sunnudagur, desember 31, 2006

BT

Fór í BT í Hafnarfirði í gær til að kaupa Playstation leik handa Hinriki. Talaði við afgreiðslumann þar um leiki fyrir algeran byrjanda. Sagði honum hvað Hinrik væri gamall, og hann byrjaði að sýna mér leiki sem voru fyrir 12 ára og eldri! Ég sagði við hann að mér litist nú ekkert á það að vera að kaupa leik fyrir hann sem væri bannaður! Og hann horfði á mig eins og ég væri ein af þessum "hallærislegu" mömmum sem leyfa börnunum sínum ekki neitt.
"Það er ekkert blóð í þessum leik" sagði hann hneykslaður. Ég sagði "Ok, en hann er ekki fyrir 12 ára og yngri, sonur minn er 4 ára og hefur aldrei spilað Playstation leik!" "Ég meina þessar merkingar eru ekki bara um að þetta séu blóðleikir" hélt hann áfram, "Þó hann sé bara 4 ára þá getur hann alveg, kannski, jafnvel spilað þennan leik það er smá bardagi en ekkert blóð!"

HÁLFVITI! Hljómaði í hausnum á mér, á starfsfólk ekki að fylgja lögum? Hvað er eiginlega í gangi? Ég endaði með því að kaupa Bílamyndaleikinn sem er fyrir 3 ára og eldri og dettur ekki í hug að láta son minn spila leiki sem hann ræður ekkert við og eru ofbeldisfullir og hana nú! Stend við þetta á kostnað þess að hljóma HALLÆRISLEG!

Áramótakveðjur

Gleðileg áramót allir saman!

Hlakkar til að hitta ykkur á nýju ári og setti þessar myndir í tilefni þess sem gerast mun í lífi okkar litlu familíunnar í mars.
Girly Myspace Layouts
Girly Myspace Layouts


Girly Myspace Layouts
Girly Myspace Layouts

laugardagur, desember 30, 2006

Áramótin nálgast.

Næst síðasti dagur ársins og mikið hafa þessi jól verið yndisleg. Erum öll búin að snúa sólarhringnum við og Hinrik vaknar ekki fyrr en um ellefu og reynir þá að koma foreldrunum fram úr rúminu. Finnst samt hrikalegt að allt sé búið annan janúar. Mætti vera einn svona aukadagur til að jafna sig á átinu.
Ingólfur fékk playstation2 frá mér í jólagjöf. Hann er að setja upp tölvuna núna og á ég ekki von á að sjá hann mikið fyrr en á nýju ári!
Á morgun verðum við í faðmi fjölskyldunnar á Hverfisgötunni og hlakka ég mikið til að sjá áramótin sprengd inn.
Er ekkert rosaspennt fyrir áramótaskaupinu nema því að sjá hann Gísla Pétur bróður hann er í nokkrum atriðum.
Og svo nýja árið... spennandi! Veit ekkert hvað ég geri þegar fæðingarorlof verður búið en veit að fullt af nýjum tækifærum munu opnast!

Ég skrifaði Alcan og spurði út í Bó... fékk strax svar frá upplýsingafulltrúa þeirra og diskurinn var sendur með hraði til mín! Veit ekki hvort ég opni hann en kannski gef ég vinum í útlöndum!

fimmtudagur, desember 28, 2006

Bó og Alcan

Þó ég búi á Völlunum í Hafnarfirði sér Alcan sér ekki hag í því að gefa mér Bó diskinn. Ég hefði nú haldið að ég væri ein af þeim sem þeir sæu helst hag sinn í að múta. En hver veit kannski kemur Bó inn um lúguna hjá mér á morgun.

Talað er um að kosningar eigi að fara fram hér hjá Hafnfirðingum á næstunni... ég leyfi mér að fullyrða að hvernig sem kosningarnar fari þá mun álverið stækka.

Hananú

þriðjudagur, desember 26, 2006

Jólakveðja

Gleðilega Jólahátið til ykkar allra nær og fjær


Fjölskyldan á Drekavöllum á aðfangadagskvöld. Hinrik orðin frekar óþolinmóður á þessari miklu bið.....
Hinrik mátti opna einn pakka fyrir mat, sem betur fer var Playmobile í pakkanum sem gat stytt honum stundir

miðvikudagur, desember 20, 2006

Jólaknús og kossar

Júhú... búin að skrifa jólakortin, kaupa allar gjafir nema 2 og er á leið út að kaupa jólaskó á prinsinn á heimilinu.

Það er svo gaman á aðventunni, en maður verður að passa sig á því sem maður tekur að sér. Á ekki alltaf að vera að segja já og vera svo að kafna af því að hlutirnir eru svo erfiðir eða taka of langan tíma! Verð að muna þetta!

Búin að vera að sauma í allan dag. Það verður gaman að setja myndir hér inn af jólagjöfinni í ár en má ekki gera það fyrr en eftir aðfangadag.

Jólaknús og kossar!

mánudagur, desember 18, 2006

Mánudagur

Vaknaði seint í dag.. hálf ellefu og kastaði upp. Mátti ekkert vera að því var heppinn að ná á klósettið. Ekki gaman :(

Ætla að vera heima í dag að sauma jólagjafir. Minna en vika til jóla og mér finnst gott að vera ekki að vinna á þessum tíma. Í fyrra var ég á fullu í Óperunni og líka í búðinni, var fínn tími en ég er glöð að vera ekki í því núna.

Jólaþorpið var tvíbent um helgina. Ógeðslega kallt á laugardaginn og sumir sögðu að það væri 10 stiga frost! Mér var svo kallt að ég hélt ég myndi frjósa. Ingó tók við afgreiðslunni og ég fór til Steinu, Villi kom svo með kraftgalla af Agnesi og þau hjónakorn björguðu lífi mínu. Í gær var svo jólaveður. Hitastig við frostmark og snjókorn féllu ljúflega til jarðar. Ákvað að leggja þessa mynd á minnið þar sem ekki er gert ráð fyrir meira jólaveðri fyrir jól. Fólk var í jólagjafaskapi og verslun gekk vel.

Jæja ef Guð lofar næ ég að klára jólakortin í dag líka.

laugardagur, desember 16, 2006

Jólabað

Jæja kæru vinir. Nú er ég komin 26 vikur á leið og festist í fyrsta skipti í baðinu! Sem betur fer var maðurinn minn heima til að rétta mér hjálparhönd. Annars gengur meðgangan vel, held áfram að léttast en barnið dafnar vel.

Nú á saumaskapurinn hug minn allann og er ég með fullt af nýjum húfum í Jólaþorpinu um helgina. Birna hans Hemma er með mér og bjóðum við uppá heitt Súkkulaði á 100 kr. bollann og kanilsnúð með á 50 kall. Frábær skemmtidagskrá verður um helgina og rosalega gaman að koma í svolítið jólaþorp til að koma sér í jólaskap. Húfurnar mínar og þæfðu hlutirnir hennar Birnu ættu svo að vera nóg aðdráttarafl útaf fyrir sig.

Ikea... hef heitið því að fara ekki aftur í Ikea fyrir jól.. helst ekkert aftur fyrr en í mars/apríl... mæli samt með hangikétinu hjá þeim... 590 krónur skammturinn og braggðast afbragggðsvel!!

föstudagur, desember 15, 2006

Hvítur sófi

Framhald... sófinn minn sem einu sinni var blár.. er nú alveg skjannahvítur... keypti nýtt áklæði í dag. Nú eigum við alveg glænýjan sófa. Hinriki hefur verið stranglega bannað að borða í honum.. en ég hugsa að ég liti hann eftir jól. Einn fjögurra ára og nýfætt ungabarn og hvítur sófi.. jafna sem ekki gengur upp.

Er að sauma og sauma og sauma.. verð með fullt af nýjum húfum í JÓLAÞORPINU Í HAFNARFIRÐI UM HELGINA MILLI 12 OG 18.. LAU OG SUN. Endilega komið og kaupið af mér húfu!!

fimmtudagur, desember 14, 2006

Ikea framhald

Sófinn komin í hús, fengum líka nýja púða.. nú þarf bara nýtt áklæði og þá er sófinn alveg alveg nýr! Júhú fyrir Ikea

þriðjudagur, desember 12, 2006

Ikea

Matsmaður kom frá Ikea í gær vegna brotna sófans, hann hringdi svo í dag og sagði mér að Ikea léti okkur fá nýjan sófa, hönnunargalli var á nokkrum stykkjum sem framleidd voru á þeim tíma sem við keyptum okkar... þannig að á morgun eða hinn fáum við nýjan sófa. Því miður ekki aðra gerð heldur bara grindina en það er betra en ekki neitt! Verð að hrósa Ikea fyrir þetta en finnst náttúrulega helst að þeir hefðu átt að láta okkur fá annan sófa, miklu dýrari til dæmis tungusófa!
hehhehe

mánudagur, desember 11, 2006

Örnin

Hallgrímsson komin til Íslands, horfði spennt í kvöld. Árni Pétur sló í gegn, frábær leikur hjá honum og virkilega framúrskarandi frammistaða. En hvað er þetta með Arnar Jóns og Margréti Vilhjálms...? Leikur þeirra var virkilega vondur, minnti mig á lélega ítalska seríu á Rai tre... ótrúlegt að þau skuli hafa verið valin í þessi hlutverk, ok Margrét var í algeru aukahlutverki en Arnar skipti máli og var hræðilegur. Hulda Björk Garðarsdóttir "Nágranninn" sló hins vegar í gegn!
Síðasti þáttur á sunnudaginn kemur, var búin að horfa á smá af honum á dr1 en hætti svo því ég skildi dönskuna ekki nógu vel... fannst þó flott í þeim þætti þegar Hallgrímsson fór í Ameríska sendiráðið... takið eftir því!

sunnudagur, desember 10, 2006

Fréttablaðið og Sara Mjöll

Ég fylltist gleði í morgun þegar sonur minn gekk með Fréttablaðið inn í þvottahús til mín! Þvílík gleði að fá loksins blað. Síðan við fluttum hingað hefur útburður á fríblaðinu Fréttablaðinu verið svona happa og glappa, að meðaltali 2 blöð í viku. "Blaðið" sést ekki og ekki er ég áskrifandi af Morgunblaðinu. Ég var að hugsa um það í gærkveldi þegar ég horfði á Spaugstofuna að ég er dottin út úr svo mörgu þegar ég get ekki lesið blaðið á morgnana. Reyni auðvitað að hlusta og horfa á RÚV fréttir en oft missi ég af þeim. Merkilegt að meiri metnaður sé ekki settur í að bera út blöðin í þessi nýju hverfi þar sem mörg þúsund manns búa.

Fór í þriggja ára afmælið hans Benedikts með Hinrik í gær. Það var rosalega gaman að hitta gamla vini og kunningja. Klara æskuvinkona mín var í afmælinu með Söru Mjöll dóttur sína sem er tveimur dögum eldri en Hinrik. Við vorum skrifaðar með tveggja daga millibili 18 og 20 september og gengum báðar tvær vikur fram yfir Sara Mjöll kom 1. okt og Hinrik 3. okt. Þau hafa alltaf verið mjög samtaka í þroska og náðu vel saman, í bílnum á leiðinni heim flugu prumpubrandararnir og þau veltust um af hlátri yfir eigin húmor.

Um kvöldið spurði ég Hinrik hver væri fallegasta konan sem hann þekkti... hann svaraði auðvitað "Þú"!! Svo spurði ég hver væri sætasta stelpan og hann svaraði "Sara Mjöll" hehehe rómans í loftinu.

laugardagur, desember 09, 2006

Stripplarar

Komin 9. desember og jólaskapið er að taka völdin. Við fjölskyldan fórum í Ikea í gær og keyptum gardínur. Komumst nefninlega að því eftir að 6 vikna búsetu hér á Drekavöllum 20 að það sést í gegnum gardínurnar í stofunni og eldhúsinu!! Erum nú í rólegheitum að fara yfir aðgerðir okkar, hvort við höfum mikið verið að stripplast í stofunni?!... Höldum ekki en vitum þá að the show is over now fyrir Drekavelli 22!

Hildur saumakona straujaði svo upp alla falda.. nennti ekki ekki að sauma... þvílík leti!

Jóladótið er komið út á gólf og í dag, eftir ferð uppí hesthús og afmæli hjá Benedikt ætlum við að byrja að skreyta af einhverju ráði.

föstudagur, desember 08, 2006

Festist í bók

Það er komið hádegi og ég var að skríða úr bólinu. Lenti í skemmtilegri aðstöðu í gær sem var reyndar mikill hluti af lífi mínu fyrir uþb 10 árum síðan... ég festist í bók! Ég gat ekki hætt að lesa hana fyrr en hún var búin. Og það var um þrjú þrjátíu í nótt, sem betur fer þurfti ég ekki að vakna í morgun og gat sofið þar til núna.

Ég tók bókina í Bókasafni Hafnarfjarðar og heitir hún A special relationship eftir Douglas Kennedy, ég hélt hún væri um annað en hún er.... en segjum að þegar ég var komin inn í 1/3 af bókinni var ég húkkt!

Byrjaði annars aðeins að skreyta í gærkveldi. Hinrik verður nú að fara að fá jólin inn á heimilið. Helgin er svo vel skipulögð með allskyns skemmtilegheitum fyrir Hinrik minn!

fimmtudagur, desember 07, 2006

blogglisti Arnars

Bara nokkrar línur til að halda mér í baráttunni um stað á blogglista Arnars.. sjá tengla hér hægra megin! Ég er alltaf í fjórða til fimmta sæti þó ég hafi bloggað á hverjum degi núna síðustu daga og ég verð barasta að fara að blogga tvisvar á dag til að reyna að skríða aðeins ofar! Narri minn klikkar ekki og óska ég honum líka til hamingju með framlengingu samnings síns við vinnuna sína... veit ekki hvort ég er einlæg í þeim hamingjuóskum samt hmmm.....

miðvikudagur, desember 06, 2006

Duddur og föndur

Í dag hefði Pabbi minn orðið 56 ára. Ég sakna hans þó nú séu fimm og hálft ár síðan hann dó, það er satt sem sagt er að tíminn læknar engin sár bara kennir manni að lifa með þeim.

Föndurnámskeiðið gekk svona líka rosalega vel og var mjög gaman að föndra með starfsmönnum Félagsmiðstöðva í Hafnarfirði sem eru sumir mínir fyrrverandi unglingar. Það var svo boðið uppá jólahlaðborð á eftir og ég náttúrulega át á mig gat!

Hinrik minn Leonard seldi duddurnar sínar í gær og er nú formlega hættur með duddu. Hann fór í Bykó og keypti sér fjórhjól rafmagnsdrifið og borgaði með duddunum og þegar hann langaði í duddu í gær benti ég honum á fjórhjólið og málið var dautt! Ótrúlegt hvað þetta gekk vel og hann svo stolltur af fjórhjólinu sínu.

Ég er búin að vera dugleg að búa til jólakort síðustu daga og er ég harðákveðin í því þessi jól að skrifa þau og senda.... hef ekki sent jólakort síðustu tvö ár vegna anna en núna ætla ég sem sagt að koma þeim út!

þriðjudagur, desember 05, 2006

Óheppinn....?!

Jæja, þriðjudagur og jólin nálgast. Mikið er nú gott að vera komin á bíl í nokkra daga. Hemmi bró og Birna voru svo rausnarlega að lána okkur flotta bílinn sinn sem er reyndar til sölu og kann ég þeim bestu þakkir fyrir. Ég er að fara að föndra eftir hádegi og hlakkar mikið til.

Ég var að fara yfir síðustu vikur í huganum áðan og langaði til að deila því með ykkur:

Bíllinn bilaði...... lausn: fengum lánaðan bíl til að reyna að útrétta til að geta gert við bílinn okkar.

Það kviknaði í sjónvarpinu okkar..... lausn: Hrafnhildur vinkona lánaði okkur sitt vegna þess að tryggingar borga ekki sjónvarp ef það kviknar í hlutum inní því... bara ef það kviknar í öllu sjónvarpinu!

Sófinn brotnaði.... lausn: Bækur halda uppi brotinu, virkar fínt.

Heimasíminn dó.... lausn: keyptum nýjan síma í Elkó.

Svona til að taka þetta saman þá var heimasíminn orðin 10 ára þráðlaust tæki sem ég keypti ódýrt á Ítalíu þannig að við því var að búast. Sjónvarpið var 5 ára og algerlega óskiljanlegt að raftæki skuli ekki duga allavegana í 5 ár! Sófinn er 3 til 4 ára og er greinilega hönnunnargalli í honum og kennir manni að vera ekkert að kaupa dýra hluti í Ikea.. hann kostaði 86 þúsund á sínum tíma og er bara búin að skapa vandræði síðan hann kom til okkar. Ikea þurfti að láta okkur fá nýja púða í hann því púðarnir okkar voru orðnir eins og pulsur eftir nokkra mánuði.. hönnunnargalli þar á ferð líka.

Einhvernvegin siglir maður svo í gegnum þetta með bros á vör því lífið á Drekavöllum er yndislegt!

mánudagur, desember 04, 2006

Ég


Stal þessari mynd af heimasíðu sonar hennar Píu vinkonu. Þetta er ég í fimleikaafmælinu!

Jólaþorp og föndur

Jæja þá er ég búin að breyta útlitinu á þessu bloggi og á eftir að föndra svolítið meira eflaust. Skrapp í bæinn áðan og þegar ég kom aftur heim fékk ég yndislegt símtal frá ítalíu. Ég fór nefninlega með unglingahóp til Perugia fyrir 10 árum síðan og nú voru þeir að hringja í mig til að biðja mig um að skrifa í blað sem þeir eru að gefa út. Ég hef ekki heyrt í þessu yndislega fólki í mörg mörg ár og voru þau búin að leggja mikið á sig til að finna mig! Höfðu að lokum uppá henni Paolu sem ég leigði með í Róm og hún gat gefið þeim númerið mitt! Og nú þarf ég að skrifa grein í dag og senda mynd af mér. Þarf sennilega að biðja manninn minn að taka af mér góða mynd í kvöld til að láta fylgja með!

Ég og Birna hans Hemma bró vorum í jólaþorpinu alla helgina og seldum vörurnar okkar og heitt súkkulaði sem sló aldeilis í gegn. Það seldist svo mikið á laugardeginum að aðrir seljendur sáu gróðavon í súkkulaðinu og tóku upp sömu sölu og við á sunnudeginum! Ótrúlegt lið en okkar súkkulaði var náttúrulega best svo að við vorum glaðar. Það var svolítið erfitt að vera þarna á sunnudeginum þar sem ég var orðin svo þreytt í bumbunni en lét mig hafa það... við ætlum svo að vera aftur eftir tvær vikur 16. og 17. desember og vil ég endilega benda ykkur á að koma og gera góð kaup hjá okkur.

Þessi vika verður þá heldur rólegri en sú liðna hjá mér og þakka ég guði fyrir það. Bíllinn er enn bilaður og er Hemmi bró búin að lána okkur bílinn sinn núna í nokkra daga til að geta útrétt og reynt að laga litlu drusluna okkar. Ég er algerlega búin að fá nóg af strætó þó það sé ótrúlega gott að geta hoppað uppí vagninn hér fyrir utan!

Á morgun ætla ég að fara að kenna föndur í Gamla Bókasafninu og verður það örugglega voðagaman!

ps. ég sé að öll comment hafa dottið út við þessa uppfærslu... það er frekar leiðinlegt en ég nenni ekki að pæla í því núna.....

Uppfærsla

Var að uppfæra bloggið mitt og þarf að gefa mér tíma á eftir til að laga íslensku stafina.. ætla líka að gefa mér tíma til að blogga svolítið á eftir um helgina en núna verð ég að rjúka í bæinn!

miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Guli bíllinn

Síðan ég kom heim frá Róm hef ég mikið ferðast í strætó. Ingó og Hinrik fara á morgnana með strætó til vinnu og skóla og ég hef svo verið að útrétta á gula bílnum líka. Ingó er að frumsýna í kvöld þannig að ég hef þurft að sækja Hinrik. Sagt er að 25% strætóbílstjóra séu Pólverjar. Ég held hins vegar að það sé nærri 75% í Hafnarfirði. Þetta eru geðgóðir menn, voða almennilegir en tala litla sem enga íslensku og keyra eins og brjálaðingar hehehe. Ég man eftir brjáluðum bílstjórum í æsku, samanber velvakandabréf sem ég skrifaði þegar ég var 11 ára og þurfti að fá pappír um það frá bænum að ég væri ekki orðin 12. Ég átti engin önnur skilríki enda tíðkaðist ekki þá að vera með debetkort... og strætóbílstjórar vildu láta mig borga fullorðinsgjald sem kom þá á við 12 ára aldur. En núna sem sagt ferðast ég kasólétt með einn fjögurra ára í gula bílnum og fæ aldeilis að finna fyrir því. Hinrik sofnar yfirleitt í Kópavogi og þá þarf ég að hafa mig alla við að halda honum í sætinu (ef hann fær sæti) og halda mér og mínum pinklum í fanginu því ferðin í beygjum sérstaklega er svo mikil. Ég hef alltaf þjáðst mikið af bílveiki og í dag verð ég bílveik bara á því að horfa á Gula bílinn nálgast. Ég vona að Ingó nái að gera við bílinn okkar núna á morgun!!

laugardagur, nóvember 25, 2006

Húfusala ofl

Jæja þá er ég alveg að lenda. Það er laugardagur og við á leiðinni í Julefokost hjá fjölskyldunni minni. Hefð sem hefur haldið sér síðustu fimm ár allavegana. Hittumst öll systkynin og mamma og Ármann og borðum saman mat með dönsku ívafi. Ég hef undanfarin ár komið með frikkadellur en mínar eru með ítölsku ívafi...

Verkefnin hlaðast inn og ég hlakka til að takast á við desember. Ingó er að frumsýna á miðvikudaginn skemmtilega sýningu sem heitir Konur í lífi Mozarts. Sýnt verður tvisvar sinnum í Iðnó. Þannig að það er heilmikið að gera hjá honum núna.

Mikið hefur verið um húfupantanir og nú er ég að fara á allavegana tvo staði í næstu viku að sýna og selja húfur. Komin með fína vinnuaðstöðu hér á Drekavöllunum. Og byrja að framleiða á morgun.....

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

MM


Jæja þá er komin skriður á Miðstöðvarmálið... utandagskrárumræða var í gær og sat ég og horfði á sjónvarpið og hágrét yfir fáránleika svara Heilbrigðisráðherra sem ég hef hingað til talið ágætiskonu.. það hefur breyst. Hún hefur ekki hundsvit á því sem hún segir og hefur greinilega ekki sett sig nógu vel inní málin. Kolbrún svaraði og vitnaði í bréfið mitt til hennar og læt ég ræðuna fylgja hér á eftir.

15:44
Kolbrún Halldórsdóttir:
Hæstv. forseti. Það er greinilegt að hæstv. ráðherra hefur ekki fengið sömu bréf og við, almennir þingmenn, frá verðandi mæðrum sem eru nú uggandi um sinn hag. Í fjölmörgum bréfum sem okkur þingmönnum hafa borist undanfarna daga frá þessum verðandi mæðrum koma fram mikil sárindi. Sumum finnst að allt gott sem gert hefur verið fyrir verðandi mæður sé lagt niður. Nefnt er Fæðingarheimili Reykjavíkurborgar og MFS-einingin á kvennadeild LSH. Þetta eru ömurleg eftirmæli áhugalausrar ríkisstjórnar sem hefur auðvitað vitað að hverju stefndi í þessum málum.
Hvað ætlar hæstv. heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins, Siv Friðleifsdóttir, að gera fyrir þessar kynsystur sínar? Hún stendur hér og segir okkur að áhersla sé lögð á samfellda þjónustu í þessu nýja kerfi og hún fullyrðir að þjónustan verði einfaldari og markvissari. Þessi yfirlýsing róar ekki þær mæður sem skrifa okkur þingmönnunum.
Meðal þeirra sem hafa lýst áhyggjum sínum eru Ljósmæðrafélag Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og fagdeild heilsuhjúkrunarfræðinga. Þessir aðilar óska eftir því að ákvörðunin um að leggja Miðstöð mæðraverndar niður verði endurskoðuð. Undir það tökum við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og við áteljum framsóknarráðherrana, hvort sem það er hæstv. ráðherra Siv Friðleifsdóttir eða sá sem á undan henni var, fyrir það að hafa sniðgengið þessa aðila þegar ákvörðunin um þetta var tekin.
Hér er horfið aftur til fortíðar frá því ákjósanlega og persónulega fyrirkomulagi að hver verðandi móðir sem er í áhættu á meðgöngu hafi ljósmóður sem fylgir henni eftir fram að fæðingu, til þess horfs sem lagt var niður 1990 af því að það samrýmdist ekki nútímakröfum. Þarna er Framsóknarflokknum rétt lýst. Hann gerir ekkert með reynslu og þekkingu ljósmæðra, lækna og annars starfsfólks Miðstöðvar mæðraverndar, leggur niður þjónustuna sem hefur átt sér stað í nútímalegu heilsuverndarumhverfi (Forseti hringir.) og sjúkdómavæðir meðgönguna.
Hæstv. forseti. Þetta er vond hugmynd.

Ég feitletra tilvitnunina í mig og sennilega fleiri mæður.

Ég er svo ánægð með hana Kolbrúnu og get sagt það að hún er svo sannarlega ÞINGMAÐUR FÓLKSINS ég hef ákveðið að kjósa hana í vor og mun vera virk í áróðri fyrir Vinstri Græna til kosninga.

Annars er mjög líklegt að fyrir tilstilli yndislegrar Ljósmóður þá fái ég að halda áfram hjá minni Ljósmóður og mínum lækni og geti þá byrjað að slaka á gangvart fæðingunni og þarf ekki að vingsa á milli ljósmæðra og lækna á LSH eins og nýja kerfið bíður uppá, eins og til stóð með mig. En það kemur í ljós á næstu dögum.

Annars er yndislegt að vera komin heim. Farin að finna aðeins jólafílinginn og þarf að byrja að fara að framleiða. Verð í Jólaþorpinu fyrstu og þriðju helgina í desember og hvet alla til að koma og versla jólagjafir...

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Roma la cittá eterna

Komin heim!
Ég hef aldrei verið svona þreytt á ævi minni.

Það var ótrúlega gaman að koma til Rómar aftur eftir eins árs fjarveru. Borgin blómstrar sem aldrei fyrr og sólin skein og skein.. það ringdi pínulítið á laugardagseftirmiðdag. Ég keypti regnhlíf til að nota til að leiða hópinn minn og kom heim með hana óopnaða. Það komu kannski 2. skúrir sem ég missti algerlega af. Það er eins og vorið sé komið í Róm. Hitastigið var frá 23 gráðum niður í 18 og í fyrsta skiptið vildi ég helst að það myndi lækka aðeins. Ég vaknaði snemma á hverjum morgni til að leiða hópinn minn og var hann yndislegur. Ég var hins vegar alltaf komin heim á hótel um kvöldmatarleitið og hélt mig í rúminu að horfa á sjónvarpið og slaka á. Keypti mér enga skó því fætur mínar voru örugglega tveimur númerum stærri því ég labbaði og labbaði og labbaði og labbaði hehehe Litli drengurinn minn var alveg ánægður með þessa líkamsrækt.. en síðasta daginn svaf hann meira og minna þar til ég kom í flugvélina. Held að hann sé líka dauðþreyttur eftir þessi átök.
Ég vann lítið á sunnudaginn notaði daginn til að hitta Leo Guðföður Hinriks, hann bauð mér í Picknik í garði, þar sem ég sat með fullt af fólki og hélt uppá útskriftarveislu vinkonu hans. Það var mjög gaman að borða pasta og fleira undir berum himni í 22 stiga hita.
Ég náði að versla svolítið á alla strákana mína. Í fyrsta skiptið keypti ég lítið af fötum á mig en fann svolítið af óléttufötum 2 buxur og nokkrar peysur. Hinrik fékk mest!
Það var líka gaman að upplifa það að vera ólétt í Róm. Mikil virðing borin fyrir þunguðum konum og alltaf var staðið upp fyrir mér í Neðanjarðalestinni og meira að segja í búðum hlupu starfsmenn til og sóttu stól handa mér ef þeim fannst ég vera þreytuleg!

Vatíkanferðin á mánudaginn varð svolítið skrautleg þar sem Napolitano forseti Ítalíu ákvað að fara að hitta Páfann. Ég sá það í fréttunum um morguninn áður en við lögðum af stað og læddist strax að mér sá grunur að það myndi hafa áhrif á mig og hópinn minn.. og viti menn. Vatíkanmenn ákváðu að loka Péturskirkjunni og Péturstorginu svo forsetinn gæti skoðað dýrðina í rólegheitunum. Við tókum því lengri hring í Vatíkaninu og svo sendi ég fólkið mitt á eigin vegum í kirkjuna í gærmorgun áður en við lögðum af stað heim.

Flugferðin heim var ansi löng. 5 klukkutímar og hef ég aldrei verið svona lengi á leiðinni heim frá Róm. Og það var yndislegt að koma heim. Ferskt loft og kuldi í lofti sem ég hefði aldrei trúað að myndi virka jákvætt á mig!

Nú ætla ég að reyna að hvíla mig í allan dag og slaka á .. reyna að ná bólgum úr líkamanum og vinna upp fyrri styrk!

sunnudagur, nóvember 19, 2006

A hoteli i Rom

Eg sit a hotelinu i rom og tad er 20 stiga hiti. otrulegt til thess ad hugsa ad vid hopudum upp um 30 graadur thegar vid komum hingad a fostudaginn. ferdin genguur mjog vvel og alltaf gaman adkoma tii Romar. Eg er ad blogga i gegnum sjonvarpid a hotelinu oog lyklabordid eitthvad skritid thanniig ad thiid afsakid stafsetninguna. Er ekki buin ad hitta Ttom og Katie enn en hefur ekki faarid miilli mala ad thau erru heerr thar sem thyrlurnar svifu yfiir miidbaenum i allan gaerdag. Jjaeja nog af taeknii i biili.
ps. Lledurjakkinn err of heitur!

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

20 gráður

Það er gert ráð fyrir rúmlega 20 stiga hita í Róm á morgun. Smá skúrir gætu orðið á laugardagseftirmiðdag þegar Tom og Katie ætla að gifta sig. En svo ætti að birta til aftur og sólin ætti að láta sjá sig á sunnudag og mánudag.
Ég vona að ég sjái ekki Tom og Katie... ég vona að þau trufli ekki gönguferðina um Róm á laugardaginn en hótelið þeirra er við Spánartröppurnar og þangað er för minni heitið á laugardaginn og aftur á mánudaginn.
Ég veit ekki hvaða yfirhöfn ég á að taka með mér. Kannski er leðurjakkinn of heitur. Það verður skrítið að vera ólétt í Róm...
Heyri í ykkur á miðvikudaginn.

mánudagur, nóvember 13, 2006

MM, Góði Hirðirinn og Fimleikaafmæli

Miðstöðinn verður lokað 23. nóvember. Á miðvikudaginn fæ ég að vita hvert ég verð send:( Ég er svo yfir mig óhamingjusöm með þetta og vil helst ekki hugsa meira um þetta fyrr en á miðvikudaginn. Kolbrún Halldórs er samt enn að vinna í þessum málum og ætlar að reyna að fara að heimsækja MM og sjá hvað er í gangi þar.

Erum búin að gefa um það bil 15 kassa í Góða Hirðinn. Ekki hægt að segja annað en að við styrkjum góð málefni. Annað eins hefur farið í Sorpu og er það Minimalisminn sem ræður ríkjum á okkar heimili þessa dagana.

Fannst rosagaman að sjá snjóinn um helgina! Missti samt af afmæli þar sem við erum enn á heilsárdekkjum og ég treysti mér ekki til að keyra. Við Hinrik fórum svo í frábært afmæli í gær þar sem Krissi vinur hans og jafnaldri bauð til fimleikaafmælis sem haldið var í fimleikasal Gerplu í Kópavogi. Ótrúlega skemmtilegt og Hinrik í essinu sínu!

föstudagur, nóvember 10, 2006

Miðstöðvarmálið, Kolbrún Halldórs og Róm

Jæja þá er komin framvinda í Miðstöðvarmálið. Af þeim alþingiskonum sem ég hafði samband við svöruðu tvær. Ásta R. Jóhannesdóttir sendi mér ræðu sem hún flutti á Alþingi í vikunni og Kolbrún Halldórsdóttir sendi mér persónulegt bréf þar sem hún bað um meiri upplýsingar og ætlar að vinna í málinu. Ég er svoooo ánægð með hana og þið munuð fá að fylgjast með framvindu hér á blogginu mínu!

Annars er helgin framundan og vika þar til ég bregð mér af bæ.. ætla að skreppa í 5 daga til Rómar að vinna júhúúúúú.

Góða helgi krúttin mín.

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Alþingiskonur ofl

Tók M á orðinu (samanber comment hér fyrir neðan) og sendi eftirfarandi póst til þessara alþingiskvenna:
Kæru sómakonur,
Þórunn Sveinbjarnardóttir
Kolbrún Halldórsdóttir
Valgerður Sverrisdóttir
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Margrét Frímannsdóttir
Ásta R. Jóhannesdóttir
Ásta Möller
Guðrún Ögmundsdóttir
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Mig langar endilega til að senda ykkur afrit af bréfi sem ég sendi SivFriðleifsdóttur Heilbrigðisráðherra á dögunum og þætti vænt um að fáykkar álit á málinu!

Með vinsemd,
Hildur Hinriksdóttir

Sjáum svo til hver svarar... Siv hefur enn ekki svarað en skilst að hún sé erlendis núna eins og stendur.

Svo ég haldi áfram að svara commentum þá fór ég á Kaffi Aróma og tengdi mig en þá þurfti ég að setja inn gsm númerið mitt og næst þegar ég tengi mig þarf ég að borga 6krog40 aura á mínútuna......

Er annars hress og glöð og hlakka til að fá viðbrögð við þessum þönkum mínum og áhyggjum af Miðstöð Mæðraverndar.

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Súfistinn

Siv er ekki búin að svara.....

Fór á Súfistann áðan að hitta Gísla Pétur. Tók strætó og tók ferðin 6 mínútur! Fyrir 9 árum var ég fastagestur á Súfistanum og verð ég að segja að ég varð fyrir miklum vonbrigðum núna.... kaffihúsið er alveg eins og fyrir 9 árum. Ekkert hefur verið gert til að hressa uppá útlitið, sama málningin sem nú er farin að flagna af... og engin nettenginin. Held að það sé erfitt að finna kaffihús í Hafnarfirði með nettengingu!

mánudagur, nóvember 06, 2006

Siv Friðleifsdóttir opið bréf

Ég tók mig til og skrifaði Heilbrigðisráðherra okkar henni Siv Friðleifsdóttur eftirfarandi bréf:

Kæra Siv,
Ég skrifa þér í miklu uppnámi enda komin rúmlega 5. mánuði á leið. Málið snýst um Miðstöð Mæðraverndar sem nú á að leggja niður!? Ég er ein af þeim konum sem sækja þá miklu stofnun vegna fyrri sögu. Ég átti dreng fyrir 4 árum síðan, sú meðganga var mjög erfið og fæðingin var hræðileg, ég og sonur minn vorum hætt komin og hann eyddi fyrstu 2 vikum af lífi sínu á Vökudeild og ég var á gjörgæslu eftir fæðinguna. Nú er ég ófrísk aftur og sæki allan minn styrk til þeirrar frábæru þjónustu sem Miðstöðin bíður uppá. Ég er í áhættuhóp vegna fyrri meðgöngu hvað varðar kvíða fyrir fæðingu og hef verið mikið veik. Hjá Miðstöðinni hitti ég reglulega næringarráðgjafa og fæðingarlækni auk minnar yndislegu Ljósmóður sem veitir mér alla þá þjónustu sem hægt er að fá. Ég veit að þessa þjónustu fengi ég ekki á mæðraverndinni á heilsugæslunni og það sem mér finnst svo erfitt að skilja er að allt sem gott er gert fyrir okkur barnshafandi konur er lagt niður! Fæðingarheimilið var lagt niður og MFS sem opinberlega var sagt að væri OF vinsælt til að hægt væri að halda því áfram! Ég hef sterkan grun um að Reynir Tómas Geirsson beri ábyrgð á þessu og verð ég að segja að mín upplifun er sú að sú stóra og góða stétt sem Ljósmæður eru eigi enga rödd! Þær hafa reynsluna til að vita betur en þegar þær standa á móti Fæðingarlækni þá er ekki tekið mark á þeim. Ég upplifði þetta sjálf í minni fæðingu og get heilhugar sagt að ef hlustað hefði verið á mína Ljósmóður þá hefði ég ekki lent í bráðakeisara sem stefndi mínu lífi og barns míns í hættu.
Kæra Siv. Viltu lesa þetta bréf og skoða málið og útskýra fyrir mér af hverju framtíð Miðstöðvar Mæðraverndar er í hættu? Af hverju á að leggja niður 6 ára gamla deild sem löngu hefur sannað tilverurétt sinn?

með vinsemd og virðingu,
Hildur Hinriksdóttir

Mig langar að biðja ykkur sem lesið þetta blogg mitt að gera hið sama þó ekki væri nema um eina línu að ræða, heimasíðan er http://siv.is/alit/index.lasso þið gætuð spurt bara Af hverju á að loka Miðstöð Mæðraverndar og þið drengir ættuð líka að láta í ykkur heyra!

Takk elskurnar

Sandur..

Mánudagsmorgun og bráðum verður komin vika á nýja staðnum. Það er yndislegt að vera komin aftur í Hafnarfjörð, óveðrið fór algerlega framhjá okkur erum greinilega í skjóli fyrir þessari vindátt!

Ég á ógeðslega mikið drasl! Ég henti svo miklu þegar ég pakkaði í maí en er að henda enn fleiri hlutum núna. Búin að sitja við kassa og poka og kveðja hluti. Opnaði ferðatösku fulla af fötum í gær og skildi ekki af hverju ég var ekki búin að henda því sem í henni var. Hún var full af fötum frá Ítalíu... hvernig mér hefur einhverntíma dottið í hug að ég myndi einhverntíma fara aftur í stærð 38 er óskiljanlegt!! Og hvað þá í plast buxur og þunna þrönga netapeysu? Ég get ekki einu sinni gefið þessi föt í rauðakrossinn því að tískan 1999 samanstóð af ótrúlega hallærislegum fötum úr gerfiefnum...
Það er algerlega ný upplifun að vera í glænýju húsi. Og öll heimilistækin eru líka glæný... verstur er sandurinn sem berst inn því ekki er enn búið að malbika planið. Það stendur nú samt til bóta og þá hættir ryksugan að vera í overdrivei!
Í kvöld ætlar Ingó að setja upp hillurnar okkar og þá tekur stuttan tíma að tæma restina af kössunum.
Verst er að vera ekki nettengd, það tekur nokkrar vikur að fá símann tengdan og nú erum við að reyna að ákveða hvert við eigum að fara í áskrift. Þangað til fer ég á kaffihús til að skoða póstinn minn. Og blogga!

Gubbið mitt heldur áfram, verst er að gubba þegar ég vakna því þá kemur bara gall og kviðurnar eru miklar og öfgafullar... litli drengurinn er kraftmikill og hress og vakir mikið og sparkar og spriklar. Hress gutti hann Golli Junior.

föstudagur, nóvember 03, 2006

Miðstöð mæðraverndar

NFS, 27. Október 2006 12:30
Áhættumeðgönguvernd í óvissu
Ljósmæðrafélag Íslands og Félag hjúkrunarfræðinga hafa þungar áhyggjur af því að ekki sé ljóst hvernig áhættumeðgönguvernd verði háttað, nú þegar þrjár vikur eru í að Miðstöð mæðraverndar verði lögð niður í núverandi mynd. Konur sem þurfa á sérstakri meðferð og ráðgjöf að halda á meðgöngu út af meðgöngusykursýki eða meðgöngueitrun vita ekki hvert þær eiga að mæta í skoðun eftir þrjár vikur. Ljósmæðurnar sem hafa byggt upp sérþekkingu í störfum sínum síðustu 6 árin vita ekki hvar eða jafnvel hvort þær eiga að mæta í vinnuna eftir þrjár vikur. Þá verður Miðstöð mæðraverndar flutt af Barónsstígnum þar sem hún hefur verið síðan árið 2000 og í gær var tilkynnt að aðstaða sem byrjað var að byggja upp í Mjódd verður ekki notuð í þessum tilgangi. Í staðinn verður byggð upp ný deild á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Guðlaug Einarsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, segir þetta til marks um hringlandahátt í heilbrigðiskerfinu að nú eigi að fara að byggja upp þriðju deildina á rúmum fimm árum og ekki sé hægt að ákveða hvort aðstoð við mæður í áhættumeðgöngu verði innan heilsugæslu eða inni á sjúkrahúsum. Þjónustan var veitt inni á Landspítalanum áður en hún var færð til Heilsugæslunnar árið 2000 og nú sé hún aftur á leið inn á sjúkrahúsið. Guðlaug segir engan draga í efa hæfni eða fagmennsku ljósmæðra á LSH en óvissan sé slæm og nú þurfi að hafa hraðar hendur ef mæður á áhættumeðgöngu eigi ekki að standa uppi úrræðalausar um miðjan nóvember.

Ég er ein af þeim konum sem sækja Miðstöð Mæðraverndar á Barónsstígnum, framtíð mín er óviss ég á næsta tíma 15. nóvember og svo veit ég ekki hvert ég verð send. Það er ótrúlegt að allt got sem gert er fyrir konur eyðilagt.. samanber Fæðingarheimilið og mfs og nú Miðstöð Mæðraverndar. Ljósmóðirin mín er mikilvægur hlekkur í meðgöngukeðjunni minni þar sem ég átti mjög erfiða meðgöngu og fæðingu síðast þá er hún og það öryggisnet sem hún hefur á bakvið sig á Mæðraverndinni svo mikilvægt fyrir mig og mína andlegu og líkamlegu heilsu.. ég er alveg bit yfir þessu og er að hugsa hvað ég get gert til að láta rödd mína heyrast. Er að spá í að skrifa Sif persónulega.

Aðrar frétti: Búin að missa 8 kíló og gubba á hverjum degi.

Flutt!!

Að lokum... bumbubúinn er með typpaling!

mánudagur, október 30, 2006

Strákur eða stelpa.....20 vikna stelpufóstur...
32 vikna strákafóstur!


Tekið er við veðmálum í kommentum þessa bloggs... strákur eða stelpa? Niðurstaða fæst eftir klukkan 15 í dag... rosalega spennó!

föstudagur, október 27, 2006

Tónhjarta


Æðisleg mynd sem ég stal af vefnum, tileinka hana Ingólfi mínum! Óperuleikstjóra og ljósmyndara!!

Það rignir... piove á ítölsku!

Það rignir í Reykjavík.
Það er allt í lagi!
Það var dimmt í morgun á Reykjanesbrautinni.
Það var líka allt í lagi.
Það er kalt á Prikinu.
Það er allt í lagi.

Ég og Ingólfur tölum mikið saman á ítölsku, höfum alltaf gert. Í bílnum í morgun bað Hinrik okkur um að hætta að rífast! Elsku litli drengurinn minn hélt að við værum að rífast því ítalskan er svo hröð og tónninn svo ólíkur íslenskunni! Óþarfi að segja að við vorum ekki að rífast hehehe en ég man eftir því þegar ég kom til Sikileyjar fyrst þá hafði ég staðlaða ímynd úr ítölskum bíómyndum um kellingar að rífast milli svala... komst að því þegar ég kunni loks málið að þær voru ekkert að rífast heldur bara að tala um verð á kaffipakka á markaðnum! Ég hugsa að Hinrik verði fljótur að læra ítölskuna þegar við förum með hann þangað, hann er náttúrulega alin upp við tungumálið og kann nokkur orð... ítalskan verður alltaf tungumál okkar Ingólfs og ég verð að viðurkenna að við erum farin að nota hana svolítið þegar við erum að tala leyndó fyrir framan Hinrik!! En svo tölum við líka um ómerkilega hluti á ítölsku hún er nú einu sinni tungumálið okkar, en við kannski pössum okkur betur á næstunni til að drengurinn haldi ekki að við séum alltaf að rífast! Annars finnst mér best að rífast á íslensku ehheheeh

miðvikudagur, október 25, 2006

Fermingarpeningar og Nick Cave...

Mannlifsskoðun er holl íþrótt er búin að upplifa margt skemmtilegt síðustu daga og annað óskemmtilegt...
Sit núna á kaffihúsi og hingað á næsta borð kom drengur áðan og settist niður með morgunverð sinn, mér fannst ég eitthvað kannast við hann og án þess að reyna að vera að hnýsast varð ég vitni af samtali hans við kunningja sinn þar sem hann var að reyna að díla við hann að nota visakortið sitt til að kaupa miða á Sykurmolana, þar sem hann væri með heimild os frv... "bara fram að mánaðarmótum" mér heyrðist vinurinn ekkert taka voða vel í þetta en heyrði auðvitað ekkert í honum..... það rann svo upp fyrir mér ljós núna að þetta er drengurinn sem leikur í auglýsingunni um yfirdrátt fyrir námsmenn fyrir einhvern bankann... þessi sem reynir að fá lánaða fermingarpeninga bróður síns... hann er kannski ekkert svo mikið að leika í auglýsingunni!!

Í gær þegar ég kom í bæinn sá ég einhvern sem ég kannaðist við úr Sinfó.. Ingólfur benti mér svo á að þar færi Hinn frægi Nick Cave... úps þessir tónlistarmenn eru allir eins!

mánudagur, október 23, 2006

Stutt...

Var gubbulaus í 2 vikur sléttar.... kastaði svo mikið upp á föstudaginn að ég varð óvinnufær það sem eftir var dags...

Fórum í skírn á sunnudaginn, yngsti drengurinn hans Helga og Bryndísar fékk fallega nafnið Kári Freyr.. Hinrik misskildi aðeins "Kirkjuvörðinn" (prestinn) og heyrði Kári Tveir... fannst það svolítið skrítið en búið er að leiðrétta þann misskilning.

Og nú er komin mánudagur aftur. Eftir slétta viku er "stóri sónarinn" og vonandi lætur barnið sjá hvors kyns það er.

föstudagur, október 20, 2006

Pils, húfur og sól

Vikan hefur verið svo yndisleg veðurfarlega séð, þó kuldaboli sé kominn þá er veðrið búið að vera svo ótrúlega fallegt að ferðirnar Reykjanesbrautina hafa verið yndislegar og hafa uppfyllt mig krafti og gleði! Ég hef ekkert kastað upp núna í 2 vikur og finn ég að þreytan sem hefur háð mér alla meðgönguna er á léttu undianhaldi og stundum sit ég bara bein og hress eftir kvöldmatinn!
Barnið vex og dafnar og bumban með. Það vakir mikið á kvöldin og er yndislegt að finna hreyfingarnar, ég byrjaði strax á 16 viku að finna þær og er það mánuði fyrr en með Hinrik. Sem er alveg yndislegt!
Námskeiðið er langt komið og er ég búin að finna aftur gleðina við að kenna. Það er svo gaman þegar við byrjum að skapa og eru stelpurnar allar að koma til. Fyrsta keppnin (af þremur) er í kvöld og verður gaman að sjá hver ber sigur úr bítum.
Pilsapantanir eru farnar að hlaðast inn og nú verð ég að fara að spýta í lófana og framleiða svolítið. Hlakka nú svo til að komast í eigin íbúð og geta skipulagt vinnusvæði og byrjað að sauma eitthvað af ráði. Reyndar eru pantanir á húfum líka að hlaðast upp og verð ég hreinlega að gera eitthvað í þessum saumamálum.
Ég sit núna á Prikinu sem er orðin minn samastaður á morgnana þegar ég kem í miðborgina, í dag er greinilega föstudagur þar sem nú undir hádegi eru unglingarnir farnir að streyma að og kaupa sér bjór!!??
Verð að segja eina skemmtilega sögu af syni mínum svona í lokin. Þeir feðgar voru á heimleið um daginn og benti þá faðirinn syninum á sólina og sagði "Sjáðu Hinrik minn, núna er sólin að setjast"! Hinrik horfði á gula hnöttinn hugsi og sagði svo; "Er þá sólin með rass pabbi?"
Góða helgi

þriðjudagur, október 17, 2006

Metro og Esjan


Hræðilegt lestarslys varð í morgun í Róm. Tvær neðanjarðarlestir skullu saman á milli Termini og Piazza Vittorio. Þetta er lestarleiðin mín og er myndin hér til hliðar tekin við Piazza Vittorio. Ítalskir fjölmiðlar segja að 2 séu látnir og allavega 20 alvarlega slasaðir. Fyrir ári síðan var ég með hóp af íslendingum á þessu svæði, hótelið mitt var við Piazza Vittorio. Við Ingó áttum heima rétt hjá Piazza Vittorio. Hræðilegar fréttir.

Annars er mánudagsdrunginn farinn úr mér. Enda komin þriðjudagur. Sit á Prikinu með minn venjulega espressobolla og sódavatn. Fer að kenna seinni partinn. Esjan er svo falleg í dag svona snævidrifin. Sólin kom upp meðan við keyrðum Reykjanesbrautina og náttúran svo yndislega ósnert.
Hlakka til að takast á við daginn.
Það er góð tilfinning.

mánudagur, október 16, 2006

Raunveruleikinn á mánudegi

Jæja þá er viðburðarríkri helgi lokið og ekki laust við að maður sé svolítið eftir sig eftir tvö afmælisboð, 60 ára afmæli Ármanns og 5 ára afmæli Magneu. En það var virkilega gaman í báðum boðunum og Hinrik auðvitað í essinu sínu með öllum þessum börnum.
Ég hlakka svo til að flytja að það kemst varla annað fyrir í mínum litla huga þessa dagana er ekki enn búin að fá endanlega dagsetningu en geri ráð fyrir að hún sé enn 1. nóvember.
Er enn á fullu að kenna og er það reynsla útaf fyrir sig. Er að reyna að kenna þessum ungu stúlkum að vera frumlegar en það gengur nú alls ekki vel. Þær eru mest í því að herma eftir hvor annarri og mér gengur ekkert að slíta þetta í sundur. Það er eins og allur þeirra frumleiki, ef einhver er, fari í að skipuleggja tónlistar og dansnámið með heimanáminu!! En þetta er nú ekki svo slæmt verð að segja það. Man samt af hverju ég hætti að vinna með unglingum fyrir 9 árum síðan!!!
Veturinn er virkilega komin og fann ég það þegar ég hljóp útí bíl í morgun. Mikið rok var svo á Reykjanesbrautinni og sá ég á einhverju skilti á leiðinni að hitastigið var 1 gráða. Brrrrr.... rennilásinn á úlpunni minni er bilaður og nú verð ég að fara að gera við það og finna góða húfu, og sennilega vettlinga líka. Sem betur fer er Hinrik nú vel búin og getur farið að leika sér úti á leikskólanum í rólegheitunum í hlýjum fötum.
Veturinn bíður svo uppá sjónvarpsgláp... og er nú ótrúlegt hvað er um marga raunveruleikaþætti að velja. Fitubollur, toppmódel, 16 vikna atvinnuviðtöl í ameríku, xfactor í bretlandi, ítalska fræga fólkið á eyðieyju, survivorgengið á annari eyðieyju, ítalskir unglingar í kúrekaleik í Arisóna, brjálaðir kokkanemar í LA, fitubollur í ástralíu og svona mætti lengi telja.. er nú alveg að fá ógeð en fylgist trygg með Toppmódelunum og Læringunum hans Trump, finnst hann svo flottur og klár kall þrátt fyrir hárið! Skemmtilegast fannst mér á föstudaginn að upplifa þátt á Rai Uno. Uppfylling allra drauma. Svo gaman að sjá fátækt fólk fá nýtt hús og ný húsgögn bara af því að þau tóku að sér munaðarlaus börn ættingja sinna! Já það verður nú víst seint tekið af mér að ég er sjónvarpssjúklingur!!!...

fimmtudagur, október 12, 2006

Bloggidíblogg

Ég er mikið búin að vera að skoða hinu ýmsu bloggsíður síðustu daga og hef verið að velta fyrir mér tilgangi þessa bloggs míns... skilst að margir bloggarar gangi í gegnum þessa krísu, ég er nú búin að blogga í 2 ár... byrjaði 15 október 2004 og á bloggið mitt því afmæli á sunnudaginn! Ég hef gert mér grein fyrir því að mitt blogg er ekki mjög pólitískt þó ég sé nú frekar pólitísk manneskja (hef verið að breytast síðustu ár) ég er heldur ekki með margar umdeilanlegar færslur eins og til dæmis gamli vinnufélagi minn Davíð Þór , eða Kastljósmaðurinn Simmi sem skrifar ótrúlega fyndnar færslur og persónulegar. En ég skrifa til að fá útrás, skrifa fyrir vini og kunningja og svo nýlega til að fá viðbrögð við væntanlegri skáldsögu sem ég er að föndra við á meðgöngunni. Áður þurfti ég að passa hvað ég segði því ég var starfsmaður Óperunnar en núna þegar ég er hætt þar þá gæti ég svo sem farið að skrifa gagnrýni á óperuna og hvað mér finnst um hana... og það gæti orðið spennandi í framtíðinni. En ég veit ekki hvað ég á að gera með þetta blogg á næstu mánuðum, mér finnst gaman að skrifa svona einstaka hluti um mig og mína fjölskyldu, það sem ég er að föndra og það sem mér finnst spennandi. Ég skrifa til að leyfa fólki að fylgjast með, gamlir vinnufélagar og vinir sem voru hluti af mínu daglega lífi fylgjast með og ég með þeim, eins og Arnar og Villi . Hvað finnst ykkur? Finnst ykkur að ég ætti að fara að vera pólitískari og meira gagnrýnin í mínu bloggi eða er þetta bara fínt eins og þetta er?

mánudagur, október 09, 2006

Afmæliskakan og veislan

Leiftur MacQueen kakan sem ég bakaði fyrir Hinrik !
Hluti af veisluborðinu
Það var rosalega gaman í afmælinu og sérstaklega gaman fyrir okkur að fá loksins að halda uppá afmælið í svona stóru húsnæði. Fullorðna fólkið gat verið algerlega útaf fyrir sig meðan börnin léku sér.
Hinrik var svo glaður og ánægður og fékk fullt af fallegum gjöfum.
Hann spurði strax um kvöldið hvernig við myndum hafa 5 ára afmælið og hvort við gætum ekki bara haldið uppá það fljótlega. Það er svo ótrúlegt þegar börnin okkar eru að vaxa hvað hvert ár skiptir máli í þroska!
Til ykkar sem mættuð! Takk fyrir drenginn og okkur.

föstudagur, október 06, 2006

Brjál. bakst.. framhald

...túnfisksalat, rækjusalat, pastasalat, 2 heitir réttir... allt tilbúið. Ingó bakar brauð í kvöld og svo bætast einhverjar kökur við. Partíspjótin verða gerð í fyrramálið. Nú er klukkan rúmlega þrjú og ég gjörsamlega búin á því... hugsa að ég leggi mig í smá stund til að hafa orku í kvöldið!

Brjálaður bakstur

Skúffukaka og 80 muffins komin úr ofninum, 12 egg í pottinum að soðna í salatið... rautt, blátt og brúnt krem í ísskápnum... brjálaður bakstur í gangi fyrir afmælisdrenginn minn!

þriðjudagur, október 03, 2006

Afmælisdrengurinn minnHinrik Leonard er 4. ára í dag! Hann vaknaði hress og kátur og fékk strax pakka frá okkur foreldrunum, talandi Leiftur MacQueen og fjarstýrðan Krók. Ferskt dót frá Ameríku! Hann lék sér í allan morgun og fór svo í leikskólann í nýja pollagallanum frá Ömmu og Afa í Njarðvík. Ætlum að halda uppá afmælið á laugardaginn og þá verður sko mikið fjör!

Fyrir fjórum árum vorum við Ingólfur í miklum ham á fæðingardeildinni og gleymi ég því aldrei þegar ég fékk litla ljóshærða hnoðrann minn í fangið!

föstudagur, september 29, 2006

Hildur og Hinrik Leonard

Hinrik tók uppá því að klæða sig upp í búning í kvöld. Hann setti á sig buffið hans pabba síns og tróð sokkum og nærbuxum inná sig til að vera með bumbu eins og mamma sín. Ég í nýja dressinu mínu og skónum sem Ingólfur gaf mér í brúðkaupsafmælisgjöf en 29. september erum við búin að vera gift í 5 ár! Mér finnst bumban á mér orðin ansi stór miðað við að ég er bara komin 16 vikur á leið en svona er þetta víst!

föstudagur, september 22, 2006

Námskeið, barn nr 2 og fjórði kafli

Jæja gott fólk. Þá er ég búin að taka ákvörðum um skáldsöguna mína, ég ætla ekki að birta meira í bili hér þar sem ég er nú búin að skrifa fjórða kafla og ætla að byrja að vinna svolítið betur í sögunni, þetta var svona tíser sem ég setti inn til að athuga viðbrögðin og verð ég að segja að ég er mjög ánægð með þau. Ég er nú búin að skrifa þessa sögu á stuttum tíma sitjandi við borð á kaffihúsum bæjarins og langar nú að gera þetta af svolítilli alvöru, jafnvel með það í huga að gefa hana út einhverntíma.

Annars er allt fínt að frétta af mér og mínum. Flutingar í Hafnarfjörð standa fyrir dyrum og verður nú gott að hætta þessum ferðalögum úr Njarðvík í Reykjavík kvölds og morgna. Barnið dafnar vel í bumbunni, er samt búin að vera í rannsóknum vegna of margra hvítra blóðkorna og komin á pensillín sem vonandi slær á þá þreytu sem hefur þjáð mig síðustu vikur. Væntanlegur fæðingardagur er 19. mars 2007 sem þýðir að barnið mun fæðast nokkrum dögum fyrr því ég fer beint í keisara.
Hinrik orðin mjög spenntur og talar alltaf um systur sína en það mun koma í ljós 30. október hvort kynið er og ég mun tilkynna það hér því við ætlum að fá að vita það!

Ég er að byrja að vinna í Hafnarfirði í næstu viku. Ætla að vera með námskeið í hönnun í félagsmiðstöð og hlakka mikið til!

Live long and prosper

mánudagur, september 04, 2006

Mikið að gerast

Nú er þriðji kaflinn komin á netið. Ég hef haft lítinn tíma uppá síðkastið til að skrifa en fann smá smugu í dag.

Helgi og Bryndís eru komin með þriðja soninn! Fæddist á mánudaginn fyrir viku 28. ágúst. Sléttur og yndislega fallegur drengur. Kannski fæ ég einhverntíma leyfi til að setja mynd af honum hér inn!

Varðandi skáldsöguna þá fékk ég nokkur komment um það að þetta væri lítil skáldsaga þar sem fyrsti kafli er byggður á sannsögulegum atburðum en vil ég nú endilega ítreka það að sagan sem ég er að semja núna og birtist hér í köflum er algerlega skálduð þó að sum atriði séu sannsöguleg, Hanna á það eitt sameiginlegt með mér að hafa farið til ítalíu í nám og reyndar að nafnið hennar byrjar á H... thats it. Vona að þið njótið og endilega haldið áfram að kommentera þar sem þau halda mér gangandi og við efnið!

Ótitluð skáldsaga þriðji kafli.

3. kafli.

Klukkan 5.30 hringdi dyrabjallan... ég rumskaði, hafði ekki sofnað fyrr en klukkan 4. og var alls ekki til í að fara að taka á móti Demetrio. Bjallan hringdi og hringdi. Ég skreiddist að dyrasímanum og hleypti honum inn, hafði ekki einu sinni fyrir því að segja eitthvað í dyrasímann. Maðurinn náttúrulega búin að eyða nóttinni í lestinni, ég varð að hleypa honum inn. Opnaði svo hurðina, skreiddist aftur inn í herbergi og klæddi mig í náttfötin vildi ekki senda Demetrio einhver skilaboð með því að vera nakinn í rúminu,. Ég heyrði hurðina lokast. Ég ákvað að loka augunum og vonaði að hann myndi bara leggjast við hliðina á mér og sofna. Hafði eytt megninu af andvökunóttinni í að hugsa um hvernig ég ætti að koma mér út úr þessu. En hafði ekki enn fundið neina lausn. Ég var búin að segja honum að ég vildi hann ekki, að ég vildi hætta með honum en var ekki alveg viss hvernig ég myndi bregðast við ef hann færi eitthvað að reyna að sofa hjá mér. Það var auðvitað voðagott að sofa hjá honum og það hafði ekkert að gera með tilfinningarnar mínar gagnvart honum. Gat svosem lokað augunum og látið sem hann væri einhver annar.. var náttúrulega í æfingu með það síðan ég var með Alberto...
“Hanna ég vissi að þú myndir sjá að þér, ég er komin og ætla aldrei að fara frá þér aftur.”
Rödd Alberto skarst inn í vitund mína...
“Alberto....? Hvað í andskotanum ertu að gera hér?” Hann lá nakinn við hliðina á mér... búin að raka af sér skeggið og allt hárið og reyndar öll önnur líkamshár.
“Drullaðu þér út, núna, ég vil þig ekki, ALDREI!” Ég fann hvernig tryllingurinn magnaðist upp í mér. Ég var ekki alveg að höndla situasjónina.
“Já en þú hleyptir mér inn, þú elskar mig enn.. þú veist það!”
Ég vissi ekki hvað ég átti að gera, Mauri ekki heima, og Alberto nakinn í rúminu mínu. Ég skutlaðist upp úr rúminu og hljóp fram. Berti þorði ekki á eftir mér, hélt auðvitað að Mauri væri heima og vildi ekki láta koma að sér nöktum frammi. Reyndar skrítið að hann skildi yfirleitt afklæða sig, hafði held ég aldrei séð hann nakinn, hann var alltaf í sokkunum þegar við sváfum saman!
Bjallan hringdi aftur. Fokk!!! í öllu panikkinu var ég búin að gleyma Demetrio! Skelfingin hríslaðist um mig og áður en ég vissi af var ég búin að hleypa honum inn og loka mig inná klósetti. Ég lá á hurðinni, vantaði bara glas til að leggja á hurðina til að heyra betur! Heyrði hurðina opnast og einhvern koma inn. Sekúndurnar liðu hægt. Ég var að tapa mér þegar ég heyrði öskur og stympingar.
“Hver ert þú? Hvar er Hanna?”
Ég opnaði hurðina hægt og sá Alberto standa vafin í lakið skelfingu lostinn. Rósablöð voru á víð og dreif í kringum hann. Demetrio hafði greinilega lamið hann með blómvendi sem var greinilega ætlaður mér.
Ég sá bara í bakið á honum. Nú yrðu einhver læti, því Demetrio var ekki skapprúður maður.
“Hver ert þú?” Heyrði ég hann segja, ég passaði mig að hafa nógu litla rifu á hurðinni þannig að ég sæi þá en þeir ekki mig.
“Ég er Alberto...”
“Ert þú Berti Skerti?” Demetrio hló! “Þú ert ljótari en ég hélt”
Ég vissi ekki hvað ég átti að halda!? Það að Demetrio skildi hlæja sýndi að hann hafði greinilega það mikið sjálfsálit að hann trúði ekki að ég hefði verið að halda framhjá honum... en að Berti skildi vera nakinn í rúminu mínu bauð ekki uppá aðra möguleika en að hann hefði sofið hér í nótt.
Berti titraði... “Hver ert þú?
“Ég er kærastinn... Hver ert þú?
“Ég er kærastinn!” Svaraði Berti.. Ég er búin að vera með Hönnu í marga mánuði, ég elska hana, hún vill mig..”
“Svafstu hérna í nótt?”
“Nei ég var að koma en Hanna elskar mig ég veit það”
Ég stóð enn bakvið klósetthurðina, var að spá hvort ég ætti nokkuð að blanda mér í þetta. Mikið væri nú gott ef að þeir ákvæðu að fara saman á kaffihús til að ræða um mig, og þá myndi ég kannski geta haldið áfram að sofa og losnað við þá báða! Það var óskhyggja, auðvitað.
“Og hvar er hún?” Spurði Demetrio, og eitthvað virtist vera að þykkna upp í honum.
“Hún var hérna rétt áðan. Hlýtur að vera að koma. Ég verð að fá að klæða mig!”
“Af hverju ertu nakin?”
Berti byrjaði að klæða sig eins og hálfviti, inní lakinu.
Demetrio reif af honum lakið og skellihló.
“Hanna!!” Berti öskraði yfir sig og ég vissi að ég gæti ekki lengur falið mig inni á klósetti.
Svo gerðist það, Demetrio ýtti Berta út úr herberginu, hann var bara komin í bolinn sinn. Ég horfði á eftir þeim fram á gang og hætti mér þá út af klósettinu, Demetrio opnaði hurðina og henti Berta út. Hann var enn bara á bolnum, stuttum hlýrabol með götum, eineygði vinurinn gapti við okkur, aleinn og umkomulaus á rökuðum pungnum.
“Hanna....?!?” Berti horfði á mig brostnum augum. Og Demetrio skellti á nefið á honum, eða frekar tillann!
Ég hló, og hló og hló... fékk móðursýkiskast og hló enn meira. Demetrio hló ekki.
“Hanna hvað er í gangi?”
“Demetrio, hvað ert þú að gera hér? Ég var búin að biðja þig um að koma ekki”
“Hanna mín, ég elska þig þú veist það og þú elskar mig og þú hefur ekkert með það að vilja hætta með mér núna. Sérðu ekki hvernig ég lít út!? Þú getur ekki verið annað en ástfangin af mér þú veist það. Viltu svona rakaðan hamstur eins og Berta?? Nei, þú elskar mig og þannig er það. Komdu uppí rúm og við skulum tala saman!”
Talandi um veruleikafyrringu, ég vissi ekki hvað ég átti að segja eða gera. Bjallan byrjaði að hringja, og hringja. Berti byrjaði svo að kalla:
“Nærbuxurnar Hanna, gerðu það láttu mig allavega fá nærbuxurnar!” Ég rankaði við mér og fór inní herbergi safnaði saman fötunum og henti þeim fram af svölunum.
“Fötin þín eru á götunni Berti, taktu þau og farðu og KOMDU ALDREI AFTUR!”
Ég heyrði Berta fara inn í lyftuna og langaði ekki einu sinni til að horfa fram af svölunum til að sjá hann hálf nakinn reyna að safna saman fötunum.
Ég settist á rúmið mitt og Demetrio settist við hliðina á mér. Ég virti hann fyrir mér, hann var eins og grískur Guð.. eða betra Rómverskur Guð. Vöðvastæltur með sítt hár. Ég sá bara ekki fegurðina, heldur bara barnalegan ungan dreng sem ég vildi ekki lengur vera með.
“Demetrio, ég vil ekki lengur vera með þér, við erum búin að eiga góðar stundir en ég vil ekki lengur vera kærastan þín.” Mig langaði mest að segja klisjuna; Þetta er ég ekki þú, en fann það ekki í mér.
“Má ég sofna og fara með lestinni seinni partinn?”
“Allt í lagi! Farðu að sofa”
Ég lokaði hurðinni á eftir mér og fór inn í eldhús til að hella mér uppá kaffi. Settist við eldhúsborðið og byrjaði að hugsa. Hvernig í ósköpunum hafði mér tekist að koma mér í þessa aðstöðu! Hugurinn bar mig aftur um tvö ár. Vorkvöld í Reykjavík við bláan tölvuskjá.......

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Ótitluð skáldsaga 2. kafli.

Kafli 2.

Mars leið áfram í rólegheitum og alltaf hitnaði í veðri. Kirsuberjatrén voru farin að blómsta og fallegi bleiki liturinn skreytti garða borgarinnar. Torino hafði aldrei verið nein draumaborg í mínum huga en eftir tveggja ára dvöl vann hún á. Torino var fyrsta höfuðborg Ítalíu og var sú skipulagðasta sem ég hafði komið í. Hún var kassalaga og auðvelt að rata í henni. Hún var falleg og blómleg á sumrin en afskaplega svört á veturnar, enda talið að ein af sjö hurðum helvítis væri undir borginni. Torino er í Piemonte héraði, málískan sem töluð er þar var blönduð frönsku enda stutt yfir til Frakklands. Vinir mínir voru flestir “innflytjendur” frá öðrum borgum Ítalíu. Flestir fyrrverandi eyjarskeggjar, eða önnur kynslóð eyjarskeggja frá Sikiley eða Sardiníu. Mauri var frá Sardiníu, sem útskýrði hæðina á honum, sardiníubúar voru flestir stuttir í annan endann. Berti Skerti var innfæddur piemontese, “falso cortese” eða falsk kurteis. Máltæki sem ég var farin að trúa. Amma hans bjó á heimilinu, komin yfir nírætt og ótrúlega tvöföld. Hún gekk um götur bæjarins og úthúðaði dóttur sinni, móður Berta, og allri fjölskyldunni. Hún gekk um betlandi því dóttir hennar tók af henni allan ellilífeyrinn, gaf henni aldrei að borða og beitti hana líkamlegu ofbeldi! Ég heyrði einu sinni til hennar á markaðnum og ég trúði ekki eigin eyrum. Auðvitað var allt þetta lygi. Föðurbróðir Berta bjó líka hjá fjölskyldunni, hann var tannlaus alkóhólisti! Alveg satt, hann fékk skammtað einni fernu af rauðvíni á dag og réð hvenær hann drakk það. Náði að dreyfa þessum lítra yfir daginn. Hann betlaði líka og ræddi um ofbeldið sem hann varð fyrir heima á götum bæjarins, þar til honum var bannað að fara út. Enda átti hann erfitt með gang eftir óteljandi beinbrot sem hann hafði hlotið á fylleríum sínum. SÁÁ þekktist ekki í Piemonte og alkóhólisti eins og föðurbróðir Berta var bara kross sem fjölskyldan þurfti að bera.
Þessar minningar flugu um huga minn því nú var þessum kafla lífs míns lokið, vonandi allavegana. Berti hafði alveg látið mig vera eftir email gíslinguna en ég beið samt. Vissi að auðvitað myndi hann hafa aftur samband, væri sennilega að hugsa hvernig hann gæti náð sér niður á mér.
Skólinn gekk vel, en eftir tvö ár í Torínó var Róm farin að kalla í mig. Skólinn var með útibú í Róm og þangað hafði ég hugsað mér að fara og klára þriðja og síðasta árið. Ég myndi flyja í júlí þegar skólaárið var búið.
Nýji kærastinn Demetrio var farin að standa svolítið í mér. Hafði þjónað ágætlega sínum tilgangi meðan ég var að koma mér út úr Berta ruglinu. En ég var bara alls ekki nógu hrifin af honum. Hann var típískur choco gæi, grannur með sítt hár og grannar mjaðmir. Hann var tveimur árum yngri en ég en tíu árum óþroskaðri! Hann bjó hjá mömmu og pabba, hvað annað, í Róm. 700 km fjarlægð hentaði vel því þá þurfti ég ekkert að hitta hann of mikið. Hann átti það samt til að birtast hjá mér eldsnemma á morgnanna. Dingla á bjöllunni klukkan sjö ferskur úr næturlestinni. Detta dauðþreyttur niður þegar hann kom inn og sofa meðan ég var í skólanum, hitta mig svo í nokkra klukkutíma og taka svo næturlestina heim. Nennti þessu ekki alveg lengur!
Síðast þegar ég hafði farið til Rómar hafði ég hitt fjölskylduna hans. Mamma hans var hnellinn rauðhærð kella frá Sikiley. Hann og bróðir hans deildu herbergi sem var í raun og veru stofan í íbúðinni sem foreldrar hans höfðu fengið í brúðargjöf. Amman bjó í sjónvarpsherberginu og stóra systir hans gift og flutt að heiman til að þurfa ekki að deila herbergi með bræðrum sínum eða ömmunni. Demertrio hafði boðist gott starf í súpermarkaði í Milanó. Hann íhugaði lengi að taka því starfi en hætti svo við. Þar sem mamma hans var ekki til í að flytja með honum! Ég meina hver átti eiginlega að hugsa um greyið drenginn þegar hann kæmi heim úr vinnunni. Elda ofan í hann og þvo af honum! Þegar mamma hans sagði mér þessa sögu vissi ég ekki hvort ég ætti að hlægja eða gráta. Og nú var ég búin að ákveða það. Spennan var búin og nú fór hann bara í taugarnar á mér. Ég myndi hringja í hann í kvöld og segja honum upp.
Pressan var orðin mikil í skólanum. Við vorum bara 6. í bekknum og ég hafði komist inn sem ítali, talaði ítölskuna það vel að ég hafði flogið í gegnum stöðuprófið. Munaði heilmiklu í skólagjöldum en var erfiðara vegna krafanna sem voru gerðar í hinum ýmsu bóklegu fögum. Ég var að læra fatahönnun, hafði komið inn í skólann án þess að kunna að teikna. Var orðin helvíti fær eftir tvö ár. En bóklegu fögin voru sum svo leiðinleg. Torino er iðnaðarborg og því áhersla lögð á verksmiðjuframleiðslu í skólanum. Ekki mín sterkasta hlið að læra um framleiðslu efna á tæknimáli. Auðvitað mjög skemmtilegt en hönnun bílaáklæða var ekki á mínu áhugasviði. Torino er heimaborg Fiat og því mikil áhersla lögð á þá iðn. Mauri var einmitt bílahönnuður hjá Fiat. Hafði útskrifast úr skólanum mínum ári áður. Var strax komin í góða stöðu og farinn að hala inn pening. Skólinn í Róm var eitthvað sem mér fannst meira spennandi en minn. Þar var áherslan lögð á hátísku, og hátíska var svo mikil listrgrein engin fjöldaframleiðsla þar!

Þegar ég kom heim ákvað ég að elda mér eitthvað og hringja svo í Demetrio. Pasta með ragú varð fyrir valinu þar sem auðvelt var að sjóða pasta og opna ragú dósina. Eftir matinn settist ég niður með símann.
“Demetrio...”
“Halló ástin mín ein... ég er að koma til þín á morgun..”
“Ekki koma...” svaraði ég...
“Hvað viltu ekki hitta mig?”
“ Það er ekki það,”
“Nú hvað?” Tónninn í röddinni hans var búin að breytast...
“Ég held að þetta sé búið hjá okkur Demetrio! Búið að vera fínt hjá okkur en núna held ég að það sé bara best að við hættum þessu..”
“Ég vil ekkert hætta þessu, láttu ekki svona við ræðum þetta á morgun.” Mér leið eins og óþekkum krakka sem vildi ekki fara að sofa!
“Nei, Demi þetta er búið ég er ekki skotin í þér lengur”
“Hættu þessu Hanna mín, þú ert bara stressuð út af skólanum, við ræðum þetta á morgun ég er að fara í lestina klukkan 12.”
“Vertu ekki að eyða peningum í lestarferðina, ég vil ekki vera kærastan þín lengur og...” hann greip framm í fyrir mér;
“Hanna mín þú ert svo stressuð útaf prófunum, þú ert ekki með sjálfri þér ég er að koma.”
“Ekki koma....”
“Hættu þessu stressi Hanna þú elskar mig”
“Ekki koma!”
“Bless hjartað mitt sjáumst í fyrramálið”
“Ég verð ekki heima...”
Du du du du

Shitt, þetta ætlaði ekki að verða auðvelt! Hafði aldrei lent í þessu áður, maðurinn neitaði að hætta með mér! Ég þurfti ekki að fara í skólann á morgun, en ég vildi alls ekki vera eitthvað að taka á móti honum klukkan sjö í fyrramálið! Díses, prófin voru ekki fyrr en eftir tvo mánuði og hann talandi um stress.
Bjallan hringdi og ég hrökk við. Ekki alveg með taugarnar í lagi eftir þetta símtal. Flaug í hug að Demetrio væri komin, en hló með sjálfri mér því auðvitað var ekki möguleiki að hann gæti verið komin 700 kílómetra leið!
“Halló...?!”
“Hanna..” ég fraus, röddinn í Berta skar inní heilann á mér.
“Hún er ekki heima..”
“Ég veit þetta ert þú, ég sakna þín svo mikið, ég kom með peningana til að láta þig fá þá aftur, Hanna ég elska þig og veit þú elskar mig, sofðu hjá mér og allt verður gott aftur. Hanna...Hanna...?”
Ég skellti dyrasímanum niður og pakkaði mér inn í lakið mitt. Hvað í andskotanum var að þessum helvítis ítölum? Ég hafði bara átt tvo kærasta og þeir neituðu báðir að hætta með mér!

Í þetta skiptið var Berti niðri á bjöllunni í 50. mínútur, Mauri var í viðskiptaferð og ég ein heima. Sem betur fer hleypti enginn honum inn í bygginguna. Ég sofnaði óróleg. HVAÐ Í ÓSKÖPUNUM MYNDI GERAST Á MORGUN?
Takk innilega fyrir kommentin á skáldsöguna. Ég mun birta næsta kafla á næstu dögum en verð að segja að þetta var bara fyrsta tilraun og á þetta eflaust eftir að þróast svolítið á næstu vikum, sennilega á ég eftir að skrifa upp fyrsta kaflann og bæta kannski svolítið inn en ég mun birta framhaldið um leið og það verður tilbúið. Það er búið að vera heilmikið að gerast í litla lífinu okkar og vil leggja fram smá myndefni hérna sem tilvísun í breytingarnar sem eru framundan í lífi okkar.


Nú sit ég á Sólon og bíð eftir Margréti sem ætlar að borða með mér.

föstudagur, ágúst 18, 2006

Ótitluð skáldsaga, fyrsti kafli

Ég var búin að búa hérna í 2. ár. Það var svolítið skrítið til þess að hugsa að á þessum tveimur árum var ég aldrei búin að fara heim. Mig langaði oft heim en ekki það mikið að ég hringdi í bankann til að fá hækkaðan yfirdráttinn. Það var svo rosalega dýrt að fljúga til Íslands frá Ítalíu, ekkert beint flug.
Vor í lofti, samt bara byrjun mars. Sumarið yrði komið eftir tvo mánuði með öllum sínum hita.
Á leiðinni í skólann leit ég upp, hafði lært það þegar ég var skiptinemi 10 árum áður, merkilegt hvað maður sá umhverfið í öðru ljósi bara með því að líta upp. Skoða fallegu byggingarnar, sótið, listaverkin utan á húsunum, þvottinn og blómapottana. Ég var á leið í skólann, þar voru vinir mínir. Giada 21. árs unglingur með mikla hæfileika, Chiara fordekruð dýralæknisdóttir, Saleti 30. brasilísk læknisfrú að leika sér með peninga mannsins síns. Og Andrea yndislegur samkynhneigður þræll tískunnar. Stundum fílaði ég mig eins og miðaldra konu í skólanum en það var nú sennilega bara reynslan sem íslenskur raunveruleiki bauð uppá. Ítalir hafa ekki sumarvinnu, ég byrjaði að vinna 10. ára. Á ítalíu er það barnaþrælkun. Ítalir fluttu líka aldrei að heiman. Ekki fyrr en mamma og pabbi voru búnir að kaupa handa þeim íbúð og þeir að gifta sig. Oft fluttu þeir ekki saman fyrr en daginn eftir brúðkaupið.. klikkun fannst mér.

Síminn minn hringdi, nafnið Alberto blikkaði á skjánum, ég fann smá skelfingarhroll hríslast um mig, var enn í viðjum geðveikinnar fann ég. Berti skerti... ætti ég að svara, vissi svo sem hvað hann vildi. Vildi fá mig aftur. Tveimur árum áður hafði ég kynnst Berta skerta á netinu. Sennilega var það ástsýkin í mér sem fékk mig til að lita við honum tvisvar. Hann kom til íslands og ég ákvað að gefa honum séns... hefði betur ekki gert það því eftir eitt ár í sambandi við hann var ég orðin gjörsamlega búin andlega. Hannv ar einkasonur, fordekraður geðsjúklingur, í dag var hann með hálfrakaðann haus og hálft skegg. Alveg satt, vinstra megin var hár og hægra megin var skalli. Hægramegin var skegg og vinstra megin ekkert. Eins og teiknimyndafígúra. Lýsti honum náttúrulega vel. Þegar ég hætti með honum byrjaði ég með öðrum sem var í hæfilegri fjarlægð. Var ekki ástfangin af honum en fann að það var eina leiðin til að slíta mig úr geðveikinni. Ég leigði af foreldrum Berta og hann vildi að ég færi. Ég vildi það og við undirbúninginn kom tilboð frá Berta, ég mætti halda áfram að leigja þessa íbúð, ef að ég myndi bara totta hann einu sinni í viku, á laugardögum! Mætti alveg eiga kærastann áfram ef að ég bara tottaði hann. Og núna var hann að hringja í mig til að rukka mig fyrir gjafirnar sem hann var búin að gefa mér síðusta árið. Hálsmen, eyrnalokkar, gerfipels, úr og farsíma og svo eitthvað fleira smálegt. 50.000.- íslenskar. Ég var að spá í að borga honum, það væri sennilega best til að losna við hann,
“Halló...”
“Hvar eru peningarnir mínir” rödd hans hljómaði eins og í leigumorðingja,
“Ég er með þá, komdu klukkan 19. í kvöld” sagði ég og fann hvernig röddin mín titraði. Ég skellti svo á. Ok, 4 tímar í skólanum, svo heim og undibúa mig fyrir geðsjúklinginn, afhenda peningana og fá hann út úr lífi mínu fyrir fullt og allt.

Salete tók á móti mér þegar ég kom í skólann. Hún var hálfföl, það var ekki fitututla utan á henni en samt var hún með fitukomplexa.
“Er allt í lagi með þig” spurði ég og horfði á hana spurnaraugum.
“Jújú, svaraði hún, ég er bara þreytt eftir nóttina, var á klósettinu í alla nótt.
“Nú spurði ég, ertu lasin?”
“Nei þetta eru nýju megrunarpillurnar, þær skilja fituna frá matnum og nú rennur bara fita úr rassinum á mér..!”
“Ha?”
“Ég er með dömubindi, þarf að skipta á klukkutíma fresti.. þetta er svakaleg vont, hefði ekki átt að taka svona margar!” Maðurinn hennar Salete, Mario, var tannlæknir, hann gat skrifað út reseft og hafði strax skrifað út fyrir þessum nýju pillum frá Ameríku, Saleta hélt áfram “Ég fór á næturklúbb í gær, og þegar ég var að dansa tók fann ég að eitthvað rann niður löppina á mér, ég var ekki í nærbuxum, kjóllinn var svo þröngur, ég hljóp á klósettið og sá þá að þetta var fita og hún var komin í kjólinn minn, rauðleit eins og ég væri með túrblett á rassinum. Ég fór heim”
Þetta kom mér ekkert á óvart, Salete var ótrúleg, og hennar vinkonur. Fyrstu og einu brjóstin sem ég hafði komið við voru bjóst Önu vinkonu hennar, 5 dögum eftir aðgerð. Voða þrýstin og fín en kannski ekki alveg eitthvað sem manni langar til að snerta sem gagnkynhneigð ung kona! Kannski var það af því að hún var frá Brasilíu en fyrir henni var ekkert mál að fara í lýtaaðgerðir og útlitið skipti öllu máli. Salete var smá skökk til augnanna, það var af því að hún hafði farið í aðgerð til að láta lyfta augunum þegar hún var 22. ára. Hún fór til flottasta lýtalæknis í Sao Paolo en þar sem hún var ekki “celebrity” lét hann nema framkvæma aðgerðina. Það mistókst smá. Sást ekkert voðamikið en samt svolítið. Núna var Mario að vinna að skiptivinnudíl við vin sinn lýtalækni, sem samanstóð af því að hann myndi gera við tennurnar í fjölskyldunni meðan lýtalæknirinn lappaði uppá Salete. Nota Bene, Salete var bara 28. ára.

Þegar skóladagurinn var búin flýtti ég mér heim til að taka á móti Berta skerta, ég var með 30.000 íslenskar í vasanum og ætlaði að láta hann fá þá og vonandi yrði málið dautt. Það var nóg fyrir símanum og smá auka, ég ætlaði ekki að borga fyrir afmælis og jólagjöf!
Ég fór í snögga sturtu, varð að flýta mér og nota bara sjampó þvi vatnið dugaði ekki til að nota hárnæringu líka. Ég fékk mér einn bjór og fór að teikna fyrir skólann. Þegar bjallann hringdi hrökk ég við og skemmdi teikninguna. Hvar var Mauri, meðleigjandinn minn? Hann hafði lofað að vera komin heim.
Ég gekk að dyrasímanum og svaraði.
“Hæ þetta er Alberto..”
“Ok ég kem niður” svaraði ég og hlustaði ekki á mótmælin. Ég skellti mér í lyftuna og dró djúpt andann. Fyrir framan blokkina mína stóð Berti, klæddur í hræðilega Hawai skyrtu sem mamma hans hafði örugglega keypt á hann á markaðnum, hann var fáránlegri en nokkurntíma fyrr en hvernig var annað hægt. Mamma hans tók til fötin hans á kvöldin, það sem hann átti að klæða sig í daginn eftir! Mitt hlutverk átti að vera það, og að skræla ofan í hann ávextina við matarborðið!
Ég horfði beint í augun á honum og sagði:
“Hér eru peningarnir og farðu úr mínu lífi að eilífu...”
“Hanna, þú veist að við getum haft þetta öðruvísi..!”
“Hvað meinarðu?” Svaraði ég og fann hvað ég var virkilega búin að fá nóg. Ég sá fyrir mér mömmu hans grátandi að biðja mig um að halda áfram með honum, sá fyrir mér öll þau skipti sem hann hafði reynt að múta mér til að halda áfram að vera með honum, ég meina hann rukkaði mig leigu 3000 kall á mánuði fyrir að nota tölvuna hans sem hann var hættur að nota og hefði annars hent!
“Þú þarft ekki að hitta mig nema einu sinni í viku og sofa hjá mér þá þarftu ekki að borga peningana og við getum verið vinir!”
“Sofa hjá þér, Alberto! Ég þoli þig ekki, þú ert fáránlegur og hér hefurðu peningana og farðu...” Ég fann hvernig ég titraði þegar ég henti seðlunum í hann, og fann hvernig bjórinn fór að virka. Peningarnir féllu ljúflega til jarðar, verst kannski að það var alveg logn, annars hefði ég notið þess að horfa á hann reyna að safna þeim saman.
Ég snéri mér snögglega við og strunsaði að hurðinni, ég fann hvernig hjartað í mér barðist og svitinn spratt fram. Ég var svolítið hrædd um að hann myndi elta mig og jafnvel lemja mig.. ég náði með erfiðleikum að stinga lyklinum í skránna og loka á eftir mér. Ég andaði ekki fyrr en ég kom í lyftuna. Ég fann að tárin voru að spretta fram en náði að halda í mér uppá fimmtu hæð. Þegar ég kom inn brotnaði ég niður, og dyrabjallan byrjaði að hringja.
Og hringja og hringja. Það var hann, brjálaður, ég fór útá svalir og sá hann speglast í glugganum á neðstu hæðinni á byggingunni á móti. Ég heyrði líka í honum öskra að þetta væru ekki allir peningarnir. Eftir 30. minútur hætti hann og fór. Og 10. mínútum seinna kom Mauri glaður heim. Hann kom beint inn í herbergi til mín og ég horfði á hann uppgötva hverju hann hafði gleymt!
“Fyrirgefðu Hanna mín, ég var alveg búin að gleyma Skerta.” Hann tók utanum mig og bauð mér út að borða. Það var gott því ég átti engan pening!
Hann fór með mig á pizzastað þar sem allar pizzur fyrir kvenfólkið voru hjartalaga! Mauri var yndislegur vinur. Hann var 3. árum yngri en ég. Nýbyrjaður með Rosu sem var 1.46 á hæð, sem passaði vel við Mauri því hann var bara 1.53! Ég var risavaxin miðað við hann en samt bara 1.67. Ég klappaði honum stundum á hausinn svona til að stríða honum.

Klukkan var orðin 12. þegar við komum heim. Ég bauð góða nótt og fór til að athuga hvort ég hefði fengið einhvern email. Ég komst ekki í pósthólfið mitt, sem var skrítið, skilaboð birtust á skjánum sem sögðu að ég væri ekki með rétt lykilorð!? ostur, lykilorðið mitt var ostur, allsstaðar, pósturinn minn, spjallforritið, alltaf ostur. Ég svitnaði, Berti vissi lykilorðið mitt, af hverju var ég ekki búin að breyta því! Asni hugsaði ég og þá heyrðist pípið sem sagði mér að ég væri að fá skilaboð í gemsann. Ég skoðaði skilaboðin:
“ÉG HEF TEKIÐ EMAILINN ÞINN Í GÍSLINGU, BORGAÐU 20.000 INNÁ REIKNINGINN MINN, OG ostur VERÐUR AFTUR LYKILORÐIÐ ÞITT!”
Svar: “FARÐU Í RASSGAT OG TAKTU EMAILINN MINN MEÐ ÞÉR”

Skáldsaga

Ég byrjaði að skrifa skáldsögu í gær. Sat á Sólon og skrifaði þar til tölvan varð batteríslaus. Mér finnst það rosalega gaman. Ég hef alltaf verið mikill lestrarhestur og hefur oft langað til að skrifa skáldsögu. Núna hef ég smá tíma. Er að íhuga að setja hana hérna inn svona til að fá smá viðbrögð kannski frá vinum mínum. Hvað segið þið um það?

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Magni og Hálvitarnir

Ég horfði á Rockstar supernova í gærkveldi og sá þegar Magni lenti í neðstu þremur sætunum. Mér finnst Magni vera frábær, fannst hann líka frábær með Á móti sól, hef kannski þurft að skammast mín svolítið fyrir það því það er náttúrulega ekki kúl að vera 35. ára móðir sem finnst gaman að heyra popphljómsveit í útvarpinu en svona er það bara. Ég var svolítið miður mín að hann skildi vera í neðstu sætunum en held að það séu margir íslendingar sem ekki vaka til að kjósa þar sem fólk er byrjað að vinna eftir sumarfrí. Ég kaus hann nokkrum sinnum en ekki eins oft og áður þar sem tengingin var eitthvað að stríða mér. Svo heyrði ég í gær að þátturinn í næstu viku verði klukkutíma seinna... það verður nú sennilega til þess að enn færra fólk vakir til að kjósa. Reyndar veit maður ekki hvað okkar atkvæði hafa mikið vægi.. en samt. Ég hugsa að ég vakni til að kjósa hann næst. Vill endilega að hann komist í úrslitin en ekkert endilega að hann vinni!

Ég er í Reykjavík í dag. Það er aðeins að renna upp fyrir mér að ég er atvinnulaus og ég hef ekki alveg haft kraftinn til að byrja að sauma að einhverju ráði, var heima síðustu 2. daga og þegar ég lít til baka sé ég að þessa 2. daga er ég bara búin að þvo og ganga frá þvotti og hanga í tölvunni. Heklaði reyndar eina og hálfa húfu í gær en það var yfir Rockstar...
Ingólfur fer í óperuna á hverjum degi og ég fæ allar óperufréttir frá honum og vinum mínum og fyrrverandi samstarfsmönnum. Er að reyna að brynja mig því það eru yfirleitt ekki góðar fréttir sem ég er að fá. Mikið Djöfull er ég fegin að vera ekki lengur að vinna þarna! That´s the God Holy truth!

Hinrik er orðin svo stór og nú þurfa foreldrarnir virkilega að passa sig á því hvað þeir segja. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki þolinmóð í umferðinni... keyri alltaf á löglegum hraða og þó það sé gaman að spýta í þá geri ég það ekki! Á leiðinni norður um helgina varð ég frekar pirruð þegar hver bíllinn á fætur öðrum spýttist fram úr mér með tjaldvagna í eftirdragi og meira að segja hjólhýsi, og ég að keyra á 90... ég lét út úr mér ýmis blótsyrði en aðallega hvað þetta væru miklir hálvitar sem voru að taka fram úr mér.
Í Hrútarfirðinum keyrðum við fram á lögreglubíl með blá ljós sem var búin að stoppa einn ökuníðinginn, ég útskýrði þá fyrir syni mínum að nú væri löggan búin að taka mann sem var að keyra of hratt og nú þyrfti hann að borga sekt. Hinrik hugsaði sig um í smá stund og sagði svo; "Mamma, er þá löggann búin að taka alla HÁLFVITANA?" Mér rann kallt vatn milli skinns og hörunds og meðan ég reyndi að fela hláturinn ákvað ég að reyna að passa mig í framtíðinni því ég vil ekki að sonur minn tali um alla FOKKING HÁLFVITANA Í UMFERÐINNI.

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Verslunarmannahelgi og Eyjafjörður

Kjósin um VerslunarmannahelginaHúsfreyjan að veiða gæludýr handa syninum.

Hinrik Leonard og Jóhann Gylfi í veiðiham

Sveitamarkaður, Ég, Kata frænka og Hildur móðursystir


Sveitamarkaður

Það var rosalega gaman hjá okkur familíunni um helgina, fórum norður til Akureyra og betur því við gistum hjá Kötu frænku og fjölskyldu að Hrafnagili. Notuðum laugardaginn til að skoða handverkssýninguna og svo seldi ég húfur á Sveitamarkaðnum við gömlu gróðrastöðina á Grísará á sunnudeginum. Það var ótrúlega gaman! Hildur móðursystir bakaði vöflur og seldi jafnóðum og Kata frænka bakaði kleinur um morguninn og seldi og seldi, hún var líka með rabbabaramarmelaði með appelsínum og sítrónum sem rann út eins og heitar lummur! Hinrik var í essinu sínu með Jóhanni Gylfa sem er 5. ára sonur Kötu, þeir veiddu fisk um allar sveitir með flotholti og má sjá seríu á heimasíðunni hans Hinriks http://hinrikleonard.barnaland.is/
Mér fannst alveg yndislegt að vera heima hjá Katrínu frænku minni og kynnast henni uppá nýtt, mig dreymir um að flytja í Hrafnagilið og kenna í skólanum sem er fallegur draumur! Það var líka svo rosalega gott veður og alltaf gaman að vera í heimsókn hjá góðu fólki. Ég er samt alveg örmagna eftir keyrsluna og vorum við ekki komin heim fyrr en korter í eitt aðfararnótt mánudags og auðvitað vöknuð klukkan hálf átta morguninn eftir.
Núna er ég að slaka á heima og þvo þvott enda þurrkurinn góður!

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Sjampó

Ég er með feitt hár! Síðan ég var barn hef ég barist við að finna lausn á fituframleiðslunni í hárinu á mér og þrátt fyrir miklar tilraunir, permanett 12 ára, strípur 13 ára og að þvo ekkert á mér hárið í 14 daga þegar ég var á spítala á ítalíu 18 ára, þá hefur ekkert virkað! Stundum finn ég voðagott sjampó en það virkar ekki nema niður í miðja flösku. Þá þróar hársvörðurinn mótefni gegn efninu og hárið fitnar sem aldrei fyrr. Ég fann fyrir nokkrum árum duft frá Bumble and Bumble sem ég get notað sem þurrsjampó svona ef ég er í útilegu og svoleiðis og kemst ekki í sturtu og það er voðafínt að hafa til að hlaupa uppá en ég virðist samt vera komin með þetta svo á sálina að mér líður aldrei vel nema vera með alveg hreint hár. Ég hef reynt að fara í sturtu á kvöldin en oftar en ekki er hárið á mér svo feitt þegar liðið er á miðjan dag að mér líður illa. Ég vildi óska að það væri til töfralausn á þessu máli en verð held ég núna 35 ára að sætta mig við það að ég verð að þvo á mér hárið á hverjum degi!! Bömmer!

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Sólon

Sit á Sólon og blogga í miðborginni! Ingólfur að vinna og Hinrik í leikskólanum eftir 5 vikna sumarfrí. Hann var alveg tilbúin að koma aftur og hitta vini sína!

Fórum í útilegu ársins um helgina. Fórum á föstudaginn keyrandi á eðalkerrunni uppí Kjós og tjölduðum stóra fína Tjaldinu okkar sem við vorum að vígja, keyptum það eftir síðustu verslunarmannahelgi og höfum ekki notað það neitt í sumar. Það var rosalega gaman að vera með svona góða aðstöðu og þó það hafi ringt reglulega alla helgina kom það ekki að sök því það þornaði á milli og aðstaðan í tjaldinu var svo helv. fín! Hinrik var í essinu sínu að leika sér úti allan daginn og ég fékk einn fisk í Meðalfellsvatni sem hann lék sér með eins og vin sinn og auðvitað mátti alls ekki grilla hann. Hann samþykkti nú samt að geyma hann í frysti eftir miklar fortölur en hann langaði rosalega til að hafa hann hjá sér í herberginu sínu!

Ég kom nú ekki ósködduð úr ferðalaginu fékk gat á hausinn á laugardaginum þegar ég gekk á opið skottið og dúndraðist í jörðina. Það kom blóð og allt!! Stundum er maður ekki alveg með allt á hreinu og mundi það svo að þetta kom líka fyrir í fyrra þegar við notuðum skottið fyrir eldhús, en þá blæddi ekki. Svona er þetta stundum.

Hlakka mikið til að fara í næsta ferðalag um næstu helgi norður í Eyjafjörðinn þar sem ég ætla að selja nokkrar húfur á markaði á Sunnudeginum á Grísará.

Nú er farið að síga á seinnihluta sumarsins en ég ætla að njóta þess í botn sem eftir er þar sem að í fyrsta skipti í 2. ár sem ég er ekki að vinna eins og geðsjúklingur í ágúst. Skál fyrir því!!

p.s. reyklosunin gengur ágætlega, farin að taka nikótíntyggjóið inn og búin að minka sígaretturnar niður í örfáar á dag!

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Kaffi og sígó

Ég er fíkill! Kaffi og sígófíkill.. síðan Ingólfur fór út er ég búin að hanga svo mikið í tölvunni að ég er að fá ferkanntaða augnsteina.. og drekka kaffi og reykja. Þetta gengur ekki lengur. Um verslunnarmannahelgina ætla ég að kaupa mér nikótíntyggjó og reyna að njóta náttúrunnar reyklaus... gangi mér vel með það!

Við hjónin skoðuðum íbúð hér í Njarðvík á föstudaginn. Hún þarfnaðist mikilla lagfæringa og ég var að berjast við skrítnu tilfinninguna sem ég fékk þegar ég kom inní hana. Ákvað að leggja þetta í guðs hendur og gera ekki tilboð strax. Hringdi áðan til að fá að skoða hana aftur í kvöld með tengdapabba en þá var búið að selja hana! Mér létti. Það er stór ákvörðun að kaupa sér íbúð hvað þá í sveitarfélagi sem er svo langt frá manns fyrri heimaslóðum. Helst vildi ég vera í Hafnarfirði en það er bara svo helvíti dýrt að kaupa og leigja þar. Vonandi dettur eitthvað í hendurnar á okkur núna á næstu vikum mig langar til að búa mér til heimili. Með mínum hlutum í kringum mig. Ekki misskilja mig það er yndislegt að búa hér hjá Tengdó. En ég sakna þess að vera með mína hluti.

Er oft að hugsa um þetta blogg. Það er oft frekar leiðinlegt og hversdagslegt. En stundum hefur maður bara frá engu að segja en langar til að segja samt eitthvað.

Ekki á morgun heldur hinn kemur Ingó minn heim. Ég hlakka svo mikið til hann er búin að finna fullt af fötum á mig og Hinrik.

sunnudagur, júlí 30, 2006

Aðlögunarhæfni

Yndislegi maðurinn minn er farinn til Köben, ég vona að það verði gaman hjá honum og að hann sjái margar góðar sýningar! Skemmtilegt með söknuðinn. Ég man þegar ég var "ung" og bjó ein í mörg ár. Átti í erfiðleikum með að hugsa mér lífið búandi með einhverjum... í dag get ég ekki hugsað mér líf mitt án Ingó og Hinriks. Ég held að öll þessi vera í útlöndum hafi alið upp einhverja aðlögunarhæfni í manni sem er alveg ótrúleg. Að geta breytt um viðverustað si svona og liðið barasta helv. vel. Er mikið að hugsa um framtíðina þessa dagana og hvar við eigum að búa.. aldrei að vita nema að það verði hér í Njarðvík næstu 2 til 3 árin...

föstudagur, júlí 28, 2006

Dillandi hlátur

Það er komin föstudagur og styttist í að Ingó fari til Kaupmannahafnar. Ég vaknaði við það að Hinrik var að fikta í hárinu á mér skellihló. Yndislegt að vakna við dillandi hlátur sonar síns. Það rignir hér enn mér finnst það bara verst út af þvottinum. Eftir að við fluttum hingað hefur verið mikil gleði að geta hengt upp þvottinn úti, finnst það vera skemmtilegt og afslappandi iðja. En nóg um það. Við ætlum að fara til Berglindar í kvöld, sofa þar öll fjölskyldan. Það er alltaf gaman að skipta um umhverfi. Þarf að fara í geymsluna okkar í dag og sækja svolítið af garni. Ég er búin með allt sem ég kom með hingað og þarf að fara að framleiða meira. Ég vona að ég geti selt eitthvað hér í Keflavík á Ljósanótt. Við erum að spá í að fara norður á Handverkshátíðina svona til að hitta familíuna þar og gista sennilega hjá Soffíu og Viðari. Ingólfur kemur heim á föstudaginn og þá brunum við uppí Kjós. Það er búin að vera tilhlökkun í mér í margar vikur fyrir þessu ferðalagi...

mánudagur, júlí 24, 2006

Berrassaður á tánum

Það er tómlegt í kofanum eftir að gestir síðustu vikna eru farnir til síns heima. Hinrik grét þegar hann klæddi sig í morgun því hann langar svo til að fara til ítalíu þar sem er heitt. Honum finnst svo leiðinlegt að geta ekki hlaupið út í garð berrassaður. Elsku karlinn!

Ingólfur fer til Danmerkur á sunnudaginn kemur á leikstjóra ráðstefnu, við Hinrik ætlum að vera hjá Berglindi frá laugardegi til mánudags að hugsa um Kristján og það verður nú gaman! Þá get ég dottið í ítalska sjónvarpið þar sem þau eru með gervihnattadisk. Svo kemur Ingólfur á föstudeginum og þá brunum við í Kjósina að hitta fjölskylduna mína það verður nú gaman.

sunnudagur, júlí 23, 2006

Sumar...

Ég varð fyrir því óhappi að vera að zappa á milli stöðva núna og lenti á skjá einum þar sem verið er að sýna lokaþátt af Bachelorette þættinum. Oh my god.. ég skil ekki af hverju ég skipti ekki aftur er búin að þola núna 2 mínútur af hræðilegri höfnun sem er svo hallærisleg skil ekki hvernig þetta getur verið gott sjónvarpsefni? Mér finnst gaman af raunveruleikaþáttum, Americas next topmodel, Rockstar Supernova, Love Island á breskri stöð ITV1 en ekki The Bachelorette!! Hallærislegt!
Búin að skipta um rás!
Soffía systir Ingó og fjölskylda fóru héðan áðan eftir tveggja vikna dvöl. Það er búið að vera mjög gaman hjá Hinriki og Einari Berg að leika sér allann daginn, Hinrik á eftir að sakna litla frænda síns. Jón Sigfús er líka búin að slá í gegn, Hann er 4.mánaða og er svoo mjúkur eins og Hinrik orðar það!
Saumaði eitt pils í gær. Var búin að ákveða að sauma 10 pils á mánuði þannig að ég verð að fara að spýta í lófana ef ég á að ná því fyrir mánaðarmót. Ingólfur tók fullt af myndum af húfunum mínum sem ég ætla að fara að setja á heimasíðu HiN design, sem er á http://www.geocities.com/hin.design/
ég er ekki enn farin að vinna hana en það verður á næstu dögum.
Hér eru nokkrar myndir
Ull og skrautgarn

Ull og gullþráður


Ull og Mohair


Ull og mohair

mánudagur, júlí 17, 2006

Húfur og útvarpsleikrit

Búin að vera dugleg að framleiða heklaðar húfur í þessari rigningu... ef ykkur vantar heklaða húfu á 2500 kall látið mig vita ætla að taka nokkrar myndir og setja hér inn...

Ingó og Soffía fóru í Reykjavík á McDonalds og í Tivolí... ég er búin að vera heima og taka til og skúra.. ekki veitti af þar sem ég hef ekkert skúrað í viku! Heheh gaman að hafa svona áhuga á heimilisverkum allt í einu. Er líka að þvo á fullu og er farið að vanta garn til að geta heklað meira. Þarf að fara að komast í búð.. skildi vera einhversstaðar afsláttur á garni? I wonder.

Einkennilegt að fara ekkert í Reykjavík. Skrítið að hugsa til miðbæjarins en það eru komnir 10 dagar síðan ég fór í miðbæinn.. það breytist nú í ágúst þegar að Hinrik byrjar aftur í leikskólanum þá fer ég að fara oftar.. sakna svolítið 101 en aðallega bókasafnsins....

Fylgdist með framhaldsleikritinu í útvarpinu sem kláraðist á föstudaginn, mér finnst rosagaman að hlusta á glæpaleikrit en fannst þetta ekkert sérstakt.. sérstaklega leikstjórnin... alltof mikið af einhverjum effectum og símhringinum endalausum... Nú var að byrja nýtt en það eru sömu leikstjórar... þannig að það verður sennilega ekki betra...

laugardagur, júlí 15, 2006

Litlu hlutirnir...

Það eru litlu hlutirnir í lífinu sem skipta máli. Það er yndislegt að vakna á laugardagmorgni og knúsa þriggja ára son sinn í svolitla stund. Skiptir engu máli þó rokið berji á gluggann.. þá er best að hugsa jákvætt og þvo nokkrar vélar og hengja út og vona að ekki komi skúr. Svo er gott að fara í hádegisgrillveislu hjá gömlum vinum og segja rokinu stríð á hendur! Yndislegt að horfa á fallega mynd á laugardagskvöldi eins og til dæmis Elizabethtown.. yndisleg mynd!

Ég veit að ég kemst í útilegu einhverntíma á næstunni.. ætla að halda áfram að láta mér hlakka til.. þó að veðrið sé leiðinlegt núna þá HLÍTUR það að batna... ekki satt!?

Það er yndislegt að eiga góða fjölskyldu sem maður getur elskað skilyrðislaust. Ég á þannig fjölskyldu!

miðvikudagur, júlí 12, 2006

Frábært vídeó.. góða skemmtun!

Magnýýýý

Varð barasta að blogga um kallinn. Hann var rosaflottur í Rockstar í kvöld. Verst að þurfa að vaka svona lengi til að kjósa hann! Ég fór á Duus í dag með Margréti, borðaði rosagóða súpu og naut útsýnisins. Góð ástæða til að koma hingað og heimsækja mig og fara í súpu á Duus.

Sá geðveik stígvél í dag sem mig langar í en þau kosta tólfþúsundkall!!

Annars er það bara upp með brúnkukremið og klútana. Komin með helv. góðan lit!

þriðjudagur, júlí 11, 2006

það rignir

Það rignir í Njarðvík! Og spáin segir að það eigi að rigna alla vikuna. Ég er ekki að meika þetta. Hinrik lokaður inni og ekki að fíla þetta. Fór í yndislega fjöruferð á sunnudaginn með Elínbjörtu og co og Auði og Dóra. Við fórum að tína steina fyrir Auði frænku og steinakallana hennar sem eru mest seldu vörurnar fyrir ferðamenn í Rammagerðinni. Stollt af henni!

Við urðum heimsmeistarar! Ofurspennandi leikur sem endaði á besta veg! Horfði á útsendingu á Rai uno í gærkveldi þegar meistararnir komu heim. Er að farast úr heimþrá. Langar svo að fara með Hinrik til Rómar.. það kemur að því kannski í október.. hver veit...

laugardagur, júlí 08, 2006

Músarunginn

Sjáið þið litla músarungann á myndinni? Við fórum í góðan rúnt um Reykjanesið í dag og enduðum með nesti í skógi hér við Grindavíkurafleggjarann. Meðan feðgarnir fóru í feluleik kom þessi fallegi ungi til mín og byrjaði að naga strá og éta lúpínublöð.
fimmtudagur, júlí 06, 2006

Mín undurfagra vinkona...


... Margrét Eir og nýja lookið! Hún er bara æðisleg!

Ítölsk dramatík eða hvað

Ég hef svo margt að segja núna að ég veit ekki hvar skal byrja... kannski á fótboltaleiknum á þriðjudaginn!!
Ég er búin að þurfa að verja elsku ítalina mína opinberlega og óopinberlega síðustu vikurnar. Það hafa margir verið með miklar yfirlýsingar um það hvað ítalirnir séu miklir leikarar og ömurlegt að horfa á boltann. Ég hef alltaf viðurkennt að þeir eru oft dramatískir en að fótboltinn sem þeir spila sé eitthvað annars flokks kaupi ég alls ekki, enda þekkt fyrir að fara á fótboltaleiki í Róm og Torinó og dyggur stuðningsmaður Lazio. En þjóðverjarnir á þriðjudaginn... guð minn góður!! Þvílíkur leikaraskapur, þeir féllu við ekki neitt og var alveg ótrúlegt að horfa á. Ítalirnir voru dramatískir og vildu breskir kynnar oft meina að þeir væru að leika en í endursýningu kom alltaf fram að brot hefði átt sér stað.
Þetta var stórkostlegur leikur og var ég í beinu sambandi við Helga bróður þar sem hann var á vellinum með Breka syni sínum. Spenna út í eitt og áttu ítalirnir virkilega skilið að vinna.. ætla núna að fara að klára að elda kjúklinginn og skrifa meira á eftir!

Búin að borða dásamlegan kjúkling og ganga frá. Eiginmaðurinn farin að leggja sig og sonurinn að horfa á sjónvarpið. Er mikið að hugsa um framtíð mína og fortíð þessa dagana, aðallega í sambandi við mína fyrrverandi vinnu og verð ég að segja að með hverjum deginum sem líður verð ég glaðari og glaðari með mína ákvörðun. Einnig er ég að rekast á kunningja af og til og það kemur engum á óvart að ég hafi hætt. Ég finn mikinn stuðning og gott að finna það! Best að hafa sem fæst orð um það hér á opinberum stað!!