Ég fylltist gleði í morgun þegar sonur minn gekk með Fréttablaðið inn í þvottahús til mín! Þvílík gleði að fá loksins blað. Síðan við fluttum hingað hefur útburður á fríblaðinu Fréttablaðinu verið svona happa og glappa, að meðaltali 2 blöð í viku. "Blaðið" sést ekki og ekki er ég áskrifandi af Morgunblaðinu. Ég var að hugsa um það í gærkveldi þegar ég horfði á Spaugstofuna að ég er dottin út úr svo mörgu þegar ég get ekki lesið blaðið á morgnana. Reyni auðvitað að hlusta og horfa á RÚV fréttir en oft missi ég af þeim. Merkilegt að meiri metnaður sé ekki settur í að bera út blöðin í þessi nýju hverfi þar sem mörg þúsund manns búa.
Fór í þriggja ára afmælið hans Benedikts með Hinrik í gær. Það var rosalega gaman að hitta gamla vini og kunningja. Klara æskuvinkona mín var í afmælinu með Söru Mjöll dóttur sína sem er tveimur dögum eldri en Hinrik. Við vorum skrifaðar með tveggja daga millibili 18 og 20 september og gengum báðar tvær vikur fram yfir Sara Mjöll kom 1. okt og Hinrik 3. okt. Þau hafa alltaf verið mjög samtaka í þroska og náðu vel saman, í bílnum á leiðinni heim flugu prumpubrandararnir og þau veltust um af hlátri yfir eigin húmor.
Um kvöldið spurði ég Hinrik hver væri fallegasta konan sem hann þekkti... hann svaraði auðvitað "Þú"!! Svo spurði ég hver væri sætasta stelpan og hann svaraði "Sara Mjöll" hehehe rómans í loftinu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli