Ég hef ákveðið að vaða úr einu í annað í þessari færslu,
lífið í þorpinu hjá litlu íslensku familíunni
er svo margbrotið
að það verður bara að vaða!
Sumarið er komið,
hitinn svífur mjúkur inn um opna gluggana.
Eiginmaðurinn er í þessum skrifuðu orðum að sníða í þá flugnanet.
Í gær hitti ég sporðdreka fyrir utan hurðina mína,
hjartað sló nokkuð hraðar en undir venjulegum kringumstæðum,
en hugrakkar nágrannakonur náðu kauða og settu í krukku.
Sporðdrekar eru sjaldgæfir í Róm, en hér í sveitinni lifa þeir ljúfu lífi og þá sérstaklega hér í kastalanum þar sem mörg hundruð kynslóðir hafa búið um sig í gengum aldirnar..
Þessi sem ég hitti í gær var ekki nema sirka 3 sentímetrar á lengd, þeir stinga ef þeim er ógnað, en stunga frá þeim er ekki hættuleg, hægt að líkja við geitungastungu.
Svo er mér allavega sagt...
ég hef ekki hugsað mér að sannreyna það neitt!
Í dag kláraði Hinrik Leonard fjórða bekk, hann er búin að standa sig alveg ótrúlega vel í nýjum skóla,
á nýju tungumáli þar sem ítalir eru ári á undan í stærðfræði.
Ég er svo stolt af honum!
Í gærkveldi var haldin kveðjuveisla fyrir Maestru Lauru sem var að fara á eftirlaun. Við hittumst á Pizzeriunni og krakkarnir gáfu Lauru gjöf sem hún opnaði við hátíðlega athöfn eins og sést á myndunum:
Við vorum 75 í veislunni, börn og fullorðnir, byrjuðum klukkan 19.30, við Hinrik fórum heim klukkan 23.00 en þá var ekki búið að bera fram kökurnar!
Maestra Laura var uppáhaldkennari Hinriks og hún tilkynnti mér með stolti að Hinrik hefði fengið 9 á stærðfræðiprófi fyrr um daginn! Hennar verður sárt saknað.
Maestra Giuliana var líka í veislunni, hún er ekki farin á eftirlaun!
Felix Helgi á viku eftir í leikskólanum, svo fer hann í sumarfrí í allt sumar... á fimmtudaginn verður sýning í skólanum hans, birti vonandi myndir frá henni.
Felix vaknar glymrandiglaður á hverjum morgni og hlakkar til að fara í skólann.
Ég á tvo duglega, flotta og hugrakka drengi!
Hér sjást þeir í nýju buxunum sínum sem ég saumaði á þá í vikunni.
Á laugardaginn heyrðum við hófagný fyrir utan Kastalann,
Þar voru á ferðinni nokkrir tugir hesta sem verið var að reka uppí fjall:
Ansi skemmtileg uppákoma,
Hinrik var úti með Stefano vini sínum sem á heima hér
fyrir neðan okkur í kastalanum.
Þeir fylgdust með hrossunum í návígi og enn má finna hestaskít á götunni hér fyrir framan.. viku seinna!
Seinna um daginn fórum við í tvöfalda fermingarveislu uppí þorp,
Emiliano bekkjarbróðir og vinur Hinriks var að fermast "fyrri fermingunni" og bróðir hans Gianmarco var að fermast seinni fermingu, hann er 14 ára.
Hér sjást Hinrik Leonard og Emiliano í kirkjunni við fermingarathöfnina.
Þetta var nú alvöru ítölsk veisla, borðin svignuðu undan kræsingum, fyrst matur svo kökur og endað á ávöxtum.
Læt myndirnar tala sínu máli.
Felix Helgi og Geraldine
Felix Helgi í nýjum grænum hörbuxum, HiN design náttúrulega!
Allir krakkarnir úti að leika!
Kirsuber!
Jæja langur póstur í dag....
nóg í bili!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli