fimmtudagur, nóvember 23, 2006

MM


Jæja þá er komin skriður á Miðstöðvarmálið... utandagskrárumræða var í gær og sat ég og horfði á sjónvarpið og hágrét yfir fáránleika svara Heilbrigðisráðherra sem ég hef hingað til talið ágætiskonu.. það hefur breyst. Hún hefur ekki hundsvit á því sem hún segir og hefur greinilega ekki sett sig nógu vel inní málin. Kolbrún svaraði og vitnaði í bréfið mitt til hennar og læt ég ræðuna fylgja hér á eftir.

15:44
Kolbrún Halldórsdóttir:
Hæstv. forseti. Það er greinilegt að hæstv. ráðherra hefur ekki fengið sömu bréf og við, almennir þingmenn, frá verðandi mæðrum sem eru nú uggandi um sinn hag. Í fjölmörgum bréfum sem okkur þingmönnum hafa borist undanfarna daga frá þessum verðandi mæðrum koma fram mikil sárindi. Sumum finnst að allt gott sem gert hefur verið fyrir verðandi mæður sé lagt niður. Nefnt er Fæðingarheimili Reykjavíkurborgar og MFS-einingin á kvennadeild LSH. Þetta eru ömurleg eftirmæli áhugalausrar ríkisstjórnar sem hefur auðvitað vitað að hverju stefndi í þessum málum.
Hvað ætlar hæstv. heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins, Siv Friðleifsdóttir, að gera fyrir þessar kynsystur sínar? Hún stendur hér og segir okkur að áhersla sé lögð á samfellda þjónustu í þessu nýja kerfi og hún fullyrðir að þjónustan verði einfaldari og markvissari. Þessi yfirlýsing róar ekki þær mæður sem skrifa okkur þingmönnunum.
Meðal þeirra sem hafa lýst áhyggjum sínum eru Ljósmæðrafélag Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og fagdeild heilsuhjúkrunarfræðinga. Þessir aðilar óska eftir því að ákvörðunin um að leggja Miðstöð mæðraverndar niður verði endurskoðuð. Undir það tökum við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og við áteljum framsóknarráðherrana, hvort sem það er hæstv. ráðherra Siv Friðleifsdóttir eða sá sem á undan henni var, fyrir það að hafa sniðgengið þessa aðila þegar ákvörðunin um þetta var tekin.
Hér er horfið aftur til fortíðar frá því ákjósanlega og persónulega fyrirkomulagi að hver verðandi móðir sem er í áhættu á meðgöngu hafi ljósmóður sem fylgir henni eftir fram að fæðingu, til þess horfs sem lagt var niður 1990 af því að það samrýmdist ekki nútímakröfum. Þarna er Framsóknarflokknum rétt lýst. Hann gerir ekkert með reynslu og þekkingu ljósmæðra, lækna og annars starfsfólks Miðstöðvar mæðraverndar, leggur niður þjónustuna sem hefur átt sér stað í nútímalegu heilsuverndarumhverfi (Forseti hringir.) og sjúkdómavæðir meðgönguna.
Hæstv. forseti. Þetta er vond hugmynd.

Ég feitletra tilvitnunina í mig og sennilega fleiri mæður.

Ég er svo ánægð með hana Kolbrúnu og get sagt það að hún er svo sannarlega ÞINGMAÐUR FÓLKSINS ég hef ákveðið að kjósa hana í vor og mun vera virk í áróðri fyrir Vinstri Græna til kosninga.

Annars er mjög líklegt að fyrir tilstilli yndislegrar Ljósmóður þá fái ég að halda áfram hjá minni Ljósmóður og mínum lækni og geti þá byrjað að slaka á gangvart fæðingunni og þarf ekki að vingsa á milli ljósmæðra og lækna á LSH eins og nýja kerfið bíður uppá, eins og til stóð með mig. En það kemur í ljós á næstu dögum.

Annars er yndislegt að vera komin heim. Farin að finna aðeins jólafílinginn og þarf að byrja að fara að framleiða. Verð í Jólaþorpinu fyrstu og þriðju helgina í desember og hvet alla til að koma og versla jólagjafir...

Engin ummæli: