Ég tók mig til og skrifaði Heilbrigðisráðherra okkar henni Siv Friðleifsdóttur eftirfarandi bréf:
Kæra Siv,
Ég skrifa þér í miklu uppnámi enda komin rúmlega 5. mánuði á leið. Málið snýst um Miðstöð Mæðraverndar sem nú á að leggja niður!? Ég er ein af þeim konum sem sækja þá miklu stofnun vegna fyrri sögu. Ég átti dreng fyrir 4 árum síðan, sú meðganga var mjög erfið og fæðingin var hræðileg, ég og sonur minn vorum hætt komin og hann eyddi fyrstu 2 vikum af lífi sínu á Vökudeild og ég var á gjörgæslu eftir fæðinguna. Nú er ég ófrísk aftur og sæki allan minn styrk til þeirrar frábæru þjónustu sem Miðstöðin bíður uppá. Ég er í áhættuhóp vegna fyrri meðgöngu hvað varðar kvíða fyrir fæðingu og hef verið mikið veik. Hjá Miðstöðinni hitti ég reglulega næringarráðgjafa og fæðingarlækni auk minnar yndislegu Ljósmóður sem veitir mér alla þá þjónustu sem hægt er að fá. Ég veit að þessa þjónustu fengi ég ekki á mæðraverndinni á heilsugæslunni og það sem mér finnst svo erfitt að skilja er að allt sem gott er gert fyrir okkur barnshafandi konur er lagt niður! Fæðingarheimilið var lagt niður og MFS sem opinberlega var sagt að væri OF vinsælt til að hægt væri að halda því áfram! Ég hef sterkan grun um að Reynir Tómas Geirsson beri ábyrgð á þessu og verð ég að segja að mín upplifun er sú að sú stóra og góða stétt sem Ljósmæður eru eigi enga rödd! Þær hafa reynsluna til að vita betur en þegar þær standa á móti Fæðingarlækni þá er ekki tekið mark á þeim. Ég upplifði þetta sjálf í minni fæðingu og get heilhugar sagt að ef hlustað hefði verið á mína Ljósmóður þá hefði ég ekki lent í bráðakeisara sem stefndi mínu lífi og barns míns í hættu.
Kæra Siv. Viltu lesa þetta bréf og skoða málið og útskýra fyrir mér af hverju framtíð Miðstöðvar Mæðraverndar er í hættu? Af hverju á að leggja niður 6 ára gamla deild sem löngu hefur sannað tilverurétt sinn?
með vinsemd og virðingu,
Hildur Hinriksdóttir
Mig langar að biðja ykkur sem lesið þetta blogg mitt að gera hið sama þó ekki væri nema um eina línu að ræða, heimasíðan er http://siv.is/alit/index.lasso þið gætuð spurt bara Af hverju á að loka Miðstöð Mæðraverndar og þið drengir ættuð líka að láta í ykkur heyra!
Takk elskurnar
Engin ummæli:
Skrifa ummæli