föstudagur, október 15, 2004

Bloggpælingar

Sonurinn sofnaður og klukkan rétt rúmlega 8. Jónína á loftinu ætlar að passa í kvöld þar sem ég ætla að skreppa í óperuna, Ingólfur er á sýningunni en ég ætla að skreppa og vera frá hléi og fram eftir. Það er svolítið erfitt að framleiða svona sýningu og vera að vinna bókstaflega allan sólarhringinn og þurfa svo að sleppa hendinni af öllu saman! Ég geri það allavega ekki auðveldlega. Ætti svo auðvitað að vera í fríi í nokkrar vikur til að taka út það frí sem ég er búin að vinna mér inn í þessari uppsetningu en sé ekki fram á að geta tekið nokkuð að ráði þar sem næsta pródúksjón er komin á fullt. En nóg um það. Fer allavega í óperuna á eftir og fæ mér kannski barasta einn bjór eftir sýningu.
Ingólfur setti inn þessa mynd af mér hér fyrir neðan í dag. Hún er tekin fyrir viku síðan á frumsýningu Sweeney Todd og ef vel er skoðað sést að ég er með linsur, svona eins og dáleiðingarskífa. Bubba hármeistari greiddi mér með þessa líka flottu frumsýningargreiðslu með krullum og alles og Pía förðunarpía málaði mig. Maður er náttúrulega með alla þessa meistara við höndina á frumsýningu.
Búin að vera svolítið að hugsa um þessa bloggsíðu í dag síðan ég setti hana upp. Ég hugsa oft þegar ég er að skrifa á síðuna hans Hinriks um það hvað maður er í raun og veru að ritskoða sig mikið þegar maður skrifar svona á netið, en hugsa að ég muni gera það minna hér þar sem ég á ekki von á því að margir aðrir en vinir og fjölskylda muni nenna að lesa þetta, og þess vegna er þetta svo gaman því að svona getur maður komið fréttum af sér og sínum á framfæri á auðveldan hátt. Og svo er það þessi pennavinasýki sem ég minntist á fyrr í dag. Þegar ég var unglingur átti ég marga pennavini og man sérstaklega eftir Fanis Foukas í Grikklandi sem ég skrifaðist á við í mörg ár. Við sendum alltaf kassettur á milli þar sem ég kenndi honum íslensku og hann mér grísku, þá var biðin svo löng eftir hverju bréfi og stundum var ég langt komin með bréfið til hans áður en hann svaraði mér. Svo þegar ég fór sem skiptinemi til Ítalíu þá fór Margrét Ben vinkona mín til Aþenu og hitti hann í persónu. Það var rosalega skrítið að hún skildi svo hitta hann en jafnframt gaman að vita það að hann var í raun og veru til!! Þó hann byggi ekki á Akropolishæð eins og hann sagði, heldur í fátækrahverfi borgarinnar! Allavega finnst mér gaman að fá svona útrás og ætla að reyna að halda þessu áfram eftir bestu getu.

Engin ummæli: