þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Ótitluð skáldsaga 2. kafli.

Kafli 2.

Mars leið áfram í rólegheitum og alltaf hitnaði í veðri. Kirsuberjatrén voru farin að blómsta og fallegi bleiki liturinn skreytti garða borgarinnar. Torino hafði aldrei verið nein draumaborg í mínum huga en eftir tveggja ára dvöl vann hún á. Torino var fyrsta höfuðborg Ítalíu og var sú skipulagðasta sem ég hafði komið í. Hún var kassalaga og auðvelt að rata í henni. Hún var falleg og blómleg á sumrin en afskaplega svört á veturnar, enda talið að ein af sjö hurðum helvítis væri undir borginni. Torino er í Piemonte héraði, málískan sem töluð er þar var blönduð frönsku enda stutt yfir til Frakklands. Vinir mínir voru flestir “innflytjendur” frá öðrum borgum Ítalíu. Flestir fyrrverandi eyjarskeggjar, eða önnur kynslóð eyjarskeggja frá Sikiley eða Sardiníu. Mauri var frá Sardiníu, sem útskýrði hæðina á honum, sardiníubúar voru flestir stuttir í annan endann. Berti Skerti var innfæddur piemontese, “falso cortese” eða falsk kurteis. Máltæki sem ég var farin að trúa. Amma hans bjó á heimilinu, komin yfir nírætt og ótrúlega tvöföld. Hún gekk um götur bæjarins og úthúðaði dóttur sinni, móður Berta, og allri fjölskyldunni. Hún gekk um betlandi því dóttir hennar tók af henni allan ellilífeyrinn, gaf henni aldrei að borða og beitti hana líkamlegu ofbeldi! Ég heyrði einu sinni til hennar á markaðnum og ég trúði ekki eigin eyrum. Auðvitað var allt þetta lygi. Föðurbróðir Berta bjó líka hjá fjölskyldunni, hann var tannlaus alkóhólisti! Alveg satt, hann fékk skammtað einni fernu af rauðvíni á dag og réð hvenær hann drakk það. Náði að dreyfa þessum lítra yfir daginn. Hann betlaði líka og ræddi um ofbeldið sem hann varð fyrir heima á götum bæjarins, þar til honum var bannað að fara út. Enda átti hann erfitt með gang eftir óteljandi beinbrot sem hann hafði hlotið á fylleríum sínum. SÁÁ þekktist ekki í Piemonte og alkóhólisti eins og föðurbróðir Berta var bara kross sem fjölskyldan þurfti að bera.
Þessar minningar flugu um huga minn því nú var þessum kafla lífs míns lokið, vonandi allavegana. Berti hafði alveg látið mig vera eftir email gíslinguna en ég beið samt. Vissi að auðvitað myndi hann hafa aftur samband, væri sennilega að hugsa hvernig hann gæti náð sér niður á mér.
Skólinn gekk vel, en eftir tvö ár í Torínó var Róm farin að kalla í mig. Skólinn var með útibú í Róm og þangað hafði ég hugsað mér að fara og klára þriðja og síðasta árið. Ég myndi flyja í júlí þegar skólaárið var búið.
Nýji kærastinn Demetrio var farin að standa svolítið í mér. Hafði þjónað ágætlega sínum tilgangi meðan ég var að koma mér út úr Berta ruglinu. En ég var bara alls ekki nógu hrifin af honum. Hann var típískur choco gæi, grannur með sítt hár og grannar mjaðmir. Hann var tveimur árum yngri en ég en tíu árum óþroskaðri! Hann bjó hjá mömmu og pabba, hvað annað, í Róm. 700 km fjarlægð hentaði vel því þá þurfti ég ekkert að hitta hann of mikið. Hann átti það samt til að birtast hjá mér eldsnemma á morgnanna. Dingla á bjöllunni klukkan sjö ferskur úr næturlestinni. Detta dauðþreyttur niður þegar hann kom inn og sofa meðan ég var í skólanum, hitta mig svo í nokkra klukkutíma og taka svo næturlestina heim. Nennti þessu ekki alveg lengur!
Síðast þegar ég hafði farið til Rómar hafði ég hitt fjölskylduna hans. Mamma hans var hnellinn rauðhærð kella frá Sikiley. Hann og bróðir hans deildu herbergi sem var í raun og veru stofan í íbúðinni sem foreldrar hans höfðu fengið í brúðargjöf. Amman bjó í sjónvarpsherberginu og stóra systir hans gift og flutt að heiman til að þurfa ekki að deila herbergi með bræðrum sínum eða ömmunni. Demertrio hafði boðist gott starf í súpermarkaði í Milanó. Hann íhugaði lengi að taka því starfi en hætti svo við. Þar sem mamma hans var ekki til í að flytja með honum! Ég meina hver átti eiginlega að hugsa um greyið drenginn þegar hann kæmi heim úr vinnunni. Elda ofan í hann og þvo af honum! Þegar mamma hans sagði mér þessa sögu vissi ég ekki hvort ég ætti að hlægja eða gráta. Og nú var ég búin að ákveða það. Spennan var búin og nú fór hann bara í taugarnar á mér. Ég myndi hringja í hann í kvöld og segja honum upp.
Pressan var orðin mikil í skólanum. Við vorum bara 6. í bekknum og ég hafði komist inn sem ítali, talaði ítölskuna það vel að ég hafði flogið í gegnum stöðuprófið. Munaði heilmiklu í skólagjöldum en var erfiðara vegna krafanna sem voru gerðar í hinum ýmsu bóklegu fögum. Ég var að læra fatahönnun, hafði komið inn í skólann án þess að kunna að teikna. Var orðin helvíti fær eftir tvö ár. En bóklegu fögin voru sum svo leiðinleg. Torino er iðnaðarborg og því áhersla lögð á verksmiðjuframleiðslu í skólanum. Ekki mín sterkasta hlið að læra um framleiðslu efna á tæknimáli. Auðvitað mjög skemmtilegt en hönnun bílaáklæða var ekki á mínu áhugasviði. Torino er heimaborg Fiat og því mikil áhersla lögð á þá iðn. Mauri var einmitt bílahönnuður hjá Fiat. Hafði útskrifast úr skólanum mínum ári áður. Var strax komin í góða stöðu og farinn að hala inn pening. Skólinn í Róm var eitthvað sem mér fannst meira spennandi en minn. Þar var áherslan lögð á hátísku, og hátíska var svo mikil listrgrein engin fjöldaframleiðsla þar!

Þegar ég kom heim ákvað ég að elda mér eitthvað og hringja svo í Demetrio. Pasta með ragú varð fyrir valinu þar sem auðvelt var að sjóða pasta og opna ragú dósina. Eftir matinn settist ég niður með símann.
“Demetrio...”
“Halló ástin mín ein... ég er að koma til þín á morgun..”
“Ekki koma...” svaraði ég...
“Hvað viltu ekki hitta mig?”
“ Það er ekki það,”
“Nú hvað?” Tónninn í röddinni hans var búin að breytast...
“Ég held að þetta sé búið hjá okkur Demetrio! Búið að vera fínt hjá okkur en núna held ég að það sé bara best að við hættum þessu..”
“Ég vil ekkert hætta þessu, láttu ekki svona við ræðum þetta á morgun.” Mér leið eins og óþekkum krakka sem vildi ekki fara að sofa!
“Nei, Demi þetta er búið ég er ekki skotin í þér lengur”
“Hættu þessu Hanna mín, þú ert bara stressuð út af skólanum, við ræðum þetta á morgun ég er að fara í lestina klukkan 12.”
“Vertu ekki að eyða peningum í lestarferðina, ég vil ekki vera kærastan þín lengur og...” hann greip framm í fyrir mér;
“Hanna mín þú ert svo stressuð útaf prófunum, þú ert ekki með sjálfri þér ég er að koma.”
“Ekki koma....”
“Hættu þessu stressi Hanna þú elskar mig”
“Ekki koma!”
“Bless hjartað mitt sjáumst í fyrramálið”
“Ég verð ekki heima...”
Du du du du

Shitt, þetta ætlaði ekki að verða auðvelt! Hafði aldrei lent í þessu áður, maðurinn neitaði að hætta með mér! Ég þurfti ekki að fara í skólann á morgun, en ég vildi alls ekki vera eitthvað að taka á móti honum klukkan sjö í fyrramálið! Díses, prófin voru ekki fyrr en eftir tvo mánuði og hann talandi um stress.
Bjallan hringdi og ég hrökk við. Ekki alveg með taugarnar í lagi eftir þetta símtal. Flaug í hug að Demetrio væri komin, en hló með sjálfri mér því auðvitað var ekki möguleiki að hann gæti verið komin 700 kílómetra leið!
“Halló...?!”
“Hanna..” ég fraus, röddinn í Berta skar inní heilann á mér.
“Hún er ekki heima..”
“Ég veit þetta ert þú, ég sakna þín svo mikið, ég kom með peningana til að láta þig fá þá aftur, Hanna ég elska þig og veit þú elskar mig, sofðu hjá mér og allt verður gott aftur. Hanna...Hanna...?”
Ég skellti dyrasímanum niður og pakkaði mér inn í lakið mitt. Hvað í andskotanum var að þessum helvítis ítölum? Ég hafði bara átt tvo kærasta og þeir neituðu báðir að hætta með mér!

Í þetta skiptið var Berti niðri á bjöllunni í 50. mínútur, Mauri var í viðskiptaferð og ég ein heima. Sem betur fer hleypti enginn honum inn í bygginguna. Ég sofnaði óróleg. HVAÐ Í ÓSKÖPUNUM MYNDI GERAST Á MORGUN?
Takk innilega fyrir kommentin á skáldsöguna. Ég mun birta næsta kafla á næstu dögum en verð að segja að þetta var bara fyrsta tilraun og á þetta eflaust eftir að þróast svolítið á næstu vikum, sennilega á ég eftir að skrifa upp fyrsta kaflann og bæta kannski svolítið inn en ég mun birta framhaldið um leið og það verður tilbúið. Það er búið að vera heilmikið að gerast í litla lífinu okkar og vil leggja fram smá myndefni hérna sem tilvísun í breytingarnar sem eru framundan í lífi okkar.


Nú sit ég á Sólon og bíð eftir Margréti sem ætlar að borða með mér.

föstudagur, ágúst 18, 2006

Ótitluð skáldsaga, fyrsti kafli

Ég var búin að búa hérna í 2. ár. Það var svolítið skrítið til þess að hugsa að á þessum tveimur árum var ég aldrei búin að fara heim. Mig langaði oft heim en ekki það mikið að ég hringdi í bankann til að fá hækkaðan yfirdráttinn. Það var svo rosalega dýrt að fljúga til Íslands frá Ítalíu, ekkert beint flug.
Vor í lofti, samt bara byrjun mars. Sumarið yrði komið eftir tvo mánuði með öllum sínum hita.
Á leiðinni í skólann leit ég upp, hafði lært það þegar ég var skiptinemi 10 árum áður, merkilegt hvað maður sá umhverfið í öðru ljósi bara með því að líta upp. Skoða fallegu byggingarnar, sótið, listaverkin utan á húsunum, þvottinn og blómapottana. Ég var á leið í skólann, þar voru vinir mínir. Giada 21. árs unglingur með mikla hæfileika, Chiara fordekruð dýralæknisdóttir, Saleti 30. brasilísk læknisfrú að leika sér með peninga mannsins síns. Og Andrea yndislegur samkynhneigður þræll tískunnar. Stundum fílaði ég mig eins og miðaldra konu í skólanum en það var nú sennilega bara reynslan sem íslenskur raunveruleiki bauð uppá. Ítalir hafa ekki sumarvinnu, ég byrjaði að vinna 10. ára. Á ítalíu er það barnaþrælkun. Ítalir fluttu líka aldrei að heiman. Ekki fyrr en mamma og pabbi voru búnir að kaupa handa þeim íbúð og þeir að gifta sig. Oft fluttu þeir ekki saman fyrr en daginn eftir brúðkaupið.. klikkun fannst mér.

Síminn minn hringdi, nafnið Alberto blikkaði á skjánum, ég fann smá skelfingarhroll hríslast um mig, var enn í viðjum geðveikinnar fann ég. Berti skerti... ætti ég að svara, vissi svo sem hvað hann vildi. Vildi fá mig aftur. Tveimur árum áður hafði ég kynnst Berta skerta á netinu. Sennilega var það ástsýkin í mér sem fékk mig til að lita við honum tvisvar. Hann kom til íslands og ég ákvað að gefa honum séns... hefði betur ekki gert það því eftir eitt ár í sambandi við hann var ég orðin gjörsamlega búin andlega. Hannv ar einkasonur, fordekraður geðsjúklingur, í dag var hann með hálfrakaðann haus og hálft skegg. Alveg satt, vinstra megin var hár og hægra megin var skalli. Hægramegin var skegg og vinstra megin ekkert. Eins og teiknimyndafígúra. Lýsti honum náttúrulega vel. Þegar ég hætti með honum byrjaði ég með öðrum sem var í hæfilegri fjarlægð. Var ekki ástfangin af honum en fann að það var eina leiðin til að slíta mig úr geðveikinni. Ég leigði af foreldrum Berta og hann vildi að ég færi. Ég vildi það og við undirbúninginn kom tilboð frá Berta, ég mætti halda áfram að leigja þessa íbúð, ef að ég myndi bara totta hann einu sinni í viku, á laugardögum! Mætti alveg eiga kærastann áfram ef að ég bara tottaði hann. Og núna var hann að hringja í mig til að rukka mig fyrir gjafirnar sem hann var búin að gefa mér síðusta árið. Hálsmen, eyrnalokkar, gerfipels, úr og farsíma og svo eitthvað fleira smálegt. 50.000.- íslenskar. Ég var að spá í að borga honum, það væri sennilega best til að losna við hann,
“Halló...”
“Hvar eru peningarnir mínir” rödd hans hljómaði eins og í leigumorðingja,
“Ég er með þá, komdu klukkan 19. í kvöld” sagði ég og fann hvernig röddin mín titraði. Ég skellti svo á. Ok, 4 tímar í skólanum, svo heim og undibúa mig fyrir geðsjúklinginn, afhenda peningana og fá hann út úr lífi mínu fyrir fullt og allt.

Salete tók á móti mér þegar ég kom í skólann. Hún var hálfföl, það var ekki fitututla utan á henni en samt var hún með fitukomplexa.
“Er allt í lagi með þig” spurði ég og horfði á hana spurnaraugum.
“Jújú, svaraði hún, ég er bara þreytt eftir nóttina, var á klósettinu í alla nótt.
“Nú spurði ég, ertu lasin?”
“Nei þetta eru nýju megrunarpillurnar, þær skilja fituna frá matnum og nú rennur bara fita úr rassinum á mér..!”
“Ha?”
“Ég er með dömubindi, þarf að skipta á klukkutíma fresti.. þetta er svakaleg vont, hefði ekki átt að taka svona margar!” Maðurinn hennar Salete, Mario, var tannlæknir, hann gat skrifað út reseft og hafði strax skrifað út fyrir þessum nýju pillum frá Ameríku, Saleta hélt áfram “Ég fór á næturklúbb í gær, og þegar ég var að dansa tók fann ég að eitthvað rann niður löppina á mér, ég var ekki í nærbuxum, kjóllinn var svo þröngur, ég hljóp á klósettið og sá þá að þetta var fita og hún var komin í kjólinn minn, rauðleit eins og ég væri með túrblett á rassinum. Ég fór heim”
Þetta kom mér ekkert á óvart, Salete var ótrúleg, og hennar vinkonur. Fyrstu og einu brjóstin sem ég hafði komið við voru bjóst Önu vinkonu hennar, 5 dögum eftir aðgerð. Voða þrýstin og fín en kannski ekki alveg eitthvað sem manni langar til að snerta sem gagnkynhneigð ung kona! Kannski var það af því að hún var frá Brasilíu en fyrir henni var ekkert mál að fara í lýtaaðgerðir og útlitið skipti öllu máli. Salete var smá skökk til augnanna, það var af því að hún hafði farið í aðgerð til að láta lyfta augunum þegar hún var 22. ára. Hún fór til flottasta lýtalæknis í Sao Paolo en þar sem hún var ekki “celebrity” lét hann nema framkvæma aðgerðina. Það mistókst smá. Sást ekkert voðamikið en samt svolítið. Núna var Mario að vinna að skiptivinnudíl við vin sinn lýtalækni, sem samanstóð af því að hann myndi gera við tennurnar í fjölskyldunni meðan lýtalæknirinn lappaði uppá Salete. Nota Bene, Salete var bara 28. ára.

Þegar skóladagurinn var búin flýtti ég mér heim til að taka á móti Berta skerta, ég var með 30.000 íslenskar í vasanum og ætlaði að láta hann fá þá og vonandi yrði málið dautt. Það var nóg fyrir símanum og smá auka, ég ætlaði ekki að borga fyrir afmælis og jólagjöf!
Ég fór í snögga sturtu, varð að flýta mér og nota bara sjampó þvi vatnið dugaði ekki til að nota hárnæringu líka. Ég fékk mér einn bjór og fór að teikna fyrir skólann. Þegar bjallann hringdi hrökk ég við og skemmdi teikninguna. Hvar var Mauri, meðleigjandinn minn? Hann hafði lofað að vera komin heim.
Ég gekk að dyrasímanum og svaraði.
“Hæ þetta er Alberto..”
“Ok ég kem niður” svaraði ég og hlustaði ekki á mótmælin. Ég skellti mér í lyftuna og dró djúpt andann. Fyrir framan blokkina mína stóð Berti, klæddur í hræðilega Hawai skyrtu sem mamma hans hafði örugglega keypt á hann á markaðnum, hann var fáránlegri en nokkurntíma fyrr en hvernig var annað hægt. Mamma hans tók til fötin hans á kvöldin, það sem hann átti að klæða sig í daginn eftir! Mitt hlutverk átti að vera það, og að skræla ofan í hann ávextina við matarborðið!
Ég horfði beint í augun á honum og sagði:
“Hér eru peningarnir og farðu úr mínu lífi að eilífu...”
“Hanna, þú veist að við getum haft þetta öðruvísi..!”
“Hvað meinarðu?” Svaraði ég og fann hvað ég var virkilega búin að fá nóg. Ég sá fyrir mér mömmu hans grátandi að biðja mig um að halda áfram með honum, sá fyrir mér öll þau skipti sem hann hafði reynt að múta mér til að halda áfram að vera með honum, ég meina hann rukkaði mig leigu 3000 kall á mánuði fyrir að nota tölvuna hans sem hann var hættur að nota og hefði annars hent!
“Þú þarft ekki að hitta mig nema einu sinni í viku og sofa hjá mér þá þarftu ekki að borga peningana og við getum verið vinir!”
“Sofa hjá þér, Alberto! Ég þoli þig ekki, þú ert fáránlegur og hér hefurðu peningana og farðu...” Ég fann hvernig ég titraði þegar ég henti seðlunum í hann, og fann hvernig bjórinn fór að virka. Peningarnir féllu ljúflega til jarðar, verst kannski að það var alveg logn, annars hefði ég notið þess að horfa á hann reyna að safna þeim saman.
Ég snéri mér snögglega við og strunsaði að hurðinni, ég fann hvernig hjartað í mér barðist og svitinn spratt fram. Ég var svolítið hrædd um að hann myndi elta mig og jafnvel lemja mig.. ég náði með erfiðleikum að stinga lyklinum í skránna og loka á eftir mér. Ég andaði ekki fyrr en ég kom í lyftuna. Ég fann að tárin voru að spretta fram en náði að halda í mér uppá fimmtu hæð. Þegar ég kom inn brotnaði ég niður, og dyrabjallan byrjaði að hringja.
Og hringja og hringja. Það var hann, brjálaður, ég fór útá svalir og sá hann speglast í glugganum á neðstu hæðinni á byggingunni á móti. Ég heyrði líka í honum öskra að þetta væru ekki allir peningarnir. Eftir 30. minútur hætti hann og fór. Og 10. mínútum seinna kom Mauri glaður heim. Hann kom beint inn í herbergi til mín og ég horfði á hann uppgötva hverju hann hafði gleymt!
“Fyrirgefðu Hanna mín, ég var alveg búin að gleyma Skerta.” Hann tók utanum mig og bauð mér út að borða. Það var gott því ég átti engan pening!
Hann fór með mig á pizzastað þar sem allar pizzur fyrir kvenfólkið voru hjartalaga! Mauri var yndislegur vinur. Hann var 3. árum yngri en ég. Nýbyrjaður með Rosu sem var 1.46 á hæð, sem passaði vel við Mauri því hann var bara 1.53! Ég var risavaxin miðað við hann en samt bara 1.67. Ég klappaði honum stundum á hausinn svona til að stríða honum.

Klukkan var orðin 12. þegar við komum heim. Ég bauð góða nótt og fór til að athuga hvort ég hefði fengið einhvern email. Ég komst ekki í pósthólfið mitt, sem var skrítið, skilaboð birtust á skjánum sem sögðu að ég væri ekki með rétt lykilorð!? ostur, lykilorðið mitt var ostur, allsstaðar, pósturinn minn, spjallforritið, alltaf ostur. Ég svitnaði, Berti vissi lykilorðið mitt, af hverju var ég ekki búin að breyta því! Asni hugsaði ég og þá heyrðist pípið sem sagði mér að ég væri að fá skilaboð í gemsann. Ég skoðaði skilaboðin:
“ÉG HEF TEKIÐ EMAILINN ÞINN Í GÍSLINGU, BORGAÐU 20.000 INNÁ REIKNINGINN MINN, OG ostur VERÐUR AFTUR LYKILORÐIÐ ÞITT!”
Svar: “FARÐU Í RASSGAT OG TAKTU EMAILINN MINN MEÐ ÞÉR”

Skáldsaga

Ég byrjaði að skrifa skáldsögu í gær. Sat á Sólon og skrifaði þar til tölvan varð batteríslaus. Mér finnst það rosalega gaman. Ég hef alltaf verið mikill lestrarhestur og hefur oft langað til að skrifa skáldsögu. Núna hef ég smá tíma. Er að íhuga að setja hana hérna inn svona til að fá smá viðbrögð kannski frá vinum mínum. Hvað segið þið um það?

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Magni og Hálvitarnir

Ég horfði á Rockstar supernova í gærkveldi og sá þegar Magni lenti í neðstu þremur sætunum. Mér finnst Magni vera frábær, fannst hann líka frábær með Á móti sól, hef kannski þurft að skammast mín svolítið fyrir það því það er náttúrulega ekki kúl að vera 35. ára móðir sem finnst gaman að heyra popphljómsveit í útvarpinu en svona er það bara. Ég var svolítið miður mín að hann skildi vera í neðstu sætunum en held að það séu margir íslendingar sem ekki vaka til að kjósa þar sem fólk er byrjað að vinna eftir sumarfrí. Ég kaus hann nokkrum sinnum en ekki eins oft og áður þar sem tengingin var eitthvað að stríða mér. Svo heyrði ég í gær að þátturinn í næstu viku verði klukkutíma seinna... það verður nú sennilega til þess að enn færra fólk vakir til að kjósa. Reyndar veit maður ekki hvað okkar atkvæði hafa mikið vægi.. en samt. Ég hugsa að ég vakni til að kjósa hann næst. Vill endilega að hann komist í úrslitin en ekkert endilega að hann vinni!

Ég er í Reykjavík í dag. Það er aðeins að renna upp fyrir mér að ég er atvinnulaus og ég hef ekki alveg haft kraftinn til að byrja að sauma að einhverju ráði, var heima síðustu 2. daga og þegar ég lít til baka sé ég að þessa 2. daga er ég bara búin að þvo og ganga frá þvotti og hanga í tölvunni. Heklaði reyndar eina og hálfa húfu í gær en það var yfir Rockstar...
Ingólfur fer í óperuna á hverjum degi og ég fæ allar óperufréttir frá honum og vinum mínum og fyrrverandi samstarfsmönnum. Er að reyna að brynja mig því það eru yfirleitt ekki góðar fréttir sem ég er að fá. Mikið Djöfull er ég fegin að vera ekki lengur að vinna þarna! That´s the God Holy truth!

Hinrik er orðin svo stór og nú þurfa foreldrarnir virkilega að passa sig á því hvað þeir segja. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki þolinmóð í umferðinni... keyri alltaf á löglegum hraða og þó það sé gaman að spýta í þá geri ég það ekki! Á leiðinni norður um helgina varð ég frekar pirruð þegar hver bíllinn á fætur öðrum spýttist fram úr mér með tjaldvagna í eftirdragi og meira að segja hjólhýsi, og ég að keyra á 90... ég lét út úr mér ýmis blótsyrði en aðallega hvað þetta væru miklir hálvitar sem voru að taka fram úr mér.
Í Hrútarfirðinum keyrðum við fram á lögreglubíl með blá ljós sem var búin að stoppa einn ökuníðinginn, ég útskýrði þá fyrir syni mínum að nú væri löggan búin að taka mann sem var að keyra of hratt og nú þyrfti hann að borga sekt. Hinrik hugsaði sig um í smá stund og sagði svo; "Mamma, er þá löggann búin að taka alla HÁLFVITANA?" Mér rann kallt vatn milli skinns og hörunds og meðan ég reyndi að fela hláturinn ákvað ég að reyna að passa mig í framtíðinni því ég vil ekki að sonur minn tali um alla FOKKING HÁLFVITANA Í UMFERÐINNI.

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Verslunarmannahelgi og Eyjafjörður

Kjósin um Verslunarmannahelgina







Húsfreyjan að veiða gæludýr handa syninum.

Hinrik Leonard og Jóhann Gylfi í veiðiham

Sveitamarkaður, Ég, Kata frænka og Hildur móðursystir


Sveitamarkaður

Það var rosalega gaman hjá okkur familíunni um helgina, fórum norður til Akureyra og betur því við gistum hjá Kötu frænku og fjölskyldu að Hrafnagili. Notuðum laugardaginn til að skoða handverkssýninguna og svo seldi ég húfur á Sveitamarkaðnum við gömlu gróðrastöðina á Grísará á sunnudeginum. Það var ótrúlega gaman! Hildur móðursystir bakaði vöflur og seldi jafnóðum og Kata frænka bakaði kleinur um morguninn og seldi og seldi, hún var líka með rabbabaramarmelaði með appelsínum og sítrónum sem rann út eins og heitar lummur! Hinrik var í essinu sínu með Jóhanni Gylfa sem er 5. ára sonur Kötu, þeir veiddu fisk um allar sveitir með flotholti og má sjá seríu á heimasíðunni hans Hinriks http://hinrikleonard.barnaland.is/
Mér fannst alveg yndislegt að vera heima hjá Katrínu frænku minni og kynnast henni uppá nýtt, mig dreymir um að flytja í Hrafnagilið og kenna í skólanum sem er fallegur draumur! Það var líka svo rosalega gott veður og alltaf gaman að vera í heimsókn hjá góðu fólki. Ég er samt alveg örmagna eftir keyrsluna og vorum við ekki komin heim fyrr en korter í eitt aðfararnótt mánudags og auðvitað vöknuð klukkan hálf átta morguninn eftir.
Núna er ég að slaka á heima og þvo þvott enda þurrkurinn góður!

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Sjampó

Ég er með feitt hár! Síðan ég var barn hef ég barist við að finna lausn á fituframleiðslunni í hárinu á mér og þrátt fyrir miklar tilraunir, permanett 12 ára, strípur 13 ára og að þvo ekkert á mér hárið í 14 daga þegar ég var á spítala á ítalíu 18 ára, þá hefur ekkert virkað! Stundum finn ég voðagott sjampó en það virkar ekki nema niður í miðja flösku. Þá þróar hársvörðurinn mótefni gegn efninu og hárið fitnar sem aldrei fyrr. Ég fann fyrir nokkrum árum duft frá Bumble and Bumble sem ég get notað sem þurrsjampó svona ef ég er í útilegu og svoleiðis og kemst ekki í sturtu og það er voðafínt að hafa til að hlaupa uppá en ég virðist samt vera komin með þetta svo á sálina að mér líður aldrei vel nema vera með alveg hreint hár. Ég hef reynt að fara í sturtu á kvöldin en oftar en ekki er hárið á mér svo feitt þegar liðið er á miðjan dag að mér líður illa. Ég vildi óska að það væri til töfralausn á þessu máli en verð held ég núna 35 ára að sætta mig við það að ég verð að þvo á mér hárið á hverjum degi!! Bömmer!

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Sólon

Sit á Sólon og blogga í miðborginni! Ingólfur að vinna og Hinrik í leikskólanum eftir 5 vikna sumarfrí. Hann var alveg tilbúin að koma aftur og hitta vini sína!

Fórum í útilegu ársins um helgina. Fórum á föstudaginn keyrandi á eðalkerrunni uppí Kjós og tjölduðum stóra fína Tjaldinu okkar sem við vorum að vígja, keyptum það eftir síðustu verslunarmannahelgi og höfum ekki notað það neitt í sumar. Það var rosalega gaman að vera með svona góða aðstöðu og þó það hafi ringt reglulega alla helgina kom það ekki að sök því það þornaði á milli og aðstaðan í tjaldinu var svo helv. fín! Hinrik var í essinu sínu að leika sér úti allan daginn og ég fékk einn fisk í Meðalfellsvatni sem hann lék sér með eins og vin sinn og auðvitað mátti alls ekki grilla hann. Hann samþykkti nú samt að geyma hann í frysti eftir miklar fortölur en hann langaði rosalega til að hafa hann hjá sér í herberginu sínu!

Ég kom nú ekki ósködduð úr ferðalaginu fékk gat á hausinn á laugardaginum þegar ég gekk á opið skottið og dúndraðist í jörðina. Það kom blóð og allt!! Stundum er maður ekki alveg með allt á hreinu og mundi það svo að þetta kom líka fyrir í fyrra þegar við notuðum skottið fyrir eldhús, en þá blæddi ekki. Svona er þetta stundum.

Hlakka mikið til að fara í næsta ferðalag um næstu helgi norður í Eyjafjörðinn þar sem ég ætla að selja nokkrar húfur á markaði á Sunnudeginum á Grísará.

Nú er farið að síga á seinnihluta sumarsins en ég ætla að njóta þess í botn sem eftir er þar sem að í fyrsta skipti í 2. ár sem ég er ekki að vinna eins og geðsjúklingur í ágúst. Skál fyrir því!!

p.s. reyklosunin gengur ágætlega, farin að taka nikótíntyggjóið inn og búin að minka sígaretturnar niður í örfáar á dag!

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Kaffi og sígó

Ég er fíkill! Kaffi og sígófíkill.. síðan Ingólfur fór út er ég búin að hanga svo mikið í tölvunni að ég er að fá ferkanntaða augnsteina.. og drekka kaffi og reykja. Þetta gengur ekki lengur. Um verslunnarmannahelgina ætla ég að kaupa mér nikótíntyggjó og reyna að njóta náttúrunnar reyklaus... gangi mér vel með það!

Við hjónin skoðuðum íbúð hér í Njarðvík á föstudaginn. Hún þarfnaðist mikilla lagfæringa og ég var að berjast við skrítnu tilfinninguna sem ég fékk þegar ég kom inní hana. Ákvað að leggja þetta í guðs hendur og gera ekki tilboð strax. Hringdi áðan til að fá að skoða hana aftur í kvöld með tengdapabba en þá var búið að selja hana! Mér létti. Það er stór ákvörðun að kaupa sér íbúð hvað þá í sveitarfélagi sem er svo langt frá manns fyrri heimaslóðum. Helst vildi ég vera í Hafnarfirði en það er bara svo helvíti dýrt að kaupa og leigja þar. Vonandi dettur eitthvað í hendurnar á okkur núna á næstu vikum mig langar til að búa mér til heimili. Með mínum hlutum í kringum mig. Ekki misskilja mig það er yndislegt að búa hér hjá Tengdó. En ég sakna þess að vera með mína hluti.

Er oft að hugsa um þetta blogg. Það er oft frekar leiðinlegt og hversdagslegt. En stundum hefur maður bara frá engu að segja en langar til að segja samt eitthvað.

Ekki á morgun heldur hinn kemur Ingó minn heim. Ég hlakka svo mikið til hann er búin að finna fullt af fötum á mig og Hinrik.