukkan hálf átta morguninn eftir.
Núna er ég að slaka á heima og þvo þvott enda þurrkurinn góður!

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Sjampó

Ég er með feitt hár! Síðan ég var barn hef ég barist við að finna lausn á fituframleiðslunni í hárinu á mér og þrátt fyrir miklar tilraunir, permanett 12 ára, strípur 13 ára og að þvo ekkert á mér hárið í 14 daga þegar ég var á spítala á ítalíu 18 ára, þá hefur ekkert virkað! Stundum finn ég voðagott sjampó en það virkar ekki nema niður í miðja flösku. Þá þróar hársvörðurinn mótefni gegn efninu og hárið fitnar sem aldrei fyrr. Ég fann fyrir nokkrum árum duft frá Bumble and Bumble sem ég get notað sem þurrsjampó svona ef ég er í útilegu og svoleiðis og kemst ekki í sturtu og það er voðafínt að hafa til að hlaupa uppá en ég virðist samt vera komin með þetta svo á sálina að mér líður aldrei vel nema vera með alveg hreint hár. Ég hef reynt að fara í sturtu á kvöldin en oftar en ekki er hárið á mér svo feitt þegar liðið er á miðjan dag að mér líður illa. Ég vildi óska að það væri til töfralausn á þessu máli en verð held ég núna 35 ára að sætta mig við það að ég verð að þvo á mér hárið á hverjum degi!! Bömmer!

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Sólon

Sit á Sólon og blogga í miðborginni! Ingólfur að vinna og Hinrik í leikskólanum eftir 5 vikna sumarfrí. Hann var alveg tilbúin að koma aftur og hitta vini sína!

Fórum í útilegu ársins um helgina. Fórum á föstudaginn keyrandi á eðalkerrunni uppí Kjós og tjölduðum stóra fína Tjaldinu okkar sem við vorum að vígja, keyptum það eftir síðustu verslunarmannahelgi og höfum ekki notað það neitt í sumar. Það var rosalega gaman að vera með svona góða aðstöðu og þó það hafi ringt reglulega alla helgina kom það ekki að sök því það þornaði á milli og aðstaðan í tjaldinu var svo helv. fín! Hinrik var í essinu sínu að leika sér úti allan daginn og ég fékk einn fisk í Meðalfellsvatni sem hann lék sér með eins og vin sinn og auðvitað mátti alls ekki grilla hann. Hann samþykkti nú samt að geyma hann í frysti eftir miklar fortölur en hann langaði rosalega til að hafa hann hjá sér í herberginu sínu!

Ég kom nú ekki ósködduð úr ferðalaginu fékk gat á hausinn á laugardaginum þegar ég gekk á opið skottið og dúndraðist í jörðina. Það kom blóð og allt!! Stundum er maður ekki alveg með allt á hreinu og mundi það svo að þetta kom líka fyrir í fyrra þegar við notuðum skottið fyrir eldhús, en þá blæddi ekki. Svona er þetta stundum.

Hlakka mikið til að fara í næsta ferðalag um næstu helgi norður í Eyjafjörðinn þar sem ég ætla að selja nokkrar húfur á markaði á Sunnudeginum á Grísará.

Nú er farið að síga á seinnihluta sumarsins en ég ætla að njóta þess í botn sem eftir er þar sem að í fyrsta skipti í 2. ár sem ég er ekki að vinna eins og geðsjúklingur í ágúst. Skál fyrir því!!

p.s. reyklosunin gengur ágætlega, farin að taka nikótíntyggjóið inn og búin að minka sígaretturnar niður í örfáar á dag!

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Kaffi og sígó

Ég er fíkill! Kaffi og sígófíkill.. síðan Ingólfur fór út er ég búin að hanga svo mikið í tölvunni að ég er að fá ferkanntaða augnsteina.. og drekka kaffi og reykja. Þetta gengur ekki lengur. Um verslunnarmannahelgina ætla ég að kaupa mér nikótíntyggjó og reyna að njóta náttúrunnar reyklaus... gangi mér vel með það!

Við hjónin skoðuðum íbúð hér í Njarðvík á föstudaginn. Hún þarfnaðist mikilla lagfæringa og ég var að berjast við skrítnu tilfinninguna sem ég fékk þegar ég kom inní hana. Ákvað að leggja þetta í guðs hendur og gera ekki tilboð strax. Hringdi áðan til að fá að skoða hana aftur í kvöld með tengdapabba en þá var búið að selja hana! Mér létti. Það er stór ákvörðun að kaupa sér íbúð hvað þá í sveitarfélagi sem er svo langt frá manns fyrri heimaslóðum. Helst vildi ég vera í Hafnarfirði en það er bara svo helvíti dýrt að kaupa og leigja þar. Vonandi dettur eitthvað í hendurnar á okkur núna á næstu vikum mig langar til að búa mér til heimili. Með mínum hlutum í kringum mig. Ekki misskilja mig það er yndislegt að búa hér hjá Tengdó. En ég sakna þess að vera með mína hluti.

Er oft að hugsa um þetta blogg. Það er oft frekar leiðinlegt og hversdagslegt. En stundum hefur maður bara frá engu að segja en langar til að segja samt eitthvað.

Ekki á morgun heldur hinn kemur Ingó minn heim. Ég hlakka svo mikið til hann er búin að finna fullt af fötum á mig og Hinrik.

sunnudagur, júlí 30, 2006

Aðlögunarhæfni

Yndislegi maðurinn minn er farinn til Köben, ég vona að það verði gaman hjá honum og að hann sjái margar góðar sýningar! Skemmtilegt með söknuðinn. Ég man þegar ég var "ung" og bjó ein í mörg ár. Átti í erfiðleikum með að hugsa mér lífið búandi með einhverjum... í dag get ég ekki hugsað mér líf mitt án Ingó og Hinriks. Ég held að öll þessi vera í útlöndum hafi alið upp einhverja aðlögunarhæfni í manni sem er alveg ótrúleg. Að geta breytt um viðverustað si svona og liðið barasta helv. vel. Er mikið að hugsa um framtíðina þessa dagana og hvar við eigum að búa.. aldrei að vita nema að það verði hér í Njarðvík næstu 2 til 3 árin...

föstudagur, júlí 28, 2006

Dillandi hlátur

Það er komin föstudagur og styttist í að Ingó fari til Kaupmannahafnar. Ég vaknaði við það að Hinrik var að fikta í hárinu á mér skellihló. Yndislegt að vakna við dillandi hlátur sonar síns. Það rignir hér enn mér finnst það bara verst út af þvottinum. Eftir að við fluttum hingað hefur verið mikil gleði að geta hengt upp þvottinn úti, finnst það vera skemmtilegt og afslappandi iðja. En nóg um það. Við ætlum að fara til Berglindar í kvöld, sofa þar öll fjölskyldan. Það er alltaf gaman að skipta um umhverfi. Þarf að fara í geymsluna okkar í dag og sækja svolítið af garni. Ég er búin með allt sem ég kom með hingað og þarf að fara að framleiða meira. Ég vona að ég geti selt eitthvað hér í Keflavík á Ljósanótt. Við erum að spá í að fara norður á Handverkshátíðina svona til að hitta familíuna þar og gista sennilega hjá Soffíu og Viðari. Ingólfur kemur heim á föstudaginn og þá brunum við uppí Kjós. Það er búin að vera tilhlökkun í mér í margar vikur fyrir þessu ferðalagi...

mánudagur, júlí 24, 2006

Berrassaður á tánum

Það er tómlegt í kofanum eftir að gestir síðustu vikna eru farnir til síns heima. Hinrik grét þegar hann klæddi sig í morgun því hann langar svo til að fara til ítalíu þar sem er heitt. Honum finnst svo leiðinlegt að geta ekki hlaupið út í garð berrassaður. Elsku karlinn!

Ingólfur fer til Danmerkur á sunnudaginn kemur á leikstjóra ráðstefnu, við Hinrik ætlum að vera hjá Berglindi frá laugardegi til mánudags að hugsa um Kristján og það verður nú gaman! Þá get ég dottið í ítalska sjónvarpið þar sem þau eru með gervihnattadisk. Svo kemur Ingólfur á föstudeginum og þá brunum við í Kjósina að hitta fjölskylduna mína það verður nú gaman.

sunnudagur, júlí 23, 2006

Sumar...

Ég varð fyrir því óhappi að vera að zappa á milli stöðva núna og lenti á skjá einum þar sem verið er að sýna lokaþátt af Bachelorette þættinum. Oh my god.. ég skil ekki af hverju ég skipti ekki aftur er búin að þola núna 2 mínútur af hræðilegri höfnun sem er svo hallærisleg skil ekki hvernig þetta getur verið gott sjónvarpsefni? Mér finnst gaman af raunveruleikaþáttum, Americas next topmodel, Rockstar Supernova, Love Island á breskri stöð ITV1 en ekki The Bachelorette!! Hallærislegt!
Búin að skipta um rás!
Soffía systir Ingó og fjölskylda fóru héðan áðan eftir tveggja vikna dvöl. Það er búið að vera mjög gaman hjá Hinriki og Einari Berg að leika sér allann daginn, Hinrik á eftir að sakna litla frænda síns. Jón Sigfús er líka búin að slá í gegn, Hann er 4.mánaða og er svoo mjúkur eins og Hinrik orðar það!
Saumaði eitt pils í gær. Var búin að ákveða að sauma 10 pils á mánuði þannig að ég verð að fara að spýta í lófana ef ég á að ná því fyrir mánaðarmót. Ingólfur tók fullt af myndum af húfunum mínum sem ég ætla að fara að setja á heimasíðu HiN design, sem er á http://www.geocities.com/hin.design/
ég er ekki enn farin að vinna hana en það verður á næstu dögum.
Hér eru nokkrar myndir
Ull og skrautgarn

Ull og gullþráður


Ull og Mohair


Ull og mohair

mánudagur, júlí 17, 2006

Húfur og útvarpsleikrit

Búin að vera dugleg að framleiða heklaðar húfur í þessari rigningu... ef ykkur vantar heklaða húfu á 2500 kall látið mig vita ætla að taka nokkrar myndir og setja hér inn...

Ingó og Soffía fóru í Reykjavík á McDonalds og í Tivolí... ég er búin að vera heima og taka til og skúra.. ekki veitti af þar sem ég hef ekkert skúrað í viku! Heheh gaman að hafa svona áhuga á heimilisverkum allt í einu. Er líka að þvo á fullu og er farið að vanta garn til að geta heklað meira. Þarf að fara að komast í búð.. skildi vera einhversstaðar afsláttur á garni? I wonder.

Einkennilegt að fara ekkert í Reykjavík. Skrítið að hugsa til miðbæjarins en það eru komnir 10 dagar síðan ég fór í miðbæinn.. það breytist nú í ágúst þegar að Hinrik byrjar aftur í leikskólanum þá fer ég að fara oftar.. sakna svolítið 101 en aðallega bókasafnsins....

Fylgdist með framhaldsleikritinu í útvarpinu sem kláraðist á föstudaginn, mér finnst rosagaman að hlusta á glæpaleikrit en fannst þetta ekkert sérstakt.. sérstaklega leikstjórnin... alltof mikið af einhverjum effectum og símhringinum endalausum... Nú var að byrja nýtt en það eru sömu leikstjórar... þannig að það verður sennilega ekki betra...

laugardagur, júlí 15, 2006

Litlu hlutirnir...

Það eru litlu hlutirnir í lífinu sem skipta máli. Það er yndislegt að vakna á laugardagmorgni og knúsa þriggja ára son sinn í svolitla stund. Skiptir engu máli þó rokið berji á gluggann.. þá er best að hugsa jákvætt og þvo nokkrar vélar og hengja út og vona að ekki komi skúr. Svo er gott að fara í hádegisgrillveislu hjá gömlum vinum og segja rokinu stríð á hendur! Yndislegt að horfa á fallega mynd á laugardagskvöldi eins og til dæmis Elizabethtown.. yndisleg mynd!

Ég veit að ég kemst í útilegu einhverntíma á næstunni.. ætla að halda áfram að láta mér hlakka til.. þó að veðrið sé leiðinlegt núna þá HLÍTUR það að batna... ekki satt!?

Það er yndislegt að eiga góða fjölskyldu sem maður getur elskað skilyrðislaust. Ég á þannig fjölskyldu!

miðvikudagur, júlí 12, 2006

Frábært vídeó.. góða skemmtun!

Magnýýýý

Varð barasta að blogga um kallinn. Hann var rosaflottur í Rockstar í kvöld. Verst að þurfa að vaka svona lengi til að kjósa hann! Ég fór á Duus í dag með Margréti, borðaði rosagóða súpu og naut útsýnisins. Góð ástæða til að koma hingað og heimsækja mig og fara í súpu á Duus.

Sá geðveik stígvél í dag sem mig langar í en þau kosta tólfþúsundkall!!

Annars er það bara upp með brúnkukremið og klútana. Komin með helv. góðan lit!

þriðjudagur, júlí 11, 2006

það rignir

Það rignir í Njarðvík! Og spáin segir að það eigi að rigna alla vikuna. Ég er ekki að meika þetta. Hinrik lokaður inni og ekki að fíla þetta. Fór í yndislega fjöruferð á sunnudaginn með Elínbjörtu og co og Auði og Dóra. Við fórum að tína steina fyrir Auði frænku og steinakallana hennar sem eru mest seldu vörurnar fyrir ferðamenn í Rammagerðinni. Stollt af henni!

Við urðum heimsmeistarar! Ofurspennandi leikur sem endaði á besta veg! Horfði á útsendingu á Rai uno í gærkveldi þegar meistararnir komu heim. Er að farast úr heimþrá. Langar svo að fara með Hinrik til Rómar.. það kemur að því kannski í október.. hver veit...

laugardagur, júlí 08, 2006

Músarunginn

Sjáið þið litla músarungann á myndinni? Við fórum í góðan rúnt um Reykjanesið í dag og enduðum með nesti í skógi hér við Grindavíkurafleggjarann. Meðan feðgarnir fóru í feluleik kom þessi fallegi ungi til mín og byrjaði að naga strá og éta lúpínublöð.




fimmtudagur, júlí 06, 2006

Mín undurfagra vinkona...


... Margrét Eir og nýja lookið! Hún er bara æðisleg!

Ítölsk dramatík eða hvað

Ég hef svo margt að segja núna að ég veit ekki hvar skal byrja... kannski á fótboltaleiknum á þriðjudaginn!!
Ég er búin að þurfa að verja elsku ítalina mína opinberlega og óopinberlega síðustu vikurnar. Það hafa margir verið með miklar yfirlýsingar um það hvað ítalirnir séu miklir leikarar og ömurlegt að horfa á boltann. Ég hef alltaf viðurkennt að þeir eru oft dramatískir en að fótboltinn sem þeir spila sé eitthvað annars flokks kaupi ég alls ekki, enda þekkt fyrir að fara á fótboltaleiki í Róm og Torinó og dyggur stuðningsmaður Lazio. En þjóðverjarnir á þriðjudaginn... guð minn góður!! Þvílíkur leikaraskapur, þeir féllu við ekki neitt og var alveg ótrúlegt að horfa á. Ítalirnir voru dramatískir og vildu breskir kynnar oft meina að þeir væru að leika en í endursýningu kom alltaf fram að brot hefði átt sér stað.
Þetta var stórkostlegur leikur og var ég í beinu sambandi við Helga bróður þar sem hann var á vellinum með Breka syni sínum. Spenna út í eitt og áttu ítalirnir virkilega skilið að vinna.. ætla núna að fara að klára að elda kjúklinginn og skrifa meira á eftir!

Búin að borða dásamlegan kjúkling og ganga frá. Eiginmaðurinn farin að leggja sig og sonurinn að horfa á sjónvarpið. Er mikið að hugsa um framtíð mína og fortíð þessa dagana, aðallega í sambandi við mína fyrrverandi vinnu og verð ég að segja að með hverjum deginum sem líður verð ég glaðari og glaðari með mína ákvörðun. Einnig er ég að rekast á kunningja af og til og það kemur engum á óvart að ég hafi hætt. Ég finn mikinn stuðning og gott að finna það! Best að hafa sem fæst orð um það hér á opinberum stað!!

mánudagur, júlí 03, 2006

Húsfreyja

Mér hefur verið bent á það á síðustu vikum að ég sé orðin svo mikil húsfreyja. Ég er alltaf að taka til og skúra og þvo þvott og þurrka af borðum og elda.
Mér finnst það góður titill! Og ég finn mikla gleði í því að þvo og elda þó ég láti Ingólf algerlega sjá um grillmennskuna.
Það er nefninlega til stórgott grill á heimilinu og hefur það verið mikið notað í sumar. Ingólfur hefur fundið grillgenið og heldur því reyndar fram að Pabbi sé að grilla í gegnum sig! Ég trúi því alveg því pabbi minn grillaði meira að segja á jólunum!

Nú fer fjölskyldan að detta inn í sumarfrí, okkur langar mikið að halda af stað með tjaldið í vikunni og förum þangað sem veðrið verður best.

fimmtudagur, júní 29, 2006

Margrét Eir, Elínbjört og Ármann


Fór á tónleika í gær með MoR á Yello í keflavík! Það var algerlega magnað. Margrét var í ótrúlegu formi og söng stanslaust í 2 klukkutíma! Ég hef alltaf verið hennar helsti aðdáandi og ég treysti mér til að segja að hún hafi aldrei verið betri enn einmitt núna og þá er nú mikið sagt. Hér er heimasíðan hennar http://www.margreteir.com/ .

Félagslífið hjá mér er í miklum blóma eftir að ég flutti "út á land" !!
Fór með Elínbjörtu frænku minni í bíó á mánudaginn að sjá Keeping Mum, skemmtileg mynd og nú bíð ég eftir að myndin The Lake house komi til keflavíkur þá verður nú gaman hjá okkur frænkunum.

Er líka að reyna að framleiða eitthvað af húfum, hekluðum og langar til að fara að sauma svolítið af pilsum þar sem ég er í launuðu sumarfríi þessa mánuðina!

Fór á kyrrðarstund í gær í Neskirkju með Ármanni, Mömmu, Auði og svo bauð ég Villa með. Það var yndislegt. Kyrrðarstundin var fyrir krabbameinssjúka og aðstandendur þeirra og á eftir var svakaleg grillveisla sem Ármann bauð mér í. Gott að eyða tíma með þeim sem maður elskar. Það er ekki spurning!

mánudagur, júní 26, 2006

Totti klikkar ekki



Helvítis ítalirnir eru komnir áfram eftir fáránlegt brot hjá Áströlum í vítateig.. þessar elskur þeir eru svo miklir leikarar og ég elska að horfa á ítalskan fótbolta. Totti skoraði vítið og hér eru góðar myndir af honum.... hehehehe Viva Italia....!!!






laugardagur, júní 24, 2006

Lykt


Ég á lítin prins, sem virðist vera að uppgötva lyktarskinið, hann liggur núna uppí rúmi og kallar í mig sem sit hér frammi á tveggja mínutna fresti til að tilkynna mér að það sé vond lykt af einhverju, fyrst voru það tærnar á honum svo ég náði í þvottapoka og þvoði þær með bros á vör, svo var það duddan hans sem var með hræðilega duddulykt. Ég bauð honum að henda bara öllum duddunum hans en hann var ekki ánægður með það. Svo var komin svo hrikaleg hrossaflugu lykt inn til hans, svo móðirinn hugrakka fangaði hrossafluguna og sleppti út í garð. Nú bíð ég með öndina í hálsinum.. hvað skildi það vera næst... sængurlykt? eða hrikaleg koddafýla.. veit ekki en það er gaman að þessum ungum!

þriðjudagur, júní 20, 2006

Brúðkaup á 17. júní


Hermann og Birna 17. júní 2006

Hermann "bróðir minn" og Birna giftu sig á 17. júní, Ingólfur stillti upp þessari skreytingu sem lýsir tilfinningunni í brúðkaupinu sem var yndislegt í alla staði.



Gísli Pétur bróðir var auðvitað glerfínn með fallega
hattinn sinn sem hann var með í sínu brúðkaupi um áramótin....














.... Helgi og mamma voru glerfín líka sem sést á þessari listrænu mynd.








Ingólfur tók þessa mynd af mér og nokkrum glösum en vel var veitt í þessu brúðkaupi og þar sem Hemmi er kokkur var maturinn auðvitað ótrúlegur, skelfiskur og innbakaðar nautalundir og ég fæ vatn í munninn bara á því að hugsa um hann.





Mikið var um frábær skemmtiatriði og þarna er ég að fagna einu þeirra!

Jón Gestur og Steina systir voru frábærir veislustjórar og við skemmtum okkur konunglega! Uppúr stendur frábær flutningur þeirra á Bubbalaginu Svartur Afgan þar sem Steina sló í gegn með munnhörpuna!

mánudagur, júní 19, 2006

19. júní 2006

Fyrir 5. árum dó pabbi minn. Á þessum degi, alltof snemma hann var bara fimmtugur. Ég held maður geri sér ekki alveg grein fyrir hvað fráfall föður hefur mikil áhrif á mann þó tímin líði þá læknar hann ekki heldur hjálpar manni að lifa með. Auður móðursystir mín sagði mér góða sögu einu sinni. Hún sagði að lífið og fólkið í kringum mann væri einn órói, þegar einhver deyr þá skekkist óróinn og það tekur hann tíma til að ná aftur jafnvægi, það sama gerist þegar barn fæðist þá skekkist hann aftur og tekur tíma að jafna sig. Ég hugsa að það sama hafi gerst hjá mér á föstudaginn, þegar ég sagði upp í vinnunni og hætti samdægurs. Ég tók ákvörðun um að hætta þegar ég fékk ekki að stjórna saumastofunni eins og ég vildi. Ég er mjög sátt við þessa ákvörðun en held samt að það sé viss sorg í hjarta mínu eins og ég hafi misst vin. Það er samt mikilvægt til þess að hugsa að ég fór ekki í neinu fússi heldur stóð við það sem mitt hjarta sagði mér og núna er ég laus. Er komin í sumarfrí og er að byrja að hugsa um framtíðina mína, sem mér finnst svo björt. Góð vinkona mín hafði orð á því áðan að ég væri allt öðruvísi í framan. Það væri svo létt yfir mér og ég liti svo vel út. Held að það sé af því að ég er svo sátt við mína ákvörðun og hlakka svo til komandi verkefna.

Fleira er svo að frétta. Ég komst í gegnum hann Ármann minn í magaspeglun á fimmtudaginn og er búin að fá greiningu og lyf við flestum mínum kvillum. Ég er með vélindabakflæði, þindarslit og magabólgur og eftir að ég byrjaði á lyfjunum hef ég ekki fengið brjóstsviða en hann hefur fylgt mér síðan ég var unglingur. Þvílíkt frelsi!! Mig dreymir nú um að borða pizzu með pepperóní og lauk en svoleiðis hef ég aldrei getað látið inn fyrir mínar varir vegna brjóstsviða. Ég er líka farin að hvílast betur á nóttinni og sé bara fram á dásamlegar stundir!!

Við Ingólfur fórum á Grímuna á föstudaginn og áttum góða kvöldstund. Ingólfur fékk ekki verðlaunin í þetta skiptið en fær hana bara næst. Ég saumaði pils á Hrund Ólafsdóttur sem var tilnefnd sem leikskáld ársins og var hún stórglæsileg á hátíðinni, hún fékk ekki heldur verðlaunin en fær hana bara næst!

sunnudagur, júní 11, 2006

Gríman



Ingólfur minn er tilnefndur til Grímunnar í ár!!

Fyrir útvarpsleikritið Ómerktur ópus í c-molleftir Karl Ágúst Úlfsson í leikstjórn Ingólfs N. Árnasonar. Hljóðsetningu annaðist Björn Eysteinsson.

Ég fór í Borgarleikhúsið á miðvikudaginn til að taka við viðurkenningarskjali úr höndum Forsetans! Það var f....ing erfitt að fara uppá svið og er ég frekar ánægð með að vera að vinna baksviðs í leikhúsinu!!

Við hjónin förum svo þann 16. júní á afmælisdeginum hennar mömmu á hátíðina.. vona að Ingó fái þetta!

mánudagur, júní 05, 2006

Veikindi og Lost

Ég verð að fara að athuga hvað upphæðin er á fjölskyldu til að fá afsláttarkort frá Tryggingarstofnun! Það er ekki heilbrigt hvað fjölskyldan hefur verið veik síðan við fluttum í Njarðvík! Ég er náttúrulega löngu komin með svoleiðis kort en núna eru Ingólfur og Hinrik báðir búnir að heimsækja Heilbrigðisstofun Suðurnesja, síðast í morgun. Hinrik vaknaði öskrandi klukkan 5. með svívirðilega eyrnarbólgu og Ingólfur fór með hann á vaktina strax klukkan 10. (ég svaf var að horfa á Lost í nótt.. meira um það á eftir) Þegar þeir komu heim lagðist Hinrik í rúmið okkar með Ingólfi og við horfðum á hitann hækka, eftir að hafa tekið inn Pensillín og hálfsofnað kastaði hann öllu upp, yfir sig, pabba sinn og rúmið.. Síðan hafa þeir feðgar sofið!

Ég var semsagt að horfa á Lost í nótt.. á núna tvo þætti eftir af seríu 2 og ohmygod!! Sem betur fer hefur serían aldeilis tekið á sig sína fyrri mynd, spenna og óvæntir atburðir eru að ganga frá mér og ég hlakka svoooo til í kvöld að horfa á síðustu tvo þættina.

sunnudagur, maí 28, 2006

Þetta er skemmtilegt!!







What Kind of Coffee are You?

Sem betur fer er ég espresso... gæti aldrei staðið undir nafni sem espressofíkill ef ég hefði verið Latte eða eitthvað þeim mun verra!!

fimmtudagur, maí 25, 2006

Uppstigningardagur

jesú labbaði upp til himna í dag segir Hinrik minn. Hann liggur fyrir aftan mig í rúminu, ég er ekki enn búin að koma honum niður en eyddi með honum klukkutíma í rúminu í kvöld... hann er svo mikið næturdýr þessi elska eins og foreldrarnir. Svo er hann farin að sofa alltaf á milli Reykjavíkur og Njarðvíkur þannig að hann fer seinna að sofa. Depressionin er öll að víkja, komst að því að best er að hugsa jákvæðar hugsanir þá líður manni ekki eins illa, annars var þetta nú ekkert alvarlegt, heldur bara venjuleg niðursveifla enda ekki lítið búið að vera í gangi í lífi litlu fjölskyldunnar síðustu vikurnar og mánuði. Annars er lungnakvefið að lagast þó að hóstinn verði eflaust eitthvað áfram. Ég byrjaði aftur að vinna í gær og nóg að gera í vinnunni eins og venjulega.. næsti vetur verður mjög erfiður og vonandi verðum við komin með íbúð fljótlega í Hafnarfirði.. látið mig vita ef þið vitið um íbúð í Hfj.

þriðjudagur, maí 23, 2006

Skemmtilegt..depressed





What type of Fae are you?


Fallegt.. ekki satt? Depressed.. mér líður mjög svoleiðis núna búin að vera lokuð hér inni í eina og hálfa viku og sé ekki fram á að komast í vinnuna heldur á morgun þar sem ég er enn með hita.. held að það hafi skinið í gegn þegar ég var að svara þessu quizzi... ég er depressuð þessa dagana.. meira en lítið..púffffff

sunnudagur, maí 21, 2006

Lordi bestir


Þvílíkt kvöld loksins loksins var gaman að horfa á Júróvisjón og mínir menn unni hefur ekki gerst síðan einhverntíma fyrir tugum ára!



Við fjölskyldan fórum til Elínbjartar frænku í matarboð og Júróvisjónpartí og það var svo rosalega gaman!! Ég er samt enn að drepast og er flensan ekki alveg farin úr kroppnum....

miðvikudagur, maí 17, 2006

Tuborg

Áríðandi tilkynning frá Sjálfstæðismönnum í Tuborg (áður Árborg)



Eins og flestir ef ekki allir íbúar Tuborgar vita þá hefur eitt af stóru

baráttumálum Sjálfstæðisflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í

ár verið áhersla á að Hellisheiðin verði full-upplýst á næsta

kjörtímabili... Þetta baráttumál er ekki lengur á stefnuskrá flokksins þar

sem komið hefur í ljós að ljósastaurar geta hreinlega bara verið fyrir!!



Ennfremur skal það tilkynnt að helsta baráttumál flokksins er nú hjólreiðastígur milli Eyrarbakka og Selfoss.

Ég er búin að fá þetta sent frá nokkrum vinum og kunningjum í dag.. ógeðslega fyndið!

sunnudagur, maí 14, 2006

Lungnasýking og Silvía Nótt

Var búin að skrifa rosapóst um veikindin mín núna þessa dagana og hvursu erfitt er að hanga inni í góðu veðri en svo strokaði ég hann út. Ég er semsagt með lungnasýkingu, bronkítis ofl og ekki orð um það meir.

Ég ligg uppí rúmi og er búin að vera að hlæja að Eyþóri Arnalds og hans hrakförum.. greyið sjálfstæðistappinn!!

Svo fór ég að hlæja að Silvíu Nótt og hennar frægðarför.. ég er alveg að fíla hana en er viss um að hún kemst ekki áfram.. vildi samt óska þess aðallega útaf honum Gísla Magna vini mínum sem er í bakröddum hjá henni.

Ætla að leggjast í vídeógláp í kvöld og gleyma mér í einhverri ástarvellu. Mæli með myndinni Just like Heaven
yndisleg mynd fyrir konur og kalla....

Hinrik gaf mér loðin púða í mæðradagsgjöf ætla að kúra á honum og glápa á imbann.

mánudagur, maí 08, 2006

Andvaka...

og flutt. Það er yndislegt að vera flutt í Njarðvík! Hinrik er svo glaður því hann hefur stóran garð til að leika sér í og fullt af frændsystkynum sem koma að heimsækja hann á hverjum degi.

Flutningarnir tóku 5 daga. Ohh hvað það var gott að henda enda búin að búa í 5 ár og erfa 2 einstaklinga á þessum árum. Það er alveg merkilegt hvað maður getur verið mikill safnari.. þvílíkt drasl og þvílík hreinsun andlega og veraldlega. Hnéð var auðvitað til trafala þessa daga og vona ég bara að ég hafi ekki unnið varanlegan skaða á því.. annars er það frekar vinnan sem er að gera útaf við hnéð þessa dagana vegna þess að ég hef tendensa til að sitja á gólfinu þegar ég er að föndra eitthvað, stórar rætur þessa dagana, svo gleymi ég mér og krosslegg fætur og þá byrjar mér að vera illt.

Svo er ekkert mál að ferðast á milli, reykjanesbrautin orðin tvöföld mestalla leiðina og ekki mikil umferð, eini tappinn er þegar maður er á leiðinni heim frá Arnarnesi að gatnamótunum í Garðabæ en það tekur bara 7. mínútur svo að maður er ekkert að kvarta, mér finnst voðagaman að keyra og það finnst Ingó líka (að mér finnist það gaman) það er líka gott að búa svona langt í burtu frá vinnunni þar sem ég er búin að vera í vinnunni síðastliðin tvö ár þá er nauðsynlegt að geta algerlega tekið úr sambandi og þá verður maður líka að skipuleggja sig betur og það hentar mér vel.

Nú er klukkan orðin rúmlega hálf þrjú og eins gott að ég nái að sofna þar sem við vöknum kl. 7 og leggjum af stað klukkan 8 og komin til vinnu búin að fara með Hinrik á leikskólann klukkan 9.

Góða nótt

þriðjudagur, apríl 25, 2006

Hnéaðgerð...flutningar

Oh hvað það er hundleiðinlegt að hanga svona á sófanum!! Mig langar svo í sturtu en get ekkert gert fyrr en í fyrsta lagi á fimmtudaginn... grrrr. Sem betur fer er ég nú með tölvuna og get sörfað allann daginn.... maður verður nú líka leiður á netinu verð ég að segja.

Aðgerðin gekk mjög vel. Þetta hné var ekki eins slæmt og það fyrra. Hann tók ekkert af liðþófanum í þetta skiptið skrapaði bara aðeins og setti svo einhverja stera í það. Ég finn mikin mun á því að núna má ég strax tilla í fótinn og er þá ekki eins föst á sófanum.

Búin að vera í símanum í allan dag og í tölvunni, vildi að ég gæti pakkað svolítið en það gengur víst ekki alveg upp. Ætla að reyna að fara að hekla svolítið í kvöld geri ég ráð fyrir ég er enn með svolítið af pöntunum sem ég þarf að ganga frá.

Ég er með lista sem ég þarf að ganga frá:



Geymsla, er komin með 2. geymslupláss sem ég þarf að velja úr á morgun,


Pósturinn þarf að ganga frá því að fá pósthólf á föstudaginn,



orkuveitan þarf að fá þá til að lesa af mælinum eftir helgina.


Ogvodafone, þarf að segja upp símanum og adslinu.



Digital Ísland, þarf að segja upp öllu draslinu þar.

Ekki hægt að segja annað en að ég hafi nóg að gera! Þrátt fyrir að vera farlama.

Hinrik Leonard páskaungi




Hinrik í góðravina hóp í pottinum að Flúðum um páskana



Sem endaði svona á sófanum!

mánudagur, apríl 24, 2006

Hryllingurinn


Var að koma að norðan, alltaf gaman að koma til Akureyrar. Sýningin er stórskemmtileg og alls ekki eins flókin og ég átti von á. Þarf að föndra svolítið fyrir hana, búa til tugi metra af rótum úr rörum, svampi, grisju, tvisti og málningu og sauma og lita stóra grisju sem fer fyrir allt sviðsopið en það gerist ekki fyrr en eftir hnéaðgerð og flutninga. Ingó er að vinna að því að pakka meðan ég sit í tölvunni, aðgerðin fer fram í fyrramálið og ég verð komin aftur heim seinnipartinn, ég verð svæfð en hingað til hefur hún ekki farið illa í mig. Þetta verður svakaleg vika því í lok hennar verðum við flutt og ég get ekkert tekið þátt í því að pakka. Ég kvíði því svo að þurfa að liggja hérna og fylgjast með... ég vitna á uppáhalds setningu mína þessa dagana ÞETTA ER ALLT Í GUÐS HÖNDUM

Á leið í ferðalag


Smá prufa Hinrik Leonard á leið á Flúðir fyrir páska.

fimmtudagur, apríl 20, 2006

Upplýsingar

Loksins ætla ég að gefa mér tíma til að skrifa eina færslu, kannski vegna þess að það er sumardagurinn fyrsti, Ingó og Hinrik í bíó í Njarðvík með frændfólki og ég á að vera að pakka niður úr vinnustofunni... nenni samt ekki að byrja þar sem nýja fartalvan okkar kallar frekar á mig, urðum að fjárfesta í svoleiðis tæki þar sem við erum að fara að flytja eftir 10 daga! Og til að gera hlutina flóknari þá verð að skreppa til Akureyrar á morgun í 3 daga til að vinna og fer svo ég í hnéaðgerð númer 2 á mánudaginn og þarf þá að liggja í eina viku með löppina upp í loft! Þetta þýðir að ég hef bara daginn í dag til að setja draslið mitt í kassa!

Nú; við flytjum sem sagt síðustu helgina í Apríl til Tengdó í Njarðvík og verðum svo að keyra á milli, Hinrik verður áfram í leikskólanum sínum Lindarborg og við bæði að vinna í Óperunni.
Planið er svo að flytja í Hafnarfjörð um leið og við finnum eitthvað þar.

Næsta frumsýning er 13. maí, Litla Hryllingsbúðin (ég er að fara norður til að taka út sýninguna til að geta skipulagt dressermálin þegar hún kemur hingað)

Hnéaðgerðin fer fram á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði á mánudaginn 24. apríl sem þýðir að ég verð frá vinnu, liggjandi uppí rúmi í 7 daga.

Ég er hætt að vera yfirmaður framleiðslusviðs íslensku óperunnar og ætla að vera "bara" Forstöðumaður saumastofu og búningasafns, sem er náttúrulega ekkert bara, álagið í vinnunni síðustu 2 ár hefur verið of mikið og ég nenni ekki að eyða tímanum í vinnunni. Mig langar líka að vera með fjölskyldunni og það hefur ekki verið auðvelt þegar ég er að vinna frá 9. á morgnanna til 23 á kvöldin. Eina leiðin til að sjá son minn eitthvað er að sækja hann í leikskólann kl 17 og fara með hann í óperuna í klukkutíma og hafa hann með mér þar!!

Oh og já var ekki búin að segja ykkur að ég hætti í búðinni minni í janúar, þar sem eins og skilst á fyrri skrifum, ég hafði engan tíma til að sinna hvorki framleiðslu né vinnu þar.

nú eins og sést er mikið í gangi hjá mér núna og held ég að ég verði að fara að dýfa mér í draslið á vinnustofunni svo að Ingólfur þurfi ekki að pakka öllu draslinu fyrir mig.

mánudagur, apríl 03, 2006

Nótt í Feneyjum

Nýjasta verkefnið mitt sem búningahönnuður

Enn á lífi...

en rétt svo... þetta eru búnir að vera erfiðir 3 mánuðir og mikið hefur gerst í mínu lífi, 2 frumsýningar 2 einstakir leikstjórar.. jákvætt neikvætt þú ræður.. og mikið líka að gera í mínu persónulega lífi. Annað hnéð komið í lag. Fjölskyldan að fara að flytja breytingar í vinnunni hjá mér og mínum manni osfrv.. læt þetta duga í bili, verð með nánari upplýsingar á næstu dögum... túrílúuuu