miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Guli bíllinn

Síðan ég kom heim frá Róm hef ég mikið ferðast í strætó. Ingó og Hinrik fara á morgnana með strætó til vinnu og skóla og ég hef svo verið að útrétta á gula bílnum líka. Ingó er að frumsýna í kvöld þannig að ég hef þurft að sækja Hinrik. Sagt er að 25% strætóbílstjóra séu Pólverjar. Ég held hins vegar að það sé nærri 75% í Hafnarfirði. Þetta eru geðgóðir menn, voða almennilegir en tala litla sem enga íslensku og keyra eins og brjálaðingar hehehe. Ég man eftir brjáluðum bílstjórum í æsku, samanber velvakandabréf sem ég skrifaði þegar ég var 11 ára og þurfti að fá pappír um það frá bænum að ég væri ekki orðin 12. Ég átti engin önnur skilríki enda tíðkaðist ekki þá að vera með debetkort... og strætóbílstjórar vildu láta mig borga fullorðinsgjald sem kom þá á við 12 ára aldur. En núna sem sagt ferðast ég kasólétt með einn fjögurra ára í gula bílnum og fæ aldeilis að finna fyrir því. Hinrik sofnar yfirleitt í Kópavogi og þá þarf ég að hafa mig alla við að halda honum í sætinu (ef hann fær sæti) og halda mér og mínum pinklum í fanginu því ferðin í beygjum sérstaklega er svo mikil. Ég hef alltaf þjáðst mikið af bílveiki og í dag verð ég bílveik bara á því að horfa á Gula bílinn nálgast. Ég vona að Ingó nái að gera við bílinn okkar núna á morgun!!

laugardagur, nóvember 25, 2006

Húfusala ofl

Jæja þá er ég alveg að lenda. Það er laugardagur og við á leiðinni í Julefokost hjá fjölskyldunni minni. Hefð sem hefur haldið sér síðustu fimm ár allavegana. Hittumst öll systkynin og mamma og Ármann og borðum saman mat með dönsku ívafi. Ég hef undanfarin ár komið með frikkadellur en mínar eru með ítölsku ívafi...

Verkefnin hlaðast inn og ég hlakka til að takast á við desember. Ingó er að frumsýna á miðvikudaginn skemmtilega sýningu sem heitir Konur í lífi Mozarts. Sýnt verður tvisvar sinnum í Iðnó. Þannig að það er heilmikið að gera hjá honum núna.

Mikið hefur verið um húfupantanir og nú er ég að fara á allavegana tvo staði í næstu viku að sýna og selja húfur. Komin með fína vinnuaðstöðu hér á Drekavöllunum. Og byrja að framleiða á morgun.....

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

MM


Jæja þá er komin skriður á Miðstöðvarmálið... utandagskrárumræða var í gær og sat ég og horfði á sjónvarpið og hágrét yfir fáránleika svara Heilbrigðisráðherra sem ég hef hingað til talið ágætiskonu.. það hefur breyst. Hún hefur ekki hundsvit á því sem hún segir og hefur greinilega ekki sett sig nógu vel inní málin. Kolbrún svaraði og vitnaði í bréfið mitt til hennar og læt ég ræðuna fylgja hér á eftir.

15:44
Kolbrún Halldórsdóttir:
Hæstv. forseti. Það er greinilegt að hæstv. ráðherra hefur ekki fengið sömu bréf og við, almennir þingmenn, frá verðandi mæðrum sem eru nú uggandi um sinn hag. Í fjölmörgum bréfum sem okkur þingmönnum hafa borist undanfarna daga frá þessum verðandi mæðrum koma fram mikil sárindi. Sumum finnst að allt gott sem gert hefur verið fyrir verðandi mæður sé lagt niður. Nefnt er Fæðingarheimili Reykjavíkurborgar og MFS-einingin á kvennadeild LSH. Þetta eru ömurleg eftirmæli áhugalausrar ríkisstjórnar sem hefur auðvitað vitað að hverju stefndi í þessum málum.
Hvað ætlar hæstv. heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins, Siv Friðleifsdóttir, að gera fyrir þessar kynsystur sínar? Hún stendur hér og segir okkur að áhersla sé lögð á samfellda þjónustu í þessu nýja kerfi og hún fullyrðir að þjónustan verði einfaldari og markvissari. Þessi yfirlýsing róar ekki þær mæður sem skrifa okkur þingmönnunum.
Meðal þeirra sem hafa lýst áhyggjum sínum eru Ljósmæðrafélag Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og fagdeild heilsuhjúkrunarfræðinga. Þessir aðilar óska eftir því að ákvörðunin um að leggja Miðstöð mæðraverndar niður verði endurskoðuð. Undir það tökum við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og við áteljum framsóknarráðherrana, hvort sem það er hæstv. ráðherra Siv Friðleifsdóttir eða sá sem á undan henni var, fyrir það að hafa sniðgengið þessa aðila þegar ákvörðunin um þetta var tekin.
Hér er horfið aftur til fortíðar frá því ákjósanlega og persónulega fyrirkomulagi að hver verðandi móðir sem er í áhættu á meðgöngu hafi ljósmóður sem fylgir henni eftir fram að fæðingu, til þess horfs sem lagt var niður 1990 af því að það samrýmdist ekki nútímakröfum. Þarna er Framsóknarflokknum rétt lýst. Hann gerir ekkert með reynslu og þekkingu ljósmæðra, lækna og annars starfsfólks Miðstöðvar mæðraverndar, leggur niður þjónustuna sem hefur átt sér stað í nútímalegu heilsuverndarumhverfi (Forseti hringir.) og sjúkdómavæðir meðgönguna.
Hæstv. forseti. Þetta er vond hugmynd.

Ég feitletra tilvitnunina í mig og sennilega fleiri mæður.

Ég er svo ánægð með hana Kolbrúnu og get sagt það að hún er svo sannarlega ÞINGMAÐUR FÓLKSINS ég hef ákveðið að kjósa hana í vor og mun vera virk í áróðri fyrir Vinstri Græna til kosninga.

Annars er mjög líklegt að fyrir tilstilli yndislegrar Ljósmóður þá fái ég að halda áfram hjá minni Ljósmóður og mínum lækni og geti þá byrjað að slaka á gangvart fæðingunni og þarf ekki að vingsa á milli ljósmæðra og lækna á LSH eins og nýja kerfið bíður uppá, eins og til stóð með mig. En það kemur í ljós á næstu dögum.

Annars er yndislegt að vera komin heim. Farin að finna aðeins jólafílinginn og þarf að byrja að fara að framleiða. Verð í Jólaþorpinu fyrstu og þriðju helgina í desember og hvet alla til að koma og versla jólagjafir...

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Roma la cittá eterna

Komin heim!
Ég hef aldrei verið svona þreytt á ævi minni.

Það var ótrúlega gaman að koma til Rómar aftur eftir eins árs fjarveru. Borgin blómstrar sem aldrei fyrr og sólin skein og skein.. það ringdi pínulítið á laugardagseftirmiðdag. Ég keypti regnhlíf til að nota til að leiða hópinn minn og kom heim með hana óopnaða. Það komu kannski 2. skúrir sem ég missti algerlega af. Það er eins og vorið sé komið í Róm. Hitastigið var frá 23 gráðum niður í 18 og í fyrsta skiptið vildi ég helst að það myndi lækka aðeins. Ég vaknaði snemma á hverjum morgni til að leiða hópinn minn og var hann yndislegur. Ég var hins vegar alltaf komin heim á hótel um kvöldmatarleitið og hélt mig í rúminu að horfa á sjónvarpið og slaka á. Keypti mér enga skó því fætur mínar voru örugglega tveimur númerum stærri því ég labbaði og labbaði og labbaði og labbaði hehehe Litli drengurinn minn var alveg ánægður með þessa líkamsrækt.. en síðasta daginn svaf hann meira og minna þar til ég kom í flugvélina. Held að hann sé líka dauðþreyttur eftir þessi átök.
Ég vann lítið á sunnudaginn notaði daginn til að hitta Leo Guðföður Hinriks, hann bauð mér í Picknik í garði, þar sem ég sat með fullt af fólki og hélt uppá útskriftarveislu vinkonu hans. Það var mjög gaman að borða pasta og fleira undir berum himni í 22 stiga hita.
Ég náði að versla svolítið á alla strákana mína. Í fyrsta skiptið keypti ég lítið af fötum á mig en fann svolítið af óléttufötum 2 buxur og nokkrar peysur. Hinrik fékk mest!
Það var líka gaman að upplifa það að vera ólétt í Róm. Mikil virðing borin fyrir þunguðum konum og alltaf var staðið upp fyrir mér í Neðanjarðalestinni og meira að segja í búðum hlupu starfsmenn til og sóttu stól handa mér ef þeim fannst ég vera þreytuleg!

Vatíkanferðin á mánudaginn varð svolítið skrautleg þar sem Napolitano forseti Ítalíu ákvað að fara að hitta Páfann. Ég sá það í fréttunum um morguninn áður en við lögðum af stað og læddist strax að mér sá grunur að það myndi hafa áhrif á mig og hópinn minn.. og viti menn. Vatíkanmenn ákváðu að loka Péturskirkjunni og Péturstorginu svo forsetinn gæti skoðað dýrðina í rólegheitunum. Við tókum því lengri hring í Vatíkaninu og svo sendi ég fólkið mitt á eigin vegum í kirkjuna í gærmorgun áður en við lögðum af stað heim.

Flugferðin heim var ansi löng. 5 klukkutímar og hef ég aldrei verið svona lengi á leiðinni heim frá Róm. Og það var yndislegt að koma heim. Ferskt loft og kuldi í lofti sem ég hefði aldrei trúað að myndi virka jákvætt á mig!

Nú ætla ég að reyna að hvíla mig í allan dag og slaka á .. reyna að ná bólgum úr líkamanum og vinna upp fyrri styrk!

sunnudagur, nóvember 19, 2006

A hoteli i Rom

Eg sit a hotelinu i rom og tad er 20 stiga hiti. otrulegt til thess ad hugsa ad vid hopudum upp um 30 graadur thegar vid komum hingad a fostudaginn. ferdin genguur mjog vvel og alltaf gaman adkoma tii Romar. Eg er ad blogga i gegnum sjonvarpid a hotelinu oog lyklabordid eitthvad skritid thanniig ad thiid afsakid stafsetninguna. Er ekki buin ad hitta Ttom og Katie enn en hefur ekki faarid miilli mala ad thau erru heerr thar sem thyrlurnar svifu yfiir miidbaenum i allan gaerdag. Jjaeja nog af taeknii i biili.
ps. Lledurjakkinn err of heitur!

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

20 gráður

Það er gert ráð fyrir rúmlega 20 stiga hita í Róm á morgun. Smá skúrir gætu orðið á laugardagseftirmiðdag þegar Tom og Katie ætla að gifta sig. En svo ætti að birta til aftur og sólin ætti að láta sjá sig á sunnudag og mánudag.
Ég vona að ég sjái ekki Tom og Katie... ég vona að þau trufli ekki gönguferðina um Róm á laugardaginn en hótelið þeirra er við Spánartröppurnar og þangað er för minni heitið á laugardaginn og aftur á mánudaginn.
Ég veit ekki hvaða yfirhöfn ég á að taka með mér. Kannski er leðurjakkinn of heitur. Það verður skrítið að vera ólétt í Róm...
Heyri í ykkur á miðvikudaginn.

mánudagur, nóvember 13, 2006

MM, Góði Hirðirinn og Fimleikaafmæli

Miðstöðinn verður lokað 23. nóvember. Á miðvikudaginn fæ ég að vita hvert ég verð send:( Ég er svo yfir mig óhamingjusöm með þetta og vil helst ekki hugsa meira um þetta fyrr en á miðvikudaginn. Kolbrún Halldórs er samt enn að vinna í þessum málum og ætlar að reyna að fara að heimsækja MM og sjá hvað er í gangi þar.

Erum búin að gefa um það bil 15 kassa í Góða Hirðinn. Ekki hægt að segja annað en að við styrkjum góð málefni. Annað eins hefur farið í Sorpu og er það Minimalisminn sem ræður ríkjum á okkar heimili þessa dagana.

Fannst rosagaman að sjá snjóinn um helgina! Missti samt af afmæli þar sem við erum enn á heilsárdekkjum og ég treysti mér ekki til að keyra. Við Hinrik fórum svo í frábært afmæli í gær þar sem Krissi vinur hans og jafnaldri bauð til fimleikaafmælis sem haldið var í fimleikasal Gerplu í Kópavogi. Ótrúlega skemmtilegt og Hinrik í essinu sínu!

föstudagur, nóvember 10, 2006

Miðstöðvarmálið, Kolbrún Halldórs og Róm

Jæja þá er komin framvinda í Miðstöðvarmálið. Af þeim alþingiskonum sem ég hafði samband við svöruðu tvær. Ásta R. Jóhannesdóttir sendi mér ræðu sem hún flutti á Alþingi í vikunni og Kolbrún Halldórsdóttir sendi mér persónulegt bréf þar sem hún bað um meiri upplýsingar og ætlar að vinna í málinu. Ég er svoooo ánægð með hana og þið munuð fá að fylgjast með framvindu hér á blogginu mínu!

Annars er helgin framundan og vika þar til ég bregð mér af bæ.. ætla að skreppa í 5 daga til Rómar að vinna júhúúúúú.

Góða helgi krúttin mín.

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Alþingiskonur ofl

Tók M á orðinu (samanber comment hér fyrir neðan) og sendi eftirfarandi póst til þessara alþingiskvenna:
Kæru sómakonur,
Þórunn Sveinbjarnardóttir
Kolbrún Halldórsdóttir
Valgerður Sverrisdóttir
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Margrét Frímannsdóttir
Ásta R. Jóhannesdóttir
Ásta Möller
Guðrún Ögmundsdóttir
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Mig langar endilega til að senda ykkur afrit af bréfi sem ég sendi SivFriðleifsdóttur Heilbrigðisráðherra á dögunum og þætti vænt um að fáykkar álit á málinu!

Með vinsemd,
Hildur Hinriksdóttir

Sjáum svo til hver svarar... Siv hefur enn ekki svarað en skilst að hún sé erlendis núna eins og stendur.

Svo ég haldi áfram að svara commentum þá fór ég á Kaffi Aróma og tengdi mig en þá þurfti ég að setja inn gsm númerið mitt og næst þegar ég tengi mig þarf ég að borga 6krog40 aura á mínútuna......

Er annars hress og glöð og hlakka til að fá viðbrögð við þessum þönkum mínum og áhyggjum af Miðstöð Mæðraverndar.

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Súfistinn

Siv er ekki búin að svara.....

Fór á Súfistann áðan að hitta Gísla Pétur. Tók strætó og tók ferðin 6 mínútur! Fyrir 9 árum var ég fastagestur á Súfistanum og verð ég að segja að ég varð fyrir miklum vonbrigðum núna.... kaffihúsið er alveg eins og fyrir 9 árum. Ekkert hefur verið gert til að hressa uppá útlitið, sama málningin sem nú er farin að flagna af... og engin nettenginin. Held að það sé erfitt að finna kaffihús í Hafnarfirði með nettengingu!

mánudagur, nóvember 06, 2006

Siv Friðleifsdóttir opið bréf

Ég tók mig til og skrifaði Heilbrigðisráðherra okkar henni Siv Friðleifsdóttur eftirfarandi bréf:

Kæra Siv,
Ég skrifa þér í miklu uppnámi enda komin rúmlega 5. mánuði á leið. Málið snýst um Miðstöð Mæðraverndar sem nú á að leggja niður!? Ég er ein af þeim konum sem sækja þá miklu stofnun vegna fyrri sögu. Ég átti dreng fyrir 4 árum síðan, sú meðganga var mjög erfið og fæðingin var hræðileg, ég og sonur minn vorum hætt komin og hann eyddi fyrstu 2 vikum af lífi sínu á Vökudeild og ég var á gjörgæslu eftir fæðinguna. Nú er ég ófrísk aftur og sæki allan minn styrk til þeirrar frábæru þjónustu sem Miðstöðin bíður uppá. Ég er í áhættuhóp vegna fyrri meðgöngu hvað varðar kvíða fyrir fæðingu og hef verið mikið veik. Hjá Miðstöðinni hitti ég reglulega næringarráðgjafa og fæðingarlækni auk minnar yndislegu Ljósmóður sem veitir mér alla þá þjónustu sem hægt er að fá. Ég veit að þessa þjónustu fengi ég ekki á mæðraverndinni á heilsugæslunni og það sem mér finnst svo erfitt að skilja er að allt sem gott er gert fyrir okkur barnshafandi konur er lagt niður! Fæðingarheimilið var lagt niður og MFS sem opinberlega var sagt að væri OF vinsælt til að hægt væri að halda því áfram! Ég hef sterkan grun um að Reynir Tómas Geirsson beri ábyrgð á þessu og verð ég að segja að mín upplifun er sú að sú stóra og góða stétt sem Ljósmæður eru eigi enga rödd! Þær hafa reynsluna til að vita betur en þegar þær standa á móti Fæðingarlækni þá er ekki tekið mark á þeim. Ég upplifði þetta sjálf í minni fæðingu og get heilhugar sagt að ef hlustað hefði verið á mína Ljósmóður þá hefði ég ekki lent í bráðakeisara sem stefndi mínu lífi og barns míns í hættu.
Kæra Siv. Viltu lesa þetta bréf og skoða málið og útskýra fyrir mér af hverju framtíð Miðstöðvar Mæðraverndar er í hættu? Af hverju á að leggja niður 6 ára gamla deild sem löngu hefur sannað tilverurétt sinn?

með vinsemd og virðingu,
Hildur Hinriksdóttir

Mig langar að biðja ykkur sem lesið þetta blogg mitt að gera hið sama þó ekki væri nema um eina línu að ræða, heimasíðan er http://siv.is/alit/index.lasso þið gætuð spurt bara Af hverju á að loka Miðstöð Mæðraverndar og þið drengir ættuð líka að láta í ykkur heyra!

Takk elskurnar

Sandur..

Mánudagsmorgun og bráðum verður komin vika á nýja staðnum. Það er yndislegt að vera komin aftur í Hafnarfjörð, óveðrið fór algerlega framhjá okkur erum greinilega í skjóli fyrir þessari vindátt!

Ég á ógeðslega mikið drasl! Ég henti svo miklu þegar ég pakkaði í maí en er að henda enn fleiri hlutum núna. Búin að sitja við kassa og poka og kveðja hluti. Opnaði ferðatösku fulla af fötum í gær og skildi ekki af hverju ég var ekki búin að henda því sem í henni var. Hún var full af fötum frá Ítalíu... hvernig mér hefur einhverntíma dottið í hug að ég myndi einhverntíma fara aftur í stærð 38 er óskiljanlegt!! Og hvað þá í plast buxur og þunna þrönga netapeysu? Ég get ekki einu sinni gefið þessi föt í rauðakrossinn því að tískan 1999 samanstóð af ótrúlega hallærislegum fötum úr gerfiefnum...
Það er algerlega ný upplifun að vera í glænýju húsi. Og öll heimilistækin eru líka glæný... verstur er sandurinn sem berst inn því ekki er enn búið að malbika planið. Það stendur nú samt til bóta og þá hættir ryksugan að vera í overdrivei!
Í kvöld ætlar Ingó að setja upp hillurnar okkar og þá tekur stuttan tíma að tæma restina af kössunum.
Verst er að vera ekki nettengd, það tekur nokkrar vikur að fá símann tengdan og nú erum við að reyna að ákveða hvert við eigum að fara í áskrift. Þangað til fer ég á kaffihús til að skoða póstinn minn. Og blogga!

Gubbið mitt heldur áfram, verst er að gubba þegar ég vakna því þá kemur bara gall og kviðurnar eru miklar og öfgafullar... litli drengurinn er kraftmikill og hress og vakir mikið og sparkar og spriklar. Hress gutti hann Golli Junior.

föstudagur, nóvember 03, 2006

Miðstöð mæðraverndar

NFS, 27. Október 2006 12:30
Áhættumeðgönguvernd í óvissu
Ljósmæðrafélag Íslands og Félag hjúkrunarfræðinga hafa þungar áhyggjur af því að ekki sé ljóst hvernig áhættumeðgönguvernd verði háttað, nú þegar þrjár vikur eru í að Miðstöð mæðraverndar verði lögð niður í núverandi mynd. Konur sem þurfa á sérstakri meðferð og ráðgjöf að halda á meðgöngu út af meðgöngusykursýki eða meðgöngueitrun vita ekki hvert þær eiga að mæta í skoðun eftir þrjár vikur. Ljósmæðurnar sem hafa byggt upp sérþekkingu í störfum sínum síðustu 6 árin vita ekki hvar eða jafnvel hvort þær eiga að mæta í vinnuna eftir þrjár vikur. Þá verður Miðstöð mæðraverndar flutt af Barónsstígnum þar sem hún hefur verið síðan árið 2000 og í gær var tilkynnt að aðstaða sem byrjað var að byggja upp í Mjódd verður ekki notuð í þessum tilgangi. Í staðinn verður byggð upp ný deild á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Guðlaug Einarsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, segir þetta til marks um hringlandahátt í heilbrigðiskerfinu að nú eigi að fara að byggja upp þriðju deildina á rúmum fimm árum og ekki sé hægt að ákveða hvort aðstoð við mæður í áhættumeðgöngu verði innan heilsugæslu eða inni á sjúkrahúsum. Þjónustan var veitt inni á Landspítalanum áður en hún var færð til Heilsugæslunnar árið 2000 og nú sé hún aftur á leið inn á sjúkrahúsið. Guðlaug segir engan draga í efa hæfni eða fagmennsku ljósmæðra á LSH en óvissan sé slæm og nú þurfi að hafa hraðar hendur ef mæður á áhættumeðgöngu eigi ekki að standa uppi úrræðalausar um miðjan nóvember.

Ég er ein af þeim konum sem sækja Miðstöð Mæðraverndar á Barónsstígnum, framtíð mín er óviss ég á næsta tíma 15. nóvember og svo veit ég ekki hvert ég verð send. Það er ótrúlegt að allt got sem gert er fyrir konur eyðilagt.. samanber Fæðingarheimilið og mfs og nú Miðstöð Mæðraverndar. Ljósmóðirin mín er mikilvægur hlekkur í meðgöngukeðjunni minni þar sem ég átti mjög erfiða meðgöngu og fæðingu síðast þá er hún og það öryggisnet sem hún hefur á bakvið sig á Mæðraverndinni svo mikilvægt fyrir mig og mína andlegu og líkamlegu heilsu.. ég er alveg bit yfir þessu og er að hugsa hvað ég get gert til að láta rödd mína heyrast. Er að spá í að skrifa Sif persónulega.

Aðrar frétti: Búin að missa 8 kíló og gubba á hverjum degi.

Flutt!!

Að lokum... bumbubúinn er með typpaling!