sunnudagur, desember 11, 2011

Húfa í jólapakkann!

Nú geta allir fengið húfu í pakkann sinn!
Var að setja í gang tilboð á gjafabréfi frá HiN design.  Þú færð gjafabréfið sent í pósti og prentar það út og pakkar inn.   Viðtakandi getur svo valið hvaða húfu sem er og fengið hana senda:)
Virði gjafabréfsins er 3300 krónur en það er á jólatilboði á 2200 og þá er sendingarkostnaður innifalin!
hindesign@zoho.com
ótrúlega flott gjöf fyrir börn og fullorðna!

þriðjudagur, desember 06, 2011

6. desember 2011 Upp og niður

"Su e giú" segir Felix Helgi; "Upp og niður"

"Sopra e sotto" segir Hinrik Leonard; "Yfir og undir" 

Þessar skemmtilegu ítölskuæfingar geta alveg líst tilveru okkar litlu Rómarfjölskyldunnar þessa dagana.  Okkur líður vel, en erum stundum "upp og niður"

Þarna er ég 4 mánaða, pabbi heldur mér uppi.  
Hann á afmæli í dag... 
Felix Helgi segir að hann sé engill, ég vil trúa því!  

Það er vetur í Róm, 8 gráður á kvöldin og 15 á daginn, varla kalt á íslenskan mælikvarða, en stundum kveikjum við á ofnunum, rafmagnsofnunum þá verður hlýtt!

Við eigum jólatré, valið stóð milli tveggja lita, fjólublátt eða hvítt, Hinrik Leonard fékk að velja,
Það er hvítt!
Skrautið er fjólublátt og rautt, Hinrik fékk líka að velja það!
Tréð gengur undir nafninu "Tojletttrí", það er nefninlega eins og það sé gert úr klósettburstum, ekta kínverskt verksmiðjuverk!
Hér er nærmynd!

Upp var á markaðnum fyrir rúmlega viku
Niður var á markaðnum á sunnudaginn
Þá ringdi svo mikið að á hálftíma urðu allar húfurnar mínar blautar, og ég þurfti að fara heim.  
Gat ekki selt blauta vöru:(
Upp var svo aftur seinna þann sama sunnudag, er dyrabjallan glumdi og íslenskir vinir kíktu óvænt í kaffi!

Upp var í dag þegar ég fór á stóra pósthúsið á Largo Argentina og afgreiðslukonan sagði: "Átt þú ekki drengina tvo, þessa ljóshærðu og fallegu?"
Niður var þegar ég hlustaði á kennara Hinriks rífa niður bekkinn af því að það voru of mikil læti í þeim í leiklist! 

Upp er þegar ég horfi í kringum mig, 
anda að mér lyktinni, brosi til fólksins.  
Kyssi tvo kossa á kinn, 
fæ boðskort í íslenskt jólaboð, 
hugsa um Síríus rjómasúkkulaðið í skápnum, 
horfi á Basilikuna mína á svölunum, þessa sem ég sáði, fyrir 2 mánuðum.  
Þegar ég sting uppí mig ólívum, kaupi tvo ferska kjúklinga, tæp tvö kíló á 750 krónur.  
Þegar ég kaupi hvítvínsflösku á 165 krónur.  
Þegar ég finn lyktina af mandarínum..
Þegar ég skoppast um í jólaerindum og finn ekki fyrir stressi, 
þegar ég skrapa saman cent fyrir mjólk og brauði og skokka svo heim og geri besta makkarónugraut í heimi að sögn strákanna minna!

Niður þegar ég hugsa um H-in þrjú, 
Hinrik, Halldór Viðar og Hermann Fannar, 
sem allir þrír fóru alltof snemma, alltof fljótt og minningin um þá kallar fram tár.

Leyfi tárunum að streyma, 
það er gott að gráta, 
lít svo yfir "uppin og niðurin
og sé að uppin eru svo miklu fleiri! 

fimmtudagur, nóvember 24, 2011

Hugleiðingar, mánuður í Aðfangadag!

Hef ekki verið dugleg að blogga síðustu vikur en er alltaf að hugsa um hluti og myndir sem mig langar að deila með ykkur.

Það er komin vetur í Róm.  
Laufblöðin þyrlast upp 
og stórir flokkar af fuglum svífa um himnana.  

Ég er búin að prjóna vettlinga á Hinrik Leonard og er á leiðinni að prjóna á Felix Helga, hann er svo kröfuharður... vill hafa þá gula, rauða, bláa.. svarta.. já og í öllum litum bara.  Mér finnst ekki gaman að prjóna vettlinga.. næ einhvernvegin aldrei að að hafa báða eins!
Búin að prjóna á þá báða þykkar húfur.  Það er kallt á morgnana þegar þeir fara út en svo fer sólin að skína og þá hitnar ansi vel.

Nú er jólaskrautið að birtast í búðunum, miklu miklu seinna en á Ísalandi..
Og markaðsstemningin mín að fara að byrja
Hlakka til!

Það verður gaman að eyða jólunum í fyrsta skipti með fjölskyldunni utan Íslands.
Langar að biðja þá sem vilja senda okkur jólakort að gera það endilega!!  Það er svo gaman að fá póst að heiman.. alvöru póst.
Heimilisfangið er

Hildur Hinriksdóttir
Via Giovanni da Castel Bolognese 44, int 9
00153 Roma
Italia

Stundum þegar ég sé skemmtilega/skrítna hluti, þá langar mig til að skrifa um þá hér, svona augnablik sem mig langar að deila; 

Þegar ég horfi á sígaunakellingarnar á kafi ofan í ruslatunnunni hér fyrir utan, þær eru enn í stórum pilsum og inniskóm en núna eru þær komnar í buxur undir pilsin, stóra sokka og með klúta um höfuðið.  

Þegar ég horfi á sætu pörin í alveg eins dúnúlpum, glansandi dúnúlpum að knúsast úti á götu. 

Þegar flottu bisness kallarnir labba framhjá mér með ís.

Þegar ung kona kemur hlaupandi, hendir sér á milli bílana á stæðinu þar sem ég stend, girðir niður um sig og pissar!  Og Hinrik og Felix hlæja og trúa ekki sínum eigin augum. Hún er útigangskona.

Þegar vetrarlyktin af steiktum kastaníum svífur um loftin. 

Þegar  Felix Helgi segir uppúr eins manns hljóði 
"Ég elska heimilið mitt"

Þegar Hinrik Leonard les eins og engill á ítölsku uppúr sögubókinni sinni.

Þegar Felix Helgi kemur með pasta heim til að sjóða, sem hann bjó til sjálfur í leikskólanum. 

Þegar tóbakssölumaðurinn segir "Jæja, þá er allt að verða gott á Íslandi, sá það í sjónvarpinu"

Þegar Hinrik leiðir mig úti á götu.

Þegar á dyrabjöllustæðu, fulla af ítölskum nöfnum stendur allt í einu "Ingibjörg"

Þegar Ingó bakkar í stæði sem passar varla fyrir bílinn okkar en hann nær samt að leggja.

Já það er svo margt sem mig langar til að deila með ykkur, byrja á þessu.

Eigið dásamlegan dag! 

mánudagur, nóvember 14, 2011

Ólívutínsla í sveitinni hjá Todi, Umbria héraði..

 Þetta er sveitin hans Francesco Cordio, vinar okkar.  Okkur var boðið þangað á sunnudaginn til að tína ólívur,  strákarnir tóku hlutverk sitt mjög alvarlega og tíndu og tíndu allan daginn!
 

Hér sjást strákarnir mínir í miklum ham að tína og tína, Hinrik klifraði uppí trén til að ná betur í efstu greinarnar.



Francesco og konan hans Ilenia voru svo sannarlega höfðingjar heim að sækja,  Pabbi Francesco átti þetta hús og hann var listamaður eins og sést allstaðar bæði inni og úti.  Ilenia sá svo um að fæða duglegu vinnumennina!

Hér er farið að kvölda en enn eru strákarnir að tína, þetta eru sex ára gömul ólívutré,  Francesco gaf Hinriki og Felix sitthvort tréð sem þeir ætla að vera duglegir að heimsækja og hugsa um! 
 Í lok dags fengu allir sér hressingu, brauð með hunangi úr sveitinni.  Á myndinni sjást Ingó, Felix, Hinrik, Francesco og svo vinir þeirra Monia og dóttir hennar Viola sem voru líka í heimsókn.
 Við enduðum daginn á því að fara í ólívupressuverksmiðjuna þar smökkuðum við æðislega nýpressaða olíu og Francesco gaf strákunum 1. lítra af ólívuolíu í vinnulaun:)  Hans ólívur verða svo pressaðar í dag í þessari verksmiðju.

Ég keyrði svo alla leið heim og hætti mér í fyrsta skipti að keyra í Róm, við búum í miðbænum þannig að ég þurfti að keyra fyrst í gegnum alla litlu bæina í Umbria, svo á hraðbrautina og að lokum inn í Róm.  Og það tókst barasta vel. 

Í Umbriu keyrðum við í gegnum bæinn Amelia, sem er auðvitað bærinn hennar Amelíu bróðurdóttur minnar, þessi síðasta mynd var tekin fyrir hana!

Strákarnir og skólinn, i bimbi é la scuola

  

Hér sést Pantheonið, skóli strákanna er hér hægramegin við stóru bygginguna.





Glugginn á stofunni hans Hinriks sést hér á neðri myndinni
 Hér er hurðin á skóla strákanna
 Búið að sækja Felix Helga, þá bíðum við eftir Hinriki

 Og hér er Hinrik minn komin til mömmu sín:)

 Ég og sætu strákarnir mínir:)
 Haustið er komið til Rómar, það sést meðal annars á þessum fallega fuglahóp, sem fer í stórum flokkum um himininn yfir Róm, og maður þarf að passa sig að lenda ekki í "fuglaskítsrigningu"

Á leiðinni heim er gott að koma við í bakaríi í Gyðingahverfinu, strákarnir halda áfram að sjarmera alla og auðvitað hljóta þeir brauð að launum:)

þriðjudagur, nóvember 08, 2011

Roma farmers market

Á laugardögum og sunnudögum er bændamarkaður hér rétt hjá okkur, þar er hægt að kaupa ávexti, grænmeti, kjöt, osta, brauð, hunang og margt margt fleira beint af bónda/framleiðanda. 
Hér eru nokkrar myndir frá laugardeginum síðasta!








fimmtudagur, nóvember 03, 2011

Pantheon, kynning, armbönd úr roði...


Nú eru strákarnir mínir byrjaðir í nýja skólanum, það var ofboðsleg gleði þegar þeir hlupu um gangana á nýja "gamla" skólanum, og Hinrik Leonard horfir út um gluggan beint á Pantheon.  Alger draumur.

Hér sést Felix Helgi að módelast fyrir mig úti á svölum... svo sætur með nýju húfuna sem er með enduskinsaugum.


Hér eru svo nýjustu afurðirnar, tvær hyrnur í ólíkum litum og svo armbönd úr roði... verð með kynningu í kvöld á hlutunum mínum á bar hér í hverfinu.  Hlakka mikið til:)