mánudagur, mars 30, 2020

Dagur 22

Dagur 22
Kæra dagbók, ég er heppin, ég hef pláss til að ganga yfir 8000 skref á dag. Geri það meðan ég tala í símann við mömmu...uppá þaki, geng líka hér inni fram og tilbaka.  Á hverjum degi dansa ég líka, mér er alveg sama þó einhver í næsta nágrenni sjái mig... það er gott að dansa!
Þögnin er erfiðust held ég, það heyrist næstum ekkert úti.  Nema öðru hvoru sjúkrabílar sem bruna hér meðfram ánni.
Reyndar er fuglasöngurinn yndslegur og það eru fullt, fullt af fuglum hér í nágrenninu, grænu páfagaukarnir, smáfuglarnir, krákurnar, dúfurnar og mávarnir.. sem eru reyndar færri þar sem ekki er lengur nóg að borða fyrir þá hér í borginni.




Í Róm eru milli fjórtan til sextán þúsund einstaklingar á götunni. Það er ekki búið að gera mikið fyrir það fólk.  Þrjú þeirra gengu hér framhjá í morgun, þau voru öll undir áhrifum en engin með hund sem er óvenjulegt, þau voru með læti, öskur og læti.  Ég sé útigangsfólkið líka þegar ég fer í búðina, á torgunum, sígaunarnir er farnir í bili, heyrði frétt um að glæpagengi á vegum sígauna sé byrjað að brjótast inn í tómar íbúðir og setjast þar að.  
Hústökusígaunar.


Ég vaknaði snemma í morgun,
Hinrik byrjaði í skólanum klukkan 8. en Felix klukkan 11.
það gengur allt ljómandi vel hjá þeim sem betur fer.
Ingó vinnur... og ég var með dýrin á þakinu eins og vera ber!
seinni partinn kem ég svo hingað niður í herbergi.
Í gær byrjaði ég að mála eftir númerum


Ég fjárfesti í þessu málverki fyrir 3 árum.
Núna loksins hef ég tíma fyrir það!!!
Málningin er reyndar meira og minnað uppþornuð, en smá vatn og þolinmæði reynist vel og mér finnst þetta gaman.  Minnir mig á gamla daga!

Þetta er ég í dag
Kaffibrún... ef kaffið væri rauðbirkið!

laugardagur, mars 28, 2020

Hláturinn lengir lífið... og hjálpar innilokuðum!!

Í dag skein sólin loksins.
Ég var uppá þaki í rúmlega 3 klukkutíma og naut þess að leika við dýrin, horfa á köttinn hvæsa á hundinn og tala við ástvini mína á Íslandi og í Noregi.






Ég labbaði 7000 skref á þakinu meðan ég spjallaði og lék mér!


Svo hvarf sólin bakvið ský og ég fór að huga að þvotti.

Nú sit ég við tölvuna og hlýði á trommuslátt... taktfastann trommuslátt...




Þetta verður alltaf erfiðara og erfiðara.
Innilokuð í þögninni.
Ég reyni að hlæja oft á dag.
í morgun sá ég frétt um prest sem ákvað að messa yfir söfnuðnum sínum á netinu


Aumingja karlinn gleymdi að taka filterinn af myndavélinni í símanum!!
Ég hló dátt!

Ég þrjóskast við að blogga á hverjum degi en stundum veit ég barasta ekkert hvað ég á að skrifa um!?
Endilega sendið mér spurningar ef það er eitthvað sem þið viljið að ég skrifi um.

Nýjustu fréttir segja að innilokuninn verði framlengd til 18 apríl, er nú í gildi til 3 apríl.
Læt ykkur vita þegar staðfesting kemur.


Saman, óhrædd.



föstudagur, mars 27, 2020

Dagur 19

Var að komast að því að ég er búin að telja dagana í síðan útgöngubannið kom á vitlaust... það er dagur 19 í dag... ekki 18.
Í 19 daga erum við búin að vera að mestu innivið.

Heyrði í vinkonu minni henni Angelu núna áðan.  Hún sagði mér að íbúðin hennar hefur aldrei verið eins hrein og núna!!  Verst að ég skuli ekki finna fyrir þessri þrifþörf.... þarf að finna hana... fljótlega!
Angela er af ítölskum ættum en fædd og uppalin í Belgíu.
Við erum  báða steinhissa á því hvað ítalirnir okkar eru orðnir skipulagðir.  Að þeir skuli ná að halda sér í biðröðum og virða metra millibilið!!
Hún sagði mér sögur af nokkrum vinkvenna sinna.  Ein býr í EUR hverfinu hér í úthverfi Rómar og hún er farin að sofa með kveikt á sjónvarpinu.  Hún býr í stórri blokk og það eru svo rosalega margir sem sitja heima og gráta allar nætur og aðrir sem rífast stöðugt þannig að hún hefur kveikt á sjónvarpinu hjá sér til að fá svefnfrið.  
Við höfum báðar áhyggjur af komandi vikum ef við höldum áfram að vera í einangrun.  
Nú þegar eru farnar að berast fréttir af ofbeldi í heimahúsum.
Tvítugur drengur sem á við geðræn veikindi að stríða afhausaði móður sína (46 ára) í rifrildi í títtnefndu EUR hverfi fyrir viku síðan.
Ítalía á met í feminicidi=morðum á eiginkonum.  
Við sjáum hvað setur.


Var að að flétta í gegnum myndirnar mínar í dag og fann skemmtilegt myndband sem ég tók út um gluggann þann 23. mars fyrir ári síðan.  Fann svo myndband frá sama sjónarhorni tekið 13. mars 2020



Sjá munin!!!

Enda þennan póst á myndum sem ég tók í morgun uppá þaki.
Hitinn er að hækka aftur.. 16 gráður og skýjað í dag og þyrlan á sínum stað.





fimmtudagur, mars 26, 2020

Andlaus fimmtudagur

"Hafið allavegana 1 metra á milli ykkar, ekki fara út, ef þið farið út gerið það bara í nauðsyn...."

Þetta er búið að vera staðan hjá okkur síðustu daga. 

     Þyrlur fljúga reglulega yfir borgina, við höldum að þetta séu herþyrlur... vitum ekki meir.

Nýjustu fréttir af Covid-19
Í Bari (Suður Ítalía) var 89 ára einstaklingur útskrifaður af spítalanum, læknaður af Corona!!!
Á landinu eru 36 læknar látnir og yfir 6000 smitaðir.
Og hér í Lazio eru tveir ungir menn látnir, annar 33 hinn 35 ára hvorugur með undirliggjandi sjúkdóma.
#restateacasa
#stayathome
#vertuheima







Nokkrar myndir af hversdagleikanum... það rignir í dag.. en á að hlýna á morgun.
Læt þetta duga í bili...
Andlaus í dag enda 17. dagurinn í innilokun.


miðvikudagur, mars 25, 2020

Af hverju komið þið ekki heim??

... til Íslands er spurning sem brennur á mörgum vina okkar og fjölskyldu.
Svarið er einfalt,
Við erum búin að búa hér í Róm (og nágrenni) í næstum 9 ár.
Við búum við mjög sterkt og gott heilbrigðiskerfi, ef við kæmum til Íslands þá myndi taka okkur 6 mánuði að komast inn í sjúkrakerfið að nýju.
Ég er á lyfjum sem hér kosta mig ekki neitt.
Ég fæ sprautu á 28 daga fresti sem kostar mig 2 evrur.
Í hvert skipti sem ég hitti sérfræðing kostar heimsóknin 0.
Heimilislæknirinn minn hún Raffaella er við símann hvenær sem ég þarf á henni að halda.
Frítt að sjálfsögðu.

Þessi faraldur hefur náttúrulega haft áhrif á þá læknatíma sem ég hef átt en ekkert af því er lífsnauðsynlegt og ég veit að þegar Covid-19 hefur gengið yfir mun ég hægt og rólega komast í þá tíma sem fallið hafa niður.



Við Hinni skruppum í búðina í dag.

Eins og sést þá erum við vel útbúin með heimatilbúnar grímur sem ég lærði að gera af myndbandi frá Kína.



Fór í apótekið og vöktu grímurnar mikla athygli hjá lyfjafræðingunum Alice og Fabio.
Þau sögðu að ég gæti örugglega selt grímurnar mínar á svarta markaðnum hahahha

Endum þetta daglega blogg á smá fyndni;

Það gekk sú saga á fjölmiðlum fyrir uþb tveim vikum síðan sem síðan þá mætti alveg telja til flökkusagna... en hún er skemmtileg og þegar ég gerði smá leit á netinu fann ég að þetta á að hafa gerst bæði í Ástralíu og Singapore.
En hér gekk sú saga að mörg apótek væru að verða uppiskroppa með smokka.
Það er nú þegar ómögulegt að ná sér í grímur og spritt en þegar bera fór á hanskaskorti dreif fólk sig til að kaupa smokka og nota til að verjast vírusnum!!


þriðjudagur, mars 24, 2020

Þriðjudagur 24. mars. Dagur 15 í lockdown

Þessar myndir eru teknar fyrir tveimur vikum síðan
Þegar ég var á göngu um hverfið mitt Trastevere


Nærmynd


 Allt mun fara vel
Tutto andrá bene

Þetta er hins vegar morgunmaturinn minn sem ég borða á hverjum degi uppá þaki.
Jafnvel í gær og í morgun þótt hitinn hafi fallið um 8 gráður og er bara 13 stig núna.
Á föstudaginn á hitinn að koma aftur.

Það er svo margt sem mig langar að segja ykkur frá, lífið hér í Róm er svo innilega ólíkt lífinu heima.  Ítalska þjóðin er ólík okkur íslendingum.  Mikið hefur verið rætt um af hverju það eru svona margir látnir hér og ég tel nokkuð rétt það sem komið hefur fram um aldur ítala, hér er mikið af fólki yfir sjötugt, það er mjög mikill samgangur á milli fjölskyldna.  Ömmur og Afar sinna mikilvægu hlutverki í uppeldi barnabarna sinna og oft búa allir saman.
Ítalska þjóðin er ekki mjög tæknivædd, hér eru mörg heimili án internet tengingar og tölvu.
Sem dæmi um ítalskan raunveruleika þá er Faxið mun mikilvægara en Emailinn.  Þó sem betur fer sé hægt að segja að hægt og rólega sé verið að tæknivæða allt.
Þessu finnum við fyrir hjá strákunum okkar sem báðir tveir stunda núna námið á netinu.  
Öllum skólum var lokað í Róm þann 4 mars.  
Það hefur ekki verið auðvelt fyrir kennarana og nemendurna að byrja námið á netinu.
Heilmikið hefur gengið á bæði innan skólanna, inná heimilum og í símanum okkar!!!
Við erum í "tjatt" hóp í appi sem heitir WhatsApp sem er mikið notað hér á Ítalíu.
Þar eru bæði notuð skrifuð skilaboð og talskilaboð.
Hægt væri að semja margar leiksýningar um það sem gengið hefur á í talskilaboðum.  
Nú síðast í morgun varð heilmikið rifrildi á einu þeirra og sagði þá ein móðir sem ég þekki vel... 
"Ég er til í að aðstoða ykkur með allar upplýsingar og allt sem þarf af kurteisi og virðingu, en ef þið farið yfir strikið þá birtist í mér hinn versti Trukkabílstjóri sem blótar í öðru hvoru orði"

Nóg í bili... ég er uppfull af upplýsingum og sögum sem mig langar að skrifa hér niður því ég sé að þetta blogg mitt er ómetanleg heimild um líf okkar síðan 2004 og svo ég vitni í Möggu frænku mína "Ef einhverntíma á að halda dagbók þá er það núna"





mánudagur, mars 23, 2020

Grímur

Eins og í flestum löndum heimsins er farið að bera á skorti á lífsnauðsynlegum hlutum inná spítölunum, eins og hönskum, hlífðarfatnaði og grímum.
Við erum nú öll búin að læra að nota það sem við höfum og búa til grímur líka sbr.





Aðrir eru með annars konar efni til grímugerðar


en að öllu gríni slepptu þá er staðan alvarleg og við á Ítalíu höfum fengið fullt af efni að gjöf frá m.a. Kína, Rússlandi, Indlandi og Kúbu og núna voru þeir síðastnefndu að senda okkur fullt af læknum og sérfræðingum sem að Kína og svo gerði fyrir viku síðan.

Það sem er áhugavert er að gjafasending frá Kína til Rómar var stoppuð af tollinum í Tékklandi, gerð upptæk og 110 þúsund grímum dreift á spítala í landinu.

Þegar þetta komst upp vildi ráðherra helst ekkert tjá sig um málið annað en það að þeir héldu að þetta væru stolnar grímur sem ætlaðar væru á svartamarkaðinn.

Nú nokkrum dögum seinna segir hann að Tékkland muni senda grímur til Rómar í stað þeirra sem þeir "tóku óvart" en merkilegt þykir að engin afsökun hefur komið fram frá Tékklandi!!

6 árum síðar

Ég hef ákveðið að byrja aftur að blogga hér á þessum vettvangi þar sem ég veit að vinir og ættingjar á Íslandi hafa miklar áhyggjur af okkur fjölskyldunni hér í Trastevere, Róm.

En fyrst smá formáli;
Fyrir nákvæmlega ári fór ég í staðlaða brjóstamyndatöku og greindist í framhaldi af því með tvær tegundir af illkynja æxlum í vinstra brjósti.
Ég fór í brjóstnám í maí og er núna á lyfjum og sprautum sem eiga að halda þessum fjanda niðri.
Eftir tvær vikur verð á ég svo eins árs afmæli reyklaus! Hver hefði trúað því.
Ég fékk svo alvarlegt bronkítis fyrir ári síðan (reyndar eitthvað sem hefur fylgt mér í 30 ár) en í þetta skiptið tókst ekki að lækna það þannig að ég var í 8 vikur að berjast við það.
Þetta tvennt, krabbinn og bronkítis, koma mér í áhættuhóp gagnvart Covid-19.

Í dag er 14 dagurinn okkar í einangrun. Staðan í dag er þannig að við megum fara út í nauðsynlegum tilvikum.  Einn í einu!  Það má fara að versla en bara í hverfinu þínu, það má fara út að labba en helst í 200 metra radíus við heimilið þitt, það sama gildir með klósettferðir með hunda. Apótek og tóbaksbúðir eru opnar, sem og pósthús og bankar.  En allt með skertum opnunartímum og takmarkað hversu margir mega vera inni í einu. En helst og fyrst og fremst áttu að vera heima!

Ríkisstjórnin setur lög og reglur en svo geta héruðin sett líka sínar reglur.  Þannig að sumt sem þið sjáið í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum á ekki við um alla Ítalíu.

Hér í Róm liggja allar messur niðri, engar jarðafarir, giftingar osfrv. En sumar kirkjur eru opnar í skamman tíma á dag fyrir einkabænir.  Þá getur fólk farið inn og beðið í friði.

Strákarnir mínir sem núna eru orðnir ungir menn eru báðir í skólanum á netinu.
Felix Helgi er orðin 13 ára og er á öðru ári í miðskóla (7. bekk)
Hinrik Leonard er 17 ára og er á þriðja ári í framhaldsskóla.  Listaskóla.
Þeir fylgja tímum á netinu sem er búið að vera erfitt ferli þar sem margir kennarana eru ekki mjög tæknilega sinnaðir.  Eins eru nokkrir krakkana ekki með nettengingu heima hjá sér.  En þetta er allt að koma og þeir vakna á morgnana og sinna náminu eins og hægt er.

Eins og margir vita þá fluttum við fyrir nokkru síðan í eigin íbúð hér í 200 metra fjarlægð frá Circolo.
Við eigum hund og kött og unum okkur vel.
Þegar þetta ástand kom upp var okkur nauðsynlegt að fara alltaf út með hundinn nokkrum sinnum á dag og Ingó þurfti að fara í vinnuna sem þrátt fyrir að hafa lokað á listamenn allavegana í Apríl þá er hann með fullt af verkefnum sem hann getur ekki unnið heima.
Þar sem Ingó gat ekki unnið heima þá fluttum við bara í vinnuna hans.

Hér er stór Terrassa og þá þurfum við ekki lengur að fara út með hundinn.  Hann unir sér vel uppá þaki og kötturinn líka.

Skotta

Logi


Ég er búin að vera mikið uppá þaki og hjálpar það til við innilokunarkenndina að komast undir heiðan himininn og ég tala ekki um í hitann því hér er komið vor.

Ingó er búin að útbúa fyrir mig aðstöðu á þakinu

Reyndar hefur hitinn fallið úr 21 gráðu í 13 gráður í dag og verður kalt næstu 3 daga en svo mun hitinn fara aftur upp og mér gengur asskoti vel að safna freknum!


Látum þetta vera nóg í bili en ég ætla núna að vera dugleg að henda inn hugleiðingum og fréttum héðan frá Róm.