"Su e giú" segir Felix Helgi; "Upp og niður"
"Sopra e sotto" segir Hinrik Leonard; "Yfir og undir"
Þessar skemmtilegu ítölskuæfingar geta alveg líst tilveru okkar litlu Rómarfjölskyldunnar þessa dagana. Okkur líður vel, en erum stundum "upp og niður"
Þarna er ég 4 mánaða, pabbi heldur mér uppi.
Hann á afmæli í dag...
Felix Helgi segir að hann sé engill, ég vil trúa því!
Það er vetur í Róm, 8 gráður á kvöldin og 15 á daginn, varla kalt á íslenskan mælikvarða, en stundum kveikjum við á ofnunum, rafmagnsofnunum þá verður hlýtt!
Við eigum jólatré, valið stóð milli tveggja lita, fjólublátt eða hvítt, Hinrik Leonard fékk að velja,
Það er hvítt!
Skrautið er fjólublátt og rautt, Hinrik fékk líka að velja það!
Tréð gengur undir nafninu "Tojletttrí", það er nefninlega eins og það sé gert úr klósettburstum, ekta kínverskt verksmiðjuverk!
Hér er nærmynd!
Upp var á markaðnum fyrir rúmlega viku
Niður var á markaðnum á sunnudaginn
Þá ringdi svo mikið að á hálftíma urðu allar húfurnar mínar blautar, og ég þurfti að fara heim.
Gat ekki selt blauta vöru:(
Upp var svo aftur seinna þann sama sunnudag, er dyrabjallan glumdi og íslenskir vinir kíktu óvænt í kaffi!
Upp var í dag þegar ég fór á stóra pósthúsið á Largo Argentina og afgreiðslukonan sagði: "Átt þú ekki drengina tvo, þessa ljóshærðu og fallegu?"
Niður var þegar ég hlustaði á kennara Hinriks rífa niður bekkinn af því að það voru of mikil læti í þeim í leiklist!
Upp er þegar ég horfi í kringum mig,
anda að mér lyktinni, brosi til fólksins.
Kyssi tvo kossa á kinn,
fæ boðskort í íslenskt jólaboð,
hugsa um Síríus rjómasúkkulaðið í skápnum,
horfi á Basilikuna mína á svölunum, þessa sem ég sáði, fyrir 2 mánuðum.
Þegar ég sting uppí mig ólívum, kaupi tvo ferska kjúklinga, tæp tvö kíló á 750 krónur.
Þegar ég kaupi hvítvínsflösku á 165 krónur.
Þegar ég finn lyktina af mandarínum..
Þegar ég skoppast um í jólaerindum og finn ekki fyrir stressi,
þegar ég skrapa saman cent fyrir mjólk og brauði og skokka svo heim og geri besta makkarónugraut í heimi að sögn strákanna minna!
Niður þegar ég hugsa um H-in þrjú,
Hinrik, Halldór Viðar og Hermann Fannar,
sem allir þrír fóru alltof snemma, alltof fljótt og minningin um þá kallar fram tár.
Leyfi tárunum að streyma,
það er gott að gráta,
lít svo yfir "uppin og niðurin"
og sé að uppin eru svo miklu fleiri!