miðvikudagur, janúar 31, 2007

33 vikur í dag

Hinrik og litli bróðir hans sem er nú reyndar orðin 10 merkur í dag!
Hinrik að leika hund, takið eftir stígvélunum!Bumbumynd 31. janúar, fór í vaxtasónar og allt í góðu lagi með drenginn hann er 14% yfir meðallagi litli drengurinn okkar!

Hérna er svo hlaupabóludrengurinn okkar!
Viðburðarríkur og skemmtilegur dagur, gærdagurinn var lika góður fyrir utan handboltaleikinn sem varð til þess að ég þvoði og gekk frá fullt af þvotti en spennan var alveg að fara með húsmóðurina, endaði með því að ég fór smá rúnt í framlengingunni, gat ekki verið lengur heima að horfa!
Ingó tók nokkrar bumbumyndir í dag sem fylgja hér að ofan og Hinrik er allur að hressast og ætlar í leikskólann á morgun..........Juhúúú
mánudagur, janúar 29, 2007

Stiklað á stóru

Dagur fimm í hlaupabólu og sonurinn svo duglegur að klóra sér ekki "mikið". Brúðubíllinn komin aftur í tækið en fer aftur í bókasafnið í dag!

Helgin var róleg og skemmtileg og var ég að uppgötva að ég hef barasta ekki farið út úr húsi, sem er nú barasta yndislegt.

Prjónaskapurinn heldur áfram og myndir væntanlegar.

Horfði á Júróvisjón eins og lög gera ráð fyrir og var mjög spennt að sjá hana Heru Björk þar sem ég hannaði á hana topp og kápu fyrir keppnina. Var mjög ánægð með útkomuna en ég fylgdi þessu verkefni ekki eins og öðrum sökum anna og óléttu. Kápan átti að vera svört og toppurinn blár, en eitthvað hefur breyst í ferlinu því kápan var líka blá, það kom bara ágætlega út þó ég hefði frekar viljað sjá hana svarta því blá efnið var svo glansandi og saumarnir kipruðust svolítið, en eins og ég segi heildarmyndin flott og flíkurnar flottar!

Lögin voru nú betri en síðast, verð að segja það en smekkur landans sem kaus er náttúrulega svona og svona... mér fannst Jónsi og hans krú svolítið glatað... en er viss um að Júróvisjón fan um heim allann myndi fíla átfittin þó ég geri það ekki, finnst alltaf erfitt þegar stílistar pæla ekki alveg í því hvernig hlutirnir koma út í sjónvarpi, fannst gellurnar tvær vera eins og þær væru með þreföld læri og orðið nafli brýst fram á varir mínar... hmmmmm
Eiríkur Hauksson var náttúrulega flottastur kallinn!

Á síðustu meðgöngu grét ég mikið yfir íþróttum!!? Jú, hormónarnir fóru á fullt þegar ég heyrði íþróttafréttir og féllu tárin venjulega yfir gengi einhverra kvennaliða í fótbolta eða blaki eða einhverju sem ég hef þeim mun minni áhuga á, í þessari meðgöngu græt ég yfir stjórnmálum! Ég felldi tár þegar ég heyrði um kosningu í varaformann Frjálslynda Flokksins, áður en úrslitin voru kynnt. Grét aftur og meira þegar úrslitin voru kynnt. Þvílík aðför að Margréti Sverris, ég bara trúi því ekki að svona hlutir geti gerst í nútímaþjóðfélagi. Spilling á spillingu ofan og ég veit hreinlega ekki hvort ég voni að Margrét haldi áfram í flokknum sem hún var aðalkonan í að móta eða að hún fari eitthvað annað! Þó ég muni aldrei kjósa FF þá ber ég virðingu fyrir Margréti og er hún góður stjórnmálamaður, var yfirmaður minn í Vitanum fyrir 16 árum síðan og núna þegar ég hugsa um það myndi ég helst vilja að hún færi yfir í Vinstri Græna svo ég geti kosið hana, því eins og þeir sem lesa bloggið mitt reglulega muna, þá var ég búin að lofa að kjósa VG vegna Kolbrúnar Halldórs sem er eina þingkonan sem svaraði kalli mínu um Miðstöð Mæðraverndar (í nóvember sl.).

Horfði svo náttúrulega á handboltan um helgina, fannst jafn æðislegt að horfa á leikinn á laugardaginn eins og það var ömurlegt að horfa á sunnudaginn!! Hlakka til á morgun að horfa þá því það virðist vera svona annar hvor leikur sem gengur vel!

föstudagur, janúar 26, 2007

Hlaupabóla, brúðubíllinn ofl

Svona sofnaði sonur minn í gær, faðmaði Steina sinn og hvarf á vit draumanna. Hann er með Hlaupabólu! Bólurnar byrjuðu að birtast um miðjan dag og eru enn að koma fram. Það þýðir um það bil vika heima.... glöð að það sé að koma helgi svo ég sé ekki ein með hann allan daginn, aðallega hans vegna! Nú situr hann í morgunsárið með kakómjólk í bolla og skellihlær... máttur auglýsinganna er mikill og í gær horfði hann á Bubba Byggir sem var með auglýsingu í byrjun af myndbandi með Brúðubílnum, hann vildi endilega fá að sjá hana svo ég fór í bókasafnið og fékk hana á leigu, ég fæ ekkert út úr henni en ég er ekki markhóp! Hinrik hlær og hlær og syngur með öllum góðu gömlu íslensku lögunum, ekkert annað en gott að segja um það!Hér eru svo vettlingarnir sem ég kláraði, aldur 2-3 ára.


Hér eru svo vettlingar eiginmannsins, með tveimur þumalputtum eins og í gamla daga.

Dagurinn í dag bíður svo uppá endalaust myndbanda og dvd gláp hjá syninum, þvott og frágang hjá móðurinni, þarf að ákveða hvað ég prjóna næst... klára að sauma 6 húfur sem eru í pöntun, einar grifflur, bera krem á bólur, vafra á netinu, taka kjúklingabringur úr frysti fyrir kvöldið, kjafta í símann..... já og örugglega eitthvað fleira óspennandi!

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Rósa, Rósa og Gríma

Heima í dag með lítin lasarus, sem er nú ótrúlega hress og eins og við segjum á ítölsku, locoroico.. talar og talar. Hann er svo yndislegur hann Hinrik minn, er að ræða alls kyns mál við mig og minnið hans er ótrúlegt. Það er líka svo sætt hvað hann er skírmæltur en orð eins og Gull og Kall eru borin fram GUGGL OG KAGGL! Hann var með tæplega 40 stiga hita í gær en held að hann sé hitaminni núna, ætla að mæla hann á eftir og fara svo kannski með hann á rúntinn svona til að hanga ekki inni í allan dag.

Fann æskuvinkonu í bloggheimum í gær, Rósa Rut var vinkona mín þegar ég bjó á Akureyri 1978 - 1980, hún býr nú í París og er ég búin að vera að sökkvar mér í bloggið hennar núna í morgun.

Rósa vinkona mín í Köben byrjaði svo að blogga í gær þannig að núna hef ég nóg að lesa í bloggheimum og rosa gaman að því!

Er að leggja lokahönd á vettlinga handa Ingó sem eru með tveimur þumlum, svona eins og í gamla daga. Ingó langaði svo í svoleiðis svo ég skellti mér í prjónahönnun og sýnist útkoman frekar fín!

Fyrir 7 vikum týndist kisudóttir Sollu vinkonu, hún slapp frá flugvallastarfsmönnum á leið til Akureyra í pössun... hún fannst í gær!! Hrakin í skerjafirðinum, búin að lifa af frost og snjó og áramót! Þetta eru góðar fréttir af henni Grímu litlu.

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Ein sæt saga...

Sonur minn kom heim af leikskólanum í dag og knúsaði móður sína... eins og vera ber! Jónína matráðskona á leikskólanum er góður kokkur og í dag var grænmetis lasagne á matseðlinum, og var frú Jónína óspör á hvítlaukinn. Ég með óléttuveikina þarf að hafa mig alla við þegar drengurinn minn knúsar mig, hvítlaukslyktin svífur yfir vötnum og ég á ekkert ráð til að losa drenginn við hana. Það fylgir svo auðvitað að hann er óvenju "knúsleitinn" í kvöld og ég þarf bara að halda niðrí mér andanum ehheeheheh

Dagarnir

Hvaða dagur er í dag?
Jú ég held það sé þriðjudagur, ég er að verða tímalaus. Núna þegar ég þarf ekkert að fara til læknis í vikunni, ekkert til ljósmóður og ekkert liggur fyrir annað en að vinna heima og framleiða þá verð ég algerlega út að aka. Það sem heldur mér í dögunum er sjónvarpsdagskráin! En ég er búin að sjá svo marga þætti fyrirfram að það er varla hægt að treysta á að muna dagana út frá dagskránni!

Við Hinrik horfðum á Handboltann í gær, rosalega skemmtilegt. Ingó var ekki heima og við Hinrik gengum frá eftir matinn og hlustuðum á sjónvarpið. Hinrik var svo duglegur að ganga frá og raða í uppþvottavél og vaska upp. Upprennandi hjálparhella þar á ferðinni!

Ég sakna Gettu Betur útsendinganna í útvarpinu, fannst rosagott að hlusta á keppnina meðan ég gekk frá eftir matinn! En handboltinn getur jafnvel komið aðeins þar inn í staðinn.

Prjónaskapurinn gengur vel, verst með bakið á mér sem er alveg að drepa mig á kvöldin, þannig að ég verð að skella mér í heitt bað til að mýkja mig upp.

mánudagur, janúar 22, 2007

Kompás

Ég settist niður í gærkveldi til að horfa á Kompás, eftir uþb 10 minútur ruglaðist þátturinn, svo ég beið þar til í dag og var að horfa á hann á netinu, óruglaðan auðvitað, í opinni dagskrá á veftv af hverju ruglar Stöð 2 þáttinn og sýnir hann svo öllum strax á eftir?? Stórfurðulegt mál. Ég verð nú að segja að ég er hálf miður mín eftir að hafa horft á þáttinn. Og svo verður víst meira í næstu viku. Það er eins gott að maður byrji bara strax að ala upp börnin sín í hræðslu við kynferðisafbrotamenn, án þess að gera þau paranoiuð! Ótrúlegur heimur sem maður býr í svo ekki sé meira sagt!

sunnudagur, janúar 21, 2007

Júrótrash

Júróvísjónpartí í gærkveldi með familíunni! Voru þetta virkilega hluti af bestu lögunum??? Og hvað er í gangi með þá sem komust áfram? Við kusum ekki enda horfðum við á Ruv+ en Hinrik var hrifnastur af Snorra Idol og mér fannst söngurinn hjá Heiðu bestur, og Matta reyndar líka en BRÍET SUNNA? Og SJONNI BRINK? Bríet var svo fölsk að ég hafði ekki undan að lækka í sjónvarpinu þegar brot úr lögunum komu á skjáinn. Ég verð að virðurkenna að ég er orðin spennt fyrir næstu helgi, hvaða hörmung verður dregin fram þá og hver kemst áfram???

föstudagur, janúar 19, 2007

Vettlingar og veikindi

Annar dagurinn heima með Hinrik veikan, fór með hann til læknis og ekkert alvarlegt að bara kvef. Gaman að fara á nýju heilsugæsluna okkar og engin bið, hringdi seint í gær og fékk tíma í dag, hef barasta ekki lent í því fyrr!

Ég var einhverntíma búin að lofa hér að birta myndir af Jólagjöfinni í ár, er hér er um að ræða fínar flísgrifflur með útsaumi með meiru.... skoðið sýnishornið:

Og hér eru frægu vettlingarnir á Hinrik, rosalega fínir og sætir! Held að vandmálið við vöntun á sjálfstrausti mínu við vettlingaprjón hafi verið það hvað mér fannst leiðinlegt að prjóna með 5 prjónum (sokkaprjónum) en núna þegar ég er komin af stað halda mér engin bönd og nú er ég að prjóna sokka á Hinrik.
Bið ykkur sérstaklega að taka eftir kúlunni sem speglast í borðinu, en það er bumban mín, tók myndina ofan frá á glerborðstofuborðinu okkar og kom svona skemmtilega út!
miðvikudagur, janúar 17, 2007

VeTTTlingar

Miðvikudagur og ekkert liggur fyrir í dag annað en að vera heima og reyna að láta mér batna. Búin að vera ansi slöpp uppá síðkastið og í læknastússi.

Ég komst að því í vikunni að ég GET prjónað vettlinga, veit ekki af hverju en ég var viss um að ég gæti það ekki það væri svo erfitt en núna með einn 4. ára tappa þá var vettlingaleysið farið að há honum svo mikið og alltaf er hann að týna einum og einum svo ég skellti mér í prjónaskapinn. Og voilá, ekkert mál, byrjaði á því að prjóna einlita, var náttúrulega með of stóra prjóna og vettlingarnir urðu svolítið "feitir", svo af því að þeir voru einlitir þá var erfitt að mæla stærðina á vettling númer tvö þannig að þeir voru ekki alveg jafn stórir, en Hinrik er ánægður og hægt er að nota þá! Nú hef ég ákveðið að prjóna alltaf röndótta eða munstraða til að auðvelt sé að gera þá alveg eins!

Nú eru 8 vikur í fæðingu og finnst mér eins og ég ætti kannski að fara að undirbúa eitthvað!? Ef einhver á vagn til að lána mér væri það vel þegið, einnig ungbarnaföt ef einhver á á lager, svo væri ekki verra ef einhver ætti vöggu á hjólum.. nóg í bili endilega kommentið ef ykkur "vantar" að lána mér eitthvað!!

mánudagur, janúar 15, 2007

Felix

Árið 1985 söng ég í Galtalæk með Túnfiskunum, glæsilegur sönghópur úr unglingadeild Öldutúnsskóla sem gerði það gott með plötuútgáfu og framkomu á ýmsum skemmtunum og samkomum. Aðrir sem komu fram voru meðal annara Greifarnir, þeir spiluðu í stóru tjaldi á föstudagskvöldinu og ég ung og óhörnuð 14 ára stúlka horfði með aðdáun á Felix og dýrkaði hann. Árið 2007 sé ég sama blikið í augum sonar míns, hann dýrkar Felix Bergsson og Gunni og Felix eru reglulega á fóninum og í DVD spilaranum.
Hinrik hitti Felix í jólaþorpinu, hann bað um óskalag og bauð honum í kaffi.
Ég er enn hrifin af Felix og ef til er góð fyrirmynd þá er það hann!

sunnudagur, janúar 14, 2007

Þýðingar

Strákarnir mínir hafa verið duglegir að vera í tölvunni síðustu daga þannig að ég hef lítið bloggað, hellti mér í lestur afþreyingarbókmennta, byrjaði á Mary Higgins Clark, Heima er engu öðru líkt, Þýðandi: Gissur Ó. Erlingsson. Ég hef ekki mikið verið að lesa bækur á íslensku síðustu árin, hef mest lesið á ensku svo þegar ég byrjaði á þessari fannst mér hún ótrúlega óþjál og setningar mjög skrítnar en ég ákvað að það væri bara ég sem væri að komast inní íslenskt bókmenntamálfar (!? jákvæð gella) svo byrjaði ballið fyrir alvöru og síðustu kaflana skemmti ég mér við að lesa upphátt fyrir Ingó því þýðingin var fáránleg
Dæmi, Barnapían er kölluð Barngæslan! "Hann borgaði barngæslunni og keyrði henni heim"!
svo á blaðsíðu 246, kemur þetta:
"Bara ein spurning," sagði Paul Walsh. "Númer hvað er farsíminn þinn, Miss Carpenter?"
Heheheh þetta er alveg ótrúlegt, og þó Mary Higgins Clark teljist seint til mikilla rithöfunda þá er nú lágmark að þýða söguna almennilega, eða hvað? Það er eins og þýðandinn hafi látið tölvuforrit þýða fyrir sig bókina og gleymt svo að leiðrétta, í síðustu köflunum er barngæslan reyndar orðin barnapía þannig að eitthvað hefur verið leiðrétt. Og eftir að hafa gúgglað þýðandanum sýnist mér hann vera mjög reyndur í sínu starfi!

Annars er sunnudageftirmiðdagur, strákarnir farnir á Ronju Ræningjadóttur og ég heima að tjilla. Prjónaði flotta húfu í gær á Hinrik og ætla núna að setja flís inní hana svo hann geti verið með hana, ullin stingur svo segir hann og ég get ekki annað en sýnt honum samúð þar sem ég man hvað ég þjáðist í ullarnærbolum og ullarpilsum í minni æsku.

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Barnaland

Við höfum verið með síðu á barnalandi fyrir Hinrik síðan hann fæddist. Að meðaltali koma um 10 manns inná hana á dag. Í gær tók ég eftir óvenjulegum hreyfingum, yfir 250 manns höfðu skoðað hana í gær og þegar nánar var að gáð sást að þetta fólk var frá Bandaríkjunum og Evrópu.. við hjónin tókum þá ákvörðun að læsa myndasíðunum því ég hef heyrt alls kyns draugasögur um barnanýðinga sem skoða myndir af börnum í baði og svoleiðis, ég hef nú passað mig hingað til að vera ekki að setja inn myndir af syni mínum allsberum en var reyndar ekkert mikið að hugsa um það svona í síðustu skipti sem ég setti inn myndir. Það eru leiðbeiningar á forsíðunni hvað lykilorðið er og er það mjög auðvelt enda ekki hugmyndin að það sé erfitt að skoða myndir fyrir þá sem okkur þekkja.

Ég er enn með svolitla ónotatilfinningu í maganum útaf þessu. Við búum náttúrulega í svo úrkynjuðum heimi, þar sem annar hver sjónvarpsþáttur fjallar um óeðli og ónáttúru og maður er orðin svo ónæmur fyrir öllu þessu ógeði. (Þetta var kennslustund í orðum sem byrja á Ó!)

Annars fór ég í mæðraskoðun í gær, fer í aukasónar 31. janúar og þá fáum við að sjá aftur litla typpalinginn og getum slegið á allar kjaftasögur um að drengurinn sé í raun stúlka!! Bumban þykir svo stelpuleg! Ég er enn að grennast og hef misst 1. kíló í viðbót yfir jólahátíðina en barnið vex eðlilega og dafnar.

þriðjudagur, janúar 09, 2007

Hnútar,húfur, prjón og pasta

Ég rakti peysuna upp, prjónaði húfu og Hinrik fór með hana í leikskólann í morgun rosalega glaður, hún er blá með hvítum röndum, Hinrik vill fá aðra græna á morgun!

Í dag er planið að sauma og sauma, ég ætla að reyna að auka lagerinn á húfunum, ef þið þekkið fólk sem vinnur á leikskólum hafið samband því ég vil selja eins mikið af húfum núna í janúar eins og mögulegt er.

Mér líður eins og barnið vilji brjótast út úr bumbunni þessa dagana, helst uppi hægra megin, hann mjakar sér og sparkar með svona þrýstispörkum, það er frekar skemmtileg upplifun en líka sársaukafull. Er orðin slöpp í bakinu, gamlir vöðvabólguhnútar að gera vart við sig. Margrét mín kom til mín í gær með æðislega olíu sem ég nú maka á hnútana í gríð og erg.
Barnið er núna um 1,3 kíló og 27 cm að lengd, er komin 30 vikur, fyndið með annað barn þá man maður ekki alveg hvað maður er komin langt! Þarf reglulega að tékka á ljosmodir.is til að sjá hvað ég er komin.

Ein góð uppskrift að lokum, þegar þið eldið pasta eldið svolítið rúmlega, notið svo afganginn daginn eftir í dásamlega omulettu, bætið bara nokkrum hrærðum eggjum við og steikið við meðalhita á pönnu báðum megin eða setjið í eldfast mót í ofn og ost ofaná. Stórkostleg nýting á afgöngum og ekki slæmt til að spara! Og bragðið er þannig að þú trúir ekki að þetta sé sama pastað og kvöldið áður.

sunnudagur, janúar 07, 2007

janúar febrúar...

jæja jóladótið farið niður og nú má janúar taka við! Ætla samt að halda nokkrum seríum svona fram á vor yfir versta skammdegið.

Annars elska ég janúar og febrúar, eitthvað svo kósí mánuðir...

Hinrik uppgötvaði í gær að stafirnir í sjónvarpinu væru íslenskur texti, fannst voðaspennó að láta pabba sinn lesa upp fyrir sig hvað þeir væru að segja í sjónvarpinu. Myndin var Hot Chick og um leið og Ingó fór að lesa fyrir hann fóru persónurnar að tala um kynlíf, kynkulda ofl.. heheheh ég hló mig máttlausa meðan Ingó bjó til einhvern texta um kaffi og kökur!

Það gengur vel að prjóna, byrjaði á peysu á Hinrik því að hann vildi vera fyrstur, finnst samt svo leiðinlegt að prjóna ermar með sokkaprjónum. Læt mig samt hafa það.

laugardagur, janúar 06, 2007

Tenórtrobble

Miður laugardagur og ég búin að ryksuga alla íbúðina og skúra líka, búin að þvo 4 þvottavélar og er á leiðinni að taka niður jóladótið.. Ingó fór með einkasonin í bíó og ég fór hamförum á meðan með Il Divo á fullri fart.. hef aldrei búið í blokk áður og vona að ég sé ekki að æra nágrannana það er bara svo gott að hlusta á tenóra hátt!

Hef tekið ákvörðun um að taka jóladótið ekki niður fyrr en á morgun! Strákarnir komnir heim og Ingó komin í Playstation og Hinrik á leiðinni að leika með honum.

Blogspot vandræði

Reyndi að blogga í gær og í fyrradag en lenti í vandræðum með að tengja mig inn á blogspottið.... ekki það að mér lægi mikið á hjarta... bara þetta venjulega... fór í sykurþolspróf í morgun, þurfti að fasta frá klukkan 10 í gærkveldi og það var frekar erfitt. Var svo þyrst. Þurfti svo að drekka sykurleðju og bíða í tvo tíma meðan reglulega var tekið blóð úr mér.. ógeðslegt. Þetta eyðilagði algerlega daginn hjá mér því ég eyddi restinni af deginum í uppköst og ógleði. Er orðin aftur þreytt á gubbuveseninu.
Keypti mér garn í dag og er byrjuð að prjóna. Bara það að segja að ég hafi keypt mér garn fær mig til að skammast mín því ég á fulla kassa af garni.... en það er bara eitthvað við það að kaupa nýtt garn og byrja á nýjum hlut sem..."gives me the thrills"!! Er að prjóna ungbarnapeysu og ef hún verður flott ætla ég að gera alveg eins peysu á Hinrik.
Og nú er helgin komin... planið fyrir helgina er að taka til og þrífa og njóta þess að vera heima með ekkert planað nema það að vera heima!

miðvikudagur, janúar 03, 2007

Leðurstígvél

Ég á ótrúlega sæta vinkonu sem ég fór að heimsækja í dag. Hún heitir Erla Perla. Ég fór inn í ljótu Ecco skónum mínum og kom út með fulla poka af fötum og í flottum brúnum leðurstígvélum, ég fór til Jóns Gests og Ástu til að kaupa skóáburð og JG pússaði stígvélin þannig að þau eru eins og ný!

Það er yndisleg tilfinning að vita ekki hvaða föt maður eigi að velja á morgun, ég hef val um ótrúlega marga flotta kjóla, jakka og pils, eitt er víst að ég verð í brjálæðislega flottum stígvélum á morgun!

Næsta skref er að láta klippa mig og reyna að plokka á mér augabrúnirnar, þá verð ég flottasta ólétta gellan á svæðinu!

Hehehehe

mánudagur, janúar 01, 2007

Nýársdagur 2007

Í jólaboði heima hjá Helga bróður á annan í jólum


Gamlárskvöld á Hverfisgötunni hjá Jóni Gesti og Ástu

Undirbúningur fyrir Áramótaveislu


Jólaball á þriðja í jólum hjá Frímúrurum í Hafnarfirði

Síðasti dagur formlegs hátíðarfrís, ekki það að ég þurfi að hafa áhyggjur af því að mæta í vinnu á morgun en Hinrik þarf í leikskólann og Ingó í vinnuna.
Ég ætla að fara að sauma drengjaföt á litla drenginn í bumbunni og hlakka mikið til að gera eitthvað spennandi. Ég ætla líka að framleiða svolítið af grifflum en þær voru jólagjöfin í ár. Grifflur úr flísi með útsaumi sem tekur svolítið langan tíma en er svo gaman að dunda við yfir sjónvarpinu.
Þegar ég lít yfir síðasta ár þá læðist að mér sú hugsun að ég vil ekki flytja aftur á þessu ári! Ég hlakka til að eyða næstu árum hér á Drekavöllunum!

Í dag ætla ég hins vegar að vera í náttfötunum í allan dag, borða afganga og horfa á sjónvarpið, ekki slæm tilhugsun það!
Gleðilegt ár