Komin heim!
Ég hef aldrei verið svona þreytt á ævi minni.
Það var ótrúlega gaman að koma til Rómar aftur eftir eins árs fjarveru. Borgin blómstrar sem aldrei fyrr og sólin skein og skein.. það ringdi pínulítið á laugardagseftirmiðdag. Ég keypti regnhlíf til að nota til að leiða hópinn minn og kom heim með hana óopnaða. Það komu kannski 2. skúrir sem ég missti algerlega af. Það er eins og vorið sé komið í Róm. Hitastigið var frá 23 gráðum niður í 18 og í fyrsta skiptið vildi ég helst að það myndi lækka aðeins. Ég vaknaði snemma á hverjum morgni til að leiða hópinn minn og var hann yndislegur. Ég var hins vegar alltaf komin heim á hótel um kvöldmatarleitið og hélt mig í rúminu að horfa á sjónvarpið og slaka á. Keypti mér enga skó því fætur mínar voru örugglega tveimur númerum stærri því ég labbaði og labbaði og labbaði og labbaði hehehe Litli drengurinn minn var alveg ánægður með þessa líkamsrækt.. en síðasta daginn svaf hann meira og minna þar til ég kom í flugvélina. Held að hann sé líka dauðþreyttur eftir þessi átök.
Ég vann lítið á sunnudaginn notaði daginn til að hitta Leo Guðföður Hinriks, hann bauð mér í Picknik í garði, þar sem ég sat með fullt af fólki og hélt uppá útskriftarveislu vinkonu hans. Það var mjög gaman að borða pasta og fleira undir berum himni í 22 stiga hita.
Ég náði að versla svolítið á alla strákana mína. Í fyrsta skiptið keypti ég lítið af fötum á mig en fann svolítið af óléttufötum 2 buxur og nokkrar peysur. Hinrik fékk mest!
Það var líka gaman að upplifa það að vera ólétt í Róm. Mikil virðing borin fyrir þunguðum konum og alltaf var staðið upp fyrir mér í Neðanjarðalestinni og meira að segja í búðum hlupu starfsmenn til og sóttu stól handa mér ef þeim fannst ég vera þreytuleg!
Vatíkanferðin á mánudaginn varð svolítið skrautleg þar sem Napolitano forseti Ítalíu ákvað að fara að hitta Páfann. Ég sá það í fréttunum um morguninn áður en við lögðum af stað og læddist strax að mér sá grunur að það myndi hafa áhrif á mig og hópinn minn.. og viti menn. Vatíkanmenn ákváðu að loka Péturskirkjunni og Péturstorginu svo forsetinn gæti skoðað dýrðina í rólegheitunum. Við tókum því lengri hring í Vatíkaninu og svo sendi ég fólkið mitt á eigin vegum í kirkjuna í gærmorgun áður en við lögðum af stað heim.
Flugferðin heim var ansi löng. 5 klukkutímar og hef ég aldrei verið svona lengi á leiðinni heim frá Róm. Og það var yndislegt að koma heim. Ferskt loft og kuldi í lofti sem ég hefði aldrei trúað að myndi virka jákvætt á mig!
Nú ætla ég að reyna að hvíla mig í allan dag og slaka á .. reyna að ná bólgum úr líkamanum og vinna upp fyrri styrk!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli