fimmtudagur, janúar 30, 2014

Gengið um Róm í rigningu!

Nú er vetur í Róm.
Það rignir annanhvorn dag..
Rigningin þrusast beint niður og okkur finnst gott að ganga um borgina sem sýnir nýja hlið.
Blauta hlið.
Enn eru jafnmargir túristar á sveimi.
Ég er búin að vera með símann á lofti í okkar daglega amstri.
Hér eru nokkrar myndir!

Þessi er tekin á laugardaginn þegar við Felix Helgi skruppum að versla aðeins inn, það ringdi ekki þann daginn!


 Hér erum við fyrir utan skólann hans Hinriks 
á mánudaginn var.



 Hinrik skellir á sig hjálmnum, 
í hópi með skólabræðrum sínum


Sem kepptust við að bera fram
EYJAFALLAJÖKULL
með misgóðum árangri 


Ponte Sisto, göngubrú yfir ánna Tevere sem er brún og ógnvekjandi í rigningunni.



 Ponte Mazzini. 
Hér sést minningarstaður um Claudio litla,
en hann var aðeins 2 ára þegar Pabbi hans í forræðisdeilu labbaði með hann að þessari brú og henti honum í ánna.
Nú eru að verða liðin 3 ár síðan það gerðist.
Blóm og bangsar eru þarna til þess að við gleymum ekki.

Ponte Mazzini


Hér sést Hinrik á fleygiferð á hjólinu sínu,
á heimleið úr skólanum. 


Þessar eru svo teknar í dag,
Við Felix Helgi áttum erindi niður á 
Piazza Venezia eftir skóla.







Hér eru svo tvær myndir af drengjunum mínum,
Felix Helgi að fá sér Pizza rossa og safa
og Hinrik Leonard að bíða eftir takeaway kvöldmatnum okkar á Kínastaðnum okkar.

Daglegt líf!

föstudagur, janúar 24, 2014

Vikulok

Ég er búin að vera dugleg að sauma síðustu vikur,
hér eru myndir af leggings og fleiri bíða eftir myndatöku
vonandi gerist það um helgina






ég er líka búin að vera dugleg að gera við föt fyrir vini og listamennina hér í Circolo.
Þrengja pils og stytta kápu, skipta um rennilása og festa tölur.

 Þessi vika er búin að vera annasöm fyrir okkur öll.
Hinrik er á kafi í prófum,
hann er í 6. bekk og heimalærdómurinn aldrei verið meiri.
Felix var lasin í byrjun vikunnar er fór svo hress og kátur í skólann og lærir og lærir... kom svo heim með töskuna sína í dag og tilkynnti mér að það væri fullt af heimalærdómi og að hann hlakkaði svo til að byrja að læra!
Ingó er á kafi í undirbúningi fyrir aðalfund Circolo sem verður í byrjun febrúar.
Veturinn kom í dag og í fyrsta skipti þennan vetur fór hitinn niður fyrir 10 gráður.
Nóg að gera...

 ...en í kvöld verður bara kúr..
Við Hinni ætlum að njóta þess að horfa á sjónvarpið
og knúsast!

fimmtudagur, janúar 23, 2014

Auglýsing

Nú í janúar er búin að rúlla auglýsing frá Tim, símafyrirtæki hér á Ítalíu.  Pabbinn kemur labbandi inn á heimili dóttur sinnar með jólasveinahúfu og fangið fullt af pökkum.  Dóttir hans og meðleigendur taka vel á móti honum en benda honum svo á að jólin séu löngu liðin.  Hann verður svekktur og segir 
"Ég var búin að segja ykkur að leyfa mér ekki að drekka á aðfangadagskvöld.. ég verð svo sifjaður"



Finnst þessi auglýsing lýsa vel hvernig litið er á drykkju á Ítalíu.. og þeim mikla muni sem er á drykkjarmenningu Íslands og Ítalíu!

Grein á Gaflari.is með fleiri myndum


Í gær birtist grein á nýja vefmiðlinu, gaflari.is um 
daglegt líf okkar hér í Róm.
Ég birti hana hér aftur með fleiri myndum.

Lífið í Róm

Ólíkt því daglega lífi sem við fjölskyldan áttum að venjast í Hafnarfirði
Við búum í hjarta Rómar, í Trastevere hverfinu sem einkennist af þröngum götum, litlum verslunum, ótal veitingastöðum, börum og kaffihúsum og endalausu lífi frá morgni til kvölds. Við ferðumst mest fótgangandi eða á hjóli. Ingó,maðurinn minn, keyrir um með strákana okkar á dönsku Kristjaníuhjóli með stóru boxi framan á sem þeir geta setið í og öðru hvoru hef ég fengið far með honum.

Við vöknum klukkan sjö á morgnana og þá er sólin að koma upp. Strákarnir eru í sitt hvorum skólanum, Hinrik sem er á 12. ári er í 1. bekk í miðskóla (6. bekkur á Íslandi) og Felix sem er 6 ára er í 1. bekk. Hinrik er í skólanum frá 8.00 – 14.00, þá kemur hann heim og lærir það sem eftir er dagsins. Felix er hins vegar allan daginn í skólanum kemur heim rúmlega 16.00 og þarf ekkert að læra heima nema um helgar. Það er allt annar taktur í ítölskum skólum en þeim íslensku. Mikil áhersla er lögð á stærðfræði og ítölsku (málfræði, bókmenntir, osfrv.) Hinrik er í tækniteiknun, listasögu og íþróttirnar eru einu sinni í viku. Frímínútur eru fáar og allar inni í kennslustofunni. Stærðfræðin sem Hinrik er að læra núna er kennd heima í 10. bekk og fyrstu áföngum framhaldsskólanna.

Í ítölskum skólum er mikil virðing borin fyrir kennurunum, Felix er með “Maestrur” en þegar komið er í miðskóla byrja krakkarnir að þéra kennarana og kalla þá “Professori”. Munnleg próf eru vikulega í skólunum og krakkarnir læra strax að standa upp og svara spurningum fyrir framan alla.

Skólarnir eru algerlega lokaðir, það getur enginn valsað um gangana nema með leyfi og við foreldrarnir komum aldrei inn fyrir skólahliðið nema þegar það er opið hús. Það er alltaf viss athöfn þegar Felix er sóttur í skólann. Kennarinn hleypir honum ekki út nema hann sjái foreldrið sem er að sækja. Íslensk vinkona okkar hafði á orði að það væri eins og hún væri stödd í réttunum þegar við vorum að ná í Felix! Hinrik má koma og fara sjálfur í skólann, en enginn má koma inn í bygginguna á skólatíma. Það er hins vegar alveg ógerlegt fyrir hann að labba einn heim með töskuna sína, því hún er svo þung. Allir krakkarnir eru með bakpoka á hjólum sem hægt er að draga á eftir sér, bækurnar eru ótalmargar og þungar.

Sumarfríð er langt og gott í ítölskum skólum. Frá annarri vikunni í júní til annarrar viku í september. Fullir þrír mánuðir. Leikskólar loka á sama tíma og spila ömmur og afar stórt hlutverk í uppeldi barnanna ef báðir foreldrar vinna úti. Við njótum þess á sumrin að skella okkur á ströndina en það tekur okkur aðeins hálftíma að komast í sjóinn með lest.

Í Róm búa u.þ.b. 25 Íslendingar. Við reynum að hittast eins og við getum og við erum um átta konur sem hittumst einu sinni í mánuði í íslenskum saumaklúbbi.

Við erum svo heppin að búa í sama húsi og við vinnum. Ég sauma og hanna á daginn á meðan strákarnir eru í skólanum, prjóna svo og hekla á kvöldin. Ingó er framkvæmdastjóri Norræna menningarsetursins í Róm (Circolo scandinavo). Hingað koma 50 listamenn á ári hverju og dvelja við listsköpun sína. Í hverjum mánuði er kynning á þeim listamönnum sem koma og eru strákarnir okkar mjög virkir í að sækja þær kynningar. Hinrik er duglegur að spyrja spurninga og ótrúleg forréttindi að kynnast þverskurði norrænna listamanna í dag. Rithöfundar, sjónlistamenn, kvikmyndagerðarmenn, myndlistarmenn, ljóðskáld, tónskáld o.s.frv.
Við kunnum vel að meta líf okkar hér í vöggu menningarinnar og svo er ótrúlega gaman að fara út, Piazza Navona, Campo dei Fiori, Pantheon, Colosseo, Péturskirkjan og svo margt fleira er í göngufæri við okkur og við notum oft helgarnar til að fara og anda að okkur menningunni.

Hafnarfjörður er samt alltaf í hjarta okkar og við söknum Suðubæjarlaugarinnar, bókasafnsins, Jólaþorpsins, Súfistans og Fjarðarkaupa heilmikið.

Bestu kveðjur frá Róm,
Hildur Hinriksdóttir



Strákarnir í Kristjaníuhjólinu fyrir framan Colosseo

Strákarnir fyrir framan Rúdólf Mini á aðventunni.

Flottir strákar í hjóli

Fyrir framan Trevi gosbrunninn


Á eftir mömmu.. í Trastevere.

Kvöldganga í Trastevere

Hildur

Hildur Hinriksdóttir býr ásamt eiginmanni og tveimur sonum í Trastevere hverfinu í hjarta Rómar, þangað fluttu þau í september sl. eftir að hafa búið í eitt og hálft ár í 900 ára kastala í fjallaþorpi 40 km frá Róm. Hún vinnur sem hönnuður og framleiðir undir merki sínu HiN design en Hildur lærði tísku- og textílhönnun í Toríno og Róm. Hún sinnir drengjunum sínum í fullu starfi en það er tveggja manna tak að sinna tveimur drengjum á grunnskólaaldri í stórborg eins og Róm. Hildur er Gaflari í húð og hár, fædd á Sólvangi og bjó síðast á Völlunum þangað til 2011 þegar fjölskyldan henti því litla veraldlega sem skipti máli út í bíl og keyrði til Rómar.

sunnudagur, janúar 12, 2014

Nýjársbréf og Mogginn

Áramótabréf Rómarfjölskyldunnar

Það er ljúft að líta tilbaka, sérstaklega þegar maður situr í þröngu flugvélasæti og á heimleið úr dýrðmætu jólafríi.  Við vorum hjá Magga bróður Ingó og fjölskyldu í Osló frá 23 desember - 4. janúar og nutum þess að vera með fjölskyldunni og hitta Fanney og co, Elínbjörtu og co og svo auðvita Auði móðu og Dóra!  Sendum engin jólakort sökum anna og skipulagsleysis.. en vonandi bætum við upp fyrir það með þessu árlega áramótabréfi!

Við fyrrverandi kastalafjölskyldan erum búin að eiga viðburðarríkt 2013.  Við sóttum skóla og vinnu frá Mandela frá janúar til september.  Erfiðara og erfiðara varð að eiga einhvern tíma saman sem fjölskylda þar sem vinnan kallaði hjá Ingó í Róm og oftar en ekki var hann heilu dagana (og nætur) í Róm meðan ég sá um strákana í kastalanum.  Sumarið kom seint og illa gekk að hita upp slottið... aldagamlir veggirnir söfnuðu bara í sig raka og erfiðar og erfiðara var fyrir húsfreyjuna að halda heilsu.. bæði líkamlega og andlega!

Við eyddum miklum tíma í sumar í litlu íbúðinni okkar sem fylgir vinnunni hans Ingó og áttuðum okkur á því að við gætum aukið lífsgæði okkar töluvert með því að flytja í hana.  Eftir smá umhugsun og ráðgjöf frá vinum ákváðum við að drífa bara í þessu þar sem Hinrik var að fara að byrja í nýjum skóla (fyrsta bekk í miðskóla 1. media) og Felix Helgi í 1. bekk  (1. elementare)  Og það má með sanni segja að þetta hafi verið gæfuspor.  Drengirnir eru báðir afskaplega heppnir með kennara og eru glaðir og ánægðir í skólanum.  Hinrik er komin með kennara sem kemur til okkar þrisvar í viku og hjálpar honum með heimavinnuna og ítölskuna. Felix Helgi er allan daginn í skólanum og er afskaplega vinsæll hjá kennurum og nemendum.  Hann fer út í garð í frímínútum og hittir þá alla krakkana í hinum bekkjunum.

Og húsfreyjunni líður miklu betur... andlega og líkamlega!  Það eru forréttindi að búa svona í miðborginni og vera með svona stórar svalir og alla þjónustu innan handar.  Ég kynnist nú öllum listamönnunum sem koma í Circolo og það er virkilega skemmtilegt.  Íslenska samfélagið í Róm er skemmtilegt og nýt ég þess hitta vinkonur mínar á kaffihúsum eða í saumaklúbb.

2014 á að vera ár vinnunnar fyrir mig.  Ég ætla að fara á fullt í hönnun og framleiðslu og finn fyrir mikilli tilhlökkun... hlakka til að fara að skapa.

Ingó er alltaf jafnglaður í vinnunni sinni og er kallaður "Litli sendiherrann" af norrænu sendiherrunum í Róm.  Hann er oftara en ekki fulltrúi Íslands í allskyns norrænum samstarfsverkefnum og blómstrar.

Við fengum nokkrar heimsóknir á árinu.  Dísa frænka og Fjóla komu til okkar í Kastalann í apríl og fengu svo að vera í íbúðinni okkar í Róm í nokkra daga.  Það var ofsalega notalegt að fá þær til okkar.  Erla Guðný kom með vinkonu sinni Dagbjörtu og gerðu allt vitlaust í þorpinu með fegurð sinni.  Tengdamamma kom frá Noregi með Svölu Rún og Guðrúnu Lilju og voru bæði í kastalanum og í Róm.  Tengdó kom svo aftur í sörpræs ferð í byrjun nóvember með Siggu frænku og náðu svo aldeilis að stríða Ingó sem átti von á öllu nema mömmu sinni úr flugvélinni!

Ingó hefur verið fastur leiðsögumaður hjá Heimsferðum sl. ár en bætti núna Vita inn og vonandi heldur hann áfram að vinna fyrir báðar ferðaskrifstofurnar á þessu ári.

Ingó var fengin til að vera ráðgjafi fyrir talsetningu myndarinnar "The secret life of Walter Mitty" og endaði á því að þurfa að tala inná fyrir nokkra karaktera... það var þá aðallega þegar bera átti fram nöfn eins og Stykkishólmur, Eyjafjallajökull osfrv sem rödd Ingólfs var mixuð saman við ítölsku leikarana.. við erum ekki enn búin að sjá myndina en hlakkar mikið til að heyra!  Hinrik og Felix fengu svo báðir að tala á íslensku fyrir tvo íslenska drengi.. vitum ekki enn hvort það var notað en þeir eru taldir upp í kredit listanum að mynd lokinni.  Þeir slógu auðvitað báðir í gegn og eru nú komnir á lista yfir unga leikara... Hinrik sem "rödd á ítölsku með hreim"  og Felix Helgi sem "rómverskur drengur"

Ég tók að mér að sauma samkvæmiskjól fyrir unga íslenska mær sem sækir amerískan einkaskóla í Róm.. svokallaðan "Promkjól"  Það var afskaplega gaman og nú í vor mun ég hanna og sauma tvo kjóla á þá fyrrnefndu og systur hennar.

Við kvöddum Mandela með gleði í hjarta og þakklæti, eigum þar ágætis vini en finnst bara nokkuð gott að vera laus úr fámenninu og frá sumum furðufuglunum sem leynast þar! 

Ævintýrið okkar heldur sem sagt áfram á fullri ferð.

Við óskum ykkur öllum innilega gleðilegs árs.. vonandi sjáumst við eitthvað á þessu fallega ári sem við tökum á móti full af bjartsýni og gleði og VON.
Ykkar Hildur (ritari) Ingólfur, Hinrik Leonard og Felix Helgi


 Póstkort frá Róm
sem birtist í Morgunblaðinu í dag 12. janúar 2014
Krakkakynning í Morgunblaðinu í Nóvember 2013