mánudagur, október 30, 2006

Strákur eða stelpa.....



















20 vikna stelpufóstur...




















32 vikna strákafóstur!


Tekið er við veðmálum í kommentum þessa bloggs... strákur eða stelpa? Niðurstaða fæst eftir klukkan 15 í dag... rosalega spennó!

föstudagur, október 27, 2006

Tónhjarta


Æðisleg mynd sem ég stal af vefnum, tileinka hana Ingólfi mínum! Óperuleikstjóra og ljósmyndara!!

Það rignir... piove á ítölsku!

Það rignir í Reykjavík.
Það er allt í lagi!
Það var dimmt í morgun á Reykjanesbrautinni.
Það var líka allt í lagi.
Það er kalt á Prikinu.
Það er allt í lagi.

Ég og Ingólfur tölum mikið saman á ítölsku, höfum alltaf gert. Í bílnum í morgun bað Hinrik okkur um að hætta að rífast! Elsku litli drengurinn minn hélt að við værum að rífast því ítalskan er svo hröð og tónninn svo ólíkur íslenskunni! Óþarfi að segja að við vorum ekki að rífast hehehe en ég man eftir því þegar ég kom til Sikileyjar fyrst þá hafði ég staðlaða ímynd úr ítölskum bíómyndum um kellingar að rífast milli svala... komst að því þegar ég kunni loks málið að þær voru ekkert að rífast heldur bara að tala um verð á kaffipakka á markaðnum! Ég hugsa að Hinrik verði fljótur að læra ítölskuna þegar við förum með hann þangað, hann er náttúrulega alin upp við tungumálið og kann nokkur orð... ítalskan verður alltaf tungumál okkar Ingólfs og ég verð að viðurkenna að við erum farin að nota hana svolítið þegar við erum að tala leyndó fyrir framan Hinrik!! En svo tölum við líka um ómerkilega hluti á ítölsku hún er nú einu sinni tungumálið okkar, en við kannski pössum okkur betur á næstunni til að drengurinn haldi ekki að við séum alltaf að rífast! Annars finnst mér best að rífast á íslensku ehheheeh

miðvikudagur, október 25, 2006

Fermingarpeningar og Nick Cave...

Mannlifsskoðun er holl íþrótt er búin að upplifa margt skemmtilegt síðustu daga og annað óskemmtilegt...
Sit núna á kaffihúsi og hingað á næsta borð kom drengur áðan og settist niður með morgunverð sinn, mér fannst ég eitthvað kannast við hann og án þess að reyna að vera að hnýsast varð ég vitni af samtali hans við kunningja sinn þar sem hann var að reyna að díla við hann að nota visakortið sitt til að kaupa miða á Sykurmolana, þar sem hann væri með heimild os frv... "bara fram að mánaðarmótum" mér heyrðist vinurinn ekkert taka voða vel í þetta en heyrði auðvitað ekkert í honum..... það rann svo upp fyrir mér ljós núna að þetta er drengurinn sem leikur í auglýsingunni um yfirdrátt fyrir námsmenn fyrir einhvern bankann... þessi sem reynir að fá lánaða fermingarpeninga bróður síns... hann er kannski ekkert svo mikið að leika í auglýsingunni!!

Í gær þegar ég kom í bæinn sá ég einhvern sem ég kannaðist við úr Sinfó.. Ingólfur benti mér svo á að þar færi Hinn frægi Nick Cave... úps þessir tónlistarmenn eru allir eins!

mánudagur, október 23, 2006

Stutt...

Var gubbulaus í 2 vikur sléttar.... kastaði svo mikið upp á föstudaginn að ég varð óvinnufær það sem eftir var dags...

Fórum í skírn á sunnudaginn, yngsti drengurinn hans Helga og Bryndísar fékk fallega nafnið Kári Freyr.. Hinrik misskildi aðeins "Kirkjuvörðinn" (prestinn) og heyrði Kári Tveir... fannst það svolítið skrítið en búið er að leiðrétta þann misskilning.

Og nú er komin mánudagur aftur. Eftir slétta viku er "stóri sónarinn" og vonandi lætur barnið sjá hvors kyns það er.

föstudagur, október 20, 2006

Pils, húfur og sól

Vikan hefur verið svo yndisleg veðurfarlega séð, þó kuldaboli sé kominn þá er veðrið búið að vera svo ótrúlega fallegt að ferðirnar Reykjanesbrautina hafa verið yndislegar og hafa uppfyllt mig krafti og gleði! Ég hef ekkert kastað upp núna í 2 vikur og finn ég að þreytan sem hefur háð mér alla meðgönguna er á léttu undianhaldi og stundum sit ég bara bein og hress eftir kvöldmatinn!
Barnið vex og dafnar og bumban með. Það vakir mikið á kvöldin og er yndislegt að finna hreyfingarnar, ég byrjaði strax á 16 viku að finna þær og er það mánuði fyrr en með Hinrik. Sem er alveg yndislegt!
Námskeiðið er langt komið og er ég búin að finna aftur gleðina við að kenna. Það er svo gaman þegar við byrjum að skapa og eru stelpurnar allar að koma til. Fyrsta keppnin (af þremur) er í kvöld og verður gaman að sjá hver ber sigur úr bítum.
Pilsapantanir eru farnar að hlaðast inn og nú verð ég að fara að spýta í lófana og framleiða svolítið. Hlakka nú svo til að komast í eigin íbúð og geta skipulagt vinnusvæði og byrjað að sauma eitthvað af ráði. Reyndar eru pantanir á húfum líka að hlaðast upp og verð ég hreinlega að gera eitthvað í þessum saumamálum.
Ég sit núna á Prikinu sem er orðin minn samastaður á morgnana þegar ég kem í miðborgina, í dag er greinilega föstudagur þar sem nú undir hádegi eru unglingarnir farnir að streyma að og kaupa sér bjór!!??
Verð að segja eina skemmtilega sögu af syni mínum svona í lokin. Þeir feðgar voru á heimleið um daginn og benti þá faðirinn syninum á sólina og sagði "Sjáðu Hinrik minn, núna er sólin að setjast"! Hinrik horfði á gula hnöttinn hugsi og sagði svo; "Er þá sólin með rass pabbi?"
Góða helgi

þriðjudagur, október 17, 2006

Metro og Esjan


Hræðilegt lestarslys varð í morgun í Róm. Tvær neðanjarðarlestir skullu saman á milli Termini og Piazza Vittorio. Þetta er lestarleiðin mín og er myndin hér til hliðar tekin við Piazza Vittorio. Ítalskir fjölmiðlar segja að 2 séu látnir og allavega 20 alvarlega slasaðir. Fyrir ári síðan var ég með hóp af íslendingum á þessu svæði, hótelið mitt var við Piazza Vittorio. Við Ingó áttum heima rétt hjá Piazza Vittorio. Hræðilegar fréttir.





Annars er mánudagsdrunginn farinn úr mér. Enda komin þriðjudagur. Sit á Prikinu með minn venjulega espressobolla og sódavatn. Fer að kenna seinni partinn. Esjan er svo falleg í dag svona snævidrifin. Sólin kom upp meðan við keyrðum Reykjanesbrautina og náttúran svo yndislega ósnert.
Hlakka til að takast á við daginn.
Það er góð tilfinning.

mánudagur, október 16, 2006

Raunveruleikinn á mánudegi

Jæja þá er viðburðarríkri helgi lokið og ekki laust við að maður sé svolítið eftir sig eftir tvö afmælisboð, 60 ára afmæli Ármanns og 5 ára afmæli Magneu. En það var virkilega gaman í báðum boðunum og Hinrik auðvitað í essinu sínu með öllum þessum börnum.
Ég hlakka svo til að flytja að það kemst varla annað fyrir í mínum litla huga þessa dagana er ekki enn búin að fá endanlega dagsetningu en geri ráð fyrir að hún sé enn 1. nóvember.
Er enn á fullu að kenna og er það reynsla útaf fyrir sig. Er að reyna að kenna þessum ungu stúlkum að vera frumlegar en það gengur nú alls ekki vel. Þær eru mest í því að herma eftir hvor annarri og mér gengur ekkert að slíta þetta í sundur. Það er eins og allur þeirra frumleiki, ef einhver er, fari í að skipuleggja tónlistar og dansnámið með heimanáminu!! En þetta er nú ekki svo slæmt verð að segja það. Man samt af hverju ég hætti að vinna með unglingum fyrir 9 árum síðan!!!
Veturinn er virkilega komin og fann ég það þegar ég hljóp útí bíl í morgun. Mikið rok var svo á Reykjanesbrautinni og sá ég á einhverju skilti á leiðinni að hitastigið var 1 gráða. Brrrrr.... rennilásinn á úlpunni minni er bilaður og nú verð ég að fara að gera við það og finna góða húfu, og sennilega vettlinga líka. Sem betur fer er Hinrik nú vel búin og getur farið að leika sér úti á leikskólanum í rólegheitunum í hlýjum fötum.
Veturinn bíður svo uppá sjónvarpsgláp... og er nú ótrúlegt hvað er um marga raunveruleikaþætti að velja. Fitubollur, toppmódel, 16 vikna atvinnuviðtöl í ameríku, xfactor í bretlandi, ítalska fræga fólkið á eyðieyju, survivorgengið á annari eyðieyju, ítalskir unglingar í kúrekaleik í Arisóna, brjálaðir kokkanemar í LA, fitubollur í ástralíu og svona mætti lengi telja.. er nú alveg að fá ógeð en fylgist trygg með Toppmódelunum og Læringunum hans Trump, finnst hann svo flottur og klár kall þrátt fyrir hárið! Skemmtilegast fannst mér á föstudaginn að upplifa þátt á Rai Uno. Uppfylling allra drauma. Svo gaman að sjá fátækt fólk fá nýtt hús og ný húsgögn bara af því að þau tóku að sér munaðarlaus börn ættingja sinna! Já það verður nú víst seint tekið af mér að ég er sjónvarpssjúklingur!!!...

fimmtudagur, október 12, 2006

Bloggidíblogg

Ég er mikið búin að vera að skoða hinu ýmsu bloggsíður síðustu daga og hef verið að velta fyrir mér tilgangi þessa bloggs míns... skilst að margir bloggarar gangi í gegnum þessa krísu, ég er nú búin að blogga í 2 ár... byrjaði 15 október 2004 og á bloggið mitt því afmæli á sunnudaginn! Ég hef gert mér grein fyrir því að mitt blogg er ekki mjög pólitískt þó ég sé nú frekar pólitísk manneskja (hef verið að breytast síðustu ár) ég er heldur ekki með margar umdeilanlegar færslur eins og til dæmis gamli vinnufélagi minn Davíð Þór , eða Kastljósmaðurinn Simmi sem skrifar ótrúlega fyndnar færslur og persónulegar. En ég skrifa til að fá útrás, skrifa fyrir vini og kunningja og svo nýlega til að fá viðbrögð við væntanlegri skáldsögu sem ég er að föndra við á meðgöngunni. Áður þurfti ég að passa hvað ég segði því ég var starfsmaður Óperunnar en núna þegar ég er hætt þar þá gæti ég svo sem farið að skrifa gagnrýni á óperuna og hvað mér finnst um hana... og það gæti orðið spennandi í framtíðinni. En ég veit ekki hvað ég á að gera með þetta blogg á næstu mánuðum, mér finnst gaman að skrifa svona einstaka hluti um mig og mína fjölskyldu, það sem ég er að föndra og það sem mér finnst spennandi. Ég skrifa til að leyfa fólki að fylgjast með, gamlir vinnufélagar og vinir sem voru hluti af mínu daglega lífi fylgjast með og ég með þeim, eins og Arnar og Villi . Hvað finnst ykkur? Finnst ykkur að ég ætti að fara að vera pólitískari og meira gagnrýnin í mínu bloggi eða er þetta bara fínt eins og þetta er?

mánudagur, október 09, 2006

Afmæliskakan og veislan

Leiftur MacQueen kakan sem ég bakaði fyrir Hinrik !
Hluti af veisluborðinu
Það var rosalega gaman í afmælinu og sérstaklega gaman fyrir okkur að fá loksins að halda uppá afmælið í svona stóru húsnæði. Fullorðna fólkið gat verið algerlega útaf fyrir sig meðan börnin léku sér.
Hinrik var svo glaður og ánægður og fékk fullt af fallegum gjöfum.
Hann spurði strax um kvöldið hvernig við myndum hafa 5 ára afmælið og hvort við gætum ekki bara haldið uppá það fljótlega. Það er svo ótrúlegt þegar börnin okkar eru að vaxa hvað hvert ár skiptir máli í þroska!
Til ykkar sem mættuð! Takk fyrir drenginn og okkur.

föstudagur, október 06, 2006

Brjál. bakst.. framhald

...túnfisksalat, rækjusalat, pastasalat, 2 heitir réttir... allt tilbúið. Ingó bakar brauð í kvöld og svo bætast einhverjar kökur við. Partíspjótin verða gerð í fyrramálið. Nú er klukkan rúmlega þrjú og ég gjörsamlega búin á því... hugsa að ég leggi mig í smá stund til að hafa orku í kvöldið!

Brjálaður bakstur

Skúffukaka og 80 muffins komin úr ofninum, 12 egg í pottinum að soðna í salatið... rautt, blátt og brúnt krem í ísskápnum... brjálaður bakstur í gangi fyrir afmælisdrenginn minn!

þriðjudagur, október 03, 2006

Afmælisdrengurinn minn



Hinrik Leonard er 4. ára í dag! Hann vaknaði hress og kátur og fékk strax pakka frá okkur foreldrunum, talandi Leiftur MacQueen og fjarstýrðan Krók. Ferskt dót frá Ameríku! Hann lék sér í allan morgun og fór svo í leikskólann í nýja pollagallanum frá Ömmu og Afa í Njarðvík. Ætlum að halda uppá afmælið á laugardaginn og þá verður sko mikið fjör!

Fyrir fjórum árum vorum við Ingólfur í miklum ham á fæðingardeildinni og gleymi ég því aldrei þegar ég fékk litla ljóshærða hnoðrann minn í fangið!