föstudagur, mars 23, 2007

Komin heim, loksins!

Sonurinn er komin, fæddist 15. mars klukkan 10:02, 3665 gr og 50 cm.


Hér sést Hinrik Leonard hitta litla bróður sinn í fyrsta skiptið, þar sem Lilli er aðeins 5 tíma gamall.
Á þriðja degi spítalavistar kom í ljós að innri saumur á keisaranum var saumaður með gölluðum saumi, og innyflin á frúnni voru eitthvað að kíkja út um skurðinn, brunað var aftur uppá skurðstofu og í þetta skiptið svæft. Hér er mynd af okkur mæðginum daginn sem ég var skorin upp í annað sinn.

Þessi mynd er tekin í dag. Ljósmæður deldar 22a kölluðu drenginn minn Dúkku! Hann væri svo fullkomin að hann væri eins og Baby Born.... hmmmmm

Hinrik Leonard tekur því mjög alvarlega að vera orðin stóri bróðir og í gær las hann fyrir litla bróður í fyrsta sinn!


Við komum svo heim í gær fimmtudag, sem betur er fékk ég ekki sýkingu þrátt fyrir að kviðarholið hafi verið opið í 3 daga.
Saumarnir voru teknir í dag og nú þarf ég bara að taka því rólega næstu vikur... er með það skriflegt að ég megi ekki setja í þvottavél eða uppþvottavél... sjáið þið það í anda!?


þriðjudagur, mars 13, 2007

1 og 1/2 sólarhringur

Einn og hálfur sólarhringur!


Hlakka svo til!


Búin að ofkeyra mig á þrifum og þvotti en er svo hamingjusöm.


Sjáumst seinna......

laugardagur, mars 10, 2007

Hreiðurtilfinning og Felix

Jæja þá er Hreiðurtilfinningin farin að gera vart við sig. Í morgun fór Hinrik með Helga og Elíasi Hrafni í Íþróttaskólann og ég var frekar tæp til heilsunnar. Er enn að ná mér af Flensudrullunni og sef ekkert voðavel.... en þegar klukkan nálgaðist 11... fann ég óstjórnlega þörf til að fara út og þvo svefnherbergisgluggann okkar og gluggann hans Hinriks. Ég var eins og herforingi með sköfuna og kúst og tuskur á lofti... fyrst sópaði ég fyrir framan íbúðina okkar, sag og ryk og álræmur eftir vinnumennina okkar. Nú eru gluggarnir okkar skínandi hreinir, en ég er búin á því! Man þegar ég var gengin tæplega 42 vikur með Hinrik og byrjaði að mála flísar og ryksuga af miklu afli... ryksuguævintýrið er til á filmu. En gluggaþvotturinn var ekki tekin upp í þetta skiptið.

Núna langar mig bara að sofa og sofa og sofa svo svolítið meira! Hinrik sefur á sófanum, búin eftir Íþróttaskólann og ekki alveg búin að ná sér af flensunni. Steina systir lánaði honum gamla vídeóspólu með Felix og Gunna í Stundinni okkar og síðasta sólarhringinn er hann búin að horfa á hana 15 sinnum. Finnst alltaf jafngaman að sjá Felix með hár! Svo langar hann í bílinn sem Felix er að auglýsa í sjónvarpinu og svo fer hann eflaust að vakna flótlega til að hlusta á Felix í helgarvaktinni á Rás 2!

Ætlum að bruna í Reykjavík á eftir og sækja Ingó í Óperuna og þá er hann komin í sólarhringsfrí!! Júhúuu...

fimmtudagur, mars 08, 2007

Otto marzo

Mímósa 8. mars


Í dag er 8. mars, alþjóðlegur baráttudagur kvenna í heiminum og konudagur á Ítalíu og í dag fá allar ítalskar konur mímósur frá karlmönnum. Þegar ég var skiptinemi komu allir strákarnir í bekknum með búnt af mímósum og allar stúlkurnar fengu knippi. Ofsalega skemmtilegur siður.Í dag er vika í stóru stundina og við Hinrik liggjum kylliflöt fyrir flensunni. Hinrik veiktist í fyrradag var með slæman hósta og svolítinn hita. Í gærkveldi og nótt rauk hitinn svo upp og litli drengurinn minn lá í móki með 40 stiga hita. Hann er betri í dag en hóstinn er slæmur. "Vinnumennirnir" hér úti eru búnir að helluleggja pall í morgun við svalahurðina okkar. Hinrik hefur fylgst vel með því. Þeir eru búnir að lofa mér að öll vinna við íbúðina okkar verði búin þegar við komum heim af spítalanum.Margrét mín Eir er að koma heim á morgun frá New York. Hún ætlar að hjálpa okkur í næstu viku eins og við þurfum og vera hjá mér á spítalanum eins og þarf, enda verður hún Guðmóðir og tekur því hlutverki með mikilli alvöru!Það er ekkert grín að vera komin á steypirinn, vera með þráláta flensu og lítinn veikan dreng! Og Ingó á fullu að leikstýra.. en góðir hlutir gerast hægt og ég veit að það verður allt tilbúið þegar minnsti drengurinn kemur eftir viku!

mánudagur, mars 05, 2007

Lungu

Ekki hefur frúin verið hress uppá síðkastið. Flensuskíturinn fór í lungun og nú hef ég verið að pústa mig síðustu daga og sló svo niður um helgina. Svo illa að ég fór ekki fram úr rúminu í gær. Rosalangt síðan ég hef verið svona veik. Hef verið að hugsa um fullt af skemmtilegum hlutum sem ég gæti bloggað um en man barasta ekki neitt akkúrat núna.. óléttu og flensuþokan umlykur mig og verð ég bara að láta allar gáfulegar hugsanir fljúga út í loftið, ekki inná bloggið!