sunnudagur, febrúar 11, 2007

Ótitluð skáldsaga fyrstu 3. kaflar.

Hér eru aftur fyrstu þrír kaflarnir af skáldsögunni minni.

1. kafli

Ég var búin að búa hérna í 2. ár.
Það var svolítið skrítið til þess að hugsa að á þessum tveimur árum var ég aldrei búin að fara heim. Mig langaði oft heim en ekki það mikið að ég hringdi í bankann til að fá hækkaðan yfirdráttinn. Það var svo rosalega dýrt að fljúga til Íslands frá Ítalíu, ekkert beint flug.
Vor í lofti, samt bara byrjun mars. Sumarið yrði komið eftir tvo mánuði með öllum sínum hita.
Á leiðinni í skólann leit ég upp, hafði lært það þegar ég var skiptinemi 10 árum áður, merkilegt hvað maður sá umhverfið í öðru ljósi bara með því að líta upp. Skoða fallegu byggingarnar, sótið, listaverkin utan á húsunum, þvottinn og blómapottana. Ég var á leið í skólann, þar voru vinir mínir. Giada 21. árs unglingur með mikla hæfileika, Chiara fordekruð dýralæknisdóttir, Saleti 30. brasilísk læknisfrú að leika sér með peninga mannsins síns. Og Andrea yndislegur samkynhneigður þræll tískunnar.
Stundum fílaði ég mig eins og miðaldra konu í skólanum en það var nú sennilega bara reynslan sem íslenskur raunveruleiki bauð uppá. Ítalir hafa ekki sumarvinnu, ég byrjaði að vinna 10. ára. Á ítalíu er það barnaþrælkun. Ítalir fluttu líka aldrei að heiman. Ekki fyrr en mamma og pabbi voru búnir að kaupa handa þeim íbúð og þeir að gifta sig. Oft fluttu þeir ekki saman fyrr en daginn eftir brúðkaupið.. klikkun fannst mér.
Síminn minn hringdi, nafnið Alberto blikkaði á skjánum, ég fann smá skelfingarhroll hríslast um mig, var enn í viðjum geðveikinnar fann ég. Berti skerti... ætti ég að svara, vissi svo sem hvað hann vildi. Vildi fá mig aftur. Tveimur árum áður hafði ég kynnst Berta skerta á netinu. Sennilega var það ástsýkin í mér sem fékk mig til að lita við honum tvisvar. Hann kom til Íslands og ég ákvað að gefa honum séns... hefði betur ekki gert það því eftir eitt ár í sambandi við hann var ég orðin gjörsamlega búin andlega.
Hann var einkasonur, fordekraður geðsjúklingur, í dag var hann með hálfrakaðann haus og hálft skegg. Alveg satt, vinstra megin var hár og hægra megin var skalli. Hægra megin var skegg og vinstra megin ekkert. Eins og teiknimyndafígúra. Lýsti honum náttúrulega vel.
Þegar ég hætti með honum byrjaði ég með öðrum sem var í hæfilegri fjarlægð. Var ekki ástfangin af honum en fann að það var eina leiðin til að slíta mig úr geðveikinni. Ég leigði af foreldrum Berta og hann vildi að ég færi. Ég vildi það og við undirbúninginn kom tilboð frá Berta, ég mætti halda áfram að leigja þessa íbúð, ef að ég myndi bara totta hann einu sinni í viku, á laugardögum!
Mætti alveg eiga kærastann áfram ef að ég bara tottaði hann.
Og núna var hann að hringja í mig til að rukka mig fyrir gjafirnar sem hann var búin að gefa mér síðusta árið. Hálsmen, eyrnalokkar, gerfipels, úr og farsíma og svo eitthvað fleira smálegt. 50.000.- íslenskar.
Ég var að spá í að borga honum, það væri sennilega best til að losna við hann,“Halló...”
“Hvar eru peningarnir mínir” rödd hans hljómaði eins og í leigumorðingja,
“Ég er með þá, komdu klukkan 19. í kvöld” sagði ég og fann hvernig röddin mín titraði. Ég skellti svo á. Ok, 4 tímar í skólanum, svo heim og undibúa mig fyrir geðsjúklinginn, afhenda peningana og fá hann út úr lífi mínu fyrir fullt og allt.

Salete tók á móti mér þegar ég kom í skólann. Hún var hálfföl, það var ekki fitututla utan á henni en samt var hún með fitukomplexa.
“Er allt í lagi með þig” spurði ég og horfði á hana spurnaraugum. “Jújú, svaraði hún, ég er bara þreytt eftir nóttina, var á klósettinu í alla nótt. “Nú spurði ég, ertu lasin?” “Nei þetta eru nýju megrunarpillurnar, þær skilja fituna frá matnum og nú rennur bara fita úr rassinum á mér..!” “Ha?” “Ég er með dömubindi, þarf að skipta á klukkutíma fresti.. þetta er svakaleg vont, hefði ekki átt að taka svona margar!”
Maðurinn hennar Salete, Mario, var tannlæknir, hann gat skrifað út reseft og hafði strax skrifað út fyrir þessum nýju pillum frá Ameríku, Salete hélt áfram “Ég fór á næturklúbb í gær, og þegar ég var að dansa tók fann ég að eitthvað rann niður löppina á mér, ég var ekki í nærbuxum, kjóllinn var svo þröngur, ég hljóp á klósettið og sá þá að þetta var fita og hún var komin í kjólinn minn, rauðleit eins og ég væri með túrblett á rassinum. Ég fór heim” Þetta kom mér ekkert á óvart, Salete var ótrúleg, og hennar vinkonur. Fyrstu og einu brjóstin sem ég hafði komið við voru bjóst Önu vinkonu hennar, 5 dögum eftir aðgerð. Voða þrýstin og fín en kannski ekki alveg eitthvað sem manni langar til að snerta sem gagnkynhneigð ung kona!
Kannski var það af því að hún var frá Brasilíu en fyrir henni var ekkert mál að fara í lýtaaðgerðir og útlitið skipti öllu máli. Salete var smá skökk til augnanna, það var af því að hún hafði farið í aðgerð til að láta lyfta augunum þegar hún var 22. ára. Hún fór til flottasta lýtalæknis í Sao Paolo en þar sem hún var ekki “celebrity” lét hann nema framkvæma aðgerðina. Það mistókst smá. Sást ekkert voðamikið en samt svolítið. Núna var Mario að vinna að skiptivinnudíl við vin sinn lýtalækni, sem samanstóð af því að hann myndi gera við tennurnar í fjölskyldunni meðan lýtalæknirinn lappaði uppá Salete. Nota Bene, Salete var bara 28. ára.

Þegar skóladagurinn var búin flýtti ég mér heim til að taka á móti Berta skerta, ég var með 30.000 íslenskar í vasanum og ætlaði að láta hann fá þá og vonandi yrði málið dautt. Það var nóg fyrir símanum og smá auka, ég ætlaði ekki að borga fyrir afmælis og jólagjöf! Ég fór í snögga sturtu, varð að flýta mér og nota bara sjampó því vatnið dugaði ekki til að nota hárnæringu líka. Ég fékk mér einn bjór og fór að teikna fyrir skólann.
Þegar bjallann hringdi hrökk ég við og skemmdi teikninguna.
Hvar var Mauri, meðleigjandinn minn? Hann hafði lofað að vera komin heim. Ég gekk að dyrasímanum og svaraði. “Hæ þetta er Alberto..” “Ok ég kem niður” svaraði ég og hlustaði ekki á mótmælin. Ég skellti mér í lyftuna og dró djúpt andann. Fyrir framan blokkina mína stóð Berti, klæddur í hræðilega Hawai skyrtu sem mamma hans hafði örugglega keypt á hann á markaðnum, hann var fáránlegri en nokkurntíma fyrr en hvernig var annað hægt. Mamma hans tók til fötin hans á kvöldin, það sem hann átti að klæða sig í daginn eftir! Mitt hlutverk átti að vera það, og að skræla ofan í hann ávextina við matarborðið!
Ég horfði beint í augun á honum og sagði:“Hér eru peningarnir og farðu úr mínu lífi að eilífu...” “Hanna, þú veist að við getum haft þetta öðruvísi..!” “Hvað meinarðu?” Svaraði ég og fann hvað ég var virkilega búin að fá nóg. Ég sá fyrir mér mömmu hans grátandi að biðja mig um að halda áfram með honum, sá fyrir mér öll þau skipti sem hann hafði reynt að múta mér til að halda áfram að vera með honum, ég meina hann rukkaði mig leigu 3000 kall á mánuði fyrir að nota tölvuna hans sem hann var hættur að nota og hefði annars hent!
“Þú þarft ekki að hitta mig nema einu sinni í viku og sofa hjá mér þá þarftu ekki að borga peningana og við getum verið vinir!” “Sofa hjá þér, Alberto! Ég þoli þig ekki, þú ert fáránlegur og hér hefurðu peningana og farðu...” Ég fann hvernig ég titraði þegar ég henti seðlunum í hann, og fann hvernig bjórinn fór að virka. Peningarnir féllu ljúflega til jarðar, verst kannski að það var alveg logn, annars hefði ég notið þess að horfa á hann reyna að safna þeim saman. Ég snéri mér snögglega við og strunsaði að hurðinni, ég fann hvernig hjartað í mér barðist og svitinn spratt fram. Ég var svolítið hrædd um að hann myndi elta mig og jafnvel lemja mig.. ég náði með erfiðleikum að stinga lyklinum í skránna og loka á eftir mér. Ég andaði ekki fyrr en ég kom í lyftuna. Fann að tárin voru að spretta fram en náði að halda í mér uppá fimmtu hæð. Þegar ég kom inn brotnaði ég niður, og dyrabjallan byrjaði að hringja. Og hringja og hringja. Það var hann, brjálaður, ég fór útá svalir og sá hann speglast í glugganum á neðstu hæðinni á byggingunni á móti. Ég heyrði líka í honum öskra að þetta væru ekki allir peningarnir. Eftir 30. mínútur hætti hann og fór.
Og 10. mínútum seinna kom Mauri glaður heim. Hann kom beint inn í herbergi til mín og ég horfði á hann uppgötva hverju hann hafði gleymt! “Fyrirgefðu Hanna mín, ég var alveg búin að gleyma Skerta.” Hann tók utanum mig og bauð mér út að borða. Það var gott því ég átti engan pening! Hann fór með mig á pizzastað þar sem allar pizzur fyrir kvenfólkið voru hjartalaga! Mauri var yndislegur vinur. Hann var 3. árum yngri en ég. Nýbyrjaður með Rosu sem var 1.46 á hæð, sem passaði vel við Mauri því hann var bara 1.53! Ég var risavaxin miðað við hann en samt bara 1.67. Ég klappaði honum stundum á hausinn svona til að stríða honum.

Klukkan var orðin 12. þegar við komum heim. Ég bauð góða nótt og fór til að athuga hvort ég hefði fengið einhvern email. Ég komst ekki í pósthólfið mitt, sem var skrítið, skilaboð birtust á skjánum sem sögðu að ég væri ekki með rétt lykilorð!? ostur, lykilorðið mitt var ostur, allsstaðar, pósturinn minn, spjallforritið, alltaf ostur. Ég svitnaði, Berti vissi lykilorðið mitt, af hverju var ég ekki búin að breyta því! Asni hugsaði ég og þá heyrðist pípið sem sagði mér að ég væri að fá skilaboð í gemsann. Ég skoðaði skilaboðin: “ÉG HEF TEKIÐ EMAILINN ÞINN Í GÍSLINGU, BORGAÐU 20.000 INNÁ REIKNINGINN MINN, OG ostur VERÐUR AFTUR LYKILORÐIÐ ÞITT!”

Svar: “FARÐU Í RASSGAT OG TAKTU EMAILINN MINN MEÐ ÞÉR”

Kafli 2.

Mars leið áfram í rólegheitum og alltaf hitnaði í veðri.
Kirsuberjatrén voru farin að blómsta og fallegi bleiki liturinn skreytti garða borgarinnar. Torino hafði aldrei verið nein draumaborg í mínum huga en eftir tveggja ára dvöl vann hún á. Torino var fyrsta höfuðborg Ítalíu og var sú skipulagðasta sem ég hafði komið í. Hún var kassalaga og auðvelt að rata í henni. Hún var falleg og blómleg á sumrin en afskaplega svört á veturnar, enda talið að ein af sjö hurðum helvítis væri undir borginni. Torino er í Piemonte héraði, málískan sem töluð er þar var blönduð frönsku enda stutt yfir til Frakklands. Vinir mínir voru flestir “innflytjendur” frá öðrum borgum Ítalíu. Flestir fyrrverandi eyjarskeggjar, eða önnur kynslóð eyjarskeggja frá Sikiley eða Sardiníu. Mauri var frá Sardiníu, sem útskýrði hæðina á honum, sardiníubúar voru flestir stuttir í annan endann. Berti Skerti var innfæddur piemontese, “falso cortese” eða falsk kurteis. Máltæki sem ég var farin að trúa. Amma hans bjó á heimilinu, komin yfir nírætt og ótrúlega tvöföld. Hún gekk um götur bæjarins og úthúðaði dóttur sinni, móður Berta, og allri fjölskyldunni. Hún gekk um betlandi því dóttir hennar tók af henni allan ellilífeyrinn, gaf henni aldrei að borða og beitti hana líkamlegu ofbeldi! Ég heyrði einu sinni til hennar á markaðnum og ég trúði ekki eigin eyrum. Auðvitað var allt þetta lygi. Föðurbróðir Berta bjó líka hjá fjölskyldunni, hann var tannlaus alkóhólisti! Alveg satt, hann fékk skammtað einni fernu af rauðvíni á dag og réð hvenær hann drakk það. Náði að dreyfa þessum lítra yfir daginn. Hann betlaði líka og ræddi um ofbeldið sem hann varð fyrir heima á götum bæjarins, þar til honum var bannað að fara út. Enda átti hann erfitt með gang eftir óteljandi beinbrot sem hann hafði hlotið á fylleríum sínum. SÁÁ þekktist ekki í Piemonte og alkóhólisti eins og föðurbróðir Berta var bara kross sem fjölskyldan þurfti að bera.
Þessar minningar flugu um huga minn því nú var þessum kafla lífs míns lokið, vonandi allavegana. Berti hafði alveg látið mig vera eftir email gíslinguna en ég beið samt. Vissi að auðvitað myndi hann hafa aftur samband, væri sennilega að hugsa hvernig hann gæti náð sér niður á mér.
Skólinn gekk vel, en eftir tvö ár í Torínó var Róm farin að kalla í mig. Skólinn var með útibú í Róm og þangað hafði ég hugsað mér að fara og klára þriðja og síðasta árið. Ég myndi flytja í júlí þegar skólaárið var búið.
Nýji kærastinn Demetrio var farin að standa svolítið í mér. Hafði þjónað ágætlega sínum tilgangi meðan ég var að koma mér út úr Berta ruglinu. En ég var bara alls ekki nógu hrifin af honum. Hann var típískur choco gæi, grannur með sítt hár og grannar mjaðmir. Hann var tveimur árum yngri en ég en tíu árum óþroskaðri! Hann bjó hjá mömmu og pabba, hvað annað, í Róm. 700 km fjarlægð hentaði vel því þá þurfti ég ekkert að hitta hann of mikið. Hann átti það samt til að birtast hjá mér eldsnemma á morgnanna. Dingla á bjöllunni klukkan sjö ferskur úr næturlestinni. Detta dauðþreyttur niður þegar hann kom inn og sofa meðan ég var í skólanum, hitta mig svo í nokkra klukkutíma og taka svo næturlestina heim. Nennti þessu ekki alveg lengur!
Síðast þegar ég hafði farið til Rómar hafði ég hitt fjölskylduna hans. Mamma hans var hnellinn rauðhærð kella frá Sikiley. Hann og bróðir hans deildu herbergi sem var í raun og veru stofan í íbúðinni sem foreldrar hans höfðu fengið í brúðargjöf. Amman bjó í sjónvarpsherberginu og stóra systir hans gift og flutt að heiman til að þurfa ekki að deila herbergi með bræðrum sínum eða ömmunni. Demertrio hafði boðist gott starf í súpermarkaði í Milanó. Hann íhugaði lengi að taka því starfi en hætti svo við. Þar sem mamma hans var ekki til í að flytja með honum! Ég meina hver átti eiginlega að hugsa um greyið drenginn þegar hann kæmi heim úr vinnunni. Elda ofan í hann og þvo af honum! Þegar mamma hans sagði mér þessa sögu vissi ég ekki hvort ég ætti að hlægja eða gráta. Og nú var ég búin að ákveða það. Spennan var búin og nú fór hann bara í taugarnar á mér. Ég myndi hringja í hann í kvöld og segja honum upp.
Pressan var orðin mikil í skólanum. Við vorum bara 6. í bekknum og ég hafði komist inn sem ítali, talaði ítölskuna það vel að ég hafði flogið í gegnum stöðuprófið. Munaði heilmiklu í skólagjöldum en var erfiðara vegna krafanna sem voru gerðar í hinum ýmsu bóklegu fögum. Ég var að læra fatahönnun, hafði komið inn í skólann án þess að kunna að teikna. Var orðin helvíti fær eftir tvö ár. En bóklegu fögin voru sum svo leiðinleg. Torino er iðnaðarborg og því áhersla lögð á verksmiðjuframleiðslu í skólanum. Ekki mín sterkasta hlið að læra um framleiðslu efna á tæknimáli. Auðvitað mjög skemmtilegt en hönnun bílaáklæða var ekki á mínu áhugasviði. Torino er heimaborg Fiat og því mikil áhersla lögð á þá iðn. Mauri var einmitt bílahönnuður hjá Fiat. Hafði útskrifast úr skólanum mínum ári áður. Var strax komin í góða stöðu og farinn að hala inn pening. Skólinn í Róm var eitthvað sem mér fannst meira spennandi en minn. Þar var áherslan lögð á hátísku, og hátíska var svo mikil listrgrein engin fjöldaframleiðsla þar!

Þegar ég kom heim ákvað ég að elda mér eitthvað og hringja svo í Demetrio. Pasta með ragú varð fyrir valinu þar sem auðvelt var að sjóða pasta og opna ragú dósina. Eftir matinn settist ég niður með símann.
“Demetrio...”
“Halló ástin mín ein... ég er að koma til þín á morgun..”
“Ekki koma...” svaraði ég...
“Hvað viltu ekki hitta mig?”
“ Það er ekki það,”
“Nú hvað?” Tónninn í röddinni hans var búin að breytast...
“Ég held að þetta sé búið hjá okkur Demetrio! Búið að vera fínt hjá okkur en núna held ég að það sé bara best að við hættum þessu..”
“Ég vil ekkert hætta þessu, láttu ekki svona við ræðum þetta á morgun.” Mér leið eins og óþekkum krakka sem vildi ekki fara að sofa!
“Nei, Demi þetta er búið ég er ekki skotin í þér lengur”
“Hættu þessu Hanna mín, þú ert bara stressuð út af skólanum, við ræðum þetta á morgun ég er að fara í lestina klukkan 12.”
“Vertu ekki að eyða peningum í lestarferðina, ég vil ekki vera kærastan þín lengur og...” hann greip framm í fyrir mér;
“Hanna mín þú ert svo stressuð útaf prófunum, þú ert ekki með sjálfri þér ég er að koma.”
“Ekki koma....”
“Hættu þessu stressi Hanna þú elskar mig”
“Ekki koma!”
“Bless hjartað mitt sjáumst í fyrramálið”
“Ég verð ekki heima...”
Du du du du

Shitt, þetta ætlaði ekki að verða auðvelt! Hafði aldrei lent í þessu áður, maðurinn neitaði að hætta með mér! Ég þurfti ekki að fara í skólann á morgun, en ég vildi alls ekki vera eitthvað að taka á móti honum klukkan sjö í fyrramálið! Díses, prófin voru ekki fyrr en eftir tvo mánuði og hann talandi um stress.
Bjallan hringdi og ég hrökk við. Ekki alveg með taugarnar í lagi eftir þetta símtal. Flaug í hug að Demetrio væri komin, en hló með sjálfri mér því auðvitað var ekki möguleiki að hann gæti verið komin 700 kílómetra leið!
“Halló...?!”
“Hanna..” ég fraus, röddinn í Berta skar inní heilann á mér.
“Hún er ekki heima..”
“Ég veit þetta ert þú, ég sakna þín svo mikið, ég kom með peningana til að láta þig fá þá aftur, Hanna ég elska þig og veit þú elskar mig, sofðu hjá mér og allt verður gott aftur. Hanna...Hanna...?”
Ég skellti dyrasímanum niður og pakkaði mér inn í lakið mitt. Hvað í andskotanum var að þessum helvítis ítölum? Ég hafði bara átt tvo kærasta og þeir neituðu báðir að hætta með mér!

Í þetta skiptið var Berti niðri á bjöllunni í 50. mínútur, Mauri var í viðskiptaferð og ég ein heima. Sem betur fer hleypti enginn honum inn í bygginguna. Ég sofnaði óróleg. HVAÐ Í ÓSKÖPUNUM MYNDI GERAST Á MORGUN?


3. kafli.

Klukkan 5.30 hringdi dyrabjallan... ég rumskaði, hafði ekki sofnað fyrr en klukkan 4. og var alls ekki til í að fara að taka á móti Demetrio. Bjallan hringdi og hringdi. Ég skreiddist að dyrasímanum og hleypti honum inn, hafði ekki einu sinni fyrir því að segja eitthvað í dyrasímann. Maðurinn náttúrulega búin að eyða nóttinni í lestinni, ég varð að hleypa honum inn. Opnaði svo hurðina, skreiddist aftur inn í herbergi og klæddi mig í náttfötin vildi ekki senda Demetrio einhver skilaboð með því að vera nakinn í rúminu,. Ég heyrði hurðina lokast. Ég ákvað að loka augunum og vonaði að hann myndi bara leggjast við hliðina á mér og sofna. Hafði eytt megninu af andvökunóttinni í að hugsa um hvernig ég ætti að koma mér út úr þessu. En hafði ekki enn fundið neina lausn. Ég var búin að segja honum að ég vildi hann ekki, að ég vildi hætta með honum en var ekki alveg viss hvernig ég myndi bregðast við ef hann færi eitthvað að reyna að sofa hjá mér. Það var auðvitað voðagott að sofa hjá honum og það hafði ekkert að gera með tilfinningarnar mínar gagnvart honum. Gat svosem lokað augunum og látið sem hann væri einhver annar.. var náttúrulega í æfingu með það síðan ég var með Alberto...
“Hanna ég vissi að þú myndir sjá að þér, ég er komin og ætla aldrei að fara frá þér aftur.”
Rödd Alberto skarst inn í vitund mína...
“Alberto....? Hvað í andskotanum ertu að gera hér?” Hann lá nakinn við hliðina á mér... búin að raka af sér skeggið og allt hárið og reyndar öll önnur líkamshár.
“Drullaðu þér út, núna, ég vil þig ekki, ALDREI!” Ég fann hvernig tryllingurinn magnaðist upp í mér. Ég var ekki alveg að höndla situasjónina.
“Já en þú hleyptir mér inn, þú elskar mig enn.. þú veist það!”
Ég vissi ekki hvað ég átti að gera, Mauri ekki heima, og Alberto nakinn í rúminu mínu. Ég skutlaðist upp úr rúminu og hljóp fram. Berti þorði ekki á eftir mér, hélt auðvitað að Mauri væri heima og vildi ekki láta koma að sér nöktum frammi. Reyndar skrítið að hann skildi yfirleitt afklæða sig, hafði held ég aldrei séð hann nakinn, hann var alltaf í sokkunum þegar við sváfum saman!
Bjallan hringdi aftur. Fokk!!! í öllu panikkinu var ég búin að gleyma Demetrio! Skelfingin hríslaðist um mig og áður en ég vissi af var ég búin að hleypa honum inn og loka mig inná klósetti. Ég lá á hurðinni, vantaði bara glas til að leggja á hurðina til að heyra betur! Heyrði hurðina opnast og einhvern koma inn. Sekúndurnar liðu hægt. Ég var að tapa mér þegar ég heyrði öskur og stympingar.
“Hver ert þú? Hvar er Hanna?”
Ég opnaði hurðina hægt og sá Alberto standa vafin í lakið skelfingu lostinn. Rósablöð voru á víð og dreif í kringum hann. Demetrio hafði greinilega lamið hann með blómvendi sem var greinilega ætlaður mér.
Ég sá bara í bakið á honum. Nú yrðu einhver læti, því Demetrio var ekki skapprúður maður.
“Hver ert þú?” Heyrði ég hann segja, ég passaði mig að hafa nógu litla rifu á hurðinni þannig að ég sæi þá en þeir ekki mig.
“Ég er Alberto...”
“Ert þú Berti Skerti?” Demetrio hló! “Þú ert ljótari en ég hélt”
Ég vissi ekki hvað ég átti að halda!? Það að Demetrio skildi hlæja sýndi að hann hafði greinilega það mikið sjálfsálit að hann trúði ekki að ég hefði verið að halda framhjá honum... en að Berti skildi vera nakinn í rúminu mínu bauð ekki uppá aðra möguleika en að hann hefði sofið hér í nótt.
Berti titraði... “Hver ert þú?
“Ég er kærastinn... Hver ert þú?
“Ég er kærastinn!” Svaraði Berti.. Ég er búin að vera með Hönnu í marga mánuði, ég elska hana, hún vill mig..”
“Svafstu hérna í nótt?”
“Nei ég var að koma en Hanna elskar mig ég veit það”
Ég stóð enn bakvið klósetthurðina, var að spá hvort ég ætti nokkuð að blanda mér í þetta. Mikið væri nú gott ef að þeir ákvæðu að fara saman á kaffihús til að ræða um mig, og þá myndi ég kannski geta haldið áfram að sofa og losnað við þá báða! Það var óskhyggja, auðvitað.
“Og hvar er hún?” Spurði Demetrio, og eitthvað virtist vera að þykkna upp í honum.
“Hún var hérna rétt áðan. Hlýtur að vera að koma. Ég verð að fá að klæða mig!”
“Af hverju ertu nakin?”
Berti byrjaði að klæða sig eins og hálfviti, inní lakinu.
Demetrio reif af honum lakið og skellihló.
“Hanna!!” Berti öskraði yfir sig og ég vissi að ég gæti ekki lengur falið mig inni á klósetti.
Svo gerðist það, Demetrio ýtti Berta út úr herberginu, hann var bara komin í bolinn sinn. Ég horfði á eftir þeim fram á gang og hætti mér þá út af klósettinu, Demetrio opnaði hurðina og henti Berta út. Hann var enn bara á bolnum, stuttum hlýrabol með götum, eineygði vinurinn gapti við okkur, aleinn og umkomulaus á rökuðum pungnum.
“Hanna....?!?” Berti horfði á mig brostnum augum. Og Demetrio skellti á nefið á honum, eða frekar tillann!
Ég hló, og hló og hló... fékk móðursýkiskast og hló enn meira. Demetrio hló ekki.
“Hanna hvað er í gangi?”
“Demetrio, hvað ert þú að gera hér? Ég var búin að biðja þig um að koma ekki”
“Hanna mín, ég elska þig þú veist það og þú elskar mig og þú hefur ekkert með það að vilja hætta með mér núna. Sérðu ekki hvernig ég lít út!? Þú getur ekki verið annað en ástfangin af mér þú veist það. Viltu svona rakaðan hamstur eins og Berta?? Nei, þú elskar mig og þannig er það. Komdu uppí rúm og við skulum tala saman!”
Talandi um veruleikafyrringu, ég vissi ekki hvað ég átti að segja eða gera. Bjallan byrjaði að hringja, og hringja. Berti byrjaði svo að kalla:
“Nærbuxurnar Hanna, gerðu það láttu mig allavega fá nærbuxurnar!” Ég rankaði við mér og fór inní herbergi safnaði saman fötunum og henti þeim fram af svölunum.
“Fötin þín eru á götunni Berti, taktu þau og farðu og KOMDU ALDREI AFTUR!”
Ég heyrði Berta fara inn í lyftuna og langaði ekki einu sinni til að horfa fram af svölunum til að sjá hann hálf nakinn reyna að safna saman fötunum.
Ég settist á rúmið mitt og Demetrio settist við hliðina á mér. Ég virti hann fyrir mér, hann var eins og grískur Guð.. eða betra Rómverskur Guð. Vöðvastæltur með sítt hár. Ég sá bara ekki fegurðina, heldur bara barnalegan ungan dreng sem ég vildi ekki lengur vera með.
“Demetrio, ég vil ekki lengur vera með þér, við erum búin að eiga góðar stundir en ég vil ekki lengur vera kærastan þín.” Mig langaði mest að segja klisjuna; Þetta er ég ekki þú, en fann það ekki í mér.
“Má ég sofna og fara með lestinni seinni partinn?”
“Allt í lagi! Farðu að sofa”
Ég lokaði hurðinni á eftir mér og fór inn í eldhús til að hella mér uppá kaffi. Settist við eldhúsborðið og byrjaði að hugsa. Hvernig í ósköpunum hafði mér tekist að koma mér í þessa aðstöðu! Hugurinn bar mig aftur um tvö ár. Vorkvöld í Reykjavík við bláan tölvuskjá.......

1 ummæli:

imyndum sagði...

;) takk fyrir mig, þú hefur allavega unnið þér inn einn kaupanda af skáldsögunni nafnlausu. Hlakka til að lesa meira, flott hjá þér!