mánudagur, janúar 29, 2007

Stiklað á stóru

Dagur fimm í hlaupabólu og sonurinn svo duglegur að klóra sér ekki "mikið". Brúðubíllinn komin aftur í tækið en fer aftur í bókasafnið í dag!

Helgin var róleg og skemmtileg og var ég að uppgötva að ég hef barasta ekki farið út úr húsi, sem er nú barasta yndislegt.

Prjónaskapurinn heldur áfram og myndir væntanlegar.

Horfði á Júróvisjón eins og lög gera ráð fyrir og var mjög spennt að sjá hana Heru Björk þar sem ég hannaði á hana topp og kápu fyrir keppnina. Var mjög ánægð með útkomuna en ég fylgdi þessu verkefni ekki eins og öðrum sökum anna og óléttu. Kápan átti að vera svört og toppurinn blár, en eitthvað hefur breyst í ferlinu því kápan var líka blá, það kom bara ágætlega út þó ég hefði frekar viljað sjá hana svarta því blá efnið var svo glansandi og saumarnir kipruðust svolítið, en eins og ég segi heildarmyndin flott og flíkurnar flottar!

Lögin voru nú betri en síðast, verð að segja það en smekkur landans sem kaus er náttúrulega svona og svona... mér fannst Jónsi og hans krú svolítið glatað... en er viss um að Júróvisjón fan um heim allann myndi fíla átfittin þó ég geri það ekki, finnst alltaf erfitt þegar stílistar pæla ekki alveg í því hvernig hlutirnir koma út í sjónvarpi, fannst gellurnar tvær vera eins og þær væru með þreföld læri og orðið nafli brýst fram á varir mínar... hmmmmm
Eiríkur Hauksson var náttúrulega flottastur kallinn!

Á síðustu meðgöngu grét ég mikið yfir íþróttum!!? Jú, hormónarnir fóru á fullt þegar ég heyrði íþróttafréttir og féllu tárin venjulega yfir gengi einhverra kvennaliða í fótbolta eða blaki eða einhverju sem ég hef þeim mun minni áhuga á, í þessari meðgöngu græt ég yfir stjórnmálum! Ég felldi tár þegar ég heyrði um kosningu í varaformann Frjálslynda Flokksins, áður en úrslitin voru kynnt. Grét aftur og meira þegar úrslitin voru kynnt. Þvílík aðför að Margréti Sverris, ég bara trúi því ekki að svona hlutir geti gerst í nútímaþjóðfélagi. Spilling á spillingu ofan og ég veit hreinlega ekki hvort ég voni að Margrét haldi áfram í flokknum sem hún var aðalkonan í að móta eða að hún fari eitthvað annað! Þó ég muni aldrei kjósa FF þá ber ég virðingu fyrir Margréti og er hún góður stjórnmálamaður, var yfirmaður minn í Vitanum fyrir 16 árum síðan og núna þegar ég hugsa um það myndi ég helst vilja að hún færi yfir í Vinstri Græna svo ég geti kosið hana, því eins og þeir sem lesa bloggið mitt reglulega muna, þá var ég búin að lofa að kjósa VG vegna Kolbrúnar Halldórs sem er eina þingkonan sem svaraði kalli mínu um Miðstöð Mæðraverndar (í nóvember sl.).

Horfði svo náttúrulega á handboltan um helgina, fannst jafn æðislegt að horfa á leikinn á laugardaginn eins og það var ömurlegt að horfa á sunnudaginn!! Hlakka til á morgun að horfa þá því það virðist vera svona annar hvor leikur sem gengur vel!

Engin ummæli: