þriðjudagur, apríl 24, 2012

Vorrigningum að ljúka, loksins!

 Það er búið að rigna meira og minna í þrjár vikur hjá okkur,
Suma daga ekkert, aðra daga rosalega mikið... 
Gott fyrir gróðurinn en hundleiðinlegt fyrir mannfólkið!
Hér eru fjórar myndir teknar út um eldhúsgluggann minn í morgun
 Ef þið rýnið í gegnum trén þá sjáið þið skóla strákanna, hvít bygging.. sú appelsínugula er elliheimili fyrir alzheimersjúka.
 Á þessum myndum sést vel hvað himininn var grár í morgun en núna skín sólin loksins og spáin segir að hitinn sé á leiðinni og fari alveg uppí næstum 30 gráður um helgina með heitum vindum frá Afríku...
Þygg það með þökkum!
Minni ykkur á Hin design bloggið mitt þar sem þarf að vera duglegur að klikka á auglýsingarnar.. 
þá fæ ég evrur í baukinn minn!

laugardagur, apríl 21, 2012

Markaðsdagur á morgun

Nú er ég búin að vera að undirbúa markaðinn sem verður á morgun í Garbatella hverfinu.
Þetta er sami markaður og ég var á fyrir jólin en núna er hann síðasta sunnudag í hverjum mánuði.
Ég er náttúrulega ekki með húfur hér núna þar sem sumarið er á þröskuldinum en hef verið að íhuga mikið hvað ég á að vera með... hér sjást svipmyndir frá undirbúningnum:


 Slaufuhálsmen úr
roði.


Litríkar töskur InnkaupapokarHekluð stutt hálsmen 
Slaufueyrnalokkar úr roðiEn nú er laugardagur og við erum að fara út að borða í boði Geraldine vinkonu okkar.
Förum á veitingahús í næsta bæ... svakaspennó!

fimmtudagur, apríl 19, 2012

Dónagrænmeti og daglegt líf

Ég rakst á þessa í dag, gat ekki annað en keypt hana, konan á kassanum hló feimnislega þegar hún renndi eggaldininu yfir skannann. 


Ingó borðaði hana svo í kvöldmatinn,

Tengingin okkar hefur verið afskaplega hæg síðustu dagana, við erum á fullu að reyna að finna almennilegt internet fyrirtæki en það er ekki auðvelt, þar sem helstu fyrirtækin eru ekki með þjónustu við svona lítil þorp eins og Mandela er.. við erum líka uppi á fjalli sem auðveldar ekki hlutina.

Annars bara allt ljúft að frétta og lífið heldur áfram, vorið er komið en það hafa verið miklar rigningar síðustu daga... það á nú að breytast um helgina og þá getur maður farið að drekka í sig D vítamínið aftur.

Ég verð á markaði að selja á sunnudaginn, í Róm... 
Meira um það síðar!

mánudagur, apríl 09, 2012

Svipmyndir

 Síðasti skóladagurinn fyrir páskafrí,
Felix Helgi kom heim með málverk og skál fulla af súkkulaðipáskaeggjum.


Hinrik Leonard kom heim með súkkulaðipáskaegg og fallegt páskakort með friðarljóði.


Hér sést hinsvegar Felix Helgi að gæða sér á parmaskinku, 
sem honum finnst voðagóð!!
Auðvitað var svo smá bakstur um páskana, súkkulaðimuffins!


 

Þessar runnu ljúflega niður.
Búin að hafa það virkilega ljúft um páskana sem eru mikil hátíð hér á Ítalíu, fórum í hrikalega skemmtilegt matarboð í gærkveldi, Páskadag, hjá fjölskyldu hér í þorpinu.
Á matseðlinum var Lasagne, kjúklingur, lamb, fyllt brauð, grænmeti, kartöflur, kökur, ís, ávextir... og svo margt margt fleira..

sunnudagur, apríl 08, 2012

Páskamessa

Ég varð fyrir miklum hughrifum í kvöld.
Við fjölskyldan fórum í fyrstu kaþólsku Páskamessuna okkar.  
Við mættum klukkan 22.30 fyrir framan kirkjuna okkar í þorpinu þar sem samankomnir voru flestir þorpsbúarnir.  
Búið var að hlaða upp bálkesti og allir fengu kerti.  
Strákarnir fóru báðir að leika sér með vinum sínum og meðan við biðum eftir að athöfnin byrjaði kom ung kona til okkar Ingólfs og spurði hvort annað hvort okkar væri til í að taka að sér smá hlutverk í messunni... við skoruðumst auðvitað alls ekki undan því og ég fór með konununni inn í kirkju og fékk að vita mitt hlutverk....  
á leiðinni út mætti ég Hinriki mínum í hvítum kirtli en hann sagði mér að hann væri líka búin að fá hlutverk!
Svo byrjaði athöfnin.  
Presturinn kom út og kveikt var í bálkestinum, presturinn; Don Cesar, blessaði svo bálið og kveikt var á öllum kertunum.. við gengum svo einn hring í kringum kirkjuna og þaðan inn.  það voru öll ljós slökkt.  Bara lýsing frá kertum okkar allra.. svo byrjaði messan... Don Cesar söng ævintýralega fallega við undirleik gítars... Preconio Pasquale.. söfnuðurinn söng með í viðlögum..  Hinrik sást hvergi.. ég sat á fremsta bekk en Ingólfur og Felix Helgi sátu aftarlega með Geraldine.  
Þegar klukkan var orðin 12.00 voru öll ljósin kveikt og altarið skreytt og inn kom þá loksins Hinrik minn ásamt fullt af krökkum með blóm sem skreyttu alla kirkjuna.  
Svo kom að mér.. ég gekk hægum skrefum að prestinum með bikarinn sem notaður var svo í altarisgönguna.. þetta var afskaplega falleg stund og ég söng og söng alla messuna.  
Felix Helgi svaf meirihlutan af henni í fanginu á pabba sínum.
Dásamlega hátíðleg stund,
Gleðilega páska!

miðvikudagur, apríl 04, 2012

Cucina Italiana!Pasta með kjötsósu, 
sósan heitir Bolognese 
á ítölsku en ég notaði ekki spaghetti í þetta skiptið, þessi sló í gegn í afmælinu hans Felix Helga og líka þegar Fanney, Krissi og Kristján Baldur komu til okkar...  og ... auðvitað elska strákarnir mínar þennan rétt!Efni: 
Pasta (tagliatelle eru rosagóðar)
Nautahakk
Hvítvín eða rauðvín
Tómatur í dós eða flösku
Hvítlaukur
Laukur
Gulrætur
ólívuolía
balsamik edik
smá rjómaostur eða Philadelfia ostur (má sleppa)
Salt og pipar
Parmesan ostur

Aðferð:
Léttsteikið einn lauk (fínt skorin) , 3-4 hvítlauksrif og 1-2 gulrætur (fínt skornar) í olívuolíu,
setjið svo nautahakk á pönnuna og steikið vel. (Magnið af nautahakki fer eftir því hversu marga þið eruð með í mat!)
Þegar hakkið er vel steikt, hellið þá c.a. hálfu glasi af hvítvíni 
(má vera rauðvín) yfir og látið sjóða meðan alkóhólið gufar upp.  
Hellið svo tómat (úr dós eða flösku) yfir og kryddið með salti og pipar.
Hellið smá balsamic ediki í sósuna... bara c.a. rúmlega teskeið.
Skellið svo einn matskeið af rjómaosti eða Philadelfia osti í sósuna 
og látið malla meðan þið sjóðið pastað.  
Ítalir myndu láta sósuna malla í allavegana 1 og hálfan tíma en ég hef venjulega ekki tíma fyrir þannig lúxus!  Læt malla meðan ég sýð pastað!

Rífið svo vel af parmesan osti yfir og skreytið með basiliku!

Buon appetito!
Risotto con funghi
Hrísgrjón með sveppum
Efni:
Ítölsk grjón, riso arborio, fæst í Krónunni og Hagkaup og örugglega Fjarðarkaup og fleiri stöðum
Súputengingar, kjúklinga, sveppa og nauta.. annars máttu nota það sem þú átt og enn betra ef þú gerir sjálf/ur soð.
Ólífuolía
1. laukur
Sveppir
Hvítvín (má sleppa)
smjörklípa
parmesan ostur
Aðferð:
Risotto er réttur sem þú situr yfir... þú skreppur ekkert frá eldavélinni meðan hrísgrjónin eru að sjóðast... 
heldur ert stöðugt að hræra:)
Þú byrjar á að láta 2-3 lítra af vatni í pott og 
ca 4-6 teninga að eigin vali útí.

Svo steikirðu fínt skorin lauk og sveppi á stórri pönnu, ég nota venjulega flúðasveppi og stundum hef ég keypt frosna sveppablöndu sem er voðagott.. það er líka voðagott að nota þurrkaða Porcini sveppi ef þú kemst yfir slíkt góðgæti!
Þegar laukurinn og sveppirnir eru léttsteiktir, 
hellirðu hrísgrjónum í pönnuna og hrærir vél, 
fyrir 5 manna fjölskyldu er 1 pakki (500 gr) feikinóg.
Þú steikir hrísgrjónin í ca 1 mínútu og hrærir vel í og hellir svo hálfu glasi af hvítvíni yfir og lætur gufa upp.
Svo byrjarðu hægt og rólega að setja soð yfir hrísgrjónin og hræra reglulega í, lætur suðuna vera á fullu allan tíman og 2-4 ausur í einu... suðutíminn er uþb 20 minútur og þegar hrísgrjónin eru alveg að verða soðin seturðu klípu af smjöri útí og rífur parmesan yfir.
Best er að smakka hrísgrjónin reglulega í lokin því það gildir það sama með hrísgrjónin og pastað að það þarf að vera al dente.. 
alls ekki ofsoðið
Buon appetito!!!

mánudagur, apríl 02, 2012

Blessun

Þessir sætu strákar komu til okkar í dag,
Don Carlos, Don Haime og Don Cesar
Þeir eru prestarnir okkar hér í Mandela en 
þeir eru allir frá El Salvador, 
í dag 2. apríl gengu þeir um 
allt þorpið og heimsóttu íbúa og blessuðu heimilin. 
Þeir enduðu daginn hér í Kastalanum.  
Geraldine okkar bað okkur um að vera hjá sér þar sem hún á ekki aðra fjölskyldu og við fórum með bæn með henni og prestunum áður en við gæddum okkur á gæða víni og íslenskum reyktum laxi með majones-sítrónu-hunangs-basilikum sósu og kexi.
Prestarnir okkar eru hrikalega skemmtilegir, 
með mikin húmor og góða nærveru!  
Við ætlum að mæta í kvöldmessu á laugardagskvöldið 
sem byrjar með kyndilgöngu um þorpið.  
Þeir vilja endilega fá Ingólf til að vinna með sér að 
leikstjórnun og mig í kórinn!!  
Og undirstungu svo Hinrik með að læra á orgelið, það vantar nefninlega undirleikara og eins og er er bara spilað á gítar í kirkjunni!
Þeir eru þrælvirkir á netinu
og líka á Facebook
Mér þykir vænt um þessar hefðir.