fimmtudagur, desember 30, 2004

Tv in or out??!!

Sjónvarpið er tímaþjófur.

Get varla lifað með því og get alls ekki lifað án þess. Ég er loksins að ná pestinni úr mér en er búin að liggja eins og grænmeti fyrir framan sjónvarpið frá klukkan 17 í dag þar til núna kl 23.30.. Ok ég er búin að vera ógeðslega lasin og slöpp og stundum langar manni bara til að slaka alveg... minnir mig á soldið sem ég sá í Sjónvarpinu í kvöld hjá henni Opruh... þar var þrítug kona frá Kúvæt.. sem talaði um að amerískar konur séu svo stressaðar af vinnu og gefi sér aldrei tíma til að slaka á, lesa góða bók eða taka langan hádegisverð, þær fengju alltaf samviskubit þegar þær gera eitthvað fyrir sjálfan sig.. mér líður svolítið þannig, þegar ég hugsa um daginn hjá mér í dag sem hefur verið alger afslöppun, og ég er með samviskubit!

Er nú samt búin að ná að lesa eina og hálfa jólabók af þeim sem ég fékk í jólagjöf. Mæli eindregið með uppáhalds enska höfundi mínum, Jane Green og hennar nýjustu bók sem ég fékk frá Gísla Pétri í jólagjöf, The other woman fjallar um unga konu og samband hennar við tengdamóður sína.. geggjuð bók.

laugardagur, desember 25, 2004

Gleðileg jól

Jóladagur hálfnaður og ég ein í kotinu. Þetta var yndislegasta aðfangadagskvöld sem ég hef upplifað en jafnframt það erfiðasta. Ég vaknaði snemma á aðfangadagsmorgun alveg drulluveik. Kastaði upp stöðugt og líkaminn minn algerlega búinn. Strákarnir mínir fóru bara einir á jólagjafarúntinn og einhvernvegin tókst mér að elda dýrindis steik og meðlæti og segja strákarnir mínir að þetta hafi verið besti hamborgarhryggurinn ever!! Og var hann nú góður fyrir! Við opnuðum svo alla pakkana og svo datt ég út. Gubbaði svolítið meira og fékk niðurgang. Núna eru strákarnir mínir í jólaboði hjá Tengdó en ég er ein hér lasin. Við fengum öll þrjú svo yndislegar gjafir að maður á náttúrulega ekki til orð og Hinrik svo hamingjusamur með sitt. Ingólfur fór með hann uppí rúm um 11 leytið og þegar þeir voru búnir að liggja svolítið áttaði Hinrik sig á því að hann var ekki alveg búin að leika sér! Svo hann fór fram og lék sér smá meira.
Núna er ég að hlusta á yndislega tónleika á Rás 2 með Margréti Eir.
Gleðileg jól öllsömul!

mánudagur, desember 20, 2004

Golf og gubb

Já jólin nálgast og við höfum ekki náð að gera helminginn af því sem við ætluðum að gera um helgina... Hinrik veiktist aðfararnótt föstudags, fékk ömurlega gubbupest og niðurgang. Hann var hálf meðvitundarlaus í 2 sólarhringa og á tímabili hélt ég að hann væri að þorna upp, sem betur fer náðum við að koma ofaní hann næringu í eplasafa. Og núna kann litla greyið mitt að gubba í fötu! Hann gubbaði mörgum sinnum yfir mig og Ingó og náði að pissa á mig litla skinnið eins og barasta þegar hann var nýfæddur. Hann er nú allur að koma til í dag og er búin að sofa meira og minna síðan klukkan 4. Við Ingólfur þurfum að skiptast á að vinna næstu daga og vonandi tekst að koma öllu í verk.... Fékk bílinn hans Unnars í dag og er það yndislegt. Gamall rauður golf í topp standi. Ohh ég hlakka svo til að eiga jól hér heima með strákunum mínum og skutlast svo í Hafnarfjörð og Kópavog í jólaboð!!

miðvikudagur, desember 15, 2004

Jólakort

Nú eru jólakortin farin að falla inn um lúguna. Og aldrei þessu vant er ég búin að skrifa okkar jólakort, sem er mikið afrek útaf fyrir sig þar sem ég sendi engin kort í fyrra vegna anna. Óþarfi að segja að auðvitað föndra ég öll kortin sjálf.. í tölvunni og höndunum. Langar oft að vera eins og mamma þegar kemur að jólakortunum, hún opnar þau ekki fyrr en seint á aðfangadagskvöld og á jóladag. Ég hef barasta ekki þessa sjálfsstjórn.. stundum næ ég að geyma svona 5 stykki.. en þá er það vegna þess að Ingó nær að fela þau.

þriðjudagur, desember 14, 2004

Vinir

Maður verður stundum svo andlaus þegar maður ætlar að blogga, Hef byrjað á nokkrum póstum en hætt í miðjum klíðum því mér fannst barasta ég ekki vera að skrifa neitt merkilegt. Það gengur allt út á tvennt hjá mér þessa dagana, Jólin og Toscu. Er orðin svolítið þreytt á vinnunni. Langar í langt frí og læt það eftir mér á næstunni verð lítið í vinnunni næstu 3 daga. Ætla að reyna að sinna jólunum. Annars er það að frétta að bíllinn okkar er algerlega í lamarsessi þessa dagana. Ekki dáinn en þarf að komast í góða aðgerð. Við erum búin að vera að brjóta heilann um það hvað við gætum gert til að bjarga okkur yfir jólin, ómögulegt að ferðast í strætó svona yfir hátíðarnar þó að Hinriki finnist það ekki leiðinlegt!! Þá kom samstarfsmaður minn og vinur okkur til hjálpar og á sunnudaginn fáum við lánaðan bílinn hans yfir hátíðarnar! Mikið er nú gott að eiga góða vini!

laugardagur, desember 04, 2004


An flass með rúllugardínuna niður.

Mynd af glugganum með flassi.

Jólagluggi

Var heima í dag! Í fríi, svaf til hádegis og var svo að taka til eftir hádegi. Við Ingólfur tókum svo fram jóladótið í kvöld og þetta er fallegi glugginn sem ég gerði:

fimmtudagur, desember 02, 2004

Reykskynjarar og húfur

Ég var í adrenalínskasti í hálfan sólarhring, fékk spennufall uppúr hádegi í gær. En ég finn að ég er ekkert hræddari við eld en ég var áður. Sá í Húsasmiðjubæklingi í gær að þar er verið að selja reykskynjara á 695 krónur. Við ætlum að kaupa svoleiðis nokkra og skipta líka út þeim gömlu bara til að vera örugg.
Er að vinna núna en hef ákveðið að vera í fríi á morgun. Kannski ég nái að þæfa svolítið þá. Er búin að selja eina húfu, Margrét frænka gaf sjálfri sér hana í afmælisgjöf. Finnst alltaf svo erfitt að selja mína hluti en þá húfu þæfði ég og tók það 6 tíma, seldi hana á 5000 krónur og er ekki hægt að segja að það sé hátt tímakaup, fyrir utan efniskostnað.
Við Hinrik ætlum að dúlla okkur eftir klukkan 5 í dag því Ingólfur er að vinna til 9.30 í kvöld. Vildi óska þess að það væri ekki svona blautt úti. Ég væri til í að hafa snjó eða froststillu...

miðvikudagur, desember 01, 2004

Líður eins og hetju!

já núna er klukkan orðin 2 aðfararnótt miðvikudags og ég veit hreinlega ekki hvort það verði mikið sofið hér í nótt!

Við hjónin sátum og horfðum á sjónvarpið uppúr miðnætti og fundum svo góða matarlykt sem svo breyttist í vonda reykjarlykt.. svo ég fór af stað og opnaði ganginn í kjallaranum.. sem betur fer er ég með lykil, þá gaus svo rosalegur reykur á móti mér að ég hef aldrei séð annað eins, ég hljóp eins og brjálæðingur að sækja símann minn og segja Ingó frá reyknum og svo hringdi ég í 112. Þeir báðu mig að ræsa alla í húsinu og sem betur fer kom nágranni minn heim sem býr á loftinu og ég gat beðið hann að vekja alla á efri hæðunum meðan ég ræsti Jónínu á loftinu og danskan kennara sem býr hér niðri. Það býr pólskt par í kjallaranum þaðan sem reykurinn kom og ég reyndi að komast inn í íbúðina sem var sem betur fer opin en gat ekki farið langt því reykurinn var svo mikill! Nágranni minn sem talar pólsku fór inn í íbúðina og sá manninn meðvitundalausan á stól (konan hans var ekki heima) og reyndi að koma honum út en hann streittist á móti greyið enda komin með reykeitrun og aðeins á nærbuxunum einum fata! Það tók slökkviliðið aðeins eina og hálfa mínútu að koma hingað til okkar sem betur fer og þeim tókst að koma manninum út hann hafði sofnað út frá pottum með kartöflum og kjötkássu og hafði sennilega fengið sér einn eða tvo öllara, annars er ég ekkert viss um það. Slökkviliðið reykræsti íbúðina og fór með manninn á slysó. Víkur nú sögunni að Hinriki! Hann var nú í sjöunda himni! Margir löggubílar og slökkvibíll og sjúkrabíll! Hans æðsti draumur, og slökkviliðsmennirnir voru svo góðir við hann, heilsuðu honum og vinkuðu! Hann sat með stjörnur í augum í fanginu á pabba sínum vafður inní sæng og hálfklæddur en í útigalla! Þegar við máttum svo fara inn horfði hann í augun á okkur og sagði orðrétt: Vá þetta var ROSAGAMAN! Hann er núna búin að vera inní svefnherbergi (eina herbergið sem ekki er lykt í) og leika sér með slökkvibílabókina og slökkvibílapúslið sitt, og síðast þegar ég kíkti var hann með gulan legókubbakassa á hausnum og kallaði út "slökkvibíll", kubbakassinn var náttúrulega hjálmur eins og slökkviliðsmennirnir voru með.
Mér heyrist nú Ingólfi vera að takast að ná honum niður en ég er enn held ég í adrenalínsjokki, er ekki komin enn með alvöru áfall. Þetta var svo ofboðslega mögnuð tilfinning þegar maður upplifir eitthvað svona, og ég hugsaði bara um að koma öllum út úr húsinu og hugsaði ekkert um að bjarga neinum verðmætum, bara strákunum mínum. Það er voðavond lykt í íbúðinni okkar núna þó við höfum haft allt opið í rúman klukkutíma, það er bara orðið svo kalt úti að maður getur ekki lengur haft opið! En það mátti ekki muna miklu, því miður voru engir reykskynjarar niðri en við erum með 2 hérna uppi og Ingólfur ætlar að kaupa fleiri á morgun.

Annars gerðist svolítið einkennilegt í kvöld yfir kvöldfréttunum. Verið var að sýna frá opnun nýs sjóminjasafns í Reykjavík þegar Hinrik kallar upp fyrir sig; Afi Hinrik! og benti á sjónvarpið, ég veit ekki hver það var sem líktist myndinni af pabba svona mikið en Hinrik Leonard þekkir afa Hinrik af myndum hér í römmum. En hann var alveg viss um að hann hefði séð hann í sjónvarpinu! Kannski var pabbi að verki í kvöld þegar ég hljóp af stað til að kanna hvaðan lyktin kæmi!?

Jæja sýnist þessi skrif mín hafi nú róað mig aðeins niður. Fór á yndislegt frænkuföndukvöld í gær og föndraði fínan eplakrans og jólaklemmur og hrökkbrauðsskreytingar... voðagaman að hitta frænkur og systur og mömmu og móðursystur og mágkonu.. árlegur viðburður sem er svoooo skemmtilegur!
Góða nótt...!