fimmtudagur, október 28, 2004


Margrét Ben og Benedikt í apríl 2004

Flensa og sjónvarpsgláp!

Miðvikudagskvöld og við hjónin erum búin að liggja í flensu í nokkra daga! Ingó er búin að vera lasin síðan á sunnudagskvöld og ég lagðist bókstaflega í rúmið á þriðjudaginn og er búin að liggja síðan! Erum búin að staulast framúr til að fara með Hinrik í leikskólann og er hann allur að koma til en er samt enn svolítið lítill og eflaust komin með einhverja sveppasýkingu útaf öllu þessu pensilíni sem búið er að dæla í hann síðustu mánuði. Við Ingó byrjuðum þessa flensu með ógleði en höfum sem betur fer ekki kastað upp enn! Erum með hrikalega eyrnabólgu og hálsbólgu og barasta alveg búin líkamlega! Margrét Ben vinkona mín hringdi í kvöld frá Brussel! oh það var svo gott að heyra í henni, við erum búnar að vera vinkonur síðan við fórum sem skiptinemar 88 - 89 og höfum voða lítið verið í sama landi síðan! Set hér inn mynd af henni með Benedikt syni sínum sem verður 1. árs núna 7 des. Hún er búin að plögga húfurnar mínar í Luxemburg og kannski verða þær seldar þar á einhverjum markaði í lok nóvember! Spennó! Horfði á Americas next top model í kvöld og the L-word strax á eftir! Skil ekki af hverju ég horfi alltaf á svona þætti eins og Top model... finnst þeir svo þunnir en hlakka samt alltaf til að sjá næsta þátt! Reyndar sérstaklega til að sjá næsta því get ekki betur séð en þær verði í heimaborg minni Róm í næsta þætti! Er ekki alveg að meika heimþránna þessa dagana! Sakna svo haustins í Róm og möguleikans á að kaupa allar jólagjafir fyrir 5000 kall og gefa flottar gjafir! Er reyndar að fara að hugsa um jólagjafir þessa dagana á eftir að finna þema ársins síðast voru það púðar kannski verða það töskur núna...???!! veit ekki enn... Nú svo kom þátturinn The L-word.. er ekki alveg að meika hann! Fannst handritið lélegt fyrst en síðustu 2 þættir voru ágætir.. svo kom þessi sýra í kvöld, fer alveg að missa áhugann á þeim held ég svei mér þá. En gleðifregnir.. góbelín myndin er tilbúin og er ég núna að fara að tjasla henni í tösku næstu daga!

sunnudagur, október 24, 2004

Hinrik er komin aftur!

Hinrik er komin aftur! Búin að vera hitalaus í 2 daga og ekkert gubbað í 3 daga. Hlakka svo til að eiga með honum góðan sunnudag þar sem við getum farið á rúntinn. Ingó er að fara að vinna. Ég var að vinna í morgun með fundastand og læti sem gengu nú barasta mjög vel. Svo fór ég á frumsýningu á LITLU STÚLKUNNI MEÐ ELDSPÝTURNAR.. ætla ekkert að tjá mig um það hér. Ætla kannski að tékka á því að fara með Hinrik og vera með hann bara fyrir hlé bara svona til að taka smá test á Hinna í leikhúsi. Hann vill nú reyndar alltaf fara uppá svið þegar hann kemur í óperuna en ég verð að fara að venja hann á að sitja í salnum. Það er svona með litlu heimavönu leikhúsbörnin eins og heimalingar út og upp um allt.

laugardagur, október 23, 2004

Sveskjugrautur og Gubb...svona í þema við síðustu daga...

Alveg fram á unglingsár var ég alveg rosalega matvönd. Ég man eftir mér 7 ára þar sem ég gubbaði yfir sveskjugrautsdiskinn minn vegna þess að mamma sagði að ég YRÐI að borða hann! Ég man líka eftir mér sem 9. ára stúlku með allan hugann við það að borða maískólf þar sem það var svo flott, mér fannst hann ekkert góður en ég ætlaði! Það tókst. Þegar ég var 14 ára á Lignano á Ítalíu með fjölskyldunni borðaði ég ekkert nema kjúkling og hamborgara, og reyndar tvisvar vínarsnizel.. Við vorum þarna í 5 vikur og ég lærði á hamborgarastöðunum að segja :PANE (brauð), KETCHUP, AMBURGER (hamborgari), KETCHUP, PANE!!! Því ég vildi ekkert á hamborgarann minn nema tómatsósu. Svo fór ég sem skiptinemi til Ítalíu og mamma hló! Í fyrsta lagi ég "litla stúlkan með heimþránna" að vera úti í eitt ár og í öðru lagi HVAÐ ÆTLAÐI ÉG EIGINLEGA AÐ BORÐA!! Ég meina var á Ítalíu í 5 vikur og smakkaði ekki einu sinni pízzu eða pasta!! Mamma hafði samt fulla trú á mér og ég byrjaði að borða næstum allt þegar ég var skiptinemi... ég er í þessum pælingum núna því Hinrik hefur verið svo veikur og ekki með neina matarlist.. og hann er svo lélegur að borða fyrir... er æska mín að koma í hausinn á mér!? Ég finn svo til með mömmu núna, þetta hefur ekki verið skemmtilegt að reyna að koma einhverju ofaní mig og ekkert skrítið að ég hafi verið neydd til að borða sveskjugrautinn! Veit ekki hvað ég á að gera með Hinrik. Hann borðar sárasjaldan kjöt, ekki hamborgara, ekki kjúkling, er nýbyrjaður að naga smá pylsur... hvað á ég eiginlega að gera? Get ekki haft soðna ýsu á hverjum degi! Gengur reyndar vel núna að borða í leikskólanum, hefur borðað kjötfars, kjúkling og meira að segja nýru þar.. en ekki sama mat heima... er einhver sálfræði sem ég þarf að nota?? Bara spyr!

fimmtudagur, október 21, 2004

Indverskar kjúklingabringur

Þetta er nú búin að vera meiri vikan, Hinrik Leonard er búin að vera svo veikur að ég hef ekki þekkt barnið mitt. Borðar ekki neitt, drekkur varla og gubbar bara og er með niðurgang. Við höfum ekki enn náð að gefa honum pensillínið við eyrnabólgunni vegna þess að hann heldur engu niðri. Ömmurnar komu báðar með pakka og ég hef verið dugleg að koma með smá gjafir til hans. Annars hefur hann bara setið á sófanum og horft á sjónvarpið og sofið. Þegar hann er sem hressastur þá litar hann í litabók eða les, en allt sitjandi í sófanum. Við Ingólfur höfum sjálf ekki farið varhluta af þessum vírus, hefur ekki gengið svo langt að kasta upp en næstum því, verið mikið óglatt og slöpp. Já svona líða dagarnir og maður druslast einhverja tíma í vinnuna svona til málamynda! Annars var yndislega gaman á þriðjudagskvöldið hjá okkur Stellu og Sollu. Stella er svoddan rosakokkur og hristi meiriháttar máltíð fram úr erminni. Indverskar kjúklingabringur! Við sátum og átum og átum og kjöftuðum! Það var nú náttúrulega bara yndislegt og ætlum við að halda þessu áfram. Um helgina verð ég svo að vinna því að leikstjóri, Toscu sem verður eftir árámót, kemur til landsins og þar verða endalaus fundarhöld.

þriðjudagur, október 19, 2004

Ömmur með pakka

Hinrik Leonard er búin að vera alveg hundveikur í dag! Fórum með hann í Domus Medica og fengum að vita að hann er með hrikalega eyrnabólgu og hann fékk pensillín við því en hann er líka með einhvern vírus sem orsakar þessi uppköst og niðurgang, hann er með rosalega bólgið tannhold og ekkert skrítið að hann vilji ekki borða neitt svo er hann með hálsbólgu og hósta ofaná allt saman. Litla strýið búin að gubba svo oft í dag og ég er núna vakandi til að reyna að þvo sem mest því morgundagurinn verður sennilega svipaður. Getum ekki byrjað að gefa honum pensillínið fyrr en í fyrsta lagi á morgun þar sem hann heldur engu niður. Ingólfur var heima með hann í dag og ég var í vinnunni. Í fyrramálið fer ég að vinna en verð að vera svo heima milli 13 og 17 meðan Ingó fer að vinna. Annað kvöld fer ég svo í stelpumatarboð hjá Stellu með Sollu. Það verður nú gaman að slúðra svolítið og fá útrás vinkonurnar eftir þessu klikkuðu törn. Held að vélin sé búin þannig að það er best ég fari og hendi í þurrkarann, góbelínsaumurinn gengur vel og hefur ekki orðið fyrir gubbugusu enn... en sama má ekki segja um fötin mín, sófann okkar, rúmið ofl..
ps. Hinrik hefur óskað eftir því að fá Ömmur í heimsókn með pakka! Búin að senda skilaboð á Ömmu Sigrúnu, sendi á Ömmu Guðbjörtu á morgun!

mánudagur, október 18, 2004

Gubb og Góbelín

Litla músin mín sem var svo lasin og raddlaus í dag tók uppá því að fá sína fyrstu gubbupest, ofaní hálsbólguna og jaxlatökuna. Gubbaði tvisvar í dag, fyrst yfir hjónarúmið.. nota bene mín megin og yfir koddann minn! Svo eftir kvöld mat á stofugólfið. Greyið litla vissi ekkert hvað var í gangi hefur aldrei kastað upp áður. Ég er sem sagt búin að vera að knúsa hann í allan dag og litli stuðboltinn minn búin að vera hundveikur og lítið búin að leika sér, bara kúra og horfa á Stubbana, Bubba Byggir, Animal planet og CBBC Prime. Fór nú samt aðeins út í dag, Jónína á loftinu kom niður svo að ég gæti sótt Ingólf í Þjóðminjasafnið. Fékk mér rosalega flotta útsaumsmynd þar, með Góbelín saumspori, heitir riddararós, búin að vera að dúlla við hana í kvöld. Komst í morgun í samband við góðan vin minn í Ameríku sem var skiptinemi með mér á Ítalíu 88-89, hef ekkert heyrt í honum síðan! Það eru svo mörg ár síðan ég frétti af honum að ég iða í skinninu að heyra af honum fréttir, hlakka svo sömuleiðis til að hafa góðan tíma til að skrifa honum emil þar sem ég þarf að segja honum hvað á daga mína hefur drifið síðustu 15 ár!! Óperan bíður mín svo í fyrramálið endalaus fundahöld og skipulagningar, kom þar aðeins við í kvöld bara í 20 mínútur, skrítið að segja svo bara bless!! Farin aftur í útsauminn, ætla að nota myndina á tösku sem ég ætla að sauma, vantar góða nýja tösku!

sunnudagur, október 17, 2004

3. daga vöflur..

Jæja laugardagur að kveldi komin og hér sit ég enn með vöflur í hárinu síðan í fyrradag og enn í náttfötunum. Hinrik Leonard tók sig til og veiktist í gærkveldi þegar við komum heim úr óperunni og var með 39 til 40 stiga hita í allan dag. Ingólfur var að vinna svo ég var hér heima í bíló, barnabókalestri og kubbastandi. Merkilegt hvað sonur minn er þó alltaf sprækur þó að hitinn sé yfir 40. Ég var mikið að hugsa um það hvort ég ætti að hoppa í sturtu.. svona fram eftir degi, svo gaf ég bara skít í það og fer barasta í bað í fyrramálið! Orðnir margir mánuðir síðan ég átti svona dag heima og nauðsynlegt fyrir mann að hvílast, ég var samt hálfstressuð að einhver myndi droppa við í heimsókn svona óvænt og ég eins og Dýrið í Fríðu og Dýrinu en sem betur fer voru það bara mamma sem kom fyrripartinn og tengdó eftir kvöldmat svo að það var nú allt í lagi. Vonandi verður Hinni hitalaus á morgun svo við getum farið á rúntin í "nýja" bílnum en Siggi hennar Elínbjartar vað að skipta um kúplingu fyrir okkur í dag og ég get ekki beðið eftir að prófa klárinn.

föstudagur, október 15, 2004

Bloggpælingar

Sonurinn sofnaður og klukkan rétt rúmlega 8. Jónína á loftinu ætlar að passa í kvöld þar sem ég ætla að skreppa í óperuna, Ingólfur er á sýningunni en ég ætla að skreppa og vera frá hléi og fram eftir. Það er svolítið erfitt að framleiða svona sýningu og vera að vinna bókstaflega allan sólarhringinn og þurfa svo að sleppa hendinni af öllu saman! Ég geri það allavega ekki auðveldlega. Ætti svo auðvitað að vera í fríi í nokkrar vikur til að taka út það frí sem ég er búin að vinna mér inn í þessari uppsetningu en sé ekki fram á að geta tekið nokkuð að ráði þar sem næsta pródúksjón er komin á fullt. En nóg um það. Fer allavega í óperuna á eftir og fæ mér kannski barasta einn bjór eftir sýningu.
Ingólfur setti inn þessa mynd af mér hér fyrir neðan í dag. Hún er tekin fyrir viku síðan á frumsýningu Sweeney Todd og ef vel er skoðað sést að ég er með linsur, svona eins og dáleiðingarskífa. Bubba hármeistari greiddi mér með þessa líka flottu frumsýningargreiðslu með krullum og alles og Pía förðunarpía málaði mig. Maður er náttúrulega með alla þessa meistara við höndina á frumsýningu.
Búin að vera svolítið að hugsa um þessa bloggsíðu í dag síðan ég setti hana upp. Ég hugsa oft þegar ég er að skrifa á síðuna hans Hinriks um það hvað maður er í raun og veru að ritskoða sig mikið þegar maður skrifar svona á netið, en hugsa að ég muni gera það minna hér þar sem ég á ekki von á því að margir aðrir en vinir og fjölskylda muni nenna að lesa þetta, og þess vegna er þetta svo gaman því að svona getur maður komið fréttum af sér og sínum á framfæri á auðveldan hátt. Og svo er það þessi pennavinasýki sem ég minntist á fyrr í dag. Þegar ég var unglingur átti ég marga pennavini og man sérstaklega eftir Fanis Foukas í Grikklandi sem ég skrifaðist á við í mörg ár. Við sendum alltaf kassettur á milli þar sem ég kenndi honum íslensku og hann mér grísku, þá var biðin svo löng eftir hverju bréfi og stundum var ég langt komin með bréfið til hans áður en hann svaraði mér. Svo þegar ég fór sem skiptinemi til Ítalíu þá fór Margrét Ben vinkona mín til Aþenu og hitti hann í persónu. Það var rosalega skrítið að hún skildi svo hitta hann en jafnframt gaman að vita það að hann var í raun og veru til!! Þó hann byggi ekki á Akropolishæð eins og hann sagði, heldur í fátækrahverfi borgarinnar! Allavega finnst mér gaman að fá svona útrás og ætla að reyna að halda þessu áfram eftir bestu getu.

hildurina

Ný á blogginu

Jæja þá er ég komin í bloggheiminn langar bara svona til að prófa hvort ég fái útrás fyrir gamla pennavinafílinginn með því að halda út bloggsíðu. Veit ekkert hvort ég muni hafa tíma fyrir þetta með hinni yfirgripsmiklu vinnu minni en látum nú reyna á.