fimmtudagur, apríl 20, 2006

Upplýsingar

Loksins ætla ég að gefa mér tíma til að skrifa eina færslu, kannski vegna þess að það er sumardagurinn fyrsti, Ingó og Hinrik í bíó í Njarðvík með frændfólki og ég á að vera að pakka niður úr vinnustofunni... nenni samt ekki að byrja þar sem nýja fartalvan okkar kallar frekar á mig, urðum að fjárfesta í svoleiðis tæki þar sem við erum að fara að flytja eftir 10 daga! Og til að gera hlutina flóknari þá verð að skreppa til Akureyrar á morgun í 3 daga til að vinna og fer svo ég í hnéaðgerð númer 2 á mánudaginn og þarf þá að liggja í eina viku með löppina upp í loft! Þetta þýðir að ég hef bara daginn í dag til að setja draslið mitt í kassa!

Nú; við flytjum sem sagt síðustu helgina í Apríl til Tengdó í Njarðvík og verðum svo að keyra á milli, Hinrik verður áfram í leikskólanum sínum Lindarborg og við bæði að vinna í Óperunni.
Planið er svo að flytja í Hafnarfjörð um leið og við finnum eitthvað þar.

Næsta frumsýning er 13. maí, Litla Hryllingsbúðin (ég er að fara norður til að taka út sýninguna til að geta skipulagt dressermálin þegar hún kemur hingað)

Hnéaðgerðin fer fram á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði á mánudaginn 24. apríl sem þýðir að ég verð frá vinnu, liggjandi uppí rúmi í 7 daga.

Ég er hætt að vera yfirmaður framleiðslusviðs íslensku óperunnar og ætla að vera "bara" Forstöðumaður saumastofu og búningasafns, sem er náttúrulega ekkert bara, álagið í vinnunni síðustu 2 ár hefur verið of mikið og ég nenni ekki að eyða tímanum í vinnunni. Mig langar líka að vera með fjölskyldunni og það hefur ekki verið auðvelt þegar ég er að vinna frá 9. á morgnanna til 23 á kvöldin. Eina leiðin til að sjá son minn eitthvað er að sækja hann í leikskólann kl 17 og fara með hann í óperuna í klukkutíma og hafa hann með mér þar!!

Oh og já var ekki búin að segja ykkur að ég hætti í búðinni minni í janúar, þar sem eins og skilst á fyrri skrifum, ég hafði engan tíma til að sinna hvorki framleiðslu né vinnu þar.

nú eins og sést er mikið í gangi hjá mér núna og held ég að ég verði að fara að dýfa mér í draslið á vinnustofunni svo að Ingólfur þurfi ekki að pakka öllu draslinu fyrir mig.

Engin ummæli: