Það er ljúft að líta tilbaka, sérstaklega þegar maður situr í þröngu flugvélasæti og á heimleið úr dýrðmætu jólafríi. Við vorum hjá Magga bróður Ingó og fjölskyldu í Osló frá 23 desember - 4. janúar og nutum þess að vera með fjölskyldunni og hitta Fanney og co, Elínbjörtu og co og svo auðvita Auði móðu og Dóra! Sendum engin jólakort sökum anna og skipulagsleysis.. en vonandi bætum við upp fyrir það með þessu árlega áramótabréfi!
Við fyrrverandi kastalafjölskyldan erum búin að eiga viðburðarríkt 2013. Við sóttum skóla og vinnu frá Mandela frá janúar til september. Erfiðara og erfiðara varð að eiga einhvern tíma saman sem fjölskylda þar sem vinnan kallaði hjá Ingó í Róm og oftar en ekki var hann heilu dagana (og nætur) í Róm meðan ég sá um strákana í kastalanum. Sumarið kom seint og illa gekk að hita upp slottið... aldagamlir veggirnir söfnuðu bara í sig raka og erfiðar og erfiðara var fyrir húsfreyjuna að halda heilsu.. bæði líkamlega og andlega!
Við eyddum miklum tíma í sumar í litlu íbúðinni okkar sem fylgir vinnunni hans Ingó og áttuðum okkur á því að við gætum aukið lífsgæði okkar töluvert með því að flytja í hana. Eftir smá umhugsun og ráðgjöf frá vinum ákváðum við að drífa bara í þessu þar sem Hinrik var að fara að byrja í nýjum skóla (fyrsta bekk í miðskóla 1. media) og Felix Helgi í 1. bekk (1. elementare) Og það má með sanni segja að þetta hafi verið gæfuspor. Drengirnir eru báðir afskaplega heppnir með kennara og eru glaðir og ánægðir í skólanum. Hinrik er komin með kennara sem kemur til okkar þrisvar í viku og hjálpar honum með heimavinnuna og ítölskuna. Felix Helgi er allan daginn í skólanum og er afskaplega vinsæll hjá kennurum og nemendum. Hann fer út í garð í frímínútum og hittir þá alla krakkana í hinum bekkjunum.
Og húsfreyjunni líður miklu betur... andlega og líkamlega! Það eru forréttindi að búa svona í miðborginni og vera með svona stórar svalir og alla þjónustu innan handar. Ég kynnist nú öllum listamönnunum sem koma í Circolo og það er virkilega skemmtilegt. Íslenska samfélagið í Róm er skemmtilegt og nýt ég þess hitta vinkonur mínar á kaffihúsum eða í saumaklúbb.
2014 á að vera ár vinnunnar fyrir mig. Ég ætla að fara á fullt í hönnun og framleiðslu og finn fyrir mikilli tilhlökkun... hlakka til að fara að skapa.
Ingó er alltaf jafnglaður í vinnunni sinni og er kallaður "Litli sendiherrann" af norrænu sendiherrunum í Róm. Hann er oftara en ekki fulltrúi Íslands í allskyns norrænum samstarfsverkefnum og blómstrar.
Við fengum nokkrar heimsóknir á árinu. Dísa frænka og Fjóla komu til okkar í Kastalann í apríl og fengu svo að vera í íbúðinni okkar í Róm í nokkra daga. Það var ofsalega notalegt að fá þær til okkar. Erla Guðný kom með vinkonu sinni Dagbjörtu og gerðu allt vitlaust í þorpinu með fegurð sinni. Tengdamamma kom frá Noregi með Svölu Rún og Guðrúnu Lilju og voru bæði í kastalanum og í Róm. Tengdó kom svo aftur í sörpræs ferð í byrjun nóvember með Siggu frænku og náðu svo aldeilis að stríða Ingó sem átti von á öllu nema mömmu sinni úr flugvélinni!
Ingó hefur verið fastur leiðsögumaður hjá Heimsferðum sl. ár en bætti núna Vita inn og vonandi heldur hann áfram að vinna fyrir báðar ferðaskrifstofurnar á þessu ári.
Ingó var fengin til að vera ráðgjafi fyrir talsetningu myndarinnar "The secret life of Walter Mitty" og endaði á því að þurfa að tala inná fyrir nokkra karaktera... það var þá aðallega þegar bera átti fram nöfn eins og Stykkishólmur, Eyjafjallajökull osfrv sem rödd Ingólfs var mixuð saman við ítölsku leikarana.. við erum ekki enn búin að sjá myndina en hlakkar mikið til að heyra! Hinrik og Felix fengu svo báðir að tala á íslensku fyrir tvo íslenska drengi.. vitum ekki enn hvort það var notað en þeir eru taldir upp í kredit listanum að mynd lokinni. Þeir slógu auðvitað báðir í gegn og eru nú komnir á lista yfir unga leikara... Hinrik sem "rödd á ítölsku með hreim" og Felix Helgi sem "rómverskur drengur"
Ég tók að mér að sauma samkvæmiskjól fyrir unga íslenska mær sem sækir amerískan einkaskóla í Róm.. svokallaðan "Promkjól" Það var afskaplega gaman og nú í vor mun ég hanna og sauma tvo kjóla á þá fyrrnefndu og systur hennar.
Við kvöddum Mandela með gleði í hjarta og þakklæti, eigum þar ágætis vini en finnst bara nokkuð gott að vera laus úr fámenninu og frá sumum furðufuglunum sem leynast þar!
Ævintýrið okkar heldur sem sagt áfram á fullri ferð.
Við óskum ykkur öllum innilega gleðilegs árs.. vonandi sjáumst við eitthvað á þessu fallega ári sem við tökum á móti full af bjartsýni og gleði og VON.
Ykkar Hildur (ritari) Ingólfur, Hinrik Leonard og Felix Helgi
Póstkort frá Róm
sem birtist í Morgunblaðinu í dag 12. janúar 2014
Krakkakynning í Morgunblaðinu í Nóvember 2013
Engin ummæli:
Skrifa ummæli