miðvikudagur, desember 01, 2004

Líður eins og hetju!

já núna er klukkan orðin 2 aðfararnótt miðvikudags og ég veit hreinlega ekki hvort það verði mikið sofið hér í nótt!

Við hjónin sátum og horfðum á sjónvarpið uppúr miðnætti og fundum svo góða matarlykt sem svo breyttist í vonda reykjarlykt.. svo ég fór af stað og opnaði ganginn í kjallaranum.. sem betur fer er ég með lykil, þá gaus svo rosalegur reykur á móti mér að ég hef aldrei séð annað eins, ég hljóp eins og brjálæðingur að sækja símann minn og segja Ingó frá reyknum og svo hringdi ég í 112. Þeir báðu mig að ræsa alla í húsinu og sem betur fer kom nágranni minn heim sem býr á loftinu og ég gat beðið hann að vekja alla á efri hæðunum meðan ég ræsti Jónínu á loftinu og danskan kennara sem býr hér niðri. Það býr pólskt par í kjallaranum þaðan sem reykurinn kom og ég reyndi að komast inn í íbúðina sem var sem betur fer opin en gat ekki farið langt því reykurinn var svo mikill! Nágranni minn sem talar pólsku fór inn í íbúðina og sá manninn meðvitundalausan á stól (konan hans var ekki heima) og reyndi að koma honum út en hann streittist á móti greyið enda komin með reykeitrun og aðeins á nærbuxunum einum fata! Það tók slökkviliðið aðeins eina og hálfa mínútu að koma hingað til okkar sem betur fer og þeim tókst að koma manninum út hann hafði sofnað út frá pottum með kartöflum og kjötkássu og hafði sennilega fengið sér einn eða tvo öllara, annars er ég ekkert viss um það. Slökkviliðið reykræsti íbúðina og fór með manninn á slysó. Víkur nú sögunni að Hinriki! Hann var nú í sjöunda himni! Margir löggubílar og slökkvibíll og sjúkrabíll! Hans æðsti draumur, og slökkviliðsmennirnir voru svo góðir við hann, heilsuðu honum og vinkuðu! Hann sat með stjörnur í augum í fanginu á pabba sínum vafður inní sæng og hálfklæddur en í útigalla! Þegar við máttum svo fara inn horfði hann í augun á okkur og sagði orðrétt: Vá þetta var ROSAGAMAN! Hann er núna búin að vera inní svefnherbergi (eina herbergið sem ekki er lykt í) og leika sér með slökkvibílabókina og slökkvibílapúslið sitt, og síðast þegar ég kíkti var hann með gulan legókubbakassa á hausnum og kallaði út "slökkvibíll", kubbakassinn var náttúrulega hjálmur eins og slökkviliðsmennirnir voru með.
Mér heyrist nú Ingólfi vera að takast að ná honum niður en ég er enn held ég í adrenalínsjokki, er ekki komin enn með alvöru áfall. Þetta var svo ofboðslega mögnuð tilfinning þegar maður upplifir eitthvað svona, og ég hugsaði bara um að koma öllum út úr húsinu og hugsaði ekkert um að bjarga neinum verðmætum, bara strákunum mínum. Það er voðavond lykt í íbúðinni okkar núna þó við höfum haft allt opið í rúman klukkutíma, það er bara orðið svo kalt úti að maður getur ekki lengur haft opið! En það mátti ekki muna miklu, því miður voru engir reykskynjarar niðri en við erum með 2 hérna uppi og Ingólfur ætlar að kaupa fleiri á morgun.

Annars gerðist svolítið einkennilegt í kvöld yfir kvöldfréttunum. Verið var að sýna frá opnun nýs sjóminjasafns í Reykjavík þegar Hinrik kallar upp fyrir sig; Afi Hinrik! og benti á sjónvarpið, ég veit ekki hver það var sem líktist myndinni af pabba svona mikið en Hinrik Leonard þekkir afa Hinrik af myndum hér í römmum. En hann var alveg viss um að hann hefði séð hann í sjónvarpinu! Kannski var pabbi að verki í kvöld þegar ég hljóp af stað til að kanna hvaðan lyktin kæmi!?

Jæja sýnist þessi skrif mín hafi nú róað mig aðeins niður. Fór á yndislegt frænkuföndukvöld í gær og föndraði fínan eplakrans og jólaklemmur og hrökkbrauðsskreytingar... voðagaman að hitta frænkur og systur og mömmu og móðursystur og mágkonu.. árlegur viðburður sem er svoooo skemmtilegur!
Góða nótt...!

Engin ummæli: